Ajax – Total Football

Evrópu – Upphitun

Liverpool liðið sem við erum að horfa á í dag er það besta sem við höfum nokkurntíma séð og fótboltinn sem Jurgen Klopp stendur fyrir og hefur þróað hjá Liverpool er eðli málsins samkvæmt sá besti sem við höfum nokkurntíma orðið vitni að sem stuðningsmenn Liverpool. Það er ekkert sjálfgefið að eiga sigursælt og gott lið sem stendur einnig fyrir frábæran fótbolta.

Hægt er að færa rök fyrir því að megnið af þeirri hugmyndafræði sem unnið er eftir á Anfield eigi rætur að rekja til fyrstu andstæðinga okkar í Evrópu þetta tímabilið, Ajax frá Amsterdam.

Það er frekar erfitt að ná utan um stærð eða mikilvægi Ajax í heimsfótboltanum í dag og hvar eigi að skilgreina þá. Umræðan fyrir einvígi Ajax og Tottenham í undanúrslitum keppninnar á síðasta ári var mjög áhugaverð sem dæmi, Tottenham sem aldrei hafði komast nálægt því þetta langt var risaklúbburinn á meðan fjórfaldir Evrópumeistarar Ajax voru einhverskonar hipster lið keppninnar. Landslagið í fótboltanum er því miður svona í dag og erfitt fyrir Ajax að keppa á jafnréttisgrundvelli við stóru deildirnar en ef það verður einhverntíma gerð ofurdeildarkeppni innan Evrópu er ljóst að Ajax er eitt útvöldu liðunum, öfugt við t.d. Tottenham.

Til að skoða betur afhverju er vert að skoða hvað það var sem breytti öflugu félagsliði frá höfuðborg Hollands í vörumerki sem enn í dag er grunnurinn að knattspyrnu nútímans.

Total Football

Besti knattspyrnustjóri síðustu aldar að mati FIFA þegar kosið var árið 1999 var enganvegin sigursælasti þjálfari sögunnar heldur sá sem hafði haft mest áhrif á íþróttina. Þegar France Football (knattspyrnutímaritið á bak við Balon d´Or) endurtók þetta val tuttugu árum seinna var niðurstaðan sú sama, Rinus Michels.

Gegenpressing fótboltinn sem Jurgen Klopp stendur fyrir og Tiki-Taka fótbolti Barcelona eiga báðir rætur sínar í hugmyndafræði Michels sem fékk nafnið totaal voetbal eða Total Football eftir framgöngu Ajax, Barcelona og Hollenska landsliðsins í upphafi áttunda áratugarins.

Hugmyndafræði Michels gekk í mjög einföldu máli út á að gera völlinn eins stóran og mögulegt er þegar liðið er með boltann en að sama skapi gera hann eins lítinn og mögulegt er um leið og liðið missir boltann. Leikmenn þurftu að vera meðvitaðir um ákveðin svæði í mismunandi aðstæðum frekar en endilega einhverja fastmótaða stöðu á vellinum. Hann kom með mótvægi við ítalska 5-3-2 varnarleiknum sem var ríkjandi í Evrópu á þessum tíma með leikstíl þar sem hver leikmaður fyrir utan markmanninn átti að geta hlaupið í mismunandi hlutverk á vellinum. Liðið héldi alltaf skipulagi þó einhver færi úr stöðu. Hann lagði mjög mikla áherslu á að liðið sjálft væri stjarnan ekki einstaklingar innan liðsins og leikmenn Michels þurftu að vera bæði fjölhæfir og mjög vinnusamir. Hann var alveg með á því að gott lið samanstæði af átta mönnum sem bera píanóið og þremur sem geta spilað á það en krafðist þess einnig að þessir þrír sem gætu spilað væru tilbúnir að leggja á sig sambærilega vinnu og hinir.

Rinus Michels spilaði sjálfur með Ajax allan sinn feril og skoraði m.a. fimm mörk í sínum fyrsta leik árið 1946. Þar spilaði hann m.a. undir stjórn annarrar goðsagnar hjá Ajax, Englendingsins Jack Reynolds sem stjórnaði Ajax meira og minna frá 1915 til 1947 og stóð fyrir fótbolta sem segja má að hafi verið vísir að því sem Michels seinna fullkomnaði. Hið frábæra sóknarsinnaða ungverska landslið með Ferenc Puskás í broddi fylkingar á sjötta áratugnum spilaði einnig fótbolta sem svipaði til þess sem seinna fékk nafnið Total Football.

Rinus Michels fann því ekkert upp hjólið þegar hann kom fram á sjónarsviðið sem þjálfari upp úr 1960. Íþróttin hafði þá verið við líði í tæplega eina öld og verið í þróun allan þann tíma. Hann hinsvegar þróaði það sem hann hafði lært og fullkomnaði með þeim hætti að áhrifa hans gætir ennþá í dag.

Hjá Ajax small þetta allt saman og stærsta ástæðan fyrir því er líklega 18 ára unglingurinn sem var að koma upp úr akademíu félagsins þegar Michels tók við Ajax árið 1965. Það er hægt að velta því fyrir sér hvort Michels hefði verið eins sigursæll hjá Ajax og haft eins mikil áhrif á íþróttina í heild hefði hann ekki fengið Johan Cruyff í arf þegar hann tók við liðinu? Eins er hægt að velta því fyrir sér hvort Cruyff hefði orðið sá leikmaður sem hann varð án Michels. Báðir myndu líklega svara þessu neitandi.

“Both as a player and as a trainer there is nobody who taught me as much as him. I will miss Rinus Michels. … I always greatly admired his leadership.” – Johan Cruyff

Heimurinn var ekki alveg eins einfaldur þegar Rinus Michels var 18 ára, hann kom til Ajax beint úr hernum árið 1946 og mótaði herþjónustan líklega Michels töluvert sem þjálfara. Hann spilaði sem frammherji og skoraði mark í öðrumhverjum leik að meðaltali þar til hann þurfti að hætta aðeins 30 ára vegna bakmeiðsla. Hann fór að vinna sem kennari í kjölfarið en fór samhliða því út í þjálfun.  Áður en hann tók við Ajax árið 1965 náði hann alla leið í átta liða úrslit Evrópkeppni Meistaraliða með öðru liði frá Amsterdam, AFC Door Wilskracht Sterk sem þá voru ríkjandi meistarar á meðan hitt höfuðborgarliðið var í fallbaráttu. Forráðamenn Ajax afréðu því að fá sinn gamla leikmann sem stjóra, sjö árum eftir að hann yfirgaf félagið.

Fyrsta verk Michels var að koma á heraga og æfingum sem voru margar og erfiðar en dugðu til að bjarga liðinu frá falli. Utanvallar var helsta áskorun Michels að breyta hugsunarhætti félagsins og leikmanna frá hálfatvinnumennsku í alvöru atvinnumennsku. Allir leikmenn Ajax voru atvinnumenn á öðru tímabili Michels við stjórnvölin og liðið gerði sér lítið fyrir og vann deildina.

Það var langt í frá einhugur meðal forráðamanna Ajax um hugmyndafræði og áherslur Michels til að byrja með en þeir gátu ekki þrætt fyrir árangurinn og þann fótbolta sem var spilaður. Michels fór fljótlega að innleiða og þróa þennan 4-3-3 fótbolta sem Ajax og Hollenskur fótbolti er þekktur fyrir enn þann dag í dag.

Hjá Ajax fékk Michels eitt efnilegasta lið sögunnar sem meðtók hans aðferðafræði af heilum hug og smátt og smátt fór að myndast kjarni sem spilaði að miklu leiti saman næstu árin og þekkti hvorn annan út og inn. Ajax liðið var ekkert bara Johan Cruyff og tíu aðrir, síður en svo. Heragi Michels minnkaði ekkert með bættum árangri, hann henti stundum í fjórar æfingar á dag og tók seinna upp þann ítalska sið að taka liðið alveg út úr sínu venjubundna umhverfi og hafa þá frekar saman í lokuðum æfingabúðum þar sem hann gat stjórnað öllum athöfnum og mataræði. Aðalgaldurinn á bak við frábært lið Ajax var formið sem leikmenn liðsins voru. Leikstíll Michels krafðist mikils af leikmönnum og þeir voru í standi til að fylgja því eftir, vissu sín hlutverk og árangurinn stóð ekki á sér.

Johan Cruyff var potturinn og pannan í öllu spili Ajax, hans grunnstaða á vellinum er ekki ósvipuð því sem Firmino leysir hjá Liverpool í dag, fremstur en alls ekki svo einfalt. Cruyff datt oft mun aftar og spilaði nánast frjálst hlutverk, hann var augu og eyru Michels innan vallar og stjórnandi liðsins.

Innkoma félagsins í Evrópu og áhrif á Liverpool 

Hollenskur fótbolti var ekki hátt skrifaður í Evrópu þegar Michels tók við liðinu, landsliðið hafi ekki komist á HM frá þvi fyrir stríð og hollensk félagslið höfðu aldrei náð teljandi árangri í Evrópu. Hið unga Ajax lið Rinus Michels var nánast algjörlega óþekkt þegar þeir unnu sér inn þátttökurétt með sigri í deildinni 1966. Þessu var breytt á einni nóttu í annarri umferð Evrópukeppninnar í desember 1966 þegar Rinus Michels og félagar fengu Bill Shankly og félaga í heimsókn til Amsterdam.

Liverpool var reyndar aðeins á sínu þriðja ári í keppninni en mættu sem fulltrúar sjálfra heimsmeistaranna (Englands) með nokkrar stjörnur úr HM liðinu innanborðs. Shankly skellti sér til Hollands að njósna og sá Ajax tapa deildarleik, okkar maður hafði því litlar sem engar áhyggjur fyrir leik og var borubrattur í viðtölum. Reyndar var mjög tvísýnt hvor leikurinn færi fram því gríðarleg þoka var á meðan leik stóð. Niðurstaðan var engu að síður 5-1 kennslustund frá Johan Cruyff og félögum. Eitt mesta sjokk í sögu Liverpool

Ajax var komið 1-0 yfir eftir 3.mínútur var 4-0 yfir í hálfleik. Liverpool skoraði á 89.mínútu til að minnka muninn í 5-1 og fór með það til Englands.

Bill Shankly var alls ekkert að baki dottinn í viðtölum eftir leik. Hann dró leikstíl Ajax í efa og sagði þá hafa spilað varnarleik á heimavelli og þeim yrði slátrað á Anfield 7-0. Hann náði að sannfæra megin þorra stuðningsmanna Liverpool um að þeir myndu gera einmitt það.

Niðurstaðan varð ekki alveg þannig, seinni leikurinn fór 2-2 og skoraði Cruyff bæði mörk Ajax, kom þeir yfir í tvígang. Samanlagt 7-3 og er þetta ennþá eina opinbera viðureign þessara liða eins ótrúlegt og það nú er.

Eftir leik í Hollandi viðurkenndi Michels að heppnin hefði verið með sínum mönnum á köflum og aðstæður gerðu mönnum erfitt fyrir. Hann var því jafnvel ennþá ánægðari með frammistöðuna og úrslitin á Anfield.

Johan Cruyff kynntist þetta kvöld Anfield Road í fyrsta skipti og var vægast sagt hrifin af stuðningsmönnum Liverpool. Ekki bara var Liverpool besta lið Englands (og eitt besta lið Evrópu) á þessum tíma þá var vægast sagt stemming á pöllunum líka og völlurinn stappaður löngu fyrir leik. Bítlarnir voru búnir að sigra heiminn árin á undan með tilheyrandi áhrifum á Liverpool borg og voru heimamenn því vel með á nótunum í tónlist og almennri stemmingu. Merseybeat var bókstaflega í algleymingi.

Fyrir leik (með nýju hljóðkerfi á Anfield) hafði myndast sá siður að syngja vinsælustu lögin á vinsældarlistum rétt fyrir leik. Þremur árum áður var You´ll Never Walk Alone efst á vinsældarlistanum og síðast í spilun fyrir leik og festist í sessi sem þjóðsöngur félagsins.

Stemmingin 14.desember 1966 hefur vafalaust verið góð þó Bítlarnir hafi reyndar ekki toppað vinsældarlistana þá. Slagarar eins og hið frábæra Friday On My Mind með Easybeats, Gimmie Some Lovin með The Spencer Davis Group, Good Vibrations með Strandastrákunum og að lokum topplag frá Tom Jones hafa vafalaust hitað Anfield vel upp áður en Gerry & The Pacemakers voru settir á fóninn.

Ævisaga Cruyff kom út fimmtíu árum eftir að hann spilaði fyrst á Anfield, þetta hafði hann að segja um viðureignina við Liverpool og stemminguna á Anfield.

“A week later I stood on the pitch at Anfield with goosebumps. Not because I was scared of our opponents but because of the atmosphere.

“The huge Kop stand where the most fanatical supporters were, and all their singing: Anfield was incredibly impressive.

“I really enjoyed it for 90 minutes, and we played a magnificent game. Even though it was a 2-2 draw, we were in complete control.

“From that evening English football had captured my heart.

“I had never seen anything like this – the passion for the game, and how much the fans wanted their team to win, and it made me think that one day I would like to play in England.

“Unfortunately that dream didn’t come to pass because in those days borders were still closed to foreign players.

“Even today I still think that was a terrible shame.”

Tapið í Amsterdam er ennþá versta tap Liverpool í Evrópu og var bókstaflega kennslustund fyrir Shankly og Paisley sem áttuðu sig á því eftir leik að þeir yrðu að þróa leik Liverpool til að eiga séns í Evrópu. Innleiða meiri pass ´n´move fótbolta og láta boltann vinna meira fyrir liðið.

Það er grunnurinn að því sem þróaðist í The Liverpool Way.

Ajax – Besta lið í heimi

Ajax féll úr leik í næstu umferð gegn Dukla Prag en sigurinn á Liverpool gaf liðinu sjálfstraust og merki um að þeir væru á réttri leið. Ajax var komið með yfirburði í deildinni heimafyrir og unnu þrjú tímabil í röð. Liðið var engu að síður ennþá að þróast og bæta sig. Næsti áfangi í Evrópu var að komast alla leið í úrslit árið 1969, fyrst hollenskra liða. Baráttan í Evrópu tók hinsvegar sinn toll og vann Feyenoord deildina heimafyrir. Þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu Evrópukeppnina árið eftir, erkifjendum sínum í Amsterdam til mikillar gremju.

Hollenskur fótbolti var sannarlega á uppleið og svaraði Ajax með því að vinna keppnina næstu þrjú tímabilin á eftir, frá 1971 til 1973.

Rinus Michels var engu að síður aðeins stjóri Ajax í fyrsta titlinum árið 1971. Hann var búinn að byggja upp besta knattspyrnulið í heimi og sökk á tækifærið þegar spænski risinn Barcelona kallaði og óskaði eftir kröftum hans við uppbyggingu liðsins í kjölfar Franco tímans. Eitthvað sem við höfum áður snert á í Evrópuupphinunum.

Stefan Kovács stjóri Steaua Búkarest tók við af Michels og hélt áfram á þeim grunni sem Michels var búinn að byggja. Hann var ekki jafn strangur og forveri sinn og til skemmri tíma hentaði það líklega þessu gríðarlega vel þjálfaða Ajax liði. Það var léttara yfir hópnum og menn fengu meira frelsi inná vellinum. Liðið vann ekki bara Evrópukeppnina 1972 heldur tvöfalt heimafyrir líka. Árið eftir vann Ajax deildina einnig aftur.

Sigurgöngunni var því alls ekki lokið eftir að Michels fór en það var ekki sama festa í starfi félagsins sem kom niður á þeim á endanum. Partýinu lauk líklega þegar Michels nýtti sér ósætti Johan Cruyff út í forráðamenn Ajax og keypti hann til Barcelona fyrir metfé. Gullaldarliðið sem var búið að spila saman á nánast 12 manna hópi í 3-5 ár var að komast á tíma og átti erfitt með að fylla skarð kóngsins og prinsins. Þeir hafa reyndar átt í basli með að fylla þeirra skarð allar götur síðan.

Báðir snéru þeir aftur til Ajax seinna og arfleið Michels er ennþá hornsteinninn í starfi Ajax. Ekki hvað síst fyrir tilstuðlan Johan Cruyff sem varð seinna meir ekki síður þekktur sem knattspyrnustjóri en leikmaður. Hann þekkti manna best hugmyndafræði Michels og hafði allt til að þróa hana áfram og gerði vel. Cruyff var hinsvegar alls ekki sá eini af næstu kynslóð þjálfara sem horfðu til þess sem Ajax liðið var að gera á áttunda áratugnum.

Arrigo Sacchi er einn af þeim en hann er maðurinn á bakvið eitt besta félagslið sögunnar, AC Milan liðið með einmitt hollenska tríóið í broddi fylkingar. Sacchi er eitt helsta átrúnaðargoð Klopp í þjálfun og hann dró hvergi af er kom að áhrifum Rinus Michels

There has been only one real tactical revolution and it happened when football shifted from an individual to a collective game. It happened with Ajax first and then the Holland national team at the beginning of the 1970s. — Arrigo Sacchi

Það segir kannski eitthvað um stærð Rinus Michels árið 1974 að samhliða því að stýra Barcelona var hann gerður að landsliðsþjálfara Hollendinga fyrir HM í Vestur-Þýskalandi. Þar fór hann með lið sem var undir miklum áhrifum tíma hans hjá Ajax alla leið í úrslit þar sem þeir töpuðu fyrir heimamönnum.

Almennt talið besta landsliðið sem ekki vann HM enn þann dag í dag.

Besta akademía knattspyrnusögunnar?

Johan Cruyff sneri aftur sem leikmaður og partur af þjálfarateymi Ajax í upphafi níunda áratugarins og spilaði með ungstrinum eins og Marco van Basten og Frank Rijkaard í liði sem vann deildina 1982 og 83.

Cruyff var aldrei auðveldur karakter og lenti ítrekað upp á kant við forráðamenn þeirra liða sem hann starfaði fyrir hvort sem það var sem leikmaður eða knattspyrnustjóri. Sagan mun líklega skrá Cruyff sem sigurvegara í þessum rifrildum og gott dæmi um það eru endalok ferilsins sem leikmaður.

Forráðamenn Ajax ákváðu að endurnýja ekki samninginn við hinn 36 ára gamla Cruyff eftir tímabilið 1983, liðið þá nýbúið að vinna tvöfalt og heint ótrúlegar kveðjur til besta og mikilvægasta leikmanns í sögu félagsins. Cruyff reiddist svo mjög að hann samdi við erkifjenduna í Feyenoord og endaði ferilinn þar við hlið Ruud Gullit og fleiri góðra. Að sjálfsögðu spilaði hann alla leikina nema einn, skoraði 11 mörk og var valinn leikmaður ársins í Hollandi í fimmta sinn. Feyenoord vann tvöfallt 1984 en liðið hafði ekki unnið titilinn í áratug fram að komu Cruyff. Ótrúlegur leikmaður.

Heimkoman til Amsterdam sem leikmaður Feyenoord var hinsvegar ekki alveg jafn glæsileg, heimamenn voru heldur betur up for it það kvöld, innan sem utan vallar og enduðu leikar 8-2 fyrir Ajax. Feyenoord svarði seinna með 4-1 sigri á heimavelli og henti Ajax einnig úr bikarnum.

Blessunarlega endaði samband Cruyff og Ajax ekki svona. Hans fyrsta starf sem knattspyrnustjóri var hjá hans gamla félagi árið 1985. Liðið vann bikarinn tvö ár í röð og Evrópukeppni bikarhafa árið 1987 en engan deildartitil á tíma Cruyff þrátt fyrir að liðið hafi skorað 120 mörk í 34 leikjum á hans fyrsta ári sem stjóri.

Samhliða þjálfun liðsins hafði Cruyff auðvitað skoðun á öllu starfi félagsins í heild og gerði breytingar á unglingastarfi, leikstíl og kúltúr liðsins svipað og lærifaðir hans gerði 20 árum áður. Cruyff stóð yfir sinni tegund af Total Football sem varð hornsteinninn í leikstíl Ajax löngu eftir að hann fór árið 1988. Aftur var það Barcelona sem kallaði en þar skapaði Cruyff sér ennfrekar nafn sem knattspyrnustjóri.

Það var ekki bara Cruyff sem yfirgaf Ajax árið 1988, Marco van Basten fór til Ítalíu og Frank Rijkaard til Portúgal. Engu að síður var gríðarlegur efniviður og góður grunnur fyrir næsta mann að vinna  með, vægast sagt.

Louis van Gaal sem var samherji Cruyff hjá Ajax sem leikmaður eitt tímabil tók við liðinu árið 1991 eftir að hafa verið aðstoðarstjóri í tvö tímabil og hélt áfram á svipuðum grunni. Stax árið eftir vann Ajax UEFA Cup og varð annað lið sögunnar til að vinna alla þrjár Evrópukeppnirnar. Dennis Bergkamp var þarna búinn að taka við keflinu af Van Basten sem markaskorari liðsins og fór fyrir ungu og efnilegu liði sem var að mestu skipað uppöldum leikmönnum eða strákum sem Ajax keypti unga og mótaði í alvöru leikmenn.

Það var engu að síður orðið erfiðara að byggja upp lið líkt og Michels gerði í upphafi áttunda áratugarins því bestu leikmenn liðsins voru mjög erfitsóttir og markaðurinn orðin mun kvikari. Bergkamp og Wim Jonk fóru t.a.m. til Inter á Ítalíu sumarið eftir UEFA sigurinn.

Van Gaal tókst þrátt fyrir það að byggja upp lið sem var að mestu uppbyggt af heimamönnum sem vann Evrópukeppni Meistaraliða árið 1995 og tapaði úrslitaleiknum í vítaspyrnukeppni árið eftir.

Liðið sem vann keppnina 1995 var að mestu óþekkt stærð fyrirfram en áttu allir eftir að gera áhugaverða hluti annarsstaðar í kjölfarið. Þrír af fjórum varnarmönnum Ajax sem byrjuðu úrslitaleikinn hafa verið landsliðsþjálfarar Hollendinga og Van Der Sar er núna yfirmaður knattspyrnumála hjá Ajax. Johan Cruyff fékk hann í það starf.

Danny Blind var þarna 33 ára og fyrirliði liðsins, Frank Rijkaard var 32 ára og nýkominn aftur eftir glæstan feril á Spáni og Ítalíu. Meðalaldur liðsins var undir 25 ára og þeir þarna nýbúnir að selja Dennis Bergkamp, sinn besta mann.

Louis van Gaal var heitasti bitinn á þjálfaramarkaðnum og var fenginn til Barcelona ári eftir að Johan Cruyff hætti með liðið. Hann tók seinna með sér De Boer bræðurna, Kluvert og á endanum Overmars líka.

Breytt landslag

Ajax hefur á nýrri öld verið þekktara fyrir öflugt uppbyggingarstarf heldur en árangur utan Hollands, gott dæmi um það hversu breytt landslagið er að þeir koma inn í undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar sem gríðarlegt underdogs fyrir viðureign gegn Tottenham.

Ef við skoðum þá leikmenn sem hafa yfirgefið Ajax það sem af er þessari öld er hægt að stilla upp í byrjunarlið sem væri eitthvað á þessa leið:

Bekkurinn hjá þessu liði væri svosem ekkert slor heldur.

2018/19 lið Ajax

Frábær spilamennska hins unga og ferska Ajax liðs sem var grátlega nálægt því að mæta Liverpool í úrslitum Meistaradeildarinnar á síðasta ári var af þessum sökum fyrir mörgum mikið fagnaðarefni. Það gladdi að sjá Ajax frá Amsterdam ennþá með lífsmarki og vel það.

Listinn yfir þá leikmenn sem rúllað hafa í gegnum Ajax á þessari öld sýnir að félagið hefur aldrei alveg horfið af stóra sviðinu, það eru eiginlega bara þrjú lið sem keppa um Evrópusætin í Hollandi og Ajax hefur aðeins fjórum sinnum endað neðar en í öðru sæti í Hollandi á þessari öld og bara einu sinni síðan 2006. Þeir eru alltaf með og hafa alveg náð að bíta frá sér af og til.

Aldrei samt eins hressilega og þeir gerðu á þar síðasta tímabili og þeir voru ótrúlegir klaufar að fara ekki alla leið.

Ajax hóf leik í annarri umferð, voru semsagt að spila um miðjan júlí sem er jafnan upphaf pre-season hjá stóru liðunum. Sturm Graz og Standard Lige og Dinamo Kiev var öllum rutt úr vegi til að tryggja þáttögkuréttinn í riðili með FC Bayern, Benfica og AEK Aþenu.

Ajax fór taplaust í gegnum riðilinn, gerðu jafntefli í báðum leikjunum gegn Bayern og spiluðu oft á tíðum frábæran fótbolta. Síðasti leikurinn í riðlinum gegn FC Bayern stóð þar uppúr enda átti þýski risinn í tómu basli með spræka leikmenn Ajax. Leikar enduðu 3-3 með svakalegum lokamínútum þar sem tíu leikmenn Bayern komu sínum mönnum í 2-3 með mörkum á 87. og 90.mínútu aðeins til að missa það niður með jöfnunarmarki á 95.mínútu.

Ajax fékk Real Madríd í 16.liða úrslitum og tapaði 1-2 í Amsterdam í fyrri leiknum. Hefðbundið Meistaradeildarmót hjá Ajax en frábært ferðalag hjá þeim. Nema hvað þeir fóru til Spánar og gengu frá spænska risanum á þeirra eigin heimavelli. Unnu 1-4 sem var bara ágætlega sloppið fyrir þá spænsku sem fram að því höfðu unnið keppnina þrjú ár í röð. Ajax var búið að snúa stöðinni sér í hag eftir 18 mínútur með tveimur mörkum og staðan var 0-3 eftir klukkutíma.

Juventus kom upp úr pottinum í 8-liða úrslitum, Ronaldo og félagar. Fyrri leikurinn var aftur í Amsterdam og endaði hann með jafntefli 1-1. Ronaldo kom svo sínum mönnum yfir í fyrri hálfleik í Tórínó. Ajax var sex mínútur að jafna sig á því og jafna metin og kláruðu dæmið í seinni hálfleik með marki De Ligt. Aftur unnu þeir útileikinn.

Liverpool – Barcelona – Ajax – Tottenham var það sem í boði var fyrir undanúrslitin og það var alveg ljóst hvert stuðningsmönnum Liverpool langaði. Raunar hefur stuðningsmönnum Liverpool langað til Amsterdam í áratugi og voru eðlilega vel fúlir að Ajax hafi komið upp úr hattinum einmitt núna

Eftir á að hyggja myndi enginn vilja skipta á einvíginu sem Liverpool átti við Barcelona.

Ajax fékk Tottenham í staðin og vann fyrri leikinn í London 0-1. Það stefndi því gjörsalega allt í Total Football úrslitaleik milli Ajax og Barcelona þegar flautað var til hálfleiks í seinni leik liðanna í Amsterdam. Barcelona var 3-0 yfir eftir fyrri viðureignina gegn Liverpool og Ajax var 3-0 yfir samanlagt eftir að hafa skorað tvö mörk í fyrri hálfleik gegn Spurs í seinni leiknum.

Þá loks fóru taugarnar að bila hjá þessu unga og frábæra lið sem fram að því var búið að sundurspila vængbrotið lið Tottenham. Lucas Moura skoraði tvö mörk á fjórum mínútum í upphafi seinni hálfleiks og bætti því þriðja við á sjöttu mínútu uppbótartíma sem fleytti Tottenham áfram með fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Það er eiginlega ekki hægt að hugsa sér meira brutal endi á þessu ævintýri.

Stuðningsmenn Liverpool sáu svosem ekki fram á að vera fara í þennan úrslitaleik en það var ekki nokkur maður sem vildi Tottenham á kostnað Ajax, hvað þá með þessum hætti. Kannski var það fyrir bestu, Klopp hefði getað lent í því sama og Shankly þegar hann mætti ungu og efnilegu liði Ajax.

Liðið á bak við liðið

Cruyff hætti sem stjóri Barcelona árið 1996 eftir að hafa fengið hjartaáfall og þjálfaði aldrei aftur eftir það. Hann var engu að síður mjög virkur bak við tjöldin og studdi Joan Laporta í forsetakosningum hjá Barcelona og var hans helsti ráðgjafi.

I chose Frank Rijkaard, Txiki Begiristain and Pep Guardiola because Johan told me to Joan Laporta

Cruyff átti sérstaklega stóran þátt í því að Pep Guardiola var ráðin árið 2008 frekar en reyndari menn eins og Mourinho sem hafði unnið hjá félaginu áður. Sá gamli vissi hvað hann söng þar og hefur alla tíð verið átrúnaðargoð Guardiola.

Sama ár og Guardiola tók við Barcelona stóð til að Cruyff yrði ráðin technical director hjá Ajax en hann hætti fljótlega við vegna ágreinings við sinn gamla liðsfélaga Marco van Basten sem fannst Cruyff vilja breyta of miklu of hratt. Ajax hafði verið í krísu í um áratug eftir gullaldarár van Gaal.

Cruyff samþykkti hinsvegar árið 2011 að snúa aftur til Ajax í einskonar ráðgjafahlutverki. Hann kynnti róttæk plön í upphafi árs sem sneru að mestu leiti að akademíu félagsins sem honum fannst mega muna sinn fífil fegurri og stefna í ranga átt. Þetta kostaði mikil innanhús átök og sagði stjórn félagsins m.a. af sér í kjölfarið. Cruyff kom inn í nýja ráðgjafastjórn í kjölfarið og hófst handa.

Ballið var þó ekki búið því félagar hans í umræddri stjórn gerðu munnlegt samkomulag við Louis van Gaal um að gerast framkvæmdastjóri félagsins (CEO) án þess að bera það undir Cruyff. Það er magnað hversu oft forráðamenn Ajax lentu upp á kant við Cruyff í gegnum tíðina og alveg ljóst að hann var allt annað en auðveldur karakter. Það kemur varla nokkrum manni á óvart að skrattinn hitti sannarlega ömmu sína þegar kom að Cruyff og van Gaal. Þeir voru ekki á sömu blaðsíðu þó van Gaal hefði tekið við bæði Ajax og Barcelona í kjölfarið á Cruyff. Málið endaði fyrir dómi þar sem dæmt var Cruyff í hag og van Gaal því ekki ráðinn til Ajax.

Cruyff hætti sjálfur árið 2012 eftir þessi innanhúsátök hjá Ajax en það var tilkynnt að hann myndi áfram halda utan um innleiðingu sinnar framtíðarsýnar fyrir félagið. Hann fékk t.a.m. megnið af þeim mönnum sem nú starfa bak við tjöldin hjá félaginu og viti menn, uppalið lið Ajax var enn á ný rétt búið að sigra Evrópu.

Framkvæmdastjóri félagsins er Edwin van der Sar og Technical director er Marc Overmars. Danny Blind er partur af ráðgjafateymi og þjálfarateymið er að mestu skipað fyrrum leikmönnum þar að auki.

Erik ten Hag er þjálfari félagsins, hann tók við liðinu árið 2017. Hans hægri hönd er sjálfur Christian Poulsen fyrrum leikmaður Liverpool. Hinir tveir aðstoðarmenn ten Hag eru Michael Reiziger og Winston Bogarde ásamt Richard Witschge. Allt gamlar kempur úr liði Ajax.

Að lokum

Rinus Michels lagði grunninn að Ajax og breytti um leið hugmyndum fólks um knattspyrnu. Hann endurtók leikinn hjá Barcelona og kom samhliða því Hollenska landsliðinu á kortið. Líklega hefði ekkert af þessu átt sér stað án Johan Cruyff, ekki með eins afgerndi hætti. Sem leikmaður var hann alveg á leveli með þeim allra bestu og af mörgum talinn sá besti af þeim öllum. Það sem hann hafði umfram t.d. Pele og Maradona innanvallar var áhrif á liðið í heild. Utanvallar hafði hann svo miklu meiri áhrif á íþróttina en nokkur af þessum súperstjörnum.

Lykilatriði hjá Rinus Michels var að liðið og liðsheildin var stjarnan í liðinu, jafnvel þó hann væri með stærstu stjörnuna af þeim öllum innanborðs. Cruyff boðaði sama boðskap en þjálfaði engu að síður mörg af stærstu nöfnum knattspyrnunnar á þjálfaraferli sínum. Þetta eru helstu styrkleikar þeirra liða sem hafa náð hvað bestum tökum á Total Football hugmyndafræði Rinus Michels. Liverpool lið Jurgen Klopp er klárlega eitt af þessum liðum, eitt af þeim betri m.a.s.

Hvernig þessir risar í Evrópskum fótbolta hafa ekki dregist saman síðan Johan Cruyff og félagar tóku lið Bill Shankly í kennslustund fyrir 54 árum er með ólíkindum en það er sannarlega kominn tími á það. Það er gríðarleg gagnkvæm virðing milli þessara félaga.

Endum þetta á orðum Johan Cruyff um stuðningsmenn Liverpool eftir úrslitaleikinn í Istanbul árið 2005, vafalaust með sína fyrri reynslu af Anfield í huga

“There’s not one club with an anthem like “You’ll Never Walk Alone”. There’s not one club in the world so united with the fans. I sat there watching the Liverpool fans and they sent shivers down my spine. A mass of 40,000 people became one force behind their team. That’s something not many teams have. For that I admire Liverpool more than anything.

Það er til marks um þá virðingu sem Johan Cruyff nýtur hjá Liverpool að þessi ummæli hans eru nú máluð á veggi Melwood, æfingasvæði félagsins.

 

16 Comments

  1. Sælir félagar

    Stórkostleg yfirferð um söguna Einar Mathías og hafðu kæra þökk fyrir. Það eina sem vantar er uppstilling liðanna fyrir leikinn og hvernig Liverpool leysir miðvarðarkrísuna og svo vangaveltur um framhaldið. Leikrinn sjálfur verður án efa mikil skemmtun þar sem þau tvö lið sem spila bezta og skemmtilegasta fótboltan í dag mætast. Skarðið í skildi Liverpool gæti haft úrslitaáhrif en sjáum til. Ég hefi trú á Klopp og hann er með frábæra gutta í yngri liðinum sem vel geta mætt þessu Ajax liði og öðrum þangað til mögulegt verður að reyna að fylla skarð VvD.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
    • Sammála þér Sigkarl – enn og aftur smellir Einar Matthías pistli óverjandi í vinkilinn! Verður fróðlegt að sjá hvernig Klopp stillir upp í næstu leikjum.

      5
    • Takk fyrir það Sigkarl – tökum það betur í Podcasti og færslu á leikdegi. Þetta var komið ágætt í bili í þessari færslu 🙂

      8
  2. Vissulega frabært Liverpool lið, en vantar breidd aftast og svo ma Firmino skjota meira a markið.

    6
  3. Frábær pistill en það er nokkuð ljóst að fá lið í sögunni hafa haft eins mikil áhrif á fótboltan og Ajax.

    3
  4. Enska knattspyrnusambandið hefur staðfest að Jordan Pickford, markvörður Everton, verði ekki dæmdur í leikbann fyrir brot sitt á Virgil van Dijk í grannaslagnum gegn Liverpool um helgina.

    Van Dijk er á leið í aðgerð á hné og spilar líklega ekki meira á þessu tímabili eftir tæklingu Pickford.

    Búið var að dæma rangstöðu þegar brotið átti sér stað en Michael Oliver, dómari leiksins, dæmdi ekkert á Pickford.

    Enska knattspyrnusambandið staðfesti nú rétt í þessu að Pickford verði ekki refsað þar sem dómarar leiksins hafi séð atvikið í leiknum sjálfum.

    David Coote, VAR dómari leiksins, skoðaði einnig atvikið í leiknum og ákvað að sleppa Pickford við refsingu.

    Sem sagt i lagi að eyðileggja feril eins besta knattspyrnumanns heims með glórulausri tæklingu bara af því að hann var rangstæður. Það er eitthvað að þessum reglum. Eins og Klopp missti næstum út úr sér í viðtali þá var þetta með ásetningi að fara svona ákveðið í Dijk , þó kannski ekki meiningin að slasa hann en alla vega sína honum í tvo heimanna. Minnimáttarkennd Everton manna brýst út á þennan hátt. Við höfum orðið vitni að fjölmörgum árásum frá Everton mönnum á leikmenn Liverpool á síðustu misserum.

    21
  5. Sælir félagar

    Tek undir allt sem GE segir hér fyrir ofan. Enska sambandið gerir enn og aftur upp á bak og ef þetta hefði verið “dýri maðurinn” hjá MU hefði Pigford fengið 8 mánaða bann hið minnsta. Það er nefnilega ekki sama hjá þessu skítasambandi hver á í hlut. Það á með öllum ráðum að sjá til þess að LFC vinni dolluna ekki aftur. Enda stendur til að raka Hendo á beinið fyrir að hafa skoðun á þeirri skítadómgæslu sem sýnd var í leiknum “eVARton – Liverpool.

    Svo er athyglivert að Matip er meiddur??!!!?? aldrei þessu vant og alveg eins líklegt að hann spili ekki á móti Ajax. Það er ekki einleikið með þennan mann og mál til komið að losa sig við hann. Ef það hefði verið gert í sumar værum við ef til vill með mann sem getur spilað meira en einn leik í röð án meiðsla. Ég verð að viðurkenna að þolonmæði mín gagnvart Joel Matip er algerlega þrotin.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  6. Evrópu Einar klikkar ekkert frekar en fyrri daginn. Gjörsamlega frábær pistill og hrein skyldulesning fyrir alla sem unna fótbolta.

    15
  7. Sæl og blessuð.

    Þessi samantekt er draumur í dós. Þvílík saga að baki þessu Ajax-liði. Róðurinn verður sannarlega þungur hjá okkar mönnum, eftir viðureignina við tuddana í Everton.

    3
  8. Matip fra, hvernig er það með þennan gæja, ein leikur og ein fra.
    Þetta er algjör pappakassi

Van Dijk líklega frá út tímabilið

Gullkastið – Skyggnst inn í heim umboðsmannsins