Jæja, ég ákvað að nota fríið í Evrópudeildunum vegna landsleikja til að taka mér smá frí frá síðunni sjálfur. Það var alveg nauðsynlegt, enda búið að vera mikið að gera hjá okkur Einari Erni við að uppfæra undanfarna mánuði. Svo var ég að byrja aftur í Háskólanum og svona um helgina þannig að ég þurfti að einbeita mér að öðru. Þá er Einar enn staddur í Bandaríkjunum og verður í einhverja daga í viðbót.
En allavega, það eru enn eftir landsleikir annað kvöld þannig að tæknilega séð er enska deildin enn í fríi … en þó er eitthvað af fréttum farið að berast frá Melwood:
–Liverpool hafa valið leikmenn til að spila í Meistaradeildinni.
Þetta er 33ja manna hópur og er í raun lítið um það að segja nema þá það að maður tekur eftir því hvað það er mikið af ungum strákum í þessum hópi. Þó er engan veginn þar með sagt að þeir fái að spila eitthvað í Meistaradeildinni en einhverjir þeirra gætu komist á bekkinn og fengið að spila í einhverjar mínútur. Bestan séns af ungu strákunum á sennilega Stephen Warnock sem hefur verið í hópnum í öllum leikjum liðsins hingað til í vetur, enda held ég í raun að það sé aðeins tímaspursmál hvenær sá drengur er orðinn byrjunarliðsmaður hjá okkur.
–Hughie McAuley tjáir sig einmitt um ungu leikmennina og segir m.a. að honum finnist þeir Stephen Warnock og Darren Potter eiga fyllilega skilið þau tækifæri sem þeir hafa verið að fá. Mikið rosalega held ég að McAuley sé feginn að vera laus við Houllier, þar sem það var almenn vitneskja að Houllier leit viljandi framhjá ungu heimastrákunum sem komu upp í gegnum Akademíuna á Melwood. Það verður væntanlega einn svartasti bletturinn á stjórnartíð Houlliers er fram líða stundir en það gildir einu núna, Benítez er tekinn við stjórn og er greinilega ákveðinn í að leyfa ungu strákunum að fá séns til að sanna sig!
–Guillen Balague hrósar Liverpool fyrir að ráða Benítez.
Guillem Balague er sérlegur spænskur sérfræðingur Sky Sports sjónvarpsstöðvarinnar, auk þess að vera mikill aðdáandi Liverpool. Hann var sá sem átti fyrstur fréttina strax snemma í sumar um að Liverpool ætluðu sér að kaupa Xabi Alonso og virðist vita hvað hann er að segja. Hann talar í þessari grein um hvað hann sé ánægður með að Liverpool hafi ráðið Benítez, og ljái honum það hver sem vill. Við erum öll ánægð með Benítez, svei mér þá!
Annars er frá litlu að segja. Maður reynir að nýta fríið frá deildarboltanum í eitthvað annað (eins og skóla, vinnu, kvenfólk, o.sv.frv) en um leið er ekki laust við að maður sé byrjaður að hugsa með spenningi til næstu helgar, en þá keppa okkar menn við W.B.A. á Anfield í deildinni og fá loksins tækifæri til að hrista af sér slyðruorðið eftir tapið gegn Bolton. Í næstu viku keppum við síðan fyrsta leik í Meistaradeildinni, gegn Mónakó á Anfield, og næsti leikur þar á eftir er síðan á Old Trafford gegn ManU, þann 20. september n.k. Spennandi!
Þá er ekki úr vegi að minna lesendur á að á sunnudaginn ætla mínir ástkæru FH-ingar að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn með glæstum sigri á Fram… 😉
Eins gott að FH vinnur fram því ekki vil ég að Víkingarnir mínir falli!