Atalanta kemur í heimsókn, upphitun

Núna á miðvikudaginn er leikur tvö í snargeðveiku jólaprógrammi Liverpool. Frá sunnudagskvöldinu 22. Nóvember og þangað til flugeldar kveðja árið 2020 þá eru tólf leikir á dagskrá Liverpool. Það þarf ekki að segja neinum að hver einasta mínúta sem liðið getur hvílt lykilmenn skiptir máli.

Þess vegna er þessi leikur gegn Atalana gullið tækifæri: Sigur tryggir liðið áfram í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar og gerir leikina tvo sem eftir eru að algjörum aukaatriðum. Ef við skoðum hvernig síðasti leikur fór ætti maður ekki að vera mjög stressaður, en að sama skapi trúir maður ekki öðru en Atalanta heimsæki Anfield í hefndarhug. Atalanta þekkja líka ágætlega að vera með bakið upp við vegg í Meistaradeildinni, fyrir ári voru þeir stigalausir eftir þrjá leiki en tókst að framkalla kraftaverk. Þeir mega alveg gera það mín vegna aftur ár, svo lengi sem það sé á kostnað Ajax.

Andstæðingarnir.

 

Fyrir nokkrum vikur skrifaði Evrópu-Einar einn af sínum töfrapistlum um Atalanta og bendi ég fólki á hann ef þið viljið góða yfirferð um sögu klúbbsins. Í ár hefur liðið farið upp og niður. Komnir með fjóra sigra, tvö jafntefli (bæði í síðustu tveim leikjum) og tapað tveimur. Þeir hafa skorað fjórða flest mörk í deildinni, átján í átta leikjum. Sturlunin er að þeir hafa fengið á fjórtán mörk. Þetta er lið sem elskar að sækja, en kannski þess virði að minnast á að deildarleikjunum leikjunum tveim eftir 5-0 tapið fyrir Liverpool fengu þeir bara eitt mark á sig. Spurning hvort þeir hafi áttað sig aðeins á að það eru tvö mörk á vellinum og það þarf að verja annað þeirra.

Hitt sem er vert að minnast á um núverandi leikform þeirra, er að núverandi form þeirra er ekki gott. Þeir hafa vissulega verið að reyna að lappa upp á varnaleikinn en þeir hafa ekki unnið nema einn af síðustu 6 leikjum sínum og hann var áður en þeir tóku á móti Liverpool. Það má líka ekki lesa allt of mikið í leikinn á laugardaginn, sumir leikmannanna komu til baka innan við sólarhring áður en þeir áttu að keppa við Spezia.

Aðeins fjórir af leikmönnunum sem byrjuðu á móti Liverpool spiluðu um helgina. Líklega hefur þjálfarinn verið að spara sitt sterkasta lið þannig að ég ætla að spá svipuðu byrjunarliði frá því að liðin mættust síðast fyrir utan að Pierluigi Gollini er komin aftur í markið eftir tveggja mánaða meiðsl. Fyrir utan markmanninn ætla ég að gerast svo frakkur að stela byrjunarliðsspá frá sportsmole.co.uk: Toloi, Palomino og Djimsiti í vörn, Hateboer og Mojica á köntunum. Tveir dýpri miðjumennirnir verða Pasalic og Freuler, fyrirliðinn og leiðtoginn Gomez í holunni ef svo má að orði komar og svo Zapata og Muriel frammi.

Liverpool.

Eftir að hafa skellt Leicester er Liverpool með tækifæri til að gera að bestu viku tímabilsins (hingað til). Ekki í hverri viku sem menn skella toppliðinu og geta svo tryggt sig áfram í Evrópu. En hverjum er treyst fyrir verkefninu? Það liggur við að hægt sé að giska á byrjunarliðið með því að lista upp þá sem er ekki meiddir og segja það gott.

En til „gamans“ þá eru nú á meiðslalista Liverpool: Van Dijk, Trent, Gomez, Chamberlain, Thiago, Shaqiri, Keita og Henderson. Það vantar semsagt þrjá í heilt byrjunarlið! Þetta væri meira segja fjári gott lið.

Erum við alveg viss um að hann sé til?

Þess fyrir utan er Fabinho ný stiginn upp úr meiðslum og Firmino æfði ekki í dag, sem var víst bara til öryggis. Svo spyr maður sig hversu margar mínútur er hægt er að leggja á Robbo, Milner og Gini á einni viku, tveir þeirra nýkomnir úr landsliðsverkefnum sem voru allt annað en auðveld. Það er þó ekki þannig að allar fréttir séu slæmar. Salah er annað hvort búin að ná sér af Covid á mettíma eða greiningin hans var röng, sem betur fer.  Þannig að það væri hægt að hvíla Bobby og byrja „bara“ með Mané, Salah og Jota. Sem ég er farinn að hallast að verði gert, með það fyrir augunum að skipta allavega tveim þeirra út af snemma í seinni fyrir Minamino og Origi.

Miðjan er svo annars konar hausverkur. Þegar miðjumenn þurfa sífellt að byrja sem varnarmenn virðist hópurinn ekki alveg jafn breiður þar. Curtis Jones stóð sig afar vel á miðjunni gegn Leicester og fær þess vegna traustið aftur. Ef Milner spilar þennan get ég ekki séð hann byrja á móti Brighton og það væri ofboðslega gott að ná að hvíla Gini eitthvað. En hér er málið: Það eru engir aðrir! Á heimasíðu liðsins er 9 leikmenn skráðir sem miðjumenn, einn þeirra leikur nú í vörninni og fimm eru á meiðslalista! Eina lausninn sem mér dettur í hug ef Klopp verður að hvíla Milner, Jones eða Gini væri að Bobby eða Minamino væru fremst á miðjunni. Held ekki.

Gamli sér um þetta!

Svo er það vörnin. Matip er sjálfvalinn. Hver verður honum við hlið? Rhys Williams, það er bara þannig. Eftir að hafa séð Neco á móti Leicester væri ég bara glaður að sjá hann í bakverðinum. Ætli það komist upp í þessum leik að Robbo sé mennskur og við sjáum Tsimikas loksins spila? Ég held að Robbo byrji en einhvern tímann verður að prufa Tsimikas, hví ekki skipta honum inná í þessum leik fyrst að það eru fimm skiptingar?

Spá

Mig langar að segja að Liverpool setji þrjú mörk og klári þetta snemma. En ég er með einhverja ónotatilfinningu fyrir þessum leik. Þannig að ég spái 1-1 jafntefli, þar sem Liverpool kemst yfir snemma með marki frá Salah en svo ná Atalanta jafna í seinni hálfleik. Ekki fullkomin vika, því miður, en ég er bara ekki vanur að Liverpool fari auðveldu leiðina í Evrópu. Vona að ég hafi rangt fyrir mér!

 

7 Comments

  1. Sælir félagar

    Ég ætla bara að treysta Klopp og félögum fyrir þessu. Ég var skíthræddur fyrir leikinn við Vardy og félaga en Klopp leysti það snilldarlega og blés mönnum sigurvissu í brjóst. Ég vona að það sama gerist annað kvöld og hefi ákveðið að hafa ekki áhyggjur af þessum leik. Spái að venju 3 – 1

    Það er nú þannig

    YNWA

    7
  2. Takk fyrir upphitunina Ingimar.

    Einhverjir fætur hljóta að verða hvíldir, en við eigum samt sem áður að geta krafsað í 3 stig á heimavelli eftir 0-5 sigur úti. Spurning hvort að Jones fái þennan leik eftir góða frammistöðu um helgina, Minamino gæti byrjað, Neco, Tsimikas og fleiri. Eins og Sigkarl, þá treysti ég Klopp og liðinu bara fullkomlega fyrir hlutunum.

    2-0 sigur.

    4
  3. Nú í hápunkti meiðslakúrfunnar væri mitt plan sem stjóri Liverpool væri að hvíla eitthvað af leikmönnum í þessum leik og vera þá í 50/50 að sigra eða gera jafntefli. Við þurfum einn sigur og í versta falli eitt jafntefli til að toppa riðilinn og fáum þrjú tækifæri til þess.

    3
  4. Sammála Rúnari, ég vil sjá menn hvílda eins og unnt er.
    Held Atalanta henti okkur vel og hef engar áhyggjur af þessum leik þó nokkrir minni spámenn fái mínútur enda hafa þeir yfirleitt alltaf skilað góðu verki.

    Hörmungar fréttir af Maradona sem lést í dag, RIP.

    2
  5. Jæja, Origi kallinn bara í byrjunarliðinu. Vonandi dettur honum eitthvað sniðugt í hug.

    1
  6. Ja hérna. Er þetta nógu gott lið til þess að vinna atalanta ? Bekkurinn er sambland af reyndum leikmönnum og fermingardrengjum. 😉

  7. Ekki skot á rammann í fyrri hálfleik ? ? Skiptingar í hálfleik, 2 eða 3 ?

Gullkastið – Bakkað yfir Leicester

Liðið gegn Atalanta á Anfield