VAR er ekki þess virði

Þegar videodómgæsla kom fyrst til umræðu sem mögulegt hjálpartæki fyrir dómara var ég mjög skeptískur á þeim forsendum að ég vildi ekki að það væri spilaður annar fótbolti sem maður horfir á í sjónvarpinu (frá t.d. Englandi) en sá sem er spilaður á leikvellinum.

Engu að síður var alveg hægt að sannfæra sig um að þetta væri hvort eð er allt önnur íþrótt og undir vissum kringumstæðum væri erfitt að þræta fyrir að hægt væri að nýta tæknina með mjög fljótlegum hætti til að leiðrétta mjög augljós mistök dómara. Þá má ekki gleyma þeim endalausu umræðum um augljós mistök dómara eftir leiki þar sem þeir fengu eina tilraun frá misjafnlega góðu sjónarhorni en voru dæmdir af sjónvarspáhorfendum sem fengu að sjá atvikið aftur og aftur í hægri endursýningu. Umræðan eftir leik snerist svo oftar en ekki um þetta atvik sem jafnvel réði úrslitum.

Leikurinn sem dómarinn var að dæma og áhorfandinn var að horfa á voru á vissan hátt ekki sami leikurinn og þessi umræða eftir leiki litlu skárri en VAR umræðan er núna. Á leikvellinum eru jafnan engar endursýningar eða umfjöllun eftir leik.

Sambærileg tækni hefur verið innleidd í nánast allar aðrar stórar hópíþróttir í heiminum með ágætum árangri að því er ég best veit. Markmiðið er að fá rétta niðurstöðu og það er erfitt að mótmæla því. Eftir ansi margar slæmar ákvarðanir dómara á Englandi sem almennt eru bara ekki í sérstaklega háum klassa skipti ég nánast alveg um skoðun og var fylgjandi því að fá VAR inn í fótboltann, fannst það jafnvel nauðsynlegt og er ennþá á því að tæknin sjálf sé ekki vandamálið.

Þeir sem hinsvegar eru að nota tæknina, mestmegis sömu “sérfræðingarnir” og við vorum að tuða yfir áður en VAR kom til sögunnar hafa notað þetta hjálpartól svo hræðilega að það er ekki annað hægt en að skipta aftur um skoðun. Það er ekki bara það að videodómgæsla í núverandi mynd er ekki að hjálpa leiknum, hún er þvert á móti að stórskaða vörumerkið og janvel það illa að erfitt gæti reynst að laga. Það eru ansi margir knattspyrnuáhorfendur í fullri alvöru að missa áhugann á VARfótbolta eins og hann er í núverandi mynd.

Auðvitað er ekki besti tíminn fyrir svona pistil frá stuðningsmanni Liverpool  strax í kjölfarið á því sem við upplifðum gegn Brighton, maður er ekki beint hlutlaus. En hvenær eigum við að lýsa okkur skoðunum á þessu? Það er vafaatriði og/eða skandall í nánast hverjum leik núorðið. Liverpool, lið sem sækir meira en flest lið hefur fengið ekki nema helmingi fleiri VAR dóma á móti sér en næsta lið, ekki nærri því alla réttilega. Auðvitað hefur þetta áhrif á skoðanir manns á VAR en það er alls ekki eins og einu fáránlegu vafaatriðin tengd videodómgæslu eigi sér stað í Liverpool leikjum.

Óttinn við að fagna mörkum

Það skemmtilegasta við knattspyrnu er að fagna mörkum, það eru ekki mörg mörk í knattspyrnuleikjum almennt og því þeim mun meiri fögnuður þegar liðið manns skorar. Ef að þú tekur gleðina við það að fagna mörkum af manni eða takmarkar hana allverulega ertu byrjaður að eyðileggja það sem knattspyrna gengur meira og minna út á. Þetta hélt ég að hægt væri að finna nokkuð auðvelda og fljótlega lausn á en miðað við þetta tímabil hefur enskum farið aftur ef eitthvað er.

Videodómgæsla eins og hún er útfærð í dag gerir það að verkum að maður bara fagnar ekki lengur mörkum. Eftir hvert mark á maður á hættu að skoðað verði eitthvað sem gerðist löngu áður í leiknum sem ekki var búið að skoða eða þá að eitthvað dómaranördið tapi sér í paint og hreinlega finni upp rangstöðu. Það er svo fullkomlega mismunandi milli lekja og manna við hvað er miðið.

Þetta er og hefur verið frá upphafi langalvarlegasti gallinn við VAR og er ekki þess virði m.v. það sem við höfum séð á þessu tímabili. Velti því þó aðeins fyrir mér hvort þetta sé almennt ekki miklu meira vesen í enska boltanum en við sjáum t.d. í Meistaradeildinni? Hvernig er þetta í öðrum deildum þar sem notast er við VAR?

Reglurnar sem dómarar eiga að fara eftir þegar kemur að VAR virka alls ekki flóknar, VAR er til þess að leiðrétta augljós mistök dómara, ekki skera úr um öll vafaatriði niður í smáatriði. Ef upphaflegur dómur var ekki augljós mistök á VAR ekki lengur við. VAR var aldrei hugsað þannig að hringt væri í Gus Grissom og tekið CSI greiningu á hvert atvik. Rangstaða er teiknuð upp í gríðarlega viðvaningslegu kerfi sem gefur engin skekkjumörk og staðfestir bara alls ekki alltaf ákvörðun dómara. Því síður er nokkurntíma haft í huga að þetta eigi að snúast um það hvort upphaflegur dómur hafi verið augljós mistök dómrara.

Ef að dómari þarf hæga endursýningu til að sannfærast um sinn dóm eru yfirgnæfandi líkur að ekki var um augljós mistök að ræða. “Brot” Andy Robertson gegn Brighton í uppbótartíma er mjög gott dæmi um þetta. Enginn dómari í sögu knattspyrnunnar hefði dæmt víti á Robertson fyrir tíma VAR, ekki einn einasti. Það var enginn leikmaður Brigton að biðja um víti heldur og þeir viðurkendu eftir leik að þetta var mjög soft. Ef að enginn dómari dæmir á svona atvik allajafna var ekki um augljós dómaramistök að ræða. Ef að þú sýnir svona atvik hinsvegar hægt og tekur út samhengið að þetta er ekki snertingarlaus íþrótt er hægt að sjá “brot”. Ef að þú ætlar að opna það pandórubox er eðlilegt að spyrja á móti, af hverju í helvítinu er ekki stoppað leik eftir hvert einast horn sem er tekið og lagt mat á það sem gekk á í teignum. Dómarinn jafnvel sendur út að hliðarlínu til að meta þetta eftir hægri endursýningu. Knattspyrnu yrði fljótlega hætt og þess í stað farið bara beint í vítaspyrnukeppni.

Ég hef ekki samanburð við önnur lönd en er ennþá á því að aðalvandamálið sé ekki tæknin sjálf heldur þeir sem eru að nota hana og að einhverju leiti þær reglur sem þeir eiga að vinna eftir. Ég er ennþá meira fylgjandi því að fá rétta dóma en að stórir leikir ráðist af augljósum mistökum dómara. Eftir að VAR var innleitt hefur maður síður en svo skipt um skoðun á enskum dómurum almennt. Þeir eru svona 7% eins góðir og þeir halda að þeir séu (vegna þess að þeir dæma í EPL). Er ekki rétt munað að England átti ekki dómara á EM eða HM fyrir mjög stuttu síðan? Það er svo alls ekkert að hjálpa að hafa sömu menn í VAR herberginu að bakka um vini sína á vellinum.

Engin stöðugleiki

Óljósar reglur og takmörkuð gæði dómara almennt gera það að verkum að stöðugleikinn í þeirra ákvörðunum er enginn. Þetta er alls ekki meint þannig að þeir séu allir að vinna gegn Liverpool en ekki öðrum liðum, virkar reyndar smá þannig það sem af er þessu tímabili. Það fer hinsvegar að verða nokkuð óumdeilt að það skiptir máli hvaða og hvernig leikmaður á í hlut hvernig dómari dæmir. Þetta á líka við í lýsingunni á leiknum og umfjöllun um sambærileg atvik. Það er nánast alltaf hvítur enskur dómari að dæma leikinn og eins eiginlega alltaf hvítur breskur karl að lýsa leiknum. Það er bara alls ekki það sama Harry Kane eða Mo Salah, svona sem dæmi. Umræðan um seinna vítið sem Brighton fékk dag væri heldur betur ekki sú sama ef Salah ætti í hlut.

Það er ekki langt síðan það var sparkað hressilega og afgerandi í Salah um daginn og vítaspyrna dæmd. Aðalumræðan rétt eins og ALLTAF þegar dæmt er brot á Salah snerist um leikræna tilburði hjá honum. Það er ekki múkk um slíkt núna, afhverju ekki? Okkar eigin Carragher var bara á mánudaginn að lofsama Harry Kane hvað hann væri nú klókur þegar hann sækir sín brot á stórhættulegan hátt með að bakka undir varnarmenn.

Tökum annað dæmi sem er ennþá meira galið og snýnir vel þann óstöðugleika sem við erum að upplifa með VAR, rétt eins og við svosem upplifuðum fyrir VAR líka. Þetta var ekki víti skv. VAR, ekki einu sinni tilefni til að senda dómarann í skjáinn.

Það hvernig VAR vinnur svo úr rangstöðum hefur svo fengið flesta til að efast um kunnáttu sína á þessari annars ágætu reglu. Hjálpar ekki að það virðist vera ný lína í hverjum mánuði.

Öfugt við það sem margir halda (fram) var VAR ekkert að vinna með Liverpool á síðasta tímabili og innleiðing þess síður en svo óumdeild. Það var verið að dæma mörk af Liverpool út frá handarkrikum og hvað eina. Þetta tímabil hefur svo bara verið ennþá verra. Það sem fer verst í mann fyrir utan að ekkert er spá lengur í hvort um sé að ræða augljós mistök dómara er að það virðist ekki vera gefið nein skekkjumörk. Þegar áhorfendur draga stórlega í efa þau rök sem okkur er sýnd þegar verið er að ákvarða hvort um rangstöðu sé að ræða eða ekki er stundum haldið fram að VAR dómarinn sé að horfa á eitthvað annað og hafi betri upplýsingar? Af hverju í fjandandum ætti hann að hafa slíkt? Eins virðist núverandi kerfi ekki gera ráð fyrir nokkrum einustu skekkjumörkum og það er misjafnt hvaðan línan er teiknuð sem gerir kerfið ennþá tortryggilegra.

Miðað við allt sem við höfum séð hjá VAR dómaranum í Paint er magnað að sjá í þessu tilviki notast við hægri löppuna á varnarmanni Brighton sem útgangspunkt, svona í ljósi þess hvernig hann snýr. Hvað með allar armpit rangstöðurnar hjá Liverpool? Af hverju er knattspyrnusambandið ekki ennþá búið að svara Liverpool því hvað var verið að dæma á í tilviki Mané gegn Everton fyrr í vetur?

Hollendingar virðast hafa tekið í notkun ansi common sens reglubreytingu til að gefa smá eðlileg skekkjumörk í svona atvikum og leyfa sóknarmanni að njóta frekar vafans en varnarmanni.

Leik eftir leik stendur maður sig að því að fagna ekki mörkum Liverpool, eða þá að fagna marki hressilega aðeins til að fá það í bakið fyrir eitthvað sem ekki er einu sinni hægt að færa sannfærandi rök fyrir með videodómgæslu. Þá er alveg eins gott að sleppa þessu bara. Ef þú tekur gleðina úr því að horfa á fótbolta er stutt í að maður missi áhugan alveg.

Vandamálið er bara að án VAR er dómgæslan í höndum sömu sérfræðinga og ráða ekki við hana núna með hjálp tækninnar. Gamla dómaraumræðan er ekkert mikið skemmtilegri en VAR umræðan.

16 Comments

  1. Góð samantekt Einar. Það sem manni finnst vanta og sér hvergi eru engin svör frá enska dómararsambandinu, knattspyrnusambandinu eða hverjum þeim aðilum sem standa á bakvið VAR, Stockley Park og þessar umdeildu ákvarðanir sem eru teknar um hverja helgi. Það lið er einhvern vegin stikkfrí og virðast ekki þurfa svara fyrir eitt né neitt!

    Bara t.d. afhverju dæmt er víti á “samskonar brot” eina helgina en ekki þá næstu?! Líka – hvernig geta þeir mögulega sannað 150% með þessum línum sínum að Salah hafi verið rangstæður í gær og vinstri öxlin á varnarmanni Brighton hafi ekki gert Salah réttstæðan?! Líklegast búið að fjarlægja úr reglugerðaflórunni að sóknarmaður eigi að njóta vafans! Víti tekið af WBA á móti MU um síðustu helgi sem var álíka mikið víti eins og brotið á Salah í pistli Einars. Fyrr í vetur nánast hálsbraut Harry Maguire Azpilicueta varnarmann Chelsea inn í teig þegar tekin var hornspyrna en ekkert dæmt, hvar var VAR þá?! Þegar stórt er spurt!

    Svo er áhyggjuefni þegar leikmenn á borð við Jordan Henderson og Kevin de Bruyne lýsa óánægju sinni með VAR dómgæsluna – eins og de Bruyne kom inn á í viðtali að leikmenn sjálfir skilji og þekki varla reglurnar lengur!

    Þetta er bara allt á svo rangri leið að hálfa væri nóg! Ánægður með Hollendingana að taka málið í sínar hendur – það mættu fleiri taka þá sér til fyrirmyndar!

    8
  2. Samála þér Einar.

    það má alveg vel vera að VAR í heildina er að fækka röngum dómum heilt yfir og hefur maður alveg séð VAR verið notað mjög vel en þessi VAR umræða viku eftir viku er algjörlega að drepa fótboltan.
    Nánast hver einasti aðili sem er að fjalla um fótbolta í sjónvarpi, netheimum eða útvarpsbylgjun byrjar oft á því að segja að ég nenni ekki að fjalla um VAR og svo kemur stundum EN…..

    Að horfa á fótboltaleik þar sem mark er skorað og maður fagnar ekki er eins röng tilfining eins og hægt er og ef þú tekur ástríðuna úr fótboltanum þá er ekki mikið eftir.

    Við sjáum mannleg misstök án VAR og mannleg misstök með VAR og er því ekki bara ágæt að hætta með VAR? Í den var allavega hægt að láta dómaran njóta vafans því að hann fékk ekki að sjá þetta oft í endursýningu og þetta gerðist svo hratt. Í dag fær hann að sjá þetta oft og það sýnt mjög hægt en manni finnst enþá verið að klúðra.

    VAR tæknin er til en mennirnir sem stjórna henni á Englandi eru ekki tilbúnir að nota þessa tækni og því segir maður bara burt með þetta og förum aftur að fagna mörkum.

    YNWA

    4
  3. Það eru nokkur atriði varðandi dómgæsluna sem fara í mann, og það hvort notuð sé tækni til að aðstoða dómarana finnst mér ekki vera grunnvandamálið.

    1. Samræmi í dómum
    Það hefur áður komið fram að mér fannst alveg réttlætanlegt að dæma víti á þetta atvik hjá Robbo í gær. En þá hefði líka átt að vera búið að dæma svona 100 víti í öðrum leikjum, t.d. þegar Salah var tekinn niður í teignum í leiknum gegn Villa í haust. Þetta hefur í raun ekkert með VAR að gera eins og ég sé það, en spurningin er kannski frekar “af hverju er verið að nota VAR til að eltast við sum smábrot en ekki önnur?” Það má alveg rifja upp að þetta er svo sannarlega ekki nýtt vandamál, hefur lengi verið svona í enska boltanum, og líklega víðar.

    2. Millimetraspursmál
    Ég fór yfir þetta í kommenti við leikskýrsluna í gær. Í stuttu máli: knattspyrnusamfélagið hefur aldrei verið spurt spurningarinnar “á íþróttin að snúast um millimetra?”. Mér finnst að svarið sé “Nei”. Andi laganna er að leikmaður er rangstæður ef hann er augljóslega fyrir innan næstsíðasta varnarmann. Það var ekki málið í gær í marki Salah, og það var ekki málið í Everton leiknum hjá Mané. Þarna eru komin 4 stig sem er búið að taka af Liverpool. Ef það væri einhver annar klúbbur sem væri fórnarlambið værum við líklega ekki jafn mikið að tjá okkur um þetta, en það væri jafn rangt fyrir því.

    3. Áhorfendur eru hættir að fagna mörkum
    Þetta gerðist svosem líka hér í den, þ.e. að dómar komu ekki um leið og skorað var, en hefur greinilega aukist gríðarlega, og tíminn sem við erum í óvissu er miklu lengri. Ég held að flestir séu sammála um að þetta sé að skemma upplifun áhorfenda af leiknum stórkostlega. Spurningin er kannski: hvort viljum við hafa það þannig, eða eiga á hættu að andstæðingarnir skori mark sem ekki ætti að standa (og vinni e.t.v. leiki og/eða titla út á það)? Ef VAR væri heilt yfir að auka sanngirni og koma með réttari úrslit, þá held ég að við værum ekkert að ræða þetta (dæmi: mark Mané í gær, nokkuð augljós rangstaða). En hér erum við að ræða þessa hluti, ekki í fyrsta skipti, svo það er greinilega eitthvað að.

    3
  4. Ég vill þetta var bara burt. Þetta átti að koma í veg fyrir vafaatriði en hefur bara gert illt verra,og það var nú varla hægt. Gæði enskra dómara eru líka skelfileg. Hvernig eru þá þeir sem eru að dæma í neðri deildunum ? Þvílíkt drasl sem þessi stétt er, algjörlega getulausir.

    1
  5. Ég er formlega kominn á vagninn með Einari vini mínum.

    Það að meira að segja ekki fagna Diogo – markinu í gær eiginlega gerði mér ljóst hvað VAR hefur skemmt mikið. Ekki var séns að maður fagnaði Salah og Mané sem kom í ljós en þegar maður vildi vera viss um hvort að einhver hefði ekki mögulega gert eitthvað mögulega til að aðstoða hann við að sóla mennina áður en maður fagnaði…þá eiginlega er orðið ljóst að það eru eiginlega bara mörk beint úr vítum og aukaspyrnum sem maður treystir.

    Horfði á Rangers vinna Aberdeen um síðustu helgi, Skotar eru ekki með VAR og mögulega var eitt mark þar tæpt. En vá hvað það var miklu skemmtilegra að sjá menn bara fagna af innlifun og allt var klárt.

    Vá hvað það hefði verið óstjórnlega ömurlegt að vera í away-end á AMEX í gær. Þetta er ekki að virka, burt með það…enskir dómarar allavega ráða ekki við þetta, það er fullreynt!

    14
  6. Hversu mörg mörk hefðu verið tekin af dwight yourk og andy cole á sínum tíma t.d? (Ef þeir hefðu verið í öðru liði þ.e.a.s…)
    Þetta víti sem brighton fengu var rugl að öllu leiti, boltinn í hæl brighton manns og út, robertson sparkar á sama tíma og sleikir skóreimarnar, hafði engin áhrif á leikinn og sóknarmaður brighton átti engan séns á boltanum aftur. Þetta er ekki víti nema VAR ætluðu sér að finna eitthvað svo liverpool tapi stigum.
    Þið megið kalla mig álpappírshaus eða eitthvað svoleiðis, en ég er 100% á því að fyrirmælin séu þau að reyna að koma í veg fyrir að liverpool vinni titilinn.

    6
  7. Góð færsla. En er ekki vandamálið jafnvel enn djúpstæðara? Þeas. er notkun á VAR ekki farinn að breyta í grundvallaratriðum hvað það er sem ræður því hver vinnur fótboltaleik og hvernig lið spila fótbolta? ??Eitt dæmi er hvernig dæmt er á hendi. Allir sem hafa spilað fótbolta á einhverjum standard vita að stundum skoppar boltinn illa eða einhvern veginn fer í hendina. Fyri VAR þá voru varnarmenn varkárir að sveifla ekki höndunum eða nota þær þannig að virtist að þeir væru að reyna að nota þær. Dómararnir notuðu síðan skynsemi til að sjá hvort um “raunverulega” hendi væri að ræða. Í dag er það ekki hægt vegna þess að video sýnir að boltinn fór í hendina. Lögin segja það er bannað. Það “verður” að vera hendi. Og við höfum meira að segja breytt reglunni þannig að dómarinn hefur hreinlega ekkert vald lengur til að segja að þetta hafi ekki verið hendi. Svo eftir VAR þá er hendisreglan — eitthvað sem mjög sjaldan var stórmál í fótbolta orðin að meiriháttar máli. Bara í EPL hafa verið haugur af vítaspyrnum og mörkum dæmd af fyrir hendi sem langflestir sem spila fótbolta hefðu aldrei verið að kvarta um fyrir VAR. Í mínum huga er þetta stórbreyting á fótboltanum sem gerir hann miklu verri. Það er erfitt að skora í fótbolta. Eitt mark oftar en ekki ræður úrslitum. Ef við förum að gefa liðum víti í hvert sinn sem boltinn fer í hendina á varnarmanni þá erum við kannski að bæta við einhverjum 25-50 mörkum á leiktímabili. Heldur einhver að leikmenn og þjálfarar fari ekki að leita leiða til að fá þau mörk? Heldur einhver að það hafi ekki þegar gerst?

    Annað dæmi er það að það eru núna allt allt aðrar reglur fyrir fótbolta í aðdraganda marks og við vítteiginn því að þar eru VAR að endurskoða hluti en gera minna af því þegar um almennan leik er að ræða. Gott dæmi er vítið sem var dæmt á Fabinho. Dómarinn dæmir aukaspyrnu því að það mátti út frá sanngirni segja að þetta gæti verið aukaspyrnubrot. En hann hefi aldrei dæmt víti á þetta því að þetta var aldrei sanngjarnt vítaspyrnubrot. Þeas þetta var mjög soft brot og brjálæði hefði verið að gefa víti. En með VAR þá er fundið upp á því að kannski hafi þetta verið á línunnu og því verði að dæma víti. ??Hér komum við að grundvallaratriðinu sem VAR getur ekki leyst. Fótbolti, þessi ástríðufulli leikur, hefur í 100+ ár mótað reglur sem eru einfaldar og að mestu skýrar og dómarar hafa síðan notað þær og túlkað til að halda liðunum við efnið. Vítateigurinn er einn staður þar sem dómgreind dómarans er svo mikilvæg. Hann er risastór og í dag er það orðið þannig að minniháttar brot eða hendi lengst út í teig þegar boltinn er á leið frá marki er allt í einu orðið víti (af því að dómari sér það á video). Í “gamla daga” hefði dómari aldrei dæmt það og stundum færðu þeir aukaspyrnur og hendi bara út fyrir teiginn ef það var á mörkunum. Þetta var allt saman miðað að því að láta ekki lítil ómerkileg atriði valda því að leikurinn vinnst á flautunni. Svona var fótboltinn sem ég ólst upp við og sá sem skapaði þá ástríðu sem enn lifir.

    Fyrir þá sem segja að þetta sé bara væl og að þetta sé allt svart og hvítt og að VAR sé næstum alltaf að dæma rétt. Þá er svarið einfaldlega að rétt og leiðinlegt er ekki betra en skynsamlegt og skemmtilegt. Ef við viljum breyta reglunum til að allt sé svart og hvítt og aldrei neinn vafi þá er alveg hægt að gera það. Það eru 17 reglur í fótbolta, flestar snúast að framkvæmd þegar boltinn er ekki ekki í leik. NFL er með reglubók sem er 201 síða, 7 dómara á vellinum, VAR, og þjálfarar geta óskað eftir endurskoðun. Leikurinn stoppar/byrjar um 120-150 sinnum.

    Ég vil ekki fótbolta þar sem varnarmenn þurfa að láta saga af sér hendurnar. Ég vil ekki fótbolta þar sem sóknarmenn geta ekki vitað hvort þeir séu rangstæðir af því að það þarf tölvu til þess. Ég vil ekki fótbolta þar sem leikkerfin fara að mestu að snúast um að það komast inní teig til að fiska víti. Ég vil ekki fótbolta þar sem maður fagnar meira þegar maður horfir á leikinn daginn eftir og veit hvaða mörg fengu að standa. Ég vil ekki fótbolta þar sem leikmenn þora ekki að tjá sig um reglurnar af því að þeir varla skilja þær. Ég nenni ekki að eyða tíma mínum í að horfa á videóleik.

  8. Ég er algerlega sammála þessum ágæta pistli.

    En… hvernig kemur geimfari sem lést á sviplegan hátt þegar NASA var að prófa Apollo áætlun sína dómaraskandal í VAR við?
    Fannst það frekar kómísk lesning hérna ;D

  9. Sæl og blessuð.

    Ég var fylgjandi VAR í fyrra, minnugur marka á borð við það sem Mata skoraði gegn okkur í sáru tapi gegn MU. Þar var sá slóttugi kolrangstæður og munaði ekki tánögl eða vörtu – hann var tveimur mannbreiddum fyrir innan þegar hann fékk boltann. VAR er einmitt sett fram til höfuðs svona rugli.

    En þar sem við erum að upplifa nú, og er rakið í þessum pistli og viðbrögðum við honum, er afskræming á þeim hugmyndum sem bjuggu upphaflega að baki þessu fyrirbæri. Þetta er orðið eins og helgihald í rétttrúnaðarkirkjunni, allt þarf að vera nákvæmlega á sínum stað og engu má skeika. Stundum grínast menn með það að fótboltinn sé orðinn eins og trúarbrögð. Þessi hárnákvæmni er einmitt vísbending um að sú hugsun sé að ryðja sér til rúms og hún er einmitt lýsandi dæmi um að fótboltinn á einmitt ekki að vera hluti af þeirri litríku kateroríu sem trúarbrögðin eru! Hann er afþreying, skemmtun, gleði og sorg – fullur af tilfinningum, spennu og taktíkt. VAR er að slátra þessu öllu.

    Nú þarf að endurskoða þetta – ef þeir eru yfir höfuð hæfir til nokkurra hluta þessir PL prelátar. Sé sóknarmaður samsíða varnarmanni þá er hann réttstæður – óháð því hvað millimetralínurnar segja. Og talandi um það – marklínutæknin. Við erum að tala um íþrótt sem fer fram á grasi. Vissulega er það snöggslegið en þetta er ekki parket eða dúkur. Millimetramælingar eiga ekki heima við þær aðstæður. Ef boltinn er svo langt kominn inn fyrir línuna að þar skeikar einhverju því sem gæti staðið og fallið með stráunum sem hafa verið lituð þá dæmist tuðran inni í markinu.

    Jæja, eina sem maður getur gert er að vona að gæfan fari nú að snúast okkur í vil. Það er vissulega gott að orna sér við bágt gengi Everton eftir líkamsárásirnar þarna á dögunum en ég er kominn með upp í kok af þessu rugli.

    8
  10. Oooog þegar meiðslastaðan getur vart orðið verri greinist Alisson með Cvef. Hversu f****** pirrandi.

    1
  11. Elsku fólk, við vinnu deildina þetta árið þrátt fyrir “var” og látum ekki deigan síga. Y.N.W.A. Er svolítið farinn að missa áhugann á leiknum í Enska. Horfi á Þýska boltann og þetta virðist ekki vera vandamál þar. Að breyta einhverju á Bretlandi er eins og að snúa risaolíuskipi, það er bara þannig. Það þurfti heimsfaraldur til að þeir notuðu marga bolta í leik en ekki sama boltann allan leikinn sama hvert hann fór.

    3
  12. Góð færsla. En er ekki vandamálið jafnvel enn djúpstæðara? Þeas. er notkun á VAR ekki farinn að breyta í grundvallaratriðum hvað það er sem ræður því hver vinnur fótboltaleik og hvernig lið spila fótbolta? ??Eitt dæmi er hvernig dæmt er á hendi. Allir sem hafa spilað fótbolta á einhverjum standard vita að stundum skoppar boltinn illa eða einhvern veginn fer í hendina. Fyri VAR þá voru varnarmenn varkárir að sveifla ekki höndunum eða nota þær þannig að virtist að þeir væru að reyna að nota þær. Dómararnir notuðu síðan skynsemi til að sjá hvort um “raunverulega” hendi væri að ræða. Í dag er það ekki hægt vegna þess að video sýnir að boltinn fór í hendina. Lögin segja það er bannað. Það “verður” að vera hendi. Og við höfum meira að segja breytt reglunni þannig að dómarinn hefur hreinlega ekkert vald lengur til að segja að þetta hafi ekki verið hendi. Svo eftir VAR þá er hendisreglan — eitthvað sem mjög sjaldan var stórmál í fótbolta orðin að meiriháttar máli. Bara í EPL hafa verið haugur af vítaspyrnum og mörkum dæmd af fyrir hendi sem langflestir sem spila fótbolta hefðu aldrei verið að kvarta um fyrir VAR. Í mínum huga er þetta stórbreyting á fótboltanum sem gerir hann miklu verri. Það er erfitt að skora í fótbolta. Eitt mark oftar en ekki ræður úrslitum. Ef við förum að gefa liðum víti í hvert sinn sem boltinn fer í hendina á varnarmanni þá erum við kannski að bæta við einhverjum 25-50 mörkum á leiktímabili. Heldur einhver að leikmenn og þjálfarar fari ekki að leita leiða til að fá þau mörk? Heldur einhver að það hafi ekki þegar gerst?

    Annað dæmi er það að það eru núna allt allt aðrar reglur fyrir fótbolta í aðdraganda marks og við vítteiginn því að þar eru VAR að endurskoða hluti en gera minna af því þegar um almennan leik er að ræða. Gott dæmi er vítið sem var dæmt á Fabinho. Dómarinn dæmir aukaspyrnu því að það mátti út frá sanngirni segja að þetta gæti verið aukaspyrnubrot. En hann hefi aldrei dæmt víti á þetta því að þetta var aldrei sanngjarnt vítaspyrnubrot. Þeas þetta var mjög soft brot og brjálæði hefði verið að gefa víti. En með VAR þá er fundið upp á því að kannski hafi þetta verið á línunnu og því verði að dæma víti. ??Hér komum við að grundvallaratriðinu sem VAR getur ekki leyst. Fótbolti, þessi ástríðufulli leikur, hefur í 100+ ár mótað reglur sem eru einfaldar og að mestu skýrar og dómarar hafa síðan notað þær og túlkað til að halda liðunum við efnið. Vítateigurinn er einn staður þar sem dómgreind dómarans er svo mikilvæg. Hann er risastór og í dag er það orðið þannig að minniháttar brot eða hendi lengst út í teig þegar boltinn er á leið frá marki er allt í einu orðið víti (af því að dómari sér það á video). Í “gamla daga” hefði dómari aldrei dæmt það og stundum færðu þeir aukaspyrnur og hendi bara út fyrir teiginn ef það var á mörkunum. Þetta var allt saman miðað að því að láta ekki lítil ómerkileg atriði valda því að leikurinn vinnst á flautunni. Svona var fótboltinn sem ég ólst upp við og sá sem skapaði þá ástríðu sem enn lifir.

    Fyrir þá sem segja að þetta sé bara væl og að þetta sé allt svart og hvítt og að VAR sé næstum alltaf að dæma rétt. Þá er svarið einfaldlega að rétt og leiðinlegt er ekki betra en skynsamlegt og skemmtilegt. Ef við viljum breyta reglunum til að allt sé svart og hvítt og aldrei neinn vafi þá er alveg hægt að gera það. Það eru 17 reglur í fótbolta, flestar snúast að framkvæmd þegar boltinn er ekki ekki í leik. NFL er með reglubók sem er 201 síða, 7 dómara á vellinum, VAR, og þjálfarar geta óskað eftir endurskoðun. Leikurinn stoppar/byrjar um 120-150 sinnum.

    Ég vil ekki fótbolta þar sem varnarmenn þurfa að láta saga af sér hendurnar. Ég vil ekki fótbolta þar sem sóknarmenn geta ekki vitað hvort þeir séu rangstæðir af því að það þarf tölvu til þess. Ég vil ekki fótbolta þar sem leikkerfin fara að mestu að snúast um að það komast inní teig til að fiska víti. Ég vil ekki fótbolta þar sem maður fagnar meira þegar maður horfir á leikinn daginn eftir og veit hvaða mörg fengu að standa. Ég vil ekki fótbolta þar sem leikmenn þora ekki að tjá sig um reglurnar af því að þeir varla skilja þær. Ég nenni ekki að eyða tíma mínum í að horfa á videóleik.

    7
  13. Gleymum því bara ekki í allri þessari umræðu og ég veit að Einar kom inn á þetta mjög vel að þetta hefur ekkert að gera með VAR sem slíkt heldur þá sem leggja línurnar og dómara númer 1.2 og 3 því tæknin er bara einhver tækni sem þú þarf að kunna meðhöndla og ég er ekkert frá því að Höddi B sé að segja nákvæmlega það rétta hér að þessir dómarar eru bara rusl þó það sé ljót að segja það þá er búið að láta þá hafa þvílíkt að hjálpargögnum til að reyna bjarka þeim upp úr sorpinu en þeir sökva bara dýpra og dýpra. Það er staðreynd í dag að LFC eru að missa menn í meiðsli vegna álags og þvermóðsku þeirra sem sjórna þessari deild og síðan spila þeir alltaf á móti 13 manns í deildinni !
    VAR er 1 maður og dómarinn 1 maður. Miðað við þetta allt er allveg ótrúlega gott að vera í 2 sæti í deild( við ættum samt að tróna á toppnum með 4 stiga forskot) og þurfum 1 jafntefli til að komast áfram í CL það kalla ég afrek sem fá lið myndu leika eftir í þeirri stöðu sem LFC er í.

    YNWA.

Brigton 1 – 1 Liverpool

Ajax á þriðjudag (Upphitun)