Hvernig þróast miðjan?

“Nýr leikmaður”

Thiago Alcantara var mættur aftur á æfingasvæðið í dag og lét klúbburinn þær jákvæðu fréttir ekkert fara milli mála á samfélagsmiðlunum. Það er ekkert þreyttara en frasinn um að endurheimta leikmann úr meiðslum sé eins og leikmannakaup en hann á ansi mikið við núna enda Thiago bara búinn að spila 135 mínútur í deildinni.

Það er oft skautað yfir þá staðreynd að hann hafi ekki verið með það sem af er vetri enda vandamálin alvarlegri í öðrum stöðum en þarna er á ferðinni leikmaður sem er hærra skrifaður en t.d. bæði Henderson og Wijnaldum. Hvort sem hann standi undir því hjá Liverpool er svo annað mál.

Endurkoma hans er ekki síður mikilvæg í ljósi þess að Liverpool missti líka Fabinho af miðjunni með langtímameiðslum Van Dijk og Gomez. Hann er besti miðjumaður liðsins, Thiago þ.m.t. og því töluverð blóðtaka að missa hann úr sinni stöðu. Það er líka skautað framhjá þessari staðreynd vegna þess að það kom á daginn að hann er líklega næstbesti miðvörður í heimi og miðjan hefur haldið ágætlega hjá Liverpool.

Vonandi fáum við Thiago inn án þess að hann meiðist aftur eða þá að Henderson eða Wijnaldum detti þá út í staðin. Það er þörf á þeim öllum til að hægt sé að dreifa álaginu eftir áramót. Sama á auðvitað við um Milner en hann verður líklega varabakvörður eftir áramót frekar en miðjumaður.

Ný stórstjarna? 

Ekki nóg með þessi meiðsli hjá Thiago þá hafa Naby Keita og Ox lítið sem ekkert gert til að létta undir í fjarveru hans. Keita er búinn að spila 311 mínútur í deildinni sem er litlu meira en Thiago. Meira að segja James Milner er meiddur. Það er í raun galið að Liverpool sé á toppnum eins og staðan er núna.

Þar komum við af því besta við þetta annars hræðilega tímabil, það er mögnuð innkoma Curtis Jones. Við vissum alveg og höfum vitað lengi að hann er góður, eitt mesta efni akademíu félagsins undanfarin áratug en það var síður en svo sjálfgefið að hann fengi séns og hvað þá að hann myndi grípa hann á svipaðan hátt og Trent Alexander-Arnold gerði fyrst þegar hann fékk sénsinn.

Þegar tímabilið byrjaði var alveg hægt að færa rök fyrir því að Henderson, Wijnaldum, Fabinho, Thiago, Keita, Ox og Milner væru allir fyrir framan hann í goggunarröðinni á miðjunni. Jafnvel einn af fab four ef þeir eru allir leikfærir og Minamino var frekar í umræðunni en Jones. Hann gat ekki gert sér mikla von um mínútur nema í bikarleikjum og mögulega einhverjum Meistaradeildarleikjum. Ekki ósvipað og þegar Trent var með Clyne fyrir framan sig. Trent var ekki einu sinni næstur í röðinni, Gomez var varabakvörður. Clyne var búinn að vera fastamaður í úrvalsdeildarliðum í nokkur ár og það var ekkert í kortunum að fara breytast þegar hann meiddist.

Auðvitað er auðvelt að fullyrða núna að hann hefði alltaf náð í gegn á endanum en það er bara alls ekkert víst, það var sannarlega ekki gefið þá og það nákvæmlega sama á við um Curtis Jones núna, ef Thiago, Keita og Ox hefðu ekki allir meiðst á sama tíma er ekkert víst að framtíð Jones væri hjá Liverpool. Wilson, Woodburn, Brewster, Solanke, Rossiter og svo ótal margir fleiri fengu aldrei svona tækifæri, ekki bara mínútur heldur alvöru traust og ábyrgð í langan tíma. Hvað þá að þeir hafi gripið tækifærið eins og Jones.

Eins og staðan er núna þá finnst manni ekki aðeins öruggt að framtíð Curtis Jones sé hjá Liverpool þá er erfitt að sjá þessa sem eru meiddir slá hann úr liðinu þegar allir eru heilir. Thiago fer beint í liðið auðvitað þegar hann er klár og spilar svosem allt annað hlutverk en Jones, Ox og Keita eru hinsvegar komnir með alvöru samkeppni sem þeir eru ekki að fara vinna nema þeir nái að halda sér heilum í einhvern tíma. Sama á við Milner ef við tökum hann með miðjumönnunum, Jones er betri kostur fyrir Liverpool en Milner (í flestum tilvikum).

Með samanburði á Jones og Alexander-Arnold er átt við 19 ára útgáfu þessara leikmanna. Trent er þremur árum eldri og hefur á þeim tíma þróast úr efnilegum bakverði í þann besta í sinni stöðu í heiminum og leysir nú hlutverk sem var í raun ekki til fyrir þremur árum. Curtis Jones er rosalega spennandi og búinn að vera algjörlega frábær undanfarið. Ef hann þróast á næstu árum eitthvað í líkingu við Alexander-Arnold erum við að tala um alvöru heimsklassa. Jones er klárlega líklegasti scouserinn síðan Trent kom úr akademíunni. Vonandi verða þeir næstu Gerrard og Carragher hjá Liverpool, báðir hafa klárlega karakterinn í það.

Bæði Alexander-Arnold og sérstaklega Curtis Jones búa að því hversu rosalega vel félagið er þjálfað, ekki bara aðalliðið heldur félagið í heild. Jones sérstaklega enda að koma 3-4 Klopp árum seinna en Trent úr akademíunni. Curtis Jones hefur spilað fjölmargar stöður í akademíunni og í fullt af liðum sem gátu ekki blautan, en alltaf í fótbolta sem rímaði við hugmyndafræði aðalliðsins sem gerir það að verkum að hann veit jafnvel betur til hvers er ætlast af honum núna þegar hann fær sénsinn en gamall hundur eins og Thiago sem kemur úr allt öðrum leikstíl og umhverfi. Jones er búinn að vera rúmlega hálfa ævina hjá Liverpool.

Við erum að sjá dæmi um afrakstur þessarar þjálfunar í fjölmörgum stöðum. Kelleher er komin framfyrir Adrian í markinu. Neco Williams veit alveg til hvers er ætlast af honum í bakverðinum og hefur verið vaxandi. Rhys Williams getur byrjað sinn fyrsta deildarleik gegn Harry Kane án þess að hafa neinn af opinberum miðvörðum Liverpool með sér í vörninni. Harry Kane og félagar þorðu varla að sækja þrátt fyrir það.

Við höfum séð U23 ára liðið koma nánast í heild sinni saman og standa í alvöru liðum. Fínt dæmi í fyrra þegar Shrewsbury var sýnd rosalega mikil óvirðing með því að tefla ekki fram aðalliðinu…aðeins til að sjá U23 ára liðið slá þá úr leik. Fæstir í þessu U23 ára liði eru mikið eldri en tvítugir.

Það sem Jones er að gera núna er í raun miklu öflugra en Trent gerði fyrir 3-4 árum. Það er miklu meiri samkeppni um stöðu hjá Jones og Liverpool er miklu betra lið í dag. Það er áhugavert að velta fyrir sér hversu mikils virði leikmaður eins og Curtis Jones er í dag, hvað þá núna eftir Brexit bullið?

Kjarninn

Gleymum ekki að innkoma Jones í Liverpool liðið og frammistöður hans undanfarið eru að miklu leiti í boði Wijnaldum og Henderson sem stjórna ennþá öllu á miðjunni og vinna skítverkin. Jones gerir auðvitað sitt líka en grunnurinn í öllum leik Liverpool er það sem gerist á miðjunni. Það hefur tekið langan tíma að meta framlag miðjumanna Liverpool og þeir eru ennþá töluvert vanmetnir en það er aðallega vegna þess að hlutverk miðjumanna Liverpool í dag er allt öðruvísi en við þekktum það áður.

Mögulega hefur Klopp verið að reyna breyta því hjá Liverpool og þróa miðjuna áfram í aðeins sókndjarfari einingu en án árangurs ennþá. Það er magnað að liðið hafi núna keypt þrjá leikmenn í þessa stöðu fremsta miðjumanns eða aðal playmaker og þeir eru hver öðrum oftar meiddir. Thiago byrjaði strax á því að meiðast. Ox er búinn með langtímameiðsli og nokkur smávægileg meiðsli og Keita fær bara aldrei brake frá meiðslum. Curtis Jones er núna kominn í þetta mix sem er vel. Shaqiri sem gæti verið kostur í þetta hlutverk í hallæri hefur líka alltaf verið meiddur. Þetta er í raun alveg með ólíkindum.

Á hinum endanum er svo Fabinho og hann er farinn af miðjunni vegna meiðsla hjá bókstaflega öllum fyrir aftan hann.

Milner er að komast á aldur en hann hefur verið geggjaður þjónn undanfarin ár og alveg í þessum flokki með Henderson og Wijnaldum. Núna er eins gott að semja við Wijnaldum því það verður ekki gott að skipta þeim báðum út með þessum meiðslahrúgum.

Fleiri ungir væntanlegir?

Persónulega held ég að Curtis Jones verði sá eini úr þessum akademíuhópi sem nái vel yfir 100 leikjum fyrir Liverpool en það gæti breyst hratt. Leikmenn eins og Kelleher, Rhys og Neco Williams hafa allir fengið smjörþefinn og gætu verið 1-2 meiðslum lykilmanna frá því að ná í gegn. Eins eru fleiri í akademíunni sem gætu alveg þróast í alvöru leikmenn. Clarkson og Cain voru í síðasta Meistaradeildarleik sem dæmi.

En fyrir utan Curtis Jones held ég að sá eini sem virkilega er líklegur til að ná í gegn og er ennþá meira efni er Harvey Elliott. Hann er að spila frábærlega 17 ára í Championship deildinni og var mjög spennandi í þeim leikjum sem hann fékk í fyrra. Vonandi sparkar hann Origi eða Minamino fljótlega aftar í goggunarröðina á Anfield.

Leikmannakaup nauðsynleg?

Innkoma Keita, Ox, Milner og Thiago ásamt fótfestu Jones gætu létt álagið á miðjunni næstu vikur sem hefur áhrif á vörnina líka. Vörn Liverpool hangir samt fullkomlega á bláþræði eins og við sjáum best á því að Fabinho og Rhys Williams byrja leikinn í gær. Matip hefur ekki náð 10 leikjum í deild á þessu ári á meðan Van Dijk og Gomez verða ekki meira með. Liverpool er Dejan Lovren færri í þessari stöðu en á síðasta ári og var hún of tæp þá líka. Það væri fáránlegt að gera ekkert í janúar en ég óttast töluvert að svo verði raunin.

6 Comments

  1. Takk fyrir flottan pistil. Fínt að lesa hann á meðan maður fylgist með svanasöng Ole.

    4
  2. Ég held að Klopp muni treysta á ungu leikmennina í vetur frekar en að kaupa miðvörð í janúar. Þetta hefur gengið vonum framar með Rhys og Philips og þeir hafa leyst verkefnið vel en það er enn langt í VVD og Gomez og Matip er engin langtíma lausn heldur, með ca 15-20 leiki á tímabili. Þeir gætu komið okkur á óvart og splæst í einn sterkan varnarmann, en ég held ekki.

    5
  3. Klopp vinur minn kaupir í jan ef eitthvað nothæft verður í boði.
    Annað er bara út úr korti, Virgill litli og Gomes úti og Matip er smíðaður úr brothættu efni , sem er synd því hann er hörkuleikmaður í þau fáu skipti sem hann er heill og nær runni til að komast í leikform.
    Við bara verðum að kaupa þó janúarmarkaðurinn sé oft erfiður.

    Ég held að við verðum með allar klær úti til að klófesta miðvörð, vona það amk innilega.
    Ég ætla að biðja jólasveininn um eitt stykki David Alaba, vill fara samkvæmt slúðri og getur leyst margar stöður, m.a. miðvörð. Heimsklassa leikmaður í heimsklassa lið.

    5
  4. Frammistaða Curtis Jones á þessu tímabili er jafnvel betri fréttir en það að Liverpool sé á toppnum.
    Thiago spilaði fanta vel þessar 135 mínútur sem hann spilaði áður en fanturinn hann Richarlison réðst á hnéð á honum. Hann hefur ekki verið meiðslapési til þessa þannig að það er vonandi að þessi hnémeiðsli dragi ekki dilk á eftir sér.
    Ég verð að viðurkenna að fyrir þetta tímabil var mér eiginlega bara sama um Everton, þeir einhvern veginn hafa aldrei skipt máli, eru bara eitthvað miðjumoðslið og alvöru samkeppnin hefur verið á móti liðunum úr næstu borg. Eftir leikinn í haust er ég hins vegar búinn að átta mig á því að Everton er af síðustu sort. Þetta lið sko, með þennan skítamarkmann sem fantast eins og ég veit ekki hvað á hnéð á van Dijk með einstökum klaufaskap og svo með Richarlison sem er jafnvel meira fráhrindandi… finnst verst að Gylfi sé í liðinu því að maður heldur með honum amk stundum þegar hann er í annarri blárri treyju.
    En allavega, er mjög spenntur fyrir Thiago og er vongóður um að hann haldist heill.

    3

Liverpool 2 – 1 Tottenham

Crystal Palace á Selhurst Park