Liverpool 1 – WBA 1

Fyrstu stigin sem við missum á Anfield á tímabilinu

Liverpool fékk dauðafæri til að komast í 5 stiga forystu í dag þegar fallbaráttulið WBA með Sammyana tvo mættu á Anfield. Liðið ákvað að gefa ekki það statement út heldur skíta fullkomlega upp á bak, tók bara eitt stig og svo sannarlega ömurlegt að síðasti leikur ársins á Anfield hafi endað á þennan hátt.

Fyrri hálfleikur

Okkar menn mættu býsna sprækir inn í leikinn og náðu að pinna gestina inn á þeirra vallarhelming. West Brom stillti liðinu upp 6-4-0 í byrjun en þrátt fyrir það vorum við að komast á bakvið bakverðina og senda krossana inní en þar vorum við ekki alveg á tánum.

Það var þó svo sannarlega ekki staðan á honum Sadio okkar Mané á 12.mínútu þegar LFC hafði þolinmæði í að halda boltanum þar til að smá svæði varð til hjá Sadio, herra Matip negldi nokkuð þéttri sendingu inn í teiginn þar sem afgreiðsla Mané var geggjuð, tók boltann á kassann og negldi í netið af vítapunkti algerlega óverjandi.

Eftir 20 mínútur hægðum við á okkur, vorum enn að komast í ákjósanleg sóknarfæri en vorum ekki nógu margir í teignum eða urðum óþolinmóðir og tókum einhverjar draumasendingar sem West Brom skölluðu frá, fórum að klappa boltanum aðeins of mikið og þrátt fyrir 85% posession í hálfleiknum náðum við ekki að skapa okkur fleiri almennileg færi svo við fórum með 1-0 inn í hálfleik.

Seinni hálfleikur

Því miður vorum við ekki á því að setja upp um gír í byrjun síðari hálfleiks, leikkerfi gestanna virtist halda áfram að koma okkur niður á sitt plan, lélegar ákvarðanatökur og slakar sendingar í hvívetna, WBA fengu færi og á 60.mínútu kom svo enn á ný sönnun þess að við verðum einfaldlega að kaupa í janúar þegar Joel Matip tognaði greinilega á nára við að bjarga sendingu inn í teig. Rhys Williams mætti til leiks.

Þar sem að við vorum ekkert að ná takti þá bara fóru WBA að ná sjálfstrausti og á 72.mínútu þurfti Alisson að bjarga okkur þegar skyndisókn skutlaði þeim bara einum í gegn eftir langa sendingu og varði eins og alltaf á einfaldan hátt virkilega vel.

Leikurinn hélt áfram í sama takti, við sloppy og lítið bit og gestirnir bara allt í einu farnir að sækja og fá töluvert af hornum. Upp úr horni þar sem Curtis Jones ákvað bara að gefa horn kom svo jöfnunarmarkið. Stutt horn og bolti inní þar sem eini veikleiki Fabinho í fótboltanum kom í ljós, hann var étinn all hressilega og skallinn í stöngina inn. Sam blessaður, fokking Sam blessaður.

Curtis Jones var tekinn útaf í kjölfarið, átti að vera löngu farinn karlanginn og Ox kom inná. Það var ekki fyrr en á 89.mínútu sem að Johnstone þurfti næst að verja og það gerði hann stórkostlega eftir skalla Bobby sem var þá skipt útaf fyrir Origi. Sú skipting gladdi mig ekki.

Hún breytti engu, við héldum áfram að gera ekki neitt og þessi leikur kristallaðist þegar við fengum horn á síðustu sekúndunni og Trent kórónaði arfaslakan leik sinn með því að tippa á stutt horn á Ox sem var étinn af varnarmanni og við með fullan vítateig. Flautað af.

Fyrstu stigin sem við töpum á Anfield halda áfram að búa til mítuna um hvað Sam Allardyce er mikill snillingur. Afsakið meðan ég æli!!!

Umræðupunktar eftir leik

– Við eigum bara ekkert að fara í nokkur frí. Það virðist bara alltaf gerast að þegar við fáum þessar löngu hvíldir sem við biðjum stundum um þá bara kemur liðið til baka sloppy, spila á lágu tempói og menn keppast um að vera valdir ekki menn leiksins.

– Það er rannsóknarefni hvers vegna við skiptum niður um gír eftir að vera búnir að skora og með WBA í nauðvörn. Skyndilega fóru að koma langir boltar sem voru étnir, menn notuðu 6 – 9 snertingar á boltann áður en sent var á næsta. Hægt og rólega fékk eitt lélegasta lið deildarinnar sjálfstraust, á Anfield!

– Svo kemur hálfleikur og maður er farinn að treysta á það að þá nái menn að endurstilla. Það tókst heldur betur ekki í kvöld. Við héldum áfram að spila algerlega upp í hendur WBA, þeir gáfu bakvörðunum séns á að senda inní og þar voru alltaf 6 – 8 gestir sem stönguðu frá. Curtis minn átti sinn slakasta leik í vetur og það var því miður hann sem gaf þetta horn sem WBA þurfti til að búa sér til stig. Hves vegna Klopp var ekki löngu búinn að skipta honum útaf er annað atriði sem hægt væri að ræða.

– Joel Matip. Enn ein meiðslin, núna nárinn sem er nokkrar vikur frá. Það er ekkert við Rhys Williams að sakast en hann er ekki sá sem við getum nú stólað á þessar vikur sem við þurfum að hafa hafsent kláran í slaginn. Hvort verður keypt í janúar veit ég ekki en það er algerlega ljóst að það er ekki séns að stóla á Matip. Ekki nokkur.

– Aðalmálið er auðvitað það að okkur hafi mistekist að nýta þann séns að komast í fimm stiga forskot og nýta það momentum sem við bjuggum til á Selhurst Park. Ég sagði nýlega að 1-1 jafntefli City heima gegn WBA sýndi það að þeir væru ekki á þeim stað sem þeir myndu vilja vera og þá verð ég að vera samkvæmur sjálfum mér. Ég setti stór orð í loftið eftir síðasta leik en í kvöld var alveg ljóst að Liverpool FC er ekki á þeim stað sem ég vonaðist eftir. Svona frammistaða er ekki til nokkurs útflutnings og ég treysti því að þessir leikir sem við höfum nú orðið vitni af gegn Brighton, Fulham og WBA séu úr sögunni.

– Veit ekki hvern á að velja mann leiksins, Robbo var bestur ásamt Mané í fyrri hálfleik en í seinni dóu allir fannst mér. Ég viðurkenni ofboðslegt svekkelsi með frammistöður Salah og Trent í kvöld. Ég hef miklar áhyggjur af Trent, hann er einfaldlega að spila illa hingað til í vetur. Ég fyrirgef Curtis Jones svona frammistöðu, bara 19 ára kappi lendir stundum í svona.

– Næsta mál er stutt undan, förum til Newcastle á miðvikudaginn og mætum heimamönnum. Eftir þessa ömurð í dag þurfa menn að taka þrjú stig þar takk!

38 Comments

  1. 100% aumingjaskapur, ömurleg frammistaða hjá öllu liðinu.
    Þvílíka skita hjá leikmönnum

    8
  2. STÓR vonbrigði! Curtis Jones – ekki maður leiksins!! Segi ekki meira!

    7
    • Hann var skelfilegur og óskiljanlegt að hann hafi fengið að hanga svona lengi inná vellinum. Þessir fáránlegu snúningar hans kostuðu okkur á endanum.

      Miðjan var sérlega hugmyndasnauð í dag.

      Þetta 5 skiptinga rant hjá Klopp verður furðulegra með hverjum leiknum.

      6
  3. Hvernig getur Klopp ekki gírað menn uppí leiki gegn Fulham og WBA en gjörsamlega valtað yfir miklu betri lið er óskiljanlegt.

    8
    • Jújú Curtis Jones hefði mátt setjast á bekkinn í hálfleik en Salah hefði mátt gera það líka og þeir sem til þekkja eiga að vita af hverju Salah var ekki með hausinn með sér á vellinum

      1
  4. Algjört áhugaleysi. Vonandi að menn taki sig saman í andlitinu og mæti til leiks næst.

    6
  5. Eins og ég hef alltaf vitað þá er rosalega lítill munur á því að vera miðlungslið og topp lið í ensku deildinni.

    Mér finnst við ekki hafa átt neitt betra skilið en jafntefli í þessum leik fyrst við gátum ekki nýtt þau færi sem við fengum og hleyptum þeim svona inn í leikinn í síðari hálfleik. Það er synd að missa Matip en svo sem ekki mikið við hann að sakast að vera svona mikill meiðsla pétur. Það er sárleg vöntun á fullorðnum miðvörðum. Vonandi verður einn slíkur keyptur í glugganum.

    7
  6. Að kenna Curtis Jones um þetta er ekki minni skita en Liverpool sýndi í dag. Að klára leikinn ekki á fyrstu 45 er síðan rannsóknarefni. Í seinni hringdu viðvörunarbjöllur sem ekki var hlustað á og þá getur farið illa. Skil ekki þetta andleysi gagnvart minni spámönnum en hvað veit ég. Þetta verður undarlegt tímabil en vonandi sitjum við á toppnum í vor.
    YNWA

    8
  7. Sælir félagar

    Skelfileg frammistaða liðsins eins og venjulega eftir góð frí. Menn hangandi á boltanum (Jones) án nokkurrar meiningar sem á endanum kostaði mark. Leikmenn Liverpool hægir og fyrirsjáanlegir einbeitingarlausir og sendingar til baka fleiri en frammávið. Hangandi eins og hundar á roði á einu marki sem bauð uppá skyndisóknir og mörk frá andstæðingnum. Heppni og góður markmaður björguðu stiginu á móti liðinu í næst neðsta sætinu.

    Big Fat Sam tók Klopp í ósmurt með upplegginu á leiknum sem kostaði 2 stig. Meisturum ekki sæmandi að spila svona drullufótbolta án allrar sköpunar og slow motion frammistöðu. Ég er verulega ósáttur við frammistöðu liðsins í þessum leik og að láta Jones klappa boltanum í 80 mínútur var slæmt og setja svo lufsuna Origi inná fyrir eina manninn fyrir utan Mané sem var að gera eitthvað. Klopp fær falleinkunn frá mér sem er afar sjaldgæft.

    Það er nú þannig

    YNWA

    11
  8. Djöfulsins skita. Menn að koma úr viku fríi. Þessi 2 töpuðu stig geta orðið okkur annsi dýr þegar uppi er staðið. Áfram gakk YNWA

    5
  9. Þetta sá ég koma í 50 mín í þessum leik. Sjaldan liðið eins illa með 1-0 forystu og í dag. Á meðan við höldum sjó getum við unnið mest. Vil fá Thiago inn sem fyrst því hann stjórnar leikjunum.

    3
  10. GRAUTFÚLT. Salah, Jones, Trent og Robertson allir drullulélegir. Trent hefur bara ekki sést á þessari leiktíð. Klopp alltof seinn með skiptingar og afhverju skipti hann ekki Shac inná.

    7
  11. Þetta var ömurlegur seinni hálfleikur frá a-ö. Viku hvíld skilar sér í lélegasta seinni hálfleik tímabilsins, hvernig má það vera? Jones og Gini voru mjög fljótlega áberandi týndir í seinni og bjuggust örugglega flestir við skiptingu á 60. til 65.min, sérstaklega að Jones myndi víkja. Hvar er Keita? Hann var hrikalega flottur í Palace leiknum og átti ekki skilið að missa sætið sitt.

    Rosalega flott að vinna 7-0 síðasta leik en Klopp er núna búinn að stýra liðinu í tveimur virkilega lélegum 1-1 leikjum gegn nýliðum á stuttum tíma. Hann þarf að fara líta í eiginn barm hvernig hann er að setja þessa leiki upp. Ég er alveg brjálaður yfir þessum leik en sem betur fer er stutt í næsta leik til að bæta fyrir þessa hörmung og Jones kallinn fær vonandi sæti á bekknum.

    6
    • Keita er víst meiddur sagði Klopp, eitthvað lítið … en jú ekki í liði og ekki á bekk ..

      1
  12. Við fengum nákvæmlega það sem við áttum skilið úr þessum leik.
    WBA voru komnir til að pakka í vörn og vona að 1-2 færi myndu koma á þessu 90 mín.
    Við virkuðum varkárir í stöðunni 1-0 og er það ólíkt okkur. Maður hefði viljað sjá okkur keyra á þá og ná þessu mikilvæga marki númer 2 en það kom aldrei og þeir náðu þessum tveimur færum og skoruðu úr öðru.

    Það sem pirrar mig mest er að við erum búnir að sjá svona nýlega í Fulham leiknum og hélt maður að við myndum ekki koma með aðra svona framistöðu aftur í bráð.
    Menn virkuðu kærulausir og ekki á fullum hraða og núna var það ekki helvítis leikjaálagið sem er að trufla núna með viku hvíld.

    Nú vill ég svo að Liverpool fari að selja eða gefa þessa meiðslapéssa. Matip, Keita, Shaqiri og OX eru alltaf minna og meira meiddir. Inn á milli koma þeir og jafnvel heilla mann upp úr skónum en heilt yfir eru þeir meira hjá sjúkraþjálfurum heldur en inn á vellinum.

    Með sigri í dag hefðum við geta komið okkur í frábæra stöðu en í staðinn þá þurfum við að sætta okkur við góða stöðu en alltaf þegar maður heldur að við séum að fara að stinga af þá hleypum við pakkanum aftur og aftur til okkar.
    já já við með okkar vandamál á toppnum en eins og í þessum leik, því meira sem við leyfum öðrum liðum að hanga í okkur því meiri trú fá þau og eins og í dag gætu þeir nýtt sér það og við sitjum eftir með sárt ennið.

    YNWA – Gott að það er stutt í næsta leik.

    3
  13. Sæl og blessuð.

    Já, þetta var ljóti jólapakkinn sem Klopp færði okkur. Þessi uggur blundaði í mér fyrirfram – að okkar menn myndu koma latir, ófrumlegir, slappir og hugmyndalausir inn eftir langþráða átta daga hvíld. Þetta er einhver ferrarikomplex – stendur sig illa í hægagangi.

    Og svo er það gamall heilabrjótur hvers vegna Klopp, sem beitir sér svo fyrir því að geta skipt inn fimm varamönnum og nota svo ekkert af því sem er á bekknum, nema of lítið og of seint. Af hverju Origi kemur inn á lokamínútunum fyrir Firmino skil ég ekki og mun aldrei skilja.

    Þarna hefði þurft að hafa frá upphafi alvöru skotmenn þarna fyrir utan – Shaquiri og Chambo. Markvörður WBA sagði í viðtali nú rétt áðan að hann hefði eiginlega ekki haft neitt að gera í leiknum!

    Jæja, svona er fótboltinn!

    4
  14. Djöfuls bull að þessi leikur hafi verið skita…

    Munaði mjög litlu að þessu leikur hefði endað 3-1 fyrir Pool og ef færin hefðu verið nýtt væru þeir sem hæst grenja hér með úrslitin hoppandi kátir, lofandi mann og annan. Þetta er alltaf fín lína og menn þurfa aðeins að taka hérna facts over feelings!

    Við gjörsamlega stjórnuðum þessum leik og fengum góð færi.

    Við erum á fokking toppnum og lítum vel út. Herslumuninn vantar og þetta er allt að smella.

    YNWA

    13
    • Þetta var svekk en það var líka ólöglegt markið hjá W.B.A. Alltaf brot! Svo var það heimsklassamarkvarsla sem bjargaði þeim stigi í restina. Við áttum samt að keyra yfir þá og sýna enga iðrun.

      3
      • Aldrei brot, pakkaði bara (man ekki hver það var) saman i loftinu.

        Þvilik hörmung, ekki hægt að segja annað

        3
      • 100% löglegt mark.
        Skulum ekki kenna dómarnum alltaf um þegar liðið gerir uppá bak.

        1
      • Nei, er ekki 100% löglegt mark og það er óskiljanlegt að VAR skyldi ekki skoða svona atvik. Annað eins setja þeir í smásjánna. Það er greinilegt að sá sem skorar notar hendurnar ólöglega og það ber að skoða. Annars virðast ekki gilda sömu reglur hjá okkur og hjá öðrum hvað VAR varðar. En við erum samt bestir og meiðslalistann stærri en hjá 2-3 liðum í EPL.

  15. Bad day at the office. Það kemur leikur eftir þennan leik, við samt áfram í efsta sæti, sem ekkert lið mun taka af okkur til enda tímabilsins.

    YNWA

    2
  16. Svakalega slappur seinni hálfleikur og margir tala hérna um Jones en hvað var að frétta með Trent og hvað hann tapaði mörgum boltum en stærsta vandamálið sem ég sá í seinni hálfleik var að Liverpool leikmenn voru gjörsamlega staðnaðir án bolta sá eini sem hljóp var Robertson allir aðrir voru steingeldir

    3
  17. Sæl öll og gleðilega hátíð

    Auðvitað er það alveg drullufúlt að tapa stigum með svona framistöðu en ég vil líta á glasið sem stútfullt. Óheppni Liverpool er varðar meiðsli hafa verið ekkert eðlileg þetta tímabilið og þessir VAR dómar sem fallið hafa gegn okkur, kostað okkur fullt af mikilvægum stigum, og voru beinlínis rangir, gera það að verkum að ungir og upprennandi drengir eru að fá hrikalega mikilvægar mínútur og þeir munu gera fleiri mistök og ekki vera stöðugir í leik sínum. Ég vil þó gera orð meistar Shankly að mínum núna og minna á raunveruleikann…… “‘Ay, here we are with problems at the top of the league.’

    6
  18. Aulalegt að hafa haft 8 daga til að undirbúa leik gegn Sam Allardyce sem spilar NÁKVÆMLEGA eins og Sam Allardyce og finna samt engar lausnir.

    Veit hinsvegar að þetta verður leiðrétt í næsta leik og Newcastle teknir í kennslustund. Up The Reds!

    4
  19. Personulega fannst mer svo atakanlegt að horfa upp a getuleysu Firmino og Salah i þessum leik, að varla hefði sakað að hafa Origi inn a i stað annars. Það verður þvi að gefa Klopp minus fyrir það hvað hann var ragur við skiptingar. Þeim ollum kenni eg helst um það hvernig for.

    2
  20. Frábært hjá okkur…….6 stig gefin til 3 af neðstu liðum deildarinnar……magnað met !!!!! Brighton í 16 sæti….Fulham í 18 sæti og WBA í 19 sæti. Hugsanlega er þetta met. Algjörlega óásættanlegt af meisturum.

    3
    • Thiago var fenginn til að vinna svona leiki hann er að koma tilbaka….

      11
  21. Nenni bara ekki tala um liðið okkar er svo fúll en mikið djöfull fær Harry kane að falla oft til jarðar án þess að fá þó það væri ekki nema gult spjald en Úlfarnir eru það lið sem ég ber einhverja mestu virðingu fyrir í ensku og er lang uppáhalds lið mitt nr 2 í deildinni þeir áttu allann daginn að vinna leikinn kvöld á móti liði sem spilar sömu knattspyrnu og W.B.A ef knattspyrnu má kalla djöfull eru þetta leiðinleg lið. Pælið í því þegar TOT og W.B.A mætast eða nei það mun enginn geta það hvert er ég kominn.

    YNWA

    3
  22. Liverpool meiðslalistinn er endalaus eins og Möbiusarborði.

    Nú er kominn tími á að hugsa stíft um Matip og Keita. Eru þeir á vetur setjandi? Keita virðist meiðast hvar sem er og hvenær sem er. Ég held að hann sé ekki byggður fyrir ensku knattspyrnuna.

    Og fjandakornið, verður Klopp ekki að kaupa miðvörð!?

    Þá eru ótaldir hinir símeiddu Shaq og Ox og kannski líka Thiago. Eins og iðnaðarmiðjan okkar er yndisleg þá vinnur hún ekki svona leiki, þar sem heilu olíuskipi er lagt í teig andstæðinganna.

    Ég vona að Klopp geri eitthvað í janúarglugganum. Þetta eru of fáir menn.

    3
  23. Hvernig er andleg heilsa ykkar allra hér fyrir ofan þegar félagið er ekki á toppi deildarinnar?

    Hvílíkt aumingjavæluraus hef ég aldrei heyrt eða lesið. Skita þetta og drasl hitt. Aumingjar og letingjar.

    Þið eruð að tala um besta Liverpool lið í 30 ár. Sem átti fínan fyrri hálfleik og hefði alveg getað klárað dæmið í dag þrátt fyrir að vera með tvo 19 árs leikmenn og þriggja hæða rútu.

    Enska deildin er ekki sjálfgefin. Ef þið hafið ekki taugar í að sitja á rassinum og horfa á, þá kannski bara þegja? Amk. Láta ekki eins og þið séuð betri en Klopp? Eða eins og leikmenn sem yfirspila andstæðinginn en enda með jafntefli séu einhverjir lúðar. Úff hvað svona stofuhroki er pirrandi.

    Gleðileg jól.

    18
    • Æ, ekki þetta kjaftæði aftur. Menn bara að fá að pústa pirringnum aðeins. Fyrir mitt leyti líður mér bara betur að fá að venta og svo bara punktur. On to the next.

      2
  24. Slæm úrslit en ekki endilega svo slæm frammistaða. Keep calm and carry on. Næsti leikur takk!

    3
  25. Fínn leikur hjá okkar mönnum fyrir utan það að við náðum ekki þessari úrslitasendingu sem skipti máli og það verður að segjast eins og er að Gini eins frábær og hann er fyrir okkur er ekki að taka þessar sendingar inn fyrir sem þarf í svona leikjum. AÐ spila á móti svona vörn og finna leiðir í gegn er eins og að reyna að þræða saumnál í lopavettlingum. Thiago er maður sem elskar að þræða sendingar í gegnum þröng svæði og mikið verður gaman að sjá hann aftur á vellinum. Ég sakna líka skotógnar utan af velli og þá sérstaklega með svona gamma í teignum sem geta hirt upp fráköst ef skotið er varið eða fer af varnarmanni. Enginn heimsendir þó svona hafi farið á móti WBA og nú er næst lið sem vill spila fótbolta og það hentar okkar mönnum mun betur að spila gegn svoleiðis liði. Áfram gakk.

    2
  26. Já þetta getur Keita hugsaði ég með mér, þegar ég ber saman leikina tvo síðustu. Ég verð að viðurkenna að ég saknaði hans í gær, hann finnur alltaf einhverneginn leiðir í gegn og hjálpar til. Hann var mjög góður á móti CP … Vissulega er hann mjög oft meiddur og það held ég skilur enginn.

    Og leikurinn í gær minnti minn dálítið á Fulham leikinn, lið sem berst mikið, brýtur mikið og stoppar tempóið okkar það dregur okkar menn niður á sitt plan … sem er jú ákveðin leikjafræði á móti Klopp.

    En hugsum um hálffulla glasið. Plís. Við erum enn á toppnum. Ekki gleyma því.

    2
  27. Sælir félagar

    Það er alveg sama hvernig á þetta er litið að seinni hálfleikur var anzi lélegur hjá okkar mönnum svo ekki sé meira sagt. Auðvitað er það enginn heimsendir og auðvitað heldur lífið áfram og stutt í næsta leik. En það breytir því ekki að seinni hálfleikur var með eindæmum lélegur hjá okkar mönnum. Svo má auðvitað skamma þá sem hafa á þessu skoðun og segja það sem þeim finnst en það breytir áður nefndri staðreynd ekki að seinn hálfleikur var fádæma lélegur hjá Liverpool liðinu.

    Það er ekki ástæða til að taka leikmenn af lífi fyrir frammistöðuna í neinum tilvikum. Þó ég hafi nefnt Jones í fyrri færslu minni þá var það innan sviga því hann var bara dæmi um það hvernig allflestir leikmenn voru að spila þennan seinni hálfleik. Það er anzi vont að horfa á liðið sitt spila svona þar sem maður veit að það getur miklum mun betur og ekki var þreytan að drepa menn. En við komumst yfir þetta eins og annað og vonandi eiga frammistöður af þessu tagi ( B&HA, Fulham, WBA) ekki eftir að bíta okkur í bakið þegar upp er staðið.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2

Liðið gegn WBA

Gullkastið – 2020