Liverpool – Newcastle (Upphitun)

Eftir furðulega viku, svo vægt sé til orða tekið, og vonbrigði mánudagsins þá er fínt að fá annan fótboltaleik strax, þó svo að ég sé ekkert sérstaklega hrifinn af hádegisleikjum almennt. Andstæðingarnir í þetta skiptið eru Newcastle og fer leikurinn fram á Anfield (kl. 11:30 á morgun, laugardaginn 24. apríl).

Formið og sagan

Okkur hefur gengið nokkuð vel gegn Newcastle síðastliðin ár og vorum t.a.m. á 5 leikja sigurhrinu gegn þeim í deild (3 sigrar í röð á Anfield og 2 á St. James Park) áður en kom að jafnteflinu í desember s.l. Á Anfield er árangurinn gegn þeim frábær, síðasta tap kom í deildarbikarnum árið 1995 og það þarf að fara ári betur aftar í tímann til þess að finna síðasta tap í deildarleik en þá stýrði Keegan gestunum og Andy nokkur Cole skoraði annað mark gestanna! Í síðustu 10 leikjum erum við að tala um 8 sigurleiki og 2 jafntefli.

Eftir nokkuð erfiðan lokasprett á 2020 og slæma byrjun á 2021 þá hefur Newcastle náð að snúa við gengi liðsins og er komið langt með að tryggja sæti sitt í deildinni. Sitja í 15 sæti með 35 stig og heilum 8 stigum frá fallsæti, með leik til góða og 18 stig eftir í pottinum.

Það segir kannski ýmislegt en liðin eru að koma inn í þennan leik í nokkuð svipuðu formi. Newcastle hefur unnið síðustu tvo deildarleiki og er með 8 stig af 15 mögulegum í síðustu 5 leikjum á meðan að okkar menn koma til leiks ósigraðir í fjórum leikjum með 10 stig af 15 mögulegum, eftir svekkjandi jafntefli gegn Leeds s.l. mánudag. Ef við ætlum að eiga einhvern möguleika á CL sæti þá megum við ekki við fleiri slíkum úrslitum, þetta er því skyldusigur.

Newcastle

Ég sagði það í upphitun fyrir leik þessara liða í desember að þetta Newcastle lið væri alveg með leikmenn og hraða í sínu liði til þess að valda okkur vandræðum, sérstaklega á þessum síðustu og verstu. Þeir eru ekki að treysta mikið á að vera með boltann, eins og hefur verið harðlega gagnrýnt á þessari leiktíð, en þeir reyna að láta þau skipti sem þeir eru með hann telja og eru beinskeyttir, sérstaklega með Callum Wilson fremstan sem er kominn til baka eftir meiðsli.

Allan Saint-Maximin hefur verið einn þeirra bestu leikmanna í þessum tveimur sigurleikjum en hann og Joelinton sáu að mestu um Burnley og West Ham. Annars eru flestir þeirra leikmanna heilir nema þá fyrirliðinn, Lascelles sem missti af síðustu tveimur leikjum og verður ekki með á morgun heldur.

Liverpool

Af okkar mönnum er það helst að frétta að Jones og Phillips eru orðnir heilir eftir að hafa misst af leiknum gegn Leeds í vikunni.

Leikmenn liðsins létu auðvitað í sér heyra á miðvikudaginn þegar ESL riðaði til falls. Ekki oft sem maður sér leikmenn liðsins taka sig svona saman opinberlega gegn eigendum sínum, ég fagna slíkri samheldni enda tilefnið stórt og mikið. Vonandi fáum við að sjá þessa liðsheild á morgun og þá spilamennsku sem við höfum fengið að sjá meira og meira eftir að Fabinho var færður á miðjuna. Við þurfum að sjá viðbrögð eftir vonbrigði mánudagsins og búa til alvöru „rönn“ fram á vorið.

Það bárust annars góðar fréttir af Gomez í vikunni, farinn að hlaupa aftur og virðist bati hans vera á áætlun. Annars eru þessir sömu áfram frá vegna meiðsla, þ.e. VVD, Matip, Henderson ásamt Origi.

Miðjan hjá okkur hefur farið vaxandi með komu Fabinho. Hann hefur þau gæði að hann bætir þá leikmenn sem eru í kringum hann. Vonandi fáum við því að sjá hann með Thiago og Gini/Milner/Jones á miðjunni, jafnvel þó Phillips verði ekki leikfær þá vil ég ekki sjá Fabinho þar aftur á tímabilinu – hljótum að geta leyst það með öðrum leiðum.

Ég ætla að skjóta á að liðið verði svipað og gegn Leeds en með tveimur breytingum, Salah komi inn í stað Firmino og Phillips byrji í stað Milner og Fabinho fari þá á miðjuna:

Alisson

TAA – Phillips – Kabak – Robertson

Thiago – Fabinho – Gini

Jota – Salah – Mané

 

Spá

Super League er núna frá og ég trúi því og treysti að við fáum að sjá mun betri frammistöðu í þessum leik en gegn Leeds. Ég ætla að skjóta á að við sigrum 3-0 með mörkum frá Mané og Salah (2x).

Ég minni annars á Gullkastið frá því fyrr í vikunni, finnið það hér.

Þar til næst.

YNWA

3 Comments

  1. Klopp talaði reyndar um að Philips yrði ekki með í þessum leik.
    Klopp told his pre-match press conference: “No, Nat Phillips is not back
    Þannig að þar sem að þessi Ben Davies er ekki til þá verða þeir félagar Kabak og Fabinho í vörninni.
    Ég væri alveg til í að sjá Winjaldum bekkjaðan.

    2
  2. Philips verður ekki með, enda enn meiddur, því miður því þá verður Fab í vörninni sem veikir slaka miðju okkar um helling. Leikur heima gegn newcastle á alltaf að vera sigur, en hvað veit maður í dag. Liðið sprakk í hálfleik á móti Leeds en það er bara þannig að við megum ekki misstíga okkur aftur. Það er ekki í boði. Góði Fowler gefðu okkur sigur gegn þessu slappa liði.

    1
  3. Þessir leikir við Newcastle hafa undanförnum árum gefið 4 til 6 stig á tímabili. Oft verið tækifæri fyrir leikmenn að ná í langþráð mörk. Ég hef allt verið bjartsýnn, treyst á sigur og léttleikandi Liverpool lið.

    Núna er maður með hjartað í buxunum. Ég upplifi þetta 1X2 leik.

    Ég ætla samt að spá sigri okkar manna. 2-0. Salah með bæði.

    Koma svo!!!

Gullkastið – PR hamfarir hjá FSG

Liðið gegn Newcastle klárt: Framherjarnir byrja allir!