Lokaleikur kvennaliðsins á leiktíðinni

Það er komið að lokaleik kvennaliðsins á þessari leiktíð; leiktíð sem verður að teljast vonbrigði þegar upp er staðið, þó svo það sé alltaf hægt að finna einhverja ljósa punkta í myrkrinu. Lokaniðurstaðan virðist ætla að verða 3ja sætið, smá séns á að liðið nái 2. sæti ef Durham vinnur ekki sinn leik, og ekkert útilokað að liðið lendi í 4. sæti með tapi í dag ef Sheffield vinnur sinn leik.

Ljósu punktarnir á þessari leiktíð eru einna helst þeir að nokkrir ungir leikmenn hafa stigið upp: Missy Bo Kearns hefur stimplað sig inn í aðalliðið, Rylee Foster hefur fengið sína fyrstu leiki í deild og hefur staðið sig mjög vel, Amy Rodgers hefur einnig fest sig í sessi í aðalhópnum, og ungar stelpur á borð við Lucy Parry, Mia Ross og fleiri hafa fengið sínar fyrstu mínútur. Nú og svo má ekki gleyma sigrinum á United í bikarnum í haust. En það er klárt mál að það eru vonbrigði að hafa ekki komist aftur upp í efstu deild. Við óskum þó stelpunum í Leicester til hamingju með að vera komnar í hóp þeirra bestu, en þess má geta að Emile Heskey hefur komið að þjálfun þeirra á ferli sínum að því að ná sér í þjálfararéttindi.

Fréttir af þjálfaramálum Liverpool virðast vera að skýrast: það spurðist út í vikunni að líklega yrði Matt Beard ráðinn. Matt hefur reynsluna af því að ná árangri með Liverpool því hann þjálfaði liðið árin 2013 og 2014 þegar liðið varð meistari. Hans síðustu störf voru með West Ham annars vegar, en hann fór þaðan síðasta haust (veit ekki hvort hann var rekinn eða hætti sjálfur), og tók svo við liði Bristol tímabundið á meðan stjóri þeirra fór í barneignarleyfi. Bristol sitja sem stendur í neðsta sæti efstu deildar þegar tveir leikir eru eftir.

Er þessi niðurstaða sanngjörn í ljósi þess árangurs sem Amber Whiteley hefur náð með liðið á síðustu vikum (sjö leikir án taps í röð)? Það hvernig liðið mun tækla það að fá nýjan þjálfara eftir að hafa náð þó þessu flugi með Amber verður að koma í ljós, en við vonum að það gangi vel og eins að það náist að trekkja að öfluga leikmenn sem geta styrkt liðið. Undirritaður er mjög svo hóflega bjartsýnn á að eigendur liðsins fari að opna veskið eitthvað að ráði, og líklegra verður að teljast að áfram verði reynt að finna óslípaða demanta, leikmenn sem geta sprungið út með liðinu.

En þá að leik dagsins: hann fer fram á Prenton Park og andstæðingarnir eru London Bees. Vegna þess að fótboltinn er í samfélagsmiðlaverkfalli þá hefur ekki tekist að hafa uppi á byrjunarliðinu, en færslan verður uppfærð með því um leið og það kemur í ljós.

EDIT: liðið virðist líta svona út:

Laws

Roberts – Moore – Robe – Hinds

Fahey – Rodgers

Jane – Kearns – Thestrup

Linnett

Bekkurinn hefur sjaldan verið jafn fámennur: Heeps, Lawley, Parry

Hægt verður að horfa á leikinn á The FA Player, og líklega tilvalið að hita upp fyrir United leikinn með þessum leik.

Ein athugasemd

  1. Leik lokið með 2-2 jafntefli. Ákveðinn klaufaskapur að missa leikinn niður í jafntefli því okkar konur komust í 2-0 með mörkum frá Becky Jane og Amy Rodgers, en andstæðingarnir svöruðu með tveim mörkum. Samt, liðið heldur áfram að vera ósigrað, og tryggði 3ja sætið í deildinni með þessum úrslitum.

    3

Upphitun: Björgum við andliti á Old Trafford

Stórleikurinn í hættu – Óvíst hvort hann fari fram Uppfært: Samkvæmt Guardian er búið að fresta leiknum