Spáuppgjör 2020-2021

Þá er komið að árlegu spáuppgjöri kop.is. Síðasta haust tókum við okkur saman eins og venjulega, lögðum höfuðin í bleyti, lásum í garnir, keyrðum alls konar reiknirit og spáðum hver og einn fyrir um úrslitin í deildinni. Maggi tók svo herlegheitin saman og kynnti í tveim pistlum: fyrri hluta og seinni hluta.

Spáuppgjör fyrir tímabilið 2019-2020 er svo að finna hér fyrir þá sem vilja skoða þetta í sögulegu samhengi.

Eftir að niðurstaðan í deildinni lá fyrir, þá er ljóst hvernig okkur gekk þetta árið. Það er skemmst frá því að segja að árangur okkar þetta árið var í meðallagi, hefur verið betri en vissulega líka stundum verri. Niðurstaðan varð að hópurinn í heild sinni var með frávik upp á 3.2 (frávik upp á 0 er best, því hærra frávik þeim mun lélegri var spáin).

Þetta þýðir að niðurstaðan undanfarin ár er eftirfarandi:

  • 2020-2021: 3.2
  • 2019-2020: 3.4
  • 2018-2019: 1.6
  • 2017-2018: 2.8
  • 2016-2017: 2.8
  • 2015-2016: 3.8
  • 2014-2015: 2.6
  • 2013-2014: 2.8
  • 2012-2013: 3.5
  • 2011-2012: 4.0
  • 2010-2011: 2.3
  • 2009-2010: 2.2
  • 2008-2009: 3.6

Besti árangur okkar pennanna reynist vera frávik upp á 2.4, en það var enginn annar en Sigursteinn sem náði því. Maggi kom svo í 2. sæti með 2.6, og þar á eftir með 2.8 komu Einar Matthías, Óli og undirritaður.

Þess má svo geta að einhver ónefnd ofurtölva hefur spáð um niðurstöðu deildarinnar síðustu ár. Þessi ofurtölva er með frávik upp á 3.0, sem jú er vissulega örlítið betri árangur en hjá hópnum í heild sinni, en lakari en hjá 5 meðlima. Líklega væri best að nýta örgjörvatímann hjá þessari vél í eitthvað annað og láta okkur bara um þessa spá.

Hvaða lið voru svo erfiðust? Það eru þrjú lið sem standa þar uppúr:

  1. Sheffield fór verst með okkur. Við spáðum því að liðið myndi aðeins dala frá síðasta tímabili, en héldum að þrátt fyrir að liðið missti Henderson gæti það nælt sér í 11. sæti. Reyndin varð önnur, og reyndar var það markaskorunin sem kom í ljós að var aðal Akkílesarhæll liðsins. Þeim reyndist nánast fyrirmunað að skora (sérstaklega gulldrengurinn okkar, hann Rhian Brewster), og liðið endaði í neðsta sæti. Frávik upp á heil 9 sæti.
  2. West Ham hefði lent í 14. sæti ef spá okkar hefði gengið eftir, en David Moyes og félagar reyndust blása á slíkar hrakfaraspár og voru í baráttunni um meistaradeildarsæti undir lok tímabils. Lokastaða: 6. sæti, og því frávik upp á heil 8 sæti.
  3. Aston Villa hefði verið í hópi þeirra liða sem féllu ef okkar spár hefðu gengið eftir, 18. sæti nánar tiltekið. En liðið var ekki á þeim buxunum, sérstaklega ekki fyrri hluta móts. Við erum nú ekkert að rifja sérstaklega upp hvaða leikir það voru sem liðið vann á fyrri hlutanum. En lokaniðurstaða upp á 11. sætið þýddi frávik upp á 7 sæti.

Merkilegt nokk þá náðum við sameiginlega aðeins að spá rétt fyrir um sætið sem WBA lenti í (19. sæti). Nokkrir okkar náðu einstökum liðum í rétt sæti: Sigursteinn og undirritaður voru með 4 lið rétt hvor um sig, Einar Matthías og ofurtölvan 3. Þess má svo geta að mesta frávikið á einstöku liði hjá einstökum spámanni reyndist einmitt vera hjá ofurtölvunni en hún spáði West Ham 19. sæti og falli, og var því þar með frávik upp á heil 13 sæti. Þvílíkur amatör!

Nú svo eru það hlaðvarpsspárnar. Sérhver spá í gullkastinu er skráð nákvæmlega í töflureiknisskjal, og svo tekið saman í lokin hver þeirra félaga náði bestum árangri í að spá fyrir um úrslit leikja Liverpool í öllum keppnum. Reglurnar eru þær að fyrir rétt úrslit og rétta markatölu fást 3 stig, en fyrir rétt úrslit eingöngu fæst 1 stig. Þetta reyndist aðeins snúnara í ár heldur en síðasta ár þegar það var nánast ekkert að gera annað en að spá Liverpool sigri og það gekk eftir í lang flestum tilfellum. Rétt eins og í spánni um niðurstöðuna í deildinni náði Sigursteinn besta árangrinum, en hann fékk 31 stig og var á undan Einari Matthíasi sem var með 27 stig.

Við gefum okkur svo að sjálfsögðu góðan tíma í að pússa kristalskúlurnar fyrir næstu leiktíð, verða okkur úti um nýjar kindagarnir, hellum fersku kaffi í bollana etc. etc., og sjáumst ferskir með nýja spá eftir rétt rúmlega mánuð eða svo.

6 Comments

  1. Þannig að basicly þá er ég ofurtövla þegar kemur að svona spám!

    Og Maggi sannfærandi neðstur þegar kemur að spám á í Gullkastinu, það gæti komið upp í þáttum næsta vetrar.

    6
    • Það að Maggi skyldi verða sannfærandi efstur á tímabilinu á undan jafnar þetta nú aðeins út. En jú, ég yrði mjög undrandi ef þetta bæri ekki á góma í eitt eða tvö skipti í vetur. Eða þrjú.

      3
  2. Djöfull er þessi 19 árs gutti hjá belgum sem heitir Dakur ofboðslega spennandi.. Leikur sér að því að labba fram hjá leikmönnum og svaka kraftur í honum. Spilar sýnist mér fyrir Renne í Frakklandi kom frá Anderlecht. Fotmop appið sem er snilld er með allar upplýsingar, mæli með því ef þið hafið ekki þetta app. fotmob appið verðmætur hann á 19.3 milljónir en sennilega ólíklegt að hann fáist fyrir slíka upphæð en kannski 30-40 og klasulur einhverjar ef ég ætti að giska, oft þannig með unga leikmenn.
    Skoðið þennan Gaur. Þessi gæti heldur betur valdið usla greinilega hvenær sem hann nennir því. En endilega kíkið á þennan gaur tikkar klárlega í öll box FSG.

    6
    • Hann Doku, já lúkkaði mjög vel. Ákvað að gefa honum sérstakan gaum þegar ég sá hann í starting11. Hann kom í heimsókn til Liverpool 16 ára að skoða aðstæður með foreldrum sínum. Klopp vildi heilla hann og hóaði í Salah og Mane til að hitta hann ásamt Mignolet samlanda. Gerrard sem var u19 þjálfi hitti hann líka og allt gert til að sannfæra hann en það dugði ekki til. Ástæðan fyrir að hann kom að kíkja á aðstæður var að Klopp vildi að Doku yrði hluti af lánsdíl Lazar Markovic til Anderlecht. Klopp er klárlega með hann á lista hjá sér og spurning hvort sé hægt að sannfæra hann núna þremur árum seinna.

      10
  3. Hendóóó! Minn maður! Sá valdi rétta tímann fyrir fyrsta landsliðsmarkið!

    2
  4. Slúðrið segir Renato Sanches og hann sé á óskalista hjá Klopp.
    Jájá er það eitthvað verra slúður en annað?

    2

Everton og Spurs með nýja stjóra / Sancho til United

Gullkastið – Nýtt tímabil