Meistaradeildin: AC Milan mæta á Anfield

Það er komið að fyrsta leik Liverpool í Meistaradeildinni leiktíðina 2021-2022. Andstæðingurinn er hið fornfræga lið AC Milan, og þetta verður fyrsti opinberi leikur þessara liða sem ekki er úrslitaleikur Meistaradeildarinnar. Jafnframt verður þetta fyrsta skiptið sem AC Milan mæta á Anfield til að leika opinberan keppnisleik. Óopinberir leikir milli þessara liða hafa hins vegar verið aðeins fleiri, t.d. leikur frá árinu 2016 sem Liverpool vann 2-0, og svo annar frá árinu 2014 sem endaði með sömu markatölu. En það er alveg ljóst að í sögulegu samhengi er þetta merkisleikur. Jafnframt er þetta næst ríkasti leikur riðlakeppninnar af Evrópubikurum, en samtals eiga þessi lið 13 bikara, og 15 bikarar í riðlinum í heild sinni (riðill A er með 0 bikara. Takk fyrir að spyrja).

Andstæðingarnir

Lið AC Milan er á pappírnum ekki nándar nærri jafn ógnvænlegt eins og það var í maí 2005, en engu að síður er þetta geysisterkt lið og ekki hægt að bóka eitt eða neitt gegn þeim. Liðið vann fyrstu þrjá leiki sína í ítölsku deildinni þetta haustið, þar á meðal síðasta leik gegn Lucas Leiva og félögum hjá Lazio um helgina. Liðið er því í öðru sæti í deildinni á markatölu.

Í leiknum á morgun verður enginn Shevchenko, Cafú, Kaká, Crespo eða Pirlo. Það gæti hins vegar verið einn Maldini, og jújú mikið rétt, sá er einmitt sonur Paolo Maldini sem spilaði í Atatürk forðum daga. Hann er þó enginn lykilmaður, og er t.d. aðeins búinn að spila síðustu 5 mínúturnar í einum leik það sem af er leiktíð. Svo eru tvö önnur nöfn sem við könnumst ansi vel við. Zlatan vinur okkar mun ekki spila þar sem hann er að glíma við einhver meiðsl, en þess má geta að hann er einn þessara leikmanna sem hefur aldrei verið í sigurliði gegn Liverpool. Svo er annar leikmaður þarna sem oft hefur reynst okkur óþægur ljár í þúfu, en það er Olivier Giroud. Hann greindist með Covid fyrir stuttu síðan en orðið á götunni er að hann hafi verið neikvæður í síðustu mælingu og gæti því verið í hóp á morgun.

Okkar menn

Það er lítið að frétta af okkar mönnum frá leiknum um helgina. Jú, Harvey Elliott gekkst undir uppskurð í dag og það er talað um að hann gæti jafnvel snúið aftur á völlinn á þessari leiktíð. Að sjálfsögðu skiptir mestu máli að hann nái sér að fullu, og hvort hann spilar í apríl eða ágúst á næsta ári er kannski ekki að fara að skipta öllu máli. Þá hefur enn ekkert verið gefið út hvenær Firmino snúi aftur. Eins eru Minamino og Neco Williams á sjúkrabekknum, og ekki alveg ljóst hvort Milner er að fullu leikfær (ég meina hann myndi alltaf spila ef hann væri beðinn um það, þetta er meira spurning hvort læknirinn hans myndi mæla með því), þó hann hafi vissulega verið á bekk á sunnudaginn (ekki sjúkrabekk semsagt). Enginn þessara leikmanna er með skráða endurkomudagsetningu, en James Pearce talaði um það um helgina að Firmino væri a.m.k. farinn að hlaupa og æfa með bolta aftur. Það er því orðið frekar fámennt í hópi þeirra sem Klopp treystir til að spila í framlínunni, gæti þetta þýtt að Origi sjáist í leikmannahópnum annað kvöld? Undirritaður er ekki svo viss, og það er meira að segja fjarlægur möguleiki að Kaide Gordon gæti fengið tækifæri á bekknum (þó það væri vissulega mjög ólíklegt að Klopp myndi skipta honum inná, Klopp einfaldlega vill gefa ungu leikmönnunum meiri tíma en svo).

Annað sem þarf að hafa í huga er að nú er gengið í garð tímabil þar sem það eru aldrei meira en fjórir dagar á milli leikja: Milan á miðvikudaginn, Palace á laugardaginn, Norwich á þriðjudag eftir viku í Carabao (OK við gætum vel séð Kaide Gordon þar), Brentford á laugardeginum þar á eftir og svo Porto á þriðjudeginum þar á eftir. Svo kemur smá pása (þ.e. 4 heilir dagar í frí) fyrir síðasta leik fyrir næsta landsleikjahlé, en þá mæta City á Anfield. Klopp þarf því að hafa leikjaálagið næstu vikurnar í huga við val á liðinu á morgun, og svo næstu leikjum á eftir. T.d. er hæpið að Matip geti spilað mjög marga leiki í röð, og því kæmi ekki á óvart að við sæjum Joe Gomez á morgun. Virgil er ekkert endilega klár í mjög marga leiki í röð og gæti fengið pásu fljótlega, en þó tæpast á morgun. Framlínan er nokkurn vegin sjálfvalin, en aðal róteringin verður sjálfsagt á miðjunni. T.d. kæmi ekki á óvart að sjá bæði Keita og Henderson byrja á morgun. Svo er spurning hvort Robbo byrji á morgun eða hvort Tsimikas verði verðlaunaður fyrir góða frammistöðu í upphafi leiktíðar. Munum samt að Klopp er frekar íhaldssamur þegar kemur að því að stilla upp liði.

Við skulum því prófa að stilla þessu upp svona:

Ég held að Klopp verði lítið í tilraunastarfsemi og vilji stilla upp sínu allra sterkasta liði. Líkamlegt ástand leikmanna gæti auðvitað breytt þessari mynd eitthvað, kannski taka menn sénsinn á að setja Matip við hliðina á VVD enda er hann heitur á meðan Gomez hefur lítið komið við sögu.

Ég bið bara um þrennt:

a) sigur og 3 stig
b) að leikmenn komist heilir frá þessum leik
c) að Alisson haldi hreinu

Mér finnst þetta ekkert til of mikils mælst. Ég spái 2-0 sigri með mörkum frá Salah og Trent úr aukaspyrnu.

15 Comments

  1. Flott upphitun

    Ætla að spá því að Tsimikas, Gomez, Keita og Henderson byrja þennan leik. Á kostnað Andy, Matip, Elliott og Thiago frá síðasta leik.
    Held að Klopp mun rótera aðeins í þessum leik.

    AC Milan eru hægt og rólega að byggja aftur upp gott lið en við verðum of stór biti fyrir þá og þeir verða engan vegin tilbúinir í Evrópukvöld á Anfield.

    Spái 3-0 sigri (ég er mjög sjaldan svona bjartsýn)

    YNWA

    3
  2. Klopp er ánægður með hópinn, næg breidd, og því um að gera að nýta hann. Það þarf að drilla Kelleher fyrir Norwich leikinn, gefa honum startið. Tsmikas, Gomez, Koyate og svo Ox í hægri bak. Hendo, Keita, Jones miðjan og svo sjálfvaldir einu þrír eftirlifandi sóknarmennirnir. Gott að J. Henry fékk smá klink í vasann fyrir Shaq því það var hvort sem er ekkert not fyrir hann. Klára Milan á 60mins svo hægt sé að skipta JotManSal útaf fyrir Fab, Thi og….uh…já Milner er auðvitað þarna, hvernig læt ég, nóg til af mönnum. Svissum í 4-6 kerfi og lokum þessum leik.

    2
  3. Aldrei grunaði mig að Gini Wijnaldum væri svona mikil dramadrottning. Um daginn hjólaði hann í aðdáendur LFC og gerði drama úr twitter kommentum,, núna talar um að hann hafi ekki fundið nægilega mikinn vilja frá stjórnendum til að semja við sig eftir að hann lýsti yfir vilja til að vera áfram.

    Gríðarlega farsæll ferill hjá LFC og gríðarlega flottur samningur sem hann fékk frá PSG. Maðurinn átti kost á að vera áfram hjá LFC, það var reynt að semja við hann, en hann valdi að elta peninginn og eftir margar daprar frammistöður á síðasta tímabili er skiljanlegt að Liverpool hafi ekki gengið að hans kröfum og valið frekar að láta hann fara frítt.

    4
    • Sammála um þetta með Gini. Vissulega hafði hann verið einn lykilmanna liðsins í mörg ár en menn sem vilja ekki vera fara bara. Menn vinna sér inn ást hjá félögum og aðdáendum og einn þeirra hluta er hve vænt leikmönnum þykir um félagið. Sumir eru hreinlega tilbúnir að deyja fyrir það og vilja því vera. Af núverandi leikmönnum detta fyrst upp í hugann Hendó Robbó og Milner. Liverpool er stór klúbbur sem getur og vinnur titla og er því engin ástæða hjá toppleikmönnum að yfirgefa félagið.

      2
      • Persónulega sé ég Trent ekki heldur spila fyrir nokkurn annan klúbb á lífsleiðinni.

        5
  4. Takk fyrir þessa upphitun. Mikilvægur leikur sem má ekki tapast. Hef smá áhyggjur, og meira en smá, vegna meiðsla en að meðaltali hefur einn leikmaður meiðst í hverjum leik það sem af er þessu tímabili. Menn geta alveg reiknað það út, ef það verður svoleiðis áfram, hve margir verða eftir um jól. Einhverjir koma til baka en, því miður alltof oft, bara á rúmlega hálfri keyrslu, sérstaklega ef um alvarleg meiðsli er að ræða.
    Ætla að spá þessum leik 1-0 og Robbo setur hann inn með fleyg.

    4
  5. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun Daníel og ég hefi litlu við að bæta. Það er flest sagt þar sem segja þarf og svo í kommentum en vonandi er tilfinning Sig Ein á rökum reist og góð þar með. Ég hefi svlitlar áhyggjur eins og fleiri en vona hið bezta. Segjum 3 – 1 og allr sáttir.

    Það er nú þannig

    YNWA

  6. Ljóst að Gordon verður ekki á bekk í kvöld fyrst hann er að spila með U18 liðinu gegn Milan núna í hádeginu. Helvíti öflugt lið með honum, Musialowski, Balagizi, Woltman, Beck, Morton, Bradley, Koumetio og fleirum.

    3
  7. Ég vil sjá Tsimikas spila í kvöld, ekkert útaf því að það þarf að hvíla Robbo, heldur bara af því að hann á það skilið eftir góða spilamennsku í fjarveru Robbo.
    Joe Gomez eða Konate með Van Dijk, nema að Trent fari á bekkinn og Gomez verði í bakverðinum og Konate við milli þeirra, gæti verið flott tækifæri fyrir Konate að spila bæði með Gomez og Van Dijk.

    3
  8. Vipið í kring um LFC er gott, Elliot þarf bara að taka Eið Smára á þetta, vera rólegur, fara ekki of snemma af stað, bara 18 ára svona svipað og Eiður Smári þegar hann meiddist. AC eru fjarri því að valda okkur skráveifu, segjum miðað við fyrri viðureignir. Segji og stend við það 3-0.

    YNWA

    • Nákvæmlega, ég ætla allavega að hafa tilbúna mjög skítuga sokka til að eta ef alt fer vel 🙂

    • Hvað er að ske, Mané meiddur eða hvað? Eins gott að Origi troði sokkum hægri vinstri í kvöld.

Gullkastið – Svartur blettur á góðum sigri

Byrjunarliðið gegn AC Milan