Manchester United 0 – 5 Liverpool

Liverpool vann í dag stærsta sigur sem liðið hefur unnið á Old Trafford, og jafnaði næststærsta sigur Liverpool á United í sögunni síðan 1925.

Ef við hefðum verið beðin um að skrifa handrit að mestu niðurlægingu sem möguleg var fyrir United, þá hefðum við varla náð að upphugsa þennan leik. Meira um það hér að neðan.

Mörkin

0-1 Keita (5. mín.)
0-2 Jota (13. mín.)
0-3 Salah (38. mín.)
0-4 Salah (45. mín.)
0-5 Salah (50. mín.)

Gangur leiksins

Eins og venjulega í þessum leikjum þá réði spennan ríkjum fyrstu mínúturnar, en það átti ekki eftir að vara lengi. Strax á 5. mínútu átti Liverpool sókn sem byrjaði hjá Alisson, boltinn barst hratt upp vinstri kantinn, skyndilega var Salah einn með boltann fyrir utan teig og Shaw eini varnarmaðurinn í sjónmáli. Salah renndi boltanum á Keita sem var dauðafrír, og Keita gerði allt hárrétt þegar hann renndi boltanum með hnitmiðuðu innanfótarskoti fram hjá De Gea. Staðan orðin 0-1, undirritaður var svo handviss um að Salah hefði verið rangstæður í undirbúningnum að fagnaðarlætin voru mjög hófstillt, en svo kom í ljós að það var aldrei spurning.

Eitt mark í forskot á móti United hefur aldrei talist öruggt, og því mjög fjarri að maður væri eitthvað rólegur, en vissulega er betra að vera með þetta eina mark á þá heldur en ekkert. Og á 13. mínútu kom næsta mark. Aftur átti Liverpool sókn þar sem United vörnin var spiluð upp úr skónum, hún endaði á því að Keita vann boltann af tveim varnarmönnum United við vítateigslínuna, renndi til hægri á Trent sem átti eitraða sendingu inn á markteig þar sem bæði Jota og Milner voru mættir. Jota var fetinu framar svo hann fékk heiðurinn af því að renna boltanum í netið. 0-2, og aðeins meiri ró komin yfir mann.

Það var svo skömmu fyrir leikhlé að Salah breytti stöðunni í 0-3. Aftur var framlínan með Firmino í broddi fylkingar að leika sér að United vörninni, Salah reyndi skot sem var blokkerað en boltinn barst til Keita hægra megin sem renndi til baka á Salah. Af einhverjum orsökum hafði varnarlína United ekki fengið fréttirnar í hvers konar formi Salah er búinn að vera, og skildu hann eftir óvaldaðan. Rookie mistake, og Salah þakkaði pent fyrir sig með neglu í netið. Ronaldo var orðinn verulega pirraður þarna og mátti þakka fyrir að fljúga ekki útaf með rautt eftir að hafa sparkað í Jones uppi við endalínu Liverpool nokkrum mínútum síðar, honum til happs var boltinn á milli. Hann fékk þó bara gult spjald fyrir, og ekki það fyrsta sem United menn fengu þarna undir lok hálfleiksins því þau urðu 3 áður en flautað var til hálfleiks. Liverpool var þó ekki búið að ljúka sér af, því Salah bætti við öðru marki eftir frábæran undirbúning Firmino, Robbo og Jota, og maður spurði sig: “er bara í alvörunni svona létt að skora hjá United?”.

0-4 í hálfleik, þetta var ekkert fjarri Arsenal leiknum góða í janúar 2014, nú eða United leiknum síðar sama tímabil þegar Moyes var við stýrið sællar minningar. Það bárust fréttir af því að einhverjir áhorfendur væru að yfirgefa leikvanginn.

Í hálfleik sendi Solskjaer Pogba inn fyrir Mason Greenwood, en það breytti afskaplega litlu, því Salah fullkomnaði þrennuna þegar 5 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Pogba missti boltann, Hendo átti frábæra Gerrard-esque stoðsendingu inn fyrir á Salah sem gerði engin mistök og vippaði yfir De Gea. Við þetta mark jókst heldur straumurinn af fólki sem yfirgaf leikvanginn, og sjónvarpsvélunum þótti ástæða til að sýna það sérstaklega:

Skömmu síðar héldu United menn að Ronaldo hefði aðeins klórað í bakkann þegar hann fékk boltann innfyrir, sólaði tvo og setti boltann mjög fallega í fjærhornið. Gallinn (fyrir Ronaldo og United) var bara að hann var örlítið rangstæður þegar sendingin kom, svo markið var dæmt af. Eftir rúmlega korters leik í síðari hálfleik komust svo United í eina af örfáum sóknum, Pogba missti boltann við annað vítateigshornið og ætlaði að ná honum af Keita með tökkunum á skónum sínum. Keita flaug í grasið, og Anthony Taylor gaf honum gult spjald en fékk svo ábendingu frá VAR um að kíkja á brotið aftur, og eftir það breytti hann spjaldinu í rautt. Fullkomlega verðskuldað, maður spyr sig af hverju spjaldið var ekki rautt frá byrjun því Pogba óð bara beint með takkana í Keita og það er nákvæmlega svona sem menn fótbrjóta andstæðinga sína. Ox þurfti að koma inná, og eftir þetta var eins og leikurinn færi í slow-motion. Bæði lið skiptu yfir í fyrsta gír og þetta breyttist í reitabolta að mestu. United reyndu vissulega að sækja þegar þeir fengu boltann, og áttu m.a. skot í þverslá, en nær komust þeir ekki. Restina af leiknum voru þeir með 11 10 leikmenn á bak við boltann, mögulega bara 9 stundum þegar Ronaldo hékk frammi í fýlu. Þrátt fyrir þessa stöðu héldu leikmenn United áfram að spila harkalega og m.a. var Wan-Bissaka heppinn að fá bara gult þegar hann óð í Jota þegar stutt var til leiksloka.

Manni fannst næstum eins og okkar menn vorkenndu United og þess vegna hefðu þeir gírað sig niður í lokin, maður hafði a.m.k. á tilfinningunni að með því að halda keyrslunni áfram hefði Liverpool auðveldlega getað sett 2-3 til viðbótar. En á móti vildi Klopp örugglega ekki missa fleiri í meiðsli, svo leiknum lauk eins og áður sagði 0-5.

Bestu/verstu leikmenn

Það er bara ekki nokkur leið að ætla að segja að einhver leikmaður hafi leikið illa í svona leik. Var Liverpool að spila sinn besta leik á tímabilinu? Nei alls ekki, bara fjarri því. En liðið spilaði fullkomlega inn á veikleika andstæðinganna og var líklega óvenju “ruthless” uppi við markið. Fjarska fá færi fóru forgörðum (hvað eru mörg F í því?), ég man bara eftir því þegar Salah slapp í gegn í fyrri hálfleik en De Gea varði, og svo varði hann skot frá Trent í seinni.

Besti leikmaðurinn? Hér verðum við að gefa Mo Salah nafnbótina, bara það að hafa skorað þrennu ætti að vera sjálfkrafa ávísun á MOTM tign. En fullt af leikmönnum sem voru að spila virkilega vel, þetta var klárlega sigur liðsheildarinnar. Trent átti fínan leik og með stoðsendingu. Hendo með algjöra eðal stoðsendingu í 5. markinu, var síhlaupandi og stýrði liðinu eins og hann gerir best. Robbo bjargaði líklega marki þegar United áttu sókn þar sem boltinn endaði í slánni, og hann átti þátt í 4. markinu sömuleiðis. Firmino var sá sem átti hvað mesta heiðurinn að mörkum 3 og 4, fíflaði varnarmenn United upp úr skónum, ekki í fyrsta skiptið í leiknum og ekki það síðasta (við erum mögulega farin að sjá gamla góða Firmino koma til baka eftir erfitt síðasta tímabil). Jota með gott potaramark, og var partur af framlínu sem hefur sjaldan virkað jafn óárennileg. Konate kom sterkur inn í miðvörðinn, og Virgil var eins og hann á að sér. Milner öflugur þangað til hann meiddist, og Curtis mjög ferskur eftir að hann tók við, manni fannst ólíklegt að hann hefði orku í 70 mínútur en vissulega hjálpaði hvað leikurinn var spilaður á lágu tempói síðasta hálftímann eða svo. Ox var líflegur í þennan hálftíma sem hann fékk, og nú fær hann kannski það “run” sem hann þarf á að halda til að spila sig í form.

Að lokum ætla ég að minnast á frammistöðu Keita, þetta er leikmaður sem margoft hefur verið afskrifaður, þar á meðal af undirrituðum í sumar, og margir sem sáu hann ekki byrja í dag eftir frammistöðuna í miðri viku. En það er alveg klárt mál að það er leikmaður þarna sem er ekki enn búinn að sýna að fullu hvað í honum býr, þó hann hafi gefið okkur smá innsýn í það með frammistöðunni í dag. Að sjálfsögðu þurfti hann svo að meiðast í árásinni frá helvítinu honum Pogba, við vonum að hann komi fljótt til baka.

Tölfræðin

  • Mo Salah er fyrsti leikmaðurinn til að skora þrennu á Old Trafford í úrvalsdeildinni. Í sögu úrvalsdeildarinnar BTW.
  • Mo Salah er núna markahæsti Afríkumaðurinn í úrvalsdeildinni, en hann fór framúr Drogba með þessari þrennu.
  • Klopp var að vinna sinn 200. leik með Liverpool, og er fljótastur stjóra Liverpool til að ná þeim árangri.
  • Liverpool er fyrsta lið úrvalsdeildarinnar til að vinna tvo útileiki í röð með 5 marka mun.
  • Salah hefur núna skorað í 10 leikjum í röð, og sló þar með metið sem…. hann setti í síðasta leik.
  • United fengu 6 gul spjöld og 1 rautt. Liverpool? 0 gul og 0 rauð.
  • Travelling Kop hefur líklega aldrei skemmt sér jafn vel og í dag.

Umræðan eftir leik

Eins og sagði að ofan, þá hefði handritið að mestu niðurlægingu United varla getað verið meira spot on. 0-4 undir í hálfleik? Check. VAR tekur mark af Ronaldo? Check. Pogba rekinn af velli? Check. Áhorfendur streyma af vellinum í hálfleik? Check. Sir Alex með fýlusvip uppi í stúku á meðan King Kenny skellihlær? Check:

Það er að sjálfsögðu alltaf hægt að finna eitthvað neikvætt, og akkúrat núna eru það meiðslin. Milner fór af velli um miðjan fyrri hálfleik, en er vonandi ekki lengi frá. Verra voru meiðslin á Keita, og ekkert vitað ennþá hversu lengi hann verður frá. Það er a.m.k. ekki búið að gefa það út að hann verði frá út tímabilið, svo við höldum í vonina.

Annað sem gæti mögulega verið neikvætt er staða OGS. Við viljum einmitt alls ekki að hann fari, því á meðan United er með hann við stýrið mun klúbburinn aldrei ógna toppliðunum svo heitið geti. Vonum bara að þeir komi sterkir til baka í næsta leik og Ole haldi áfram. Mögulega spilaði þetta inn í að Liverpool setti í fyrsta gír (eða hlutlausan?) síðasta hálftímann eða svo.

Og svona rétt í lokin: spáið í að vera í sporum Jadon Sancho. Hann kom ekki einusinni inná í dag. Kannski þakkar hann bara Guði fyrir að hafa ekki átt þátt í annarri eins skitu, en maður hlýtur að spyrja sig hvort annars eins gæða leikmaður myndi ekki njóta sín betur annars staðar.

Hvað er framundan?

Tveir leikir skammt undan: Preston North End í bikarnum á miðvikudaginn, og Brighton á laugardaginn. Liðið gegn Preston á að sjálfsögðu að vera algjört B-lið, það á enginn leikmannanna sem komu inná í dag að spila þá. Adrian, Minamino, Tsimikas og Origi mega gjarnan spila, enda voru þeir jú bara á bekk og komu ekkert inná, jú og Gomez má endilega vera fyrirliði. En nú þarf heldur betur að passa upp á miðjumennina okkar, og styttist í að Tyler Morton fari að vera á skýrslu í deildarleikjum ef þetta heldur svona áfram. Við eigum a.m.k. nánast örugglega eftir að sjá hann á miðvikudaginn, og vonandi sjáum við Kaide Gordon þar sömuleiðis. Kæmi ekki á óvart ef Nat fengi að spila við hlið Gomez (ok Matip er líka heill, en ég vil halda honum þannig. Liverpool þarf að vera með breidd í þessum stöðum). Ég ætla að veðja á þetta lið: Kelleher (ef hann er heill, annars Adrian), Neco – Gomez – Nat – Kostas, Morton – Balagizi – Dixon-Bonner, Minamino – Origi – Gordon. En það verður tekið fyrir nánar í upphitun á þriðjudaginn.

En það mikilvægasta sem er framundan er að sjálfsögðu að FSG og Mo Salah komi sér saman um nýjan samning. Staðan er orðin sú að upphæðin sem Salah getur raunsætt farið fram á fer hækkandi með hverjum leiknum. John Henry: klárið samninginn. Núna.

Það er full ástæða til að fagna vel og lengi eftir svona leiki, og við gerum það skammlaust, hvort sem við gerum það með því að fá okkur bjór (eins og Klopp mælti með) eða Ribena!

50 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Taktu þinn tíma ágæti pistlahöfundur. Það má ekkert vanta í umfjöllun um þennan sögulega leik.

    20
    • Förum bara inn á rauðadjöfulinn á meðan til að skemmta okkur yfir bölmóð um þar 🙂

      YNWA.

      7
  2. Ja hérna…
    Frábær leikur og Salah maður leiksins og Keita var frábær.

    Vonandi eru meiðslin ekki alvarleg meigum ekki við því að missa fleiri miðjumenn í meiðsli.

    11
  3. Leikurinn gegn Preston á miðvikudag verður sjálfsagt ekki svona auðveldur.

    48
  4. Nei, alveg rétt Lúðvík. T.d. verður bara einhver að taka “Keitaalltafmeiddurogekkiítaktviðliðið” umræðuna.

    1
  5. Vrrrúúúmmmmmm! (hljóðið sem heyrðist þegar Moyes spólaði sig þrjú sæti framúr Man Utd, og inn í Meistaradeild)

    11
  6. Og svo átti þetta alltaf að vera rautt á fúla gerpið hann Ronaldo!

    21
  7. Old Trafford er hér með nýtt æfingasvæði Liverpool????????????

    26
  8. Flottur æfingarleikur gegn united í dag, þetta var svo æðislegt og auðvelt í dag. Salah er svo geggjaðir leikmaður að ef að eigendur liðsins semja ekki við hann þá verður alsherjar mótmæli í borginni.
    Konate kom flottur inní þetta þó að þetta hafi nú ekki verið erfiður andstæðingur í dag, verst var þó að missa Milner og Keita í meiðsli

    11
  9. “Já! Leikhús draumanna er á eldi. Við erum á lífi. Við erum Man United og við gefumst aldrei upp. Þetta er Old Trafford!” sagði Ronaldo á Twitter.

    Þetta sagði Ronaldo eftir síðasta leik.

    Leikhús hinna sofandi dreymenda var líka á eldi eftir þennan leik en í akkurat öfugri merkingu orðsins og af leik liðsins að dæma voru þeir löngu búnir að gefast upp áður en síðari hálfleikur var flautaður á. Ef ég væri Man Und aðdáandi myndi ég tilkynna mig veikan alla næstu vikuna til vinnu eða panta mér mánaðarsetu á Eyðibýli út á landi.

    Þetta er einstaklega sætur sigur því þetta voru svo skýr skilaboð um hvað við erum miklu betri en Man Und um þessar mundir.

    11
  10. Magnaðir ! Ronaldo litli átti allan daginn að fà rautt. Þvílík frammistaða. Vonandi reka þeir ekki Ole ???

    10
  11. Er að hakka i mig kjulla sem fekk nafnið Ronaldo a meðan eg naga af beinunum.

    11
  12. Sælir félagar

    Hvað er hægt að segja? Hvað getur maður sagt annað en dásamlegt. Það er dásamlegt að vera stuðningsmaður bezta liðs í heimi. Það er afar þægilegt að eiga eftir að hitta MU félaga sína og aðra sem hafa áhuga á fótbolta. Ekkert er betra en vera Liverpool stuðningmaður eftir svona leiki og hvílíkur töframaður er Mo Salah. Semja við hann strax.

    Það er nú þannig

    YNWA

    14
  13. Þetta var frábær sigur hjá frábæru liði gegn ja…. vel mönnuðu Man utd liði sem spilar reyndar ekki sem lið.
    Ef maður fer yfir þennan leik þá var þetta gott færi hjá Man utd í upphafi og þar með var þeira þáttöku í þessum leik lokið ef við lítum framhjá ógeðslegum pirrings brotum.

    Liverpool var að vinna á Old Trafford 5-0 sigur og maður er eiginlega svektur að það hafi ekki verið stærri sigur. Því að Man utd hefur aldrei fengið aðra eins útreið á þessum velli þar sem síðasti hálfltíminn ákvað andstæðingurinn bara að segja þetta gott og fór að spila reitarbolta.

    Það verður ekki leiðinlegt að rifja þennan leik upp aftur í framtíðinn en það má ekki heldur gleyma því að rifja hann upp í skólum eða vinnustöðum landsins næstu vikurnar 🙂

    YNWA – Það er tvennt slæmt við þennan leik. Meiðsli Keiti og að kannski hafa Man utd áttað sig á því að Ole er skelfilegur stjóri en við viljum að sjálfsögðu hvetja þá til að halda í hann sem lengst og endilega hrósið honum eins mikið og þið getið 🙂

    8
  14. Skyldi vera fundur hjá rauða djöfl,,,, í neðra. Ronaldo leit illa út og í raun allt manjú liðið, ef hægt er að kalla þetta lið. Liverpool eru bara svakalega góðir, erfitt að pikka einhvern út, en samt, Salah geggjaður.
    Því miður þá held ég að Ole verði rekinn.
    YNWA

    1
  15. Skýrslan er komin inn. Ég vona að ég hafi gert þessu nægilega góð skil, eins og Lúðvík Sverris segir hér að ofan er mikilvægt að það komi allt fram.

    7
    • Sé það núna að ég gleymdi alveg að minnast á Alisson. Sem segir kannski hvað reyndi mikið á hann, mig minnir að hann hafi kannski þurft að verja 1 eða 2 skot, annars voru United menn voða lítið í því að hitta á markið.

      6
  16. Þessi sigur er stórkostlegur og ég gjörsamlega dýrka liðið mitt og Klopp og ALLT sem tengist því.

    Vonandi notum við c-liðið okkar á móti Preston og hvílum alla sem þurfa á hvíld að halda. Vonandi eru meiðslin ekki alvarleg í þetta skiptið!

    Get ekki beðið eftir Glaðvarpinu, því næsta.

    6
  17. Hér er víst fjörið í dag. Frábær frammistaða í dag og það með varaliðsmiðju og sá sem ég hef ekki vandað kveðjurnar undanfarið (Keita), átti góðan leik. Ok, hann gerði það sem mótherjarnir leyfðu honum (ekki fan þótt ég hafi verið það í dag).

    Ekki má gleyma frammistöðu minni í dag en ég ákvað að fórna 500 krônum í dag hjá íslenskum getraunum til að færa Liverpool heppni. Èg skellti eftirfarandi á leikinn:

    Skorar leikmaðurinn?

    150kr – Rassfjörð
    100kr – Portúgalska Dúkkulísan með augnskuggann
    150kr – Ljóti Portúgalinn
    100kr – Greenwood

    Mér þætti vænt um að Liverpool FC myndi bakka mig upp í framtíðinni.

    Blóm og kransar afþakkaðir.

    PS: Ekki reka Óla Gollum Southgate.

    5
    • PSS: Klára svo að semja við Salah. Þessi dratthalagangur hefur ekkert að gera með að það sé verið að bíða eftir “Coutinho” tilboði, John Henry?

      3
  18. Veit það ekki… náum aldrei langt ef við spilum bara vel í 50 mínútur… Ekkert mark í 40 mínútur…

    9
  19. Aðeins að þessu mu liði. Nú ligg ég ekki yfir statistíkinni en það slær mann hvað leikmenn verða lélegir þegar þeir eru keyptir til liðsins.

    Endilega bætið við nöfnum:

    *Þessi hollendingur sem blómstraði hjá Ajax (Van der Beck – eða hvað hann heitir), hann hefur ekki sést síðan hann álpaðist til að skrifa undir.
    *Nú er Sancho að eiga sinn versta tíma. Var m.a. eitt af okkar helstu prospektum.
    *Pogba á svo sem rispur af og til, en þetta er ekkert miðað við það sem hann var að sýna á Ítalíu og hann á svona hörmungarleiki eins og í dag. Kostaði hann ekki 90?
    *Cavani – enginn ljómi í kringum hann.
    *Schweinsteiger,
    *Falcao,
    *Di Maria,
    *Herrera,

    Þetta er nú bara það sem poppar upp í kollinn á manni við hraðsoðna upprifjun. Mér finnst eins og ég sé að gleyma nokkrum. Hvaða nöfnum má bæta við á grafreitinn?

    6
  20. Hvaða Man Utd netsíða er svipuð og t.d. This is Anfield? Mig langar svo að lesa nokkur fjörug komment í kvöld…

    5
  21. Ástæðan fyrir því að Liverpool vildi ekki skora 6. markið er sú að þá hefði Everton farið uppfyrir United?

    13
  22. Við verðum að átta okkur á því að það sem Mo Salah er að biðja um eru sömu laun og Sancho, De Gea og De Bruyne eru að fá. Fái hann 400k á viku verður hann samt talsvert undir leikmönnum eins og Ronaldo, Messi og Neymar og væntanlega eru Haaland og Mbappe að fara að semja upp á 600k næsta sumar.

    FSG eru nú ekki vinsælir fyrir, en ef þeir ætla að fórna Salah fyrir launastrúktúr mega þeir fokka sér.

    8
  23. Mér fannst pínu sérstakt hjá Siminn sport að sýna ekkert frá fögnuð lfc manna. sýndu Ole labba út af síðan beint í auglýsingar.

    Gerir þetta kannski bara sætara

    5
      • Mér finnst ekki sanngjarnt að draga fram skrif um einhvern leik frá árinu 2013 og segja að hann sé eitthvað hlutdrægur út af því.
        Ég er ekki alltaf sammála því sem hann segir í sínum umfjöllunum um Enska boltann, en hef aldrei séð hann halda eitthvað meira með Man United en öðrum liðum og bara verið almennt séð ánægður með hvað hann sýnir Liverpool mikinn og jákvæðan áhuga (öfugt við man united menn).
        Hins vegar er Síminn frekar gráðugir í auglýsingum og það er örugglega ástæðan fyrir því að þeir skiptu svona fljótt yfir í auglýsingar.

        3
  24. Takk fyrir þetta. Glæsilegur sigur enda ekkert sem benti til annars bæði fyrir og í leik. OGS sýndi eftir leik að hann er góður gaur með því að sinna aðdáendum og fær því prik. Versta við leikinn voru að sjálfsögðu meiðsli Milners og Keita sem báðir hafa verið frábærir í haust. Eins gott að Jones er kominn til baka og styttist í heilan Thiago. Að meðaltali hefur meiðst um einn í leik, eða milli leikja, og því misst úr leiki eða ekki verið 100 prósent klárir. Fyrir leik blaðraði einhver að MU væri með yfirburði á miðjunni en hvar var sjáanlegt í leiknum. Bara hreint bull. Sennilega hefur Klopp beðið menn að hægja aðeins á sér í seinni hálfleik og niðurlægja MU ekki meira svipað og hérna um árið þegar Arsenal var tekið í karphúsið.

    4
  25. “maður spyr sig af hverju spjaldið var ekki rautt frá byrjun því Pogba óð bara beint með takkana í Keita og það er nákvæmlega svona sem menn fótbrjóta andstæðinga sína. ”

    Mér fannst AT hafa staðið sig frábærlega í þessum leik, langt síðan maður hefur séð svona vel dæmdan leik í raun – jú CR hefði alveg eins getað séð rautt þarna – held þetta hafi verið 50/50 dæmi eftir hvaða dómara þú lendir á.
    Varðandi brotið hjá PP – við fyrstu sín hélt ég sjálfur að þetta hafi ekki verið svona ljótt brjótt, ekki fyrr enn í 2. eða 3. endursýningu sá ég hversu ljót hún var. (bara svona Anthony til varnar).

    • Já ég skal alveg taka undir það að við fyrsta áhorf var ég ekkert að hrópa eftir rauðu spjaldi. Mér fannst bara nógu margir í umræðunni tala eins og þeim hefði fundist þetta vera rautt frá byrjun. En við skulum klárlega gefa Anthony Taylor það að hann fór að ábendingum frá VAR herberginu og breytti spjaldinu í rautt, sem var hárréttur dómur. Mér fannst hann ekki þurfa að horfa svona oft á atvikið á skjánum, en það er mjög minor. Betra að hann horfi oftar en sjaldnar.

      Maður hefur séð umræðu um það að United hefðu getað fengið 4 rauð spjöld, persónulega finnst mér það algjört overkill. Ronaldo var á mjög gráu svæði en alveg hægt að réttlæta gult. Önnur brot voru bara gul að mínu mati.

      Ótrúlegt en satt þá held ég að það sé yfir mjög litlu að kvarta varðandi dómgæsluna í leiknum. Það var ákveðin lína, það var farið eftir henni.

      2
  26. Sko, ég vissi að Liverpool-leikurinn byrjaði kl. 15:30 en hvenær ætlaði ManUtd að byrja sinn leik? 🙂

    10
    • Þarna er skýringin. MU menn hafa haldið að leikurinn hafi átt að byrja á allt öðrum tíma.

      5
  27. Síst átti maður von á að það þyrfti Liverpool til að sýna mu hvernig leikhús draumanna virkar.

    4
  28. Það er samt pínu svekkjandi að hvað umræðan virðist snúast mest um hvað þeir eru lélegir en ekki hvað við erum góðir. Þeir áttu alveg 2-3 færi í leiknum og skoruðu rangstöðumark. Þeir hafa komist upp með slíkt stundum á þessu ári en núna loksins fengu þeir tuskuna ískalda fram í sig og það verðskuldað. Ef dómarinn var búinn að flauta þegar grenjaldo sparkar í boltann og í magann á Trent að þá er þetta rautt. Það þarf ekki að ræða það neitt frekar.

    4
    • Þetta var Curtis Jones en ekki Trent. Ég væri reyndar alveg til í að sjá hvernig reglurnar eru varðandi þetta atvik, skal játa 100% að ég þekki þær ekki nógu vel.

      5
      • Takk. Sá bara hrokkið hár þyrlast um þarna í látunum. Mér sýndist flautið koma um leið og hann var búinn að dúndra boltanum þarna í liggjandi manninn. Burt séð frá reglum og lögum að þá sér hver maður að attitudið er svona og svona hjá portúgalanum. Gult spjald trúlega hið rétta í stöðunni en mikið var gott að poppa fékk rauða spjaldið, loksins!

        Þetta var svo yndislega mikið sanngjarnt og ég veit ekki en allir hlaupa í burtu frá mér í vinnunni. Þetta á sérstaklega við þá sem halda með hinum, nema ég þurfi kannski að skipta um rakspíra.

        6

Liðið gegn United

Gullkastið – GIVE ME FIVE!