Preston – Liverpool 0-2 (leikskýrsla)

Klopp gerði heilar 11 breytingar á liðinu sem vann Manchester United 0-5 á Old Trafford (setning sem maður verður aldrei leiður á að skrifa. Aldrei). Á pappír var þetta fín blanda af reyndum leikmönnum sem þurftu mínútur (Ox, Minamino, Origi, Gomez, Tsimikas ásamt Adrian og Matip) og ungum leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu(ish) skref með aðalliðinu (Harvey Blair og Tyler Morton).

Adrian

Williams – Matip – Gomez – Tsimikas

Jones – Morton – Ox

Blair – Minamino – Origi

 

Bekkur: Hughes, Pitaluga, Konate, Firmino, Jota, Dixon-Bonner, Phillips, Beck, Bradley.

Þessi leikur var ekki jafn skemmtilegur á að horfa eins og leikurinn síðastliðinn sunnudag (þegar við unnum Manchester United 0-5 á Old Trafford). Það gerðist afskaplega lítið fyrstu 25 mínúturnar eða svo þar til að Potts slapp einn innfyrir en Adrian gerði vel, stóð í lappirnar og varði í horn. Heimamenn hresstust við þetta og áttu dauðafæri þremur mínútum síðar þegar Adrian varði aftur af stuttu færi eftir kross fyrir markið og skot af markteig, frákastið barst til Potts en Neco Williams bjargaði á línu (fannst boltinn koma við hendurnar á honum á leiðinni en þær voru s.s. alveg upp við líkamann)

Það gerðist afskaplega lítið síðasta korterið og staðan því 0-0 í hálfleik.

Nat Phillips kom inn á í hálfleik í stað Matip (skipting sem var búið að ákveða fyrirfram). Okkar menn mættu loks til leiks í síðari hálfleik. Fyrst átti Ox fína sendingu á Minamino, sem átti líklega von á að varnarmaðurinn myndi ná honum, en hann náði ekki stjórn á boltanum í fínu færi.

Á 53 mínútu átti Ox svo fínan snúning fyrir utan teig og gott skot sem fór hárfínt framhjá.

Það var svo á 61 mínútu sem að fyrsta markið kom. Neco Williams átti þá fína sendingu fyrir úr þröngri stöðu, Minamino kom með fínt hlaup á nærstöngina og náði að snúa boltanum utanfótar í fjærhornið, 0-1!

Liverpool hélt áfram að vera heldur sterkari aðilinn í síðari hálfleik án þess að skapa sér mörg góð færi. Okkar menn gerðu svo endanlega út um leikinn þegar fyrirgjöf Tsimikas fór í slánna, Neco Williams náði boltanum en skot hans fór í varnarmann, barst þaðan fyrir markið en bakvið Origi sem náði einhvern veginn að ná hælnum í boltann og yfir markvörð heimamanna. Frábær afgreiðsla og Liverpool komnir í 8 liða úrslit, 0-2!

Bestu menn Liverpool

Frábært að ná sigri án þess að þurfa að treysta á okkar sterkustu menn. Ég verð samt að viðurkenna að þrátt fyrir að þetta skyldi hafast að lokum þá varð ég fyrir smá vonbrigðum með nokkra af reynslumeiri leikmönnum liðsins. Auðvitað er allt annað að koma inn í svona leik og spila með þessum leikmönnum heldur en að detta inn í aðalliðið.

Ef menn eins og Ox, Origi eða Gomez telja sig eiga heima í eða við aðalliðið þá þurfa þeir að gera mikið mun betur en þeir gerðu í dag. Allir voru virkilega slakir, sérstaklega þó í fyrri hálfleik.

Þá að því jákvæða, Minamino skoraði gott mark og var líklega líflegastur af okkar fremstu mönnum í þessum leik, Tyler Morton virkaði líka flottur á mig, hellings bolti í þessum strák, með auga fyrir sendingum og flottur að finna sér svæði. Ég ætla samt að velja tvo leikmenn í þetta skiptið sem stóðu öðrum framar, Adrian fyrir að halda okkur í leiknum í fyrri hálfleik (verð að viðurkenna það að ég hafði ekki miklar væntingar til hans) og Neco Williams fyrir orkuna sem hann sýndi í leiknum, góð stoðsending og átti stóran hluta í seinna markinu einnig.

Næsta verkefni

Tvö stór verkefni á Anfield framundan. Brighton kemur í heimsókn á laugardaginn áður en A. Madrid kemur í heimsókn n.k. miðvikudag.

Minni annars á podcastið frá því á mánudaginn, finnið það hér, frábær skemmtun þar sem ég er ekki frá því að menn hafi verið hressari en vanalega af einhverjum ástæðum.

Þar til næst.

YNWA

20 Comments

  1. Geggjaður sigur hjá okkar varaliði. Vonandi förum við lengra á þessum mannskap.

    8
  2. Fyrsta skipti í guðmávitahvelangantíma sem liðið skorar ekki 3 mörk á útivelli… #kloppout

    23
  3. Origi er leynivopn….sá var góður áður en honum vara stlátrað á móti everton fyrir ca 3 árum síðan…margt gott í kvöld við leikinn…

    6
  4. Flottur sigur og gott að þessir leikmenn fái smá leiktíma.
    Erum komnir í 8 liða úrslit og sigurvegarar seinustu 4 ára, man city eru dottnir út.
    Væri alveg gaman að reyna að vinna þennan bikar þó að þessi keppni sé sú minnst mikilvægasta.

    Adrian átti flottar vörslur í fyrri hálfleik, og Jones var með nokkra takta og átti ágætis leik. Við vorum þó heppnir að Preston skoraði ekki 1 eða 2 mörk í fyrri hálfleik.
    En tilþrif leiksins fara til Origi, geggjað töff mark hjá honum.

    14
      • Tja, City fengu úrvalsdeildarlið, svo kannski er þetta tímabilið þar sem kraftaverkin gerast.

        3
  5. Sæl og blessuð.

    Þetta var hressilegur leikur. Þótt Preston hafi verið líflegt í fyrri hálfleik fór ekki á milli mála hversu mikil ógn er að okkar liði. Þeir biluðu á ögurstundum og svo komu þessi tvö huggulegu mörk. Það var eftir belganum knáa að skora eitt stk. kúlt-mark sem er nú einu sinni hans vörumerki!

    Fannst vara-vara-vara-miðvörðurinn okkar virkilega góður þegar hann kom inn á í seinni hálfleik. Þeir náðu engu gegn honum. Þarna stoppaði allt og þá gátum við sótt gegn þunnri varnarlínu Preston.

    Frábært að city skyldi falla út. Nú er bara að vonast eftir Sunderland í næstu umferð svo varaliðið fái að spila meira. Tökum síðan Chelsea í úrslitum. Það væri glæsilegt að ná í amk einn bikar í vetur!

    Þá verða komin 10 ár frá því að við tókum hann síðast.

    8
  6. Tyler Morton flaug líklega heim á höndnunum í kvöld eftir viðtal Klopp við Sky. Ansi mikið efni þarna.

    “You can see Tyler Morton, I told him now we pretty much have to send him directly to the gym now,” the manager said.

    “Because if he gets a body, he’s a brilliant footballer.

    “There’s obviously some things to come physique-wise, but the football brain is outstanding.”

    15
  7. Sælir felagar

    Mér fannst allir spila undir getu í fyrri hálfleik nema Adrian, ákveðinn hroki og vanmat í gangi hjá leikmönnum Liverpool. Allir hafa fengið tiltal frá Klopp í leikhléinu og allt annar bragur á liðinu. Þar sýndi Gomes nokkrum sinnum tilþrif sem alveg sæma byrjunarliðsmanni og Nat stóð alveg fyrir sínu eftir að hann kom inná. Origi fannst mér alveg eins og hann á að sér seinn og hugmyndasnauður og ekki góður í fótbolta. Samt átti hann tilþrif leiksins með hælkrók sem reyndar varð að skemmtilegu marki. Svona ekta Origi mark og alger tilviljun.

    Þarna voru kjúllar að spreyta sig og lofa góðu en þeirra helsti annmarki er skortur á kjöti á beinunum svo þeir höfðu lítið í fullorðna og vel kjötaða leikmenn Preston í svona líkamlegum leik. Úrslitin voru góð þó ekkert benti til þeirra í fyrri hálfleik. Sem sagt gott mál og næst vil ég fá alvöru lið sem krefst þess að í þann leik verði farið af alvöru með mannskap sem getur unnið vegna verðleika en ekki fyrir tilvíljun og heppni.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  8. Þetta er það fallega við leikinn… skítlélegur fyrri hálfleikur en klárum þetta á endanum með flottum 2-0 sigri.. Fullt af flottum jákvæðum punktum í kvöld og þar ber helst að nefna Morton og Neco. Með þessum frammistöðum hljóta þeir að vera spila sig nær 18 manna hópnum. Ég ætla ekki að lesa of mikið í lélegar frammistöður eldri leikmannana.. það er ekkert verið að gefa þeim auðveldasta verkefni heims að spila með ungum og reynslyminni mönnum en mér fannst þeir svosem allir ágætir í seinni hálfleik. Bara besta mál að Gomez, Minamino, Origi, Ox og Curtis séu að fá 90 mín og ég held að Klopp horfi miklu meira í það en einstakar frammistöður. Sérstaklega eftir að útkoman er ekki verri.

    Ákvað Klopp að bíða með miðjumann því hann vissi af Tyler Morton þarna í unglingaliðinu? Erum við að sjá enn eina snilldar útfærlsuna frá honum…

    5
    • Heyrðu hann fór 0-5, og það voru sko Liverpool sem skoruðu 5 en United 0.

      Ég hnýtti einmitt í Eyþór á einkaspjallinu okkar fyrir að hunsa þessa staðreynd næstum því algjörlega í leikskýrslunni.

      6
  9. Virkilega fín úrslit og mikið í reynslubankann hjá ungu mönnunum okkar.

    Svo var líka verið að mæra Tyler Morton af lýsendum Sky, þar var talað um að láta hann stúdera Fabinho á æfingum og í leik, og hann yrði ómetanlegur fyrir okkur í framhaldinu.

    2
  10. Pistlahöfundur skrifar:

    “Minni annars á podcastið frá því á mánudaginn, finnið það hér, frábær skemmtun þar sem ég er ekki frá því að menn hafi verið hressari en vanalega af einhverjum ástæðum.”

    Er það ekki bara vegna þess að Liverpool vann Man Utd 0-5 á Old Trafford?

Liðið gegn Preston

Loksins heimaleikur!