Liverpool 4 – 1 Shrewsbury

Liverpool komst áfram í 32ja liða úrslit FA bikarsins eftir 4-1 sigur á Shrewsbury á Anfield í dag.

Mörkin

0-1 Udoh (27. mín)
1-1 Gordon (34. mín)
2-1 Fabinho (víti) (44. mín)
3-1 Firmino (78. mín)
4-1 Fabinho (90+3 mín)

Gangur leiksins

Það var svosem viðbúið að lið sem var að gefa tveim unglingum debut eftir að hafa misst talsvert af leikmönnum í smit, þurfti að loka æfingasvæðinu og ég veit ekki hvað, yrði e.t.v. ögn ryðgað. Það sást ágætlega í fyrri hálfleik. Max Woltman var lítið í boltanum, Dixon-Bonner var ögn skárri en Kaide Gordon og Tyler Morton einna sprækastir. Conor Bradley byrjaði frekar óöruggur, og það má segja að hann hafi átt þátt í því að Shrewsbury skoruðu fyrsta mark leiksins. Hann var full aftarlega miðað við restina af varnarlínunni þegar það kom löng þversending upp kantinn, hann náði ekki að loka á sendinguna fyrir, en þetta hefði sjálfsagt verið allt í lagi ef Konate hefði tæklað þessa fyrirgjöf almennilega. Sem hann gerði ekki, og Kelleher átti engan möguleika á að verja skotið sem kom af markteig og var fast.

Það liðu þó ekki margar mínútur þangað til liðið var búið að jafna. Morton fékk boltann nálægt vítateig Shrewsbury, sendi á Dixon-Bonner sem renndi upp í hægra hornið þar sem Bradley gaf sér nokkur augnablik áður en hann renndi boltanum inn á miðjan teig þar sem Kaide Gordon var staðsettur. Gordon gerði engin mistök, tók eina gabbhreyfingu og renndi svo boltanum örugglega í fjærhornið. Afar vel gert hjá unglömbunum.

Það mátti svo litlu muna að Shrewsbury kæmist aftur yfir þegar nær dró hálfleikshléinu, liðið náði að koma boltanum í netið, en það var dæmd rangstaða og sú var afskaplega tæp.

Hins vegar voru það okkar menn sem náðu forystunni rétt fyrir hlé. Robertson tók aukaspyrnu við hægri kantinn, gaf inn á teig þar sem boltinn fór í hendina á einum varnarmanni Shrewsbury og höndin í mjög óeðlilegri stöðu. Coote dómari hefur nú ekkert endilega verið að gera Liverpool neina greiða í dómgæslunni í gegnum tíðina, en í dag var hann bara nokkuð góður, og benti þarna á vítapunktinn. Það var Fabinho, fyrrum vítaskytta Monaco (skoraði úr 19 af 21 víti þar) sem skoraði af öryggi, og liðið því með 2-1 forskot þegar gengið var til búningsherbergja.

Klopp gerði eina breytingu í hálfleik: Minamino kom inn fyrir Woltman. Sú breyting þurfti ekkert að koma á óvart. Minamino þarf að komast í betra leikform, hann byrjar nánast örugglega gegn Arsenal á fimmtudaginn, en 90 mínútur voru sjálfsagt full mikið fyrir hann í dag, enda nýstiginn upp úr meiðslum. Max Woltman hefur verið að skora helling með U18, og þó svo þessi leikur hafi verið númeri of stór fyrir hann, þá á hann framtíðina fyrir sér, enda ennþá ungur.

Það var svolítið meira öryggi yfir spilamennskunni, og þá sérstaklega eftir að Firmino kom inná um miðjan síðari hálfleikinn. Hann skoraði svo þriðja mark okkar manna þegar 12 mínútur voru eftir af leiknum, Conor Bradley gerði þá vel að elta bolta sem var við það að fara út fyrir endalínu, gaf á Konate sem átti skot, boltinn barst á Firmino sem var með bakið í markið og gat auðvitað ekkert annað gert en skora með hælspyrnu. Eins Firmino-esque mark eins og þau gerast.

Í lokin var það svo Fabinho sem skoraði með svona hérumbil síðustu spyrnu leiksins eftir aukaspyrnu frá Tsimikas.

4-1 sigur var bara mjög sanngjarn, þó svo þetta hefði verið óþarflega tæpt í fyrri hálfleik.

Frammistaða leikmanna

Það er erfitt að ætla að leggja stóradóm á frammistöðuna. Bæði búið að vera mikið rót á leikmönnum vegna Covid, æfingasvæðinu lokað, Klopp og Lijnders þurftu að einangra sig, etc. Nú svo segir það sig sjálft að aðallið Liverpool sem spilar svo og svo mörgum kjúklingum hlýtur að vera lakara heldur en þegar bestu 11 byrja leikinn. En við sáum þarna aðeins inn í framtíðina. Það kæmi ekki á óvart þó Kaide Gordon verði viðloðandi aðalliðið á næstu misserum, sjálfsagt er hann ekkert að fara að raða inn mínútum alveg á næsta árinu eða svo, enda spilar hann sömu stöðu og líklega besti knattspyrnumaður í heimi í dag. Það verður því ekkert grín fyrir hann að fá marga sénsa, en þeir sénsar sem hann fær á hann skilið. Tyler Morton heldur áfram að sýna hvað er í hann spunnið sem knattspyrnumaður, hann á eftir að taka út svolítinn líkamlegan þroska, á eftir að styrkjast og verða snarpari, en fótboltaheilinn er til staðar. Þeir aðalliðsmenn sem spiluðu í dag (Fab, VVD, Robbo, Konate) áttu ágætan leik, en auðvitað litast spilamennska leikmanna af þeim leikmönnum sem eru í kringum þá og hversu reynslumiklir þeir leikmenn eru.

Þá má líka minnast á að það var svolítið verið að rótera liðinu á meðan á leiknum stóð. Upphaflega var Jones í stöðunni hans Mané, Dixon-Bonner hægra megin á miðjunni og Morton vinstra megin. Eftir mark Shrewsbury víxluðu EDB og TM, og í seinni hálfleik færði EDB sig upp í stöðuna hans Mané en Jones kom aftur inn á miðjuna. Allt voru þetta skiljanlegar breytingar, en það er líka ljóst að það er erfitt að ná almennilegum rytma í liðið með stöðugum hrókeringum.

Umræðan eftir leik

  • Robertson þurfti að fara af velli undir lokin eftir að hafa lent í tæklingu, við vonum að það reynist ekki vera mjög alvarlegt.
  • Kaide Gordon var 17 ára og 95 daga gamall þegar hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir aðalliðið, en metið á Ben Woodburn sem var 17 ára og 45 daga. Hann hefði því þurft að skora mark í lok nóvember til að slá metið, en við fögnum markinu að sjálfsögðu engu að síður.
  • Það var eitthvað slúður um að meiðslin hjá Thiago væru alvarlegri en búið var að gefa út, jafnvel að hann væri frá út tímabilið. Klopp blés á þetta slúður í viðtali eftir leik.

Framundan

Það er leikur gegn Arsenal í bikar á fimmtudaginn. Vonandi verða þá fleiri aðalliðsmenn orðnir leikfærir, við vitum ekki fyrir víst hverjir greindust með Covid og verða því frá, né hve lengi þeir sem þó greindust með Covid þurfa að vera frá. Við vitum ekki einusinni hve illa þetta leggst á þá. Leikurinn á fimmtudaginn verður spilaður á Anfield, enda gaf Liverpool frá sér réttinn á að seinni leikurinn væri heimaleikur með frestuninni.


Jú og stelpurnar okkar áttu ljómandi fínan dag gegn Blackburn. Þær unnu 0-6, fyrst skoraði Niamh Fahey með skalla í fyrri hálfleik, og í seinni hálfleik opnuðust allar flóðgáttir. Leanne Kiernan skoraði þrennu á 6 mínútna kafla (var líklega nýbúin að horfa á vídeó af Istanbul leiknum), og svo kom Rachel Furness inná og setti tvö mörk í lokin. Sem stendur er liðið núna með 5 stiga forskot á Durham þegar liðin hafa leikið jafn marga leiki, en London City Lionesses gætu komist í 4ra stiga fjarlægð frá Liverpool með því að vinna leikinn sem þær eiga inni. Við höldum áfram að fylgjast með þeim, en næsti leikur hjá þeim er á sunnudag eftir viku, á nákvæmlega sama tíma og karlaliðið mætir Brentford á Anfield í deildinni.

9 Comments

  1. Flott að fara áfram og geta stillt upp vel blönduðu liði.
    Ég vil að Liverpool leggi kapp í meistaradeildina og bikarkeppnirnar því að City eru að fara að taka deildina.
    Morton, Firmino og Fabinho flottir í dag.

    4
  2. Unaður að sjá Sir Bobby smella inn einni lekkerri hátíðar-hælspyrnu. Gleðigjafinn sem hann getur verið.

    En miðverðirnir dreifðu kartöflum í skóinn hægri vinstri. Konaté getur gert alveg furðulega kjánaleg mistök og Virgill hefur ekki verið sjálfur sér líkur í vetur. Kæruleysisbragur á báðum.

    Óstaðfestar fregnir að Trent, Neco, Henderson, Gomez, Milner, Ox og Jota séu allir með Covid. Gæti útskýrt fjölda fermingardrengja á bekknum í dag.

    Gaman engu að síður að komast áfram í keppninni.

    3
    • Samt bara búið að staðfesta Trent, og Klopp talaði um að margir hefðu sýnt “false positives”. Þetta skýrst sjálfsagt á næstu dögum.

      2
      • Það er náttúrulega allt vaðandi í Ómíkron í Englandi eins og annarsstaðar. Vonum það besta.

      • Gleymdi Tsimikas í rapportinu. Hann er einfaldlega orðinn miklu betri spyrnumaður en Robbo. Ekki beint slöpp aukaspyrnan hjá honum…

        Og Kaide Gordon má alveg fara að verma bekkinn eða völlinn reglubundið í framtíðinni.

        6
  3. Sæl og blessuð.

    Frábært að sjá ungmennin á stóra sviðinu. Mér fannst þessi Morton mjög öflugur og átti hann stóran þátt í held ég tveimur mörkum. Frábært efni þar á ferð. Svo skiptir máli hvað sem verður með þátttöku þeirra í aðalliliðnu að þeir fái að skína. Amk. getum við selt þá til Bournmouth eða viðlíka spekinga og fengið andvirði fullveðja leikmanns í staðinn!

    Svo eru það Cardiff menn (x-Aron og félagar). Þá vill maður sjá svipaðan kokteil.

  4. Gordon á bara eftir að fá fleiri tækifæri. Virðist rosalegt efni og sá líklegasti til að koma uppúr varaliðimu. Komin tími til að eitt stykki skili sér þaðan inni aðalliðið, hefur verið alltof lítið af monnum að annað brjóta sér leið þaðan og inni aðalliiðið.

    1

Liðið gegn Shrewsbury í bikarnum

Cardiff heima í bikarnum