Upphitun fyrir heimsókn á Selhurst Park

Eftir að hafa tryggt sér farseðil á Wembley á síðustu viku þá heldur Liverpool til næsta nágrennis þjóðarleikvangsins. Á morgun klukkan 14:00 hefst leikur gegn Suður-Lundúna liðinu Crystal Palace á einum mest sjarmerandi velli Englands, Selhurst Park. Mig langar að þakka enska knattspyrnusambandinu strax fyrir að vera ekki með það vesen (aftur) að hafa leikinn á sama tíma og handboltalandsliðið spilar, get ekki hafa verið sá eini sem var að brasa við að horfa á tvo leiki samtímis í fyrradag.

Crystal Palace: Nýjir tímar með goðsögn í brúnni.

Öll lið eiga sýnar goðsagnir. Menn sem geta labbað innum dyrnar á vellinum út í ævina og þeim verður tekið fagnandi. En það eru líka leikmenn sem eru einu plani ofar, menn sem eru ekki bara goðsagnir í liðum sínum, heldur í deildinni. Patrick Viera er slík goðsögn.

Frakkinn knái kom til Arsenal 1996 ásamt landa sínum Rémi Garde. Enskt lið að sækja tvo Frakka á þeim tíma vakti nokkra undrun. Viera hefur sagt að þeir vissu að Wenger væri á leiðinni og Arsene var strax farinn að toga í strengi hjá Arsenal.

Næstu ár breyttu Arsenal enskri knattspyrnu og Viera var algjör lykilmaður í liðinu. Á tímabili var hann einn af bestu miðjumönnum í heimi. Á níu árum á Highbury lyfti Viera sjö titlum, þrem samfélagsskjöldum og var auðvitað hluti af liðinu sem afrekaði það að fara taplaust í gegnum heilt tímabil. Hans síðasta verk í rauðu treyjunni var að skora sigurvítið gegn Manchester United í bikarúrslitaleik árið 2005. Á þessum tíma var hann líka hluti af Franska liðinu sem vann bæði Heimsmeistara- og Evrópu mótin.

Svo hélt hann til Ítalíu og spilaði með Juventus og Inter Milan. Hann kláraði ferilin á því að spila fyrir Manchester City í hálft ár, þar sem hann krækti aftur í FA bikarinn og lagði skónna á hilluna frægu.

Það er ekki hægt að segja að þjálfaferill hans hafi verið jafn glæstur og leikmannaferillinn. Hann byrjaði í raun á að vinna bakvið tjöldin hjá City Football Group (móðurfélag Manchester City) á ýmsum stöðum áður en hann tók við New York City FC. Honum tókst að koma liðinu á beina braut og náði raunar fínum árangri þar, þó ég sé ekki nóg og vel að mér í MLS deildinni til að dæma um hversu mikið afrek hann vann. Þaðan hélt hann til Frakklands og tók við Nice. Hann var rekinn frá franska liðinu 2020 eftir að hafa tapað fimm í röð.

Þannig að það var langt því frá að vera augljóst að hann fengi starf í Úrvalsdeildinni. Crystal Palace tóku töluverða áhættu með að ráða hann síðasta sumar, til að taka við af Roy Hodgson. Liðið hafði misst fjölda leikmanna og frakkinn var að taka við ungum hóp.

Þeir geta bara vel við unað það sem af er tímabils. Þeir sitja þegar þetta er skrifað í ellefta sæti, stigi á eftir Leicester (sem eiga reyndar milljón leiki inni). Palace hafa líka verið hroðalega óheppnir og nokkrum sinnum misst stig alveg í lokin. Þeir hafa afrekað það að fara á Etihad og sigrað, nokkuð sem fleiri lið mættu gera. Okkar lið er auðvitað mun sterkara en Palace, en þeir eru sýnd veiði ekki gefin.

Okkar menn

Lífið hefur oft verið verra á Anfield í janúar. Örugum sigri á Brentford var fylgt eftir með því að tryggja farseðil á Wembley og fyrsta bikarúrslitaleik Liverpool lengi. Það virðist oft vera með þetta Liverpool að minni hvíld hentar þeim ágætlega, þeir ná upp taktinum sem skiptir öllu fyrir leikstílinn. Vissulega er bilið upp í City orðið ansi stórt en það þarf samt að halda smá pressu á olíuliðið, auk þess að gott bil niður í fjórða sæti er alltaf gott.

Hvað varðar leikmannahópinn er hann ennþá þunnur. Alisson hlýtur að byrja í markinu og Trent og Van Dijk á sínum stað. Matip fór af velli í hálfleik á fimmtudaginn og ég hugsa að Klopp taki enga sénsa með hann. Ég spáði fyrir þann leik að Robbo og Tsimikas myndu skipta þessum tveim á milli sín og held mig við það.

Á miðsvæðinu verðu Fabinho á sínum stað og Hendo og Jones með honum. Klopp minntist á það á blaðamannafundinum að hann hefði þurft að taka langan fund með Jones nýlega eftir þessi fáranlegu augnmeiðsli og svo Covidið. Eins og stendur er scouserinn ungi algjör lykilmaður hjá liðinu og maður vonar að hann grípi þetta tækifæri með báðum.

Frammi ætla ég að spá sömu framlínu og ég gerði síðast, finnst ólíklegt að Gordon verði settur í byrjunarliðið þó hann komi líklega inná.

Svona verður þetta:

 

Spá

Palace hentar okkar leikstíl vel. Við verðum ekki í nokkru basli með þá, 3-0 og málið er dautt. Svo er um að gera að rifja upp síðasta leik Liverpool á þessum velli.

 

7 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun Ingimar og vonandi verður spá þín að raunveruleika. Ég á hinsvegar von á hunderfiðum leik þar sem CP mun liggja mjög aftarlega og gera okkar mönnum erfitt fyrir um markaskorun. Þeir munu byggja á skyndisóknum þegar okkar öftustu menn verða allir frammi við miðju og allt liðið framar. Okkur sárvantar marksækinn framherja sem getur tekið skalla af varnarmönnum Palace. Jota hefur alltaf verið seigur í skallaboltum en þetta verður anzi erfitt fyrir hann í 15 manna pakka í teignum.

    Eina leiðin til að skora eitthvað af mörkum er að skora snemma og neyða Palace út úr skelinni og opna þannig leikinn. Ef það tekst verður spá Ingimars ef til vill að veruleika – annars ekki. Mín spá er 0 – 1 þar sem Bobby mun skora úr þvögu í vítateig andstæðinganna og þar við situr. Núll – eitt eru ágætis úrslit fyrir okkur sem megum ekki tapa stigum í baráttunni á toppi deildarinnar. Nú er tækifæri á að slíta sig aðeins frá dökkbláa olíuliðinu og tryggja annað sætið og þrýsta smá á ljósbláa olíuliðið.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  2. Takk fyrir fína upphitun. Þess má geta að næsti leikur kvennaliðsins í deildinni er einmitt líka á morgun kl. 14:00 á móti…. Crystal Palace. Samt ekki á sama velli.

    4
  3. Shitty munu ekkert vinna alla leiki eins og sást í kvöld. Við verðum bara að klára okkar og sjá hvert það leiðir okkur.

    11
  4. hvað var með þessa Grease leddara sem utd menn gengu í inn á völlinn ?

  5. Þessi leikur gegn Palace er langt frá því að vera unnin fyrirfram. Þetta er algjört bananahýði ! Það er rosa stemmning á þessum velli sem smitast í leikmenn þeirra. Ég vona bara að við klàrum þetta verkefni.

    3

Anfield South – here we come!

Byrjunarliðin vs. Crystal Palace á Selhurst Park