Liverpool 2-0 Leicester

Liverpool spilaði loks aftur í Úrvalsdeildinni eftir vetrarfrí og tók á móti Leicester. Thiago var mættur aftur í byrjunarliðið og nýjasta viðbótin í liðinu Luis Diaz byrjaði sinn fyrsta leik fyrir félagið en hann var frammi með Roberto Firmino og Diogo Jota. Jordan Henderson var frá vegna smá meiðsla í baki og Mo Salah snéri aftur eftir Afríkukeppnina og var á bekknum.

Leikurinn byrjaði hratt og Liverpool var ógnandi strax frá fyrstu sekúndu með Luis Diaz í fararbroddi, þrátt fyrir læti í byrjun þá fór þetta þó aðeins að róast þegar leið á fyrri hálfleikinn. Liverpool var þó með meira og minna alla stjórn á leiknum og voru alltaf líklegra liðið þrátt fyrir kannski eina álitlega sókn hjá Leicester þar sem Alisson varði vel frá James Maddison.

Loksins náði Liverpool inn marki þegar Diogo Jota skoraði af stuttu færi eftir frákast. Trent tók hornspyrnu sem barst til Virgil van Dijk sem stangaði boltann að marki en Schmeichel í marki Leicester varði boltann beint fyrir fætur Jota sem gat ekki annað en skorað. Verðskuldað og gott mark.

Eftir markið kom smá kraftur aftur í Liverpool og áttu Jota og Firmino nokkrar fínar rispur fram að hálfleik en vantaði bara smiðshöggið til að koma inn öðru markinu fyrir hlé.

Seinni hálfleikur byrjaði ekki ósvipað eins og sá fyrri var heilt yfir. Liverpool stjórnaði og Leicester komst í sjálfu sér hvorki lönd né ströng. Liverpool ógnaði en gekk ekki að slútta færunum. Rétt fyrir 60. mínútu komu Harvey Elliott og Mo Salah inn á við mikil fagnaðarlæti. Þær skiptingar höfðu samt kannski ekki alveg þessi instant áhrif sem maður vonaðist eftir og á sama tíma gerði Leicester skiptingar. Leikurinn fór í svolítið ójafnvægi, Liverpool gekk illa að halda boltanum en Leicester gerði í sjálfu sér ekkert með hann.

Svo small þetta hjá Liverpool og Salah komst í þrígang frekar nálægt því að skora. Í eitt skiptið tók hann rispu nálægt endalínu í vítateig Leicester og átti skot úr þröngu færi sem Schmeichel varði, í annað skiptið átti hann skot utan teig sem söng í samskeytunum og í þriðja komst hann í gegn á móti Schmeichel eftir skyndisókn en sá danski varði glæsilega frá honum og í kjölfarið var Salah straujaður en ekkert var dæmt. Þá átti Diaz einnig gott tækifæri en skot hans var varið.

Á 87. mínútu átti Joel Matip geggjaða stungusendingu í gegnum klofið á varnarmanni Leicester beint á Diogo Jota sem auðvitað lúðraði honum í netið og skoraði sitt annað mark og innsiglaði sigurinn fyrir Liverpool. Shit, hann er svo geggjaður!

Joel Matip og Virgil van Dijk voru frábæri í vörninni, Robertson og Trent voru bara þeir sjálfir og þá fannst mér Robertson alveg sérstaklega góður í dag og náði hann að tengja mjög vel við Diaz á vinstri vængnum.

Miðjan var heilt yfir alveg geggjuð í kvöld og þá sérstaklega Fabinho og Thiago sem bara áttu miðjuna. Þeir voru frábærir í pressunni, stýrðu spilinu og voru bara heilt yfir ansi flottir. Það er frábært að sjá þá loksins aftur saman á miðjunni.

Er Luis Diaz ekki alveg örugglega bara nýkominn til liðsins og var að byrja sinn fyrsta deildarleik? Það var ekki að sjá í dag, hann spilaði leikinn mjög vel og var mjög ógnandi. Það var eins og hann hefði spilað fullt af leikjum þarna og ég get ekki beðið eftir að sjá meira af honum.

Heilt yfir er ég ekki hrifinn af því að spila Firmino og Jota saman en eðlilega hefur þurft að gera það undanfarna leiki en ég vona að við þurfum ekki að sjá mikið meira af þeim saman í byrjunarliðinu í þessu formi. Það hentar hvorugum þeirra finnst mér, þeir nýtast svolítið best á sama svæðinu og mér finnst ekki málið að færa Jota út á vængina því hann er svo yfirburða besti kosturinn í ,,níu-na”. Eins og mörkin hans í dag og hafa gert undanfarið þá á hann heima í svæðinu í og við miðjan teiginn og þar skal hann vera!

Á sunnudaginn mætir liðið Burnley og fær vonandi Sadio Mane og Jordan Henderson aftur í hópinn, sem er líklega sá sterkasti sem ég hef séð liðið mæta til leiks með í ansi langan tíma! Í miðri næstu viku fer svo Meistaradeildin aftur af stað en þar mun Liverpool fljúga til Mílanó og mæta Inter í fyrri leik liðana í 16-liða úrsltinunum.

24 Comments

  1. Sæl og blessuð

    Búmm Búmm Búmm og það hlaut eitthvað að láta undan hjá blaúm.

    Jota, Diaz, Virgill geggjaðir. Fyrirsjáanlegt að gefa Jota MOM en hrikalega var nú samt Fabinho frábær.

    Salah kom í þvílíku stuði og var glæpsamlega óheppinn að hafa ekki skorað (eða fengið víti). Elliott kom með gríðarlega kraft í þetta. Gaman að sjá Thiago, ekki bara smurðar sendingar heldur grjótharður í horn að taka. Bakverðirnir voru ok – hafa átt betri og verri daga! Matip almennt góður – ein klaufasending en hvað getur maður sagt þegar hann átti þessa eðalstoðsendingu?

    Firmino og C Jones heilluðu mig ekki og ég sé vart að óbreyttu að þeir séu að leika stórt hlutverk í þessu liði nema að meiðslin fari að hrjá okkur. Vonandi eiga þeir eftir að reka af sér slyðruorðið!

    En þetta var sætt og gott. Gæðasigur.

    12
    • Það er áhyggjuefni að Curtis Jones virðist ekki vera að taka næsta skref upp á við. Hefur á köflum verið þokkalegur í þeim leikjum sem hann hefur spilað í vetur en ég var samt að vonast eftir meiru.

      Hann skortir ekki sjálfsálitið eða sjálfstraustið en leikskilningurinn og framfarirnar láta bíða eftir sér.

      7
  2. Sjóta! Sjóta! SKJÓTA!!

    Þvílíkur poacher sem drengurinn er! Markanefið er farið að minna á Fowler og þá er nú mikið sagt.

    En eitt skil ég ekki. Salah var klipptur niður aftan frá í teignum með tveggja fóta tæklingu. Úti á velli hefði þetta verið aukaspyrna og gult spjald. En ekki neitt inni í teig út af því að boltinn var lagður af stað frá Salah. Þetta er eins og viðbjóðurinn frá Pickford á van Dijk. Ekkert dæmt. Þarna vantar alveg að leikreglurnar verji sóknarmennina.

    19
    • Hjartanlega sammála. Minnti mig á Dijk meiðslin. Ég skil ekki af hverju svona er sleppt, allt í lagi að sleppa vítinu fyrst boltinn var farinn en menn eiga að fá gul/rauð spjöld fyrir svona mögulega ferilsendandi tæklingar. Sérstaklega þegar hægt er að skoða þær í var. Sýður á manni eftir svona þar sem við höfum séð hver niðurstaðan getur verið.

      12
      • Ég hefði haldið að þetta væri víti. Mitt lið á Fróni fékk víti á sig fyrir ekki svo löngu þegar markmaðurinn missti hausinn eftir að hafa fyrst losað sig við boltann. Kannski notar FA aðra reglubók.

        1
  3. Margt svo jákvætt við þennan leik, þó svo að manni hafi fundist eins og liðið ætti inni a.m.k.. einn gír ef ekki tvo. Til dæmis samspilið á milli Robbo og Díaz. Jota auðvitað sjóðheitur, og fer að pota sér í hóp með bestu framherjum Liverpool á síðari árum, þrátt fyrir að hafa aðeins verið hjá klúbbnum í eitt og hálft tímabil, þar af versta kafla Liverpool á síðari árum. Líka gott að þrátt fyrir að leikmenn eins og Trent og Firmino séu ekki að spila sinn allra besta fótbolta, þá er liðið engu að síður að yfirspila andstæðinginn, vinna leikinn og halda hreinu.

    Annars er það bara einn leikur í einu. Algjör must-win leikur framundan gegn Burnley. Verður gaman að fá Mané og Hendo aftur inn í hópinn, þá er staðan einfaldlega orðin þannig að sterkir leikmenn komast ekki einusinni á bekk.

    12
  4. Sælir félagar

    Þetta var alvöru baráttusigur þar sem viljinn og krafturinn ásamt ótrúlegu markanefi Jota skóp sigurinn. Leicester menn börðust svo sem og vörðust , hendandi sér hljóðandi í jörðina ef þeir sáu Liverpool mann nálægt sér en urðu samt að lúta í gras.

    Diaz ótrúlega góður, Robbo frábær Jota í seinni magnaður, Elliot mjög góður og Thiago flottur. Allison nottla gerði það sem hann þurfti að gera og vörnin að mestu ansi góð. TAA misjafn og á stundum erfitt með einbeitinguna en hæfileikarnir ótvíræðir en minn maður Firmino slakur og Jones blátt afram skelfilegur á köflum. En góð 3 stig og allir sáttir

    Það er nú þannig

    YNWA>

    7
    • Nokkuð sammála þinni greiningu nema Jota frábær allan leikinn.

      YNWA.

      9
  5. Þetta var bara Liverpool í þriðja gír, frammlínan er orðin galið spennandi og alveg hægt að horfa á bæði Diaz og Elliott sem viðbót núna í janúar, báðir með allt að bera til að verða heimsklassa leikmenn. Þakið hjá Elliott er reyndar Ballon d´or hátt.

    Luiz Diaz virkar að mörgu leiti með svipaða eiginleika og Salah bara á hinum vængnum sem er fáránlega spennandi. Sérstaklega þar sem við eigum Mané líka. Klárlega hægt að útfæra leiki þar sem fjórir af þeim fimm (Salah, Mané, Jota, Diaz, Firmino) byrja inná eða klára leiki.

    Diogo Jota er svo að nálgast Fowler level í boxinu, tvö ekta framherja mörk þrátt fyrir að vera ekki einu sinni að spila fremst allan leikinn.

    Thiago var langt frá því að spila sinn besta leik en sýndi samt hvað hann getur verið fáránlega mikilvægur leik Liverpool næstu vikurnar. Fannst hann reyndar komast betur og betur inn í leikinn eftir því sem leið á hann.

    Leicester hefur lika verið óþolandi á þessu tímabili og líklega náð tveimur af sínum betri leikjum í deildinni gegn Liverpool, hefði alveg viljað sjá þessa sóknarlínu Liverpool fá að mæta Leicester liðinu sem allir aðrir eru að spila á móti á þessu tímabili.

    Það eru tíu leikir fram að næsta landsleikjahléi og því alveg þörf á öllum þessum mannskap.

    4
    • Ég var einmitt ekki viss hvort Thiago væri inná fyrr en eftir ca 30 mínútur. Hélt að ég hefði ekki fylgst nógu vel með en mér sýnist á skrifum Einars að sennilega var Thiago lítið í boltanum í byrjun leiksins. En hann var sjálfsagt bara að hita sig upp enda var hann flottur eftir þetta.

      3
  6. Fínn leikur, nýi maðurinn Diaz virkaði á mig eins og að hann væri búinn að vera partur af þessu liði í mörg ár. Jota gerði það sem Jota gerir best, þefa upp marktækifæri ekta striker þarna á ferðinni. Dijk og Matip frábærir í þessum leik, Robbo var mjög góður , Trent virtist oft úr stöðu en skilaði sínu. Aðrir að mestu flottir. Hef smá áhyggjur af Jones, hann klappar boltanum fullmikið en treysti herr Klopp til að hjálpa honum að þróa sinn leik. Spenntur fyrir næstu leikjum og loksins er herr Klopp í þeim lúxusvanda að hafa breiðan hóp til að velja úr og næsti kostur af bekknum er klárlega í Liverpool klassa ekki bara uppfylling.

    4
  7. Takk fyrir þetta. Glæsilegur sigur og öruggur. Ég trúi ekki öðru en að síðustu leikir hafi lækkað óttastigið hjá þeim sem töldu að liðið gæti ekki skorað og unnið ef Salah væri ekki með. Maður kemur nefnilega í manns stað og mér sýnist hreinlega að liðið hafi verið síst lakara án Mane og Salah. Það eru jákvæðar fréttir því breiddin hjá liðum er það sem skilar titlum. Ég er enn á þeirri skoðun að ef allir eru heilir þá er okkar lið fyllilega á pari við MC. En auðvitað þarf að sýna það í innbyrðis viðureign liðanna.

    5
  8. Svona daginn eftir, finnst mér einu vonbrigðin vera að Curtis Jones virðist alveg staðnaður í sinni spilamennsku. Ég var að vona að hann myndi springa út á þessari leiktíð og taka stórt skref framávið en það virðist ekki ætla að gerast. Augljósasti ljóðurinn á leik hans er að hann horfir allt of mikið ofan á tærnar á sér í staðinn fyrir að skanna umhverfið og staðsetningar næstu manna. Og svo þetta óþarfa boltaklapp. Hraða Liverpool-samspilið gengur yfirleitt þannig að leikmenn taka þrjár snertingar: stöðva boltann, færa hann og gefa hann, en Jones ætlar aldrei að koma boltanum frá sér.. Mér finnst þetta virkilega mikil spæling og alveg spurning hvort drengurinn (gleymum því ekki, hann er kornungur) er að spila sig út úr Liverpool með þessu áframhaldi.

    4
    • sú ákvörðun að spila Jones í þessum leik var afar furðuleg,,, sérstaklega eftir skelfilega frammistöðu hans gegn Crystal Palace þar sem hann var sífellt að spila sig úr stöðu, varðist takmarkað og bauð ekki upp á neitt sóknarlega, annað en að hægja á spilinu. Hann var þó skömminni skárri í þessum leik.

      Ég man eftir tveimur góðum leikjum hjá honum síðla árs 2020 en síðan hefur hann lítið gert af viti.

      2
    • Tímabilið 2020/21

      Þá átti C.Jones marga mjög góða leiki fyrir Liverpool á tímum þar sem liðið var í miklum vandræðum út af meiðslum. Hann tók þátt í 24 deildarleikjum þar af byrjaði hann 14 leiki og byrjaði inn á í fjórum meistaradeildarleikjum.

      C.Jones er 21 árs og ætti að vera 6-9 árum frá sínum bestu árum í boltanum. Að hann sé kominn á þennan stað að Jurgen Klopp treystir honum að byrja leiki á þessum aldri er virkilega vel gert.
      Ég er alveg sammála því að hann var ekki með bestu mönnum í síðustu leikjum og er stundum lengi á boltanum en hann átti líka góða spretti í síðasta leik þar sem hann var að vinna boltan á miðjunni, koma honum vel frá sér og það var allt annað að sjá hann í pressuni(heldur en í leiknum á undan).
      C.Jones er með góða tækni, getur sent boltan vel og er vinnusamur en eins og það er búið að benda á má skila boltanum hraðar frá sér. Ég held að það kemur með meiri reynslu og ef við sjáum þetta í sjónvarpinu hérna á klakanum þá er ég 100% viss um að Jurgen Klopp og félagar vita af þessu en ef Klopp hefur trú á þessum strák þá ætla ég ekki að detta þann hóp að fara að skjóta á ungan strák í hvert skipti sem hann gerir einhver mistök.

      H.Elliott er sá ungi leikmaður sem virkar meira spennandi og er líklegri að verða stjarna en það er alveg pláss fyrir fleiri unga leikmenn að geta orðið hörku leikmenn fyrir Liverpool bæði í nútíð en ekki síður framtíð og tel ég að C.Jones getur verið sá leikmaður.

      YNWA

      1
  9. Ég vona að Liverpool láni Jones eftir tímabilið til liðs í úrvaladeildinni, hann er svo sannarlega með hæfileikana en þarf leiktíma til að þróa sinn leik og með Fabinho, Hendo, Thiago og Elliot á undan sér í röðinni þá fær hann ekki að spila nóg.

    • haha satt..þetta United lið er svo lélegt maður getur ekki annað en hleigið ..ofborgaðar útbrunnar stjörnur og prímadonnur og allt í steik ..verða heppnir að ná evrópu sæti með þessu áframhaldi.

      1
    • Held þetta sé í fimmta sinn upp á síðkastið sem Man Utd er yfir í leik en missir hann niður í jafntefli. Eitthvað seinni hálfleiks jinx í gangi. Svipað og hjá Brendan Rodgers.

      1
    • Eitt sem ég var að pæla í … hefði þetta ekki átt að vera víti á Harry Maguire þarna í lokin, þegar hann ýtir sóknarmanninum og stígur svo á hann? Og af hverju er hann ennþá fyrirliði? Annars vil ég pæla sem minnst í Manure … þetta er bara ljúft að sjá og vonandi halda hörmungar liðsins áfram á meðan söksess verði ríkjandi okkar megin 🙂

      • Mér fannst þetta vera víti allan daginn….vonandi framlengja þeir við fyrirliðann og ronaldo þá er tryggt að þetta heldur svona áfram hjá þeim…

      • Nákvæmlega, Doddi. Það gengur ekki að menn megi brjóta hvernig sem er á sóknarmönnum í vítateig, bara ef boltinn er ekki akkúrat á tánum á viðkomandi. Svona stapp á kálfa hefði alltaf verið aukaspyrna og spjald úti á velli.

Liðið gegn Leicester – Diaz byrjar

Burnley – Liverpool (Upphitun)