Manchester United kemur í heimsókn (upphitun)

Það eru allir leikir úrslitaleikir þessa daganna og verða það vonandi næsta mánuðinn eða svo. Leikurinn gegn City s.l. laugardag var frábær og þó álagið sé mikið þá vill maður nánast hafa leik á hverjum degi þegar spilamennskan er eins og hún er og spennustigið þetta hátt.

Að næsta verkefni. Liverpool leitast eftir því að ná fyrstu “deildartvennunni” gegn erkifjendunum frá Manchester þegar United kemur í heimsókn á morgun, þriðjudag. Í leik þar sem nánast allt er undir, í raun fyrir bæði lið. Það er ekki ólíklegt að ef þessi lið ætla að ná markmiðum sínum (Liverpool að verða meistari og United að ná fjórða sæti) þá verða þau að ná fullu húsi stiga úr síðustu sjö umferðunum. Það er því ljóst að það verður eitthvað undan að láta.

Sagan og formið

Saga þessara liða er mikil og hún er löng. Þó svo að það sé komið talsvert síðan að þessi tvö lið voru að keppa um sömu titla þá er þetta alltaf einn af “leikjunum”. Til að fá auka krydd í þessa viðureign þetta árið þá er gríðarlega mikið undir fyrir bæði lið – Liverpool getur farið á toppinn (í fyrsta sinn síðan í október á síðasta ári) og sett tímabundna pressu á City með sigri á meðan að tap myndi fara langleiðina með að klára titilbaráttuna ef Man City vinnur Brighton sólahringi síðar á Etihad

Formið á þessum liðum, komandi inn í þennan leik, er mjög ólíkt. Síðan að Liverpool tapaði gegn Leicester 28 desember þá hafa þeir farið í gegnum 12 deildarleiki án taps (10 sigrar, 2 jafntefli) sem er besta stigasöfnun allra liða (32 stig) á þessum tæpu fjóru mánuðum. Í síðustu 5 leikjum hefur liðið safnað 13 stigum af 15 mögulegum (4 sigrar og 1 jafntefli).

Gestirnir hafa á sama tíma sótt 7 stig af 15 mögulegum í síðustu 5 leikjum (2 sigrar, 1 jafntefli og 2 töp).

Öll tölfræði þetta tímabilið er Liverpool í hag. Liverpool er að skora 2,55 mörk að meðaltali í leik (Man Utd: 1,63), fá á sig 0,71 mark (Man Utd: 1,38) og hafa haldið 18 sinnum hreinu í deildinni (Man Utd: 7).

Man Utd eru án sigurs í síðustu 5 deildarleikjum á Anfield (3 jafntefli og 2 töp) og hafa ekki skorað nema eitt mark í þessum leikjum.  Tölfræðin er í raun verri þegar síðustu 5 leikir eru skoðaðir, Liverpool með 3 sigra og 2 jafntefli.

Svo er auðvitað þetta líka..

Manchester United

Á blaðamannafundinum fyrir leikinn staðfesti Ralf Rangnick að liðið yrði án Raphaël Varane, Luke Shaw, Scott McTominay, Fred og Cavani.

Það verður svo að tefljast ólíklegt að Ronaldo spili (sjá lokaorð hér að neðan) en ég hallast að því að það verði svipuð uppstilling og gegn Norwich sem hefji leikinn á morgun nema að Wan-Bissaka komi mögulega inn í stað Dalot, enda með góðan hraða og mun líklega ekki mikið reyna sóknarlega á bakverði gestanna á morgun, Matic tekur sér væntanlega sæti inn á miðri miðjunni og svo er spurning hvernig þeir leysa sóknarleikinn í fjarveru Cavani (og mögulega CR). Ég ætla að skjóta á þetta lið:

De Gea

AWB – Maguire – Lindelöf – Telles

Pogba – Matic – Bruno

Sancho – Rashford – Elanga

 

Liverpool

Á blaðamannafundi fyrir leikinn sagði Klopp að allir væru heilir. Það verður því forvitnilegt að sjá uppstillinguna fyrir þennan leik. Ég er svolítið á því að stilla upp okkar sterkasta liði þar sem það eru alveg 5 dagar á milli leikja næst – hvað okkar sterkasta lið er svo er annað mál.

Ég ætla að skjóta á að Klopp geri nokkrar breytingar frá liðinu sem vann City um helgina.

  • Vörnin verður óbreytt nema Matip kemur inn í stað Konate.
  • Ég er mjög spenntur fyrir miðjunni eins og hún var gegn City (Thiago, Fabinho og Keita) en ég ætla að skjóta á að Keita fái sér sæti á bekknum og Henderson komi inn í stað hans. Alveg möguleiki líka á að Keita haldi sæti sínu (verið stígandi í honum undanfarið, átti einnig frábæran leik á Old Trafford) og Henderson gefi Fabinho kærkomna hvíld.
  • Fram á við þá eru Salah og Mané alltaf að fara að byrja þennan leik. Ég ætla að skjóta á að það verði Jota sem taki sér sæti á milli þeirra og þetta verði einhvern veginn svona á morgun:

Allison

TAA – Matip – Virgil – Robertson

Henderson – Fabinho – Thiago

Salah – Jota – Mané

Lokaorð

Það verður engin spá í þetta skiptið. Það eru stærri og mikilvægari hlutir þarna úti en fótbolti. Cristiano Ronaldo tilkynnti í dag að hann og Georgina hefðu eignast stúlkubarn. Þau áttu von á tvíburum en litli strákurinn lifði fæðinguna ekki af. Hrikalega sorglegt, setur hlutina svolítið í samhengi. Við sendum hlýja strauma til Ronaldo og fjölskyldu. Held að okkar mottó eigi vel við að þessu sinni, You´ll never walk alone.

2 Comments

One Ping

  1. Pingback:

Miðar á Villareal leikinn

Gullkastið – Úrslitaleikur í hverjum leik