Liverpool 9 – 0 Bournemouth

Það var markaveisla í boði á Anfield, þegar Liverpool jöfnuðu metið í úrvalsdeildinni yfir stærsta sigurinn og settu níu kvikindi á móti lánlausu liði Bournemouth.

Mörkin

1-0 Díaz (3. mín)
2-0 Elliott (6. mín)
3-0 Trent (28. mín)
4-0 Firmino (31. mín)
5-0 Virgil (45. mín)
6-0 Mepham (sjálfsmark) (46. mín)
7-0 Firmino (62. mín)
8-0 Carvalho (80. mín)
9-0 Díaz (85. mín)

Gangur leiksins

Áhorfendur heima í stofu voru svona rétt svo búnir að klára að hella upp á te þegar fyrsta markið var komið, Firmino átti þá sendingu inn að markteig þar sem Diaz var réttur maður á réttum stað og skallaði örugglega í netið. Aðeins þrem mínútum síðar kom söguleg stund (og ekki sú eina í leiknum), þegar Harvey Elliott skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir liðið. Aftur var Firmino viðloðandi, en boltinn hrökk frá honum til Harvey sem skrúfaði boltann örugglega í fjærhornið. Alltaf gaman þegar uppaldir púlarar skora á Anfield, og næsta mark kom einmitt frá einum slíkum þegar Trent lét vaða af 30 metra færi og lúðraði boltanum í netið. Skotið leit út fyrir að vera í vinkilinn en í endursýningu kom í ljós að það var bara nákvæmlega nógu langt frá markverðinum eins og þurfti. Enn og aftur var það Firmino sem fékk skráða stoðsendingu, þó þessi hafi vissulega verið svona “Jordon Ibe rennir boltanum á Coutinho” stoðsending. Bobby ákvað svo að koma sér sjálfur á listann yfir markaskorara og skoraði fjórða markið þegar hár bolti inn á teig var hvorki tekinn af varnarmönnum né markverði og Bobby nýtti tækifærið. Virgil bætti svo við marki rétt fyrir leikhlé eftir hornspyrnu frá Robbo, aldrei þessu vant kom Bobby ekkert við sögu í því marki.

Staðan 5-0 í hálfleik, sem í sjálfu sér var söguleg staða. Carvalho kom inná fyrir Harvey í leikhléi, ekki vitað til þess að meiðsli hafi spilað þar inn í.

Strax í upphafi seinni hálfleiks skoruðu Bournemouth sjálfsmark, ef maður á að vera alveg sanngjarn þá hefði verið réttast að dæma rangstöðu því varnarmaður Bournemouth var að forða því að boltinn bærist til Díaz sem var einmitt rangstæður. En það er dómarinn og VAR sem ráða. Bobby bætti svo við marki nr. 2 hjá sér og sjöunda marki Liverpool eftir að Robbo tók hornspyrnu stutt, fékk boltann aftur og sendi inn á markteig þar sem Bobby skoraði í annarri tilraun. Carvalho opnaði síðan markareikning sinn hjá félaginu með marki nr. 8 í leiknum, og Díaz rak smiðshöggið á leikinn undir lokin með skallamarki eftir hornspyrnu.

Frammistaða leikmanna

Þetta var mjög góður sigur liðsheildarinnar, það er erfitt að horfa fram hjá Bobby Firmino þegar við tilnefnum mann leiksins, enda ekki oft sem menn eiga 5 mörk + stoðsendingar í einum leik. Annars voru allir að gera sitt besta, og í raun er ótrúlegt að Salah skyldi ekki koma að einu einasta marki – en fékk þó a.m.k. tvö algjör dauðafæri!

Umræðan eftir leik

Nokkur atriði sem vert er að minnast á:

  • Liverpool skoraði 5 mörk í einum hálfleik, í fyrsta skipti síðan 1958
  • …og þetta voru 5 mismunandi markaskorarar í einum hálfleik, í fyrsta skipti síðan 1892
  • Harvey og Carvalho með sín fyrstu deildarmörk (og fyrsta mark Carvalho fyrir Liverpool yfirhöfuð).
  • Stefan Bajcetic og Bobby Clark fengu sínar fyrstu mínútur í keppnisleik fyrir aðalliðið.
  • Bobby Firmino er núna kominn með 100 mörk, og er því kominn í hóp 19 leikmanna sem hafa náð þeim árangri. Ekki slæmur félagsskapur að vera í.

Gleymum okkur samt ekki of mikið í gleðinni, það er full ástæða til að bæta leikmanni við hópinn. Ég vil leyfa mér að fullyrða að þetta verði eini leikurinn sem liðið vinnur 9-0 í vetur (skal glaður éta sokk ef þetta reynist rangt), við munum mæta liðum sem verða betur stemmd en Bournemouth í dag, og við skulum ekkert útiloka að fleiri leikmenn eigi eftir að meiðast. En vonandi fer að koma betri tíð með blóm í haga varðandi meiðslalistann.

Framundan

Nú fer leikjaprógrammið að þyngjast: Newcastle á miðvikudagskvöld á Anfield, og svo er það heimsókn yfir lækinn til Goodison Park á laugardag eftir viku. Við gætum séð Darwin Nunez eftir viku, en hann verður reyndar sjálfsagt í bölvuðu basli að komast í liðið ef það heldur þessum dampi.

P.s. stelpurnar okkur kláruðu undirbúningstímabilið sitt í dag með leik gegn City, og endaði sá leikur með 1-1 jafntefli. Við fjöllum betur um kvennaliðið fyrir fyrsta leik þeirra í deildinni sem verður um þarnæstu helgi.

44 Comments

  1. Sælir félagar

    Þarna kannaðist maður við Liverpool liðið eins og það á að sér að vera. Gríðarlegur hraði og sókirnar baneitraðar fyrir andstæðinginn. Eins þegar hægari uppbyging sóknanna frá aftasta manni til þess fremsta með Bobby Firmino fremstan sem sýndi vel hversu góður hann er í fótbolta. Vonandi þagna nú þær raddir sem hafa talað hann niður undanfarið.

    Allir leikmenn voru að spila vel og jafnvel TAA spilaði vararleikinn frábærlega ásamt Gomes og VvD. TAA sýndi í þessum leik hvað hann getur í raun og veru spilað vörn vel með þann mikla hraða sem hann ræður yfir. Miðverðirnir stigu ekki feilspor og loksins skoraði VvD mark sem vonandi kemur honum í gang í teig andstæðinganna.

    Þrátt fyrir að andstæðingurinn sé ekki sá sterkasti í deildinni þá sýndi Liverpool liðið hversu gríðarlega öflugt það er í reynd þegar liðið spilar eins og það getur bezt og allir leikmenn leggja sig fram í sókn og ekki sízt í vörninni líka. Það þurfti að vísu afar vond úrslit í síðasta leik til að liðið ræki af sér slíðruorðið en liðið gerði það og gerði það vl.

    Það er nú þannig

    YNWA

    14
    • Bobby maður leiksins, long time no see. Fyrstu mörk hans á Anfield síðan 2020. Vonandi upphafið að betri frammistöðum, en ég vil sjá svona endurtekið gegn liðum sem bíta eitthvað frá sér. Frekar auðvelt að minna á sig þegar andstæðingurinn gefst upp eftir 5 mín.

      7
      • Það er aldrei auðvelt að leggja upp þrjú mörk og skora tvö þótt andstæðingurinn sé ekki upp á sitt besta.

        2
      • Það er aldrei auðvelt að leggja upp þrjú mörk og skora tvö þótt andstæðingurinn sé ekki upp á sitt besta..

  2. Stórkostlegur sigur og sýnir bara hversu fáránlega góður kúltúr er kominn í félagið okkar. Smá bakslag og svarið er svona.

    5
  3. Tæpt var það … 😀

    En nú þarf bara að fylgja þessari snilld eftir og taka Newcastle!!!

    Sama markatala og City 😉

    12
  4. Í gær fylgdi ég heittelskuðum vini til grafar, langt fyrir aldur fram.

    Hann elskaði fallega leikinn og hans maður var glæsimennið Luís Figo; hámark karlþokkans með kolsvart hárið og glansandi olíuborin lærin.

    Dagurinn í gær var hrikalega erfiður, sársaukinn lamandi í kirkjunni.

    En viti menn, í dag barst þessi fallegi sólargeisli frá Liverpool, smyrsl á sárin, eins og kveðja til okkar beggja um að allt verður gott á ný.

    YNWA

    53
  5. BRAVÓ!
    Svona á að svara fyrir sig, lengi megi þetta halda áfram.
    Allt annað að sjá leikmenn og liðið, rosalega góð hreyfing á mönnum ,sérstaklega Elliott og Diaz, held að Harvey sé að geirnegla sig í þetta lið.

    5
  6. Skýrslan komin í hús. Annars verður gaman að sjá hvort það verða jafn mörg komment eftir þennan leik eins og eftir síðasta leik….?

    17
    • Af hverju ekki? Lífið er raunverulegt en ekki bara góðar tilfinningar, það er vont veganesti að vilja ekki ræða erfiða og vonda hluti…..

      4
  7. Mikið var að risinn reis úr dvala og sýndi hvað í honum býr. Núna er ég farinn að þekkja mína menn og vonandi láta þeir kné fylgja kviði og mæta með samskonar hugarfar í næsta leik. Það var búinn að vera undarleg lægð yfir liðinu. Vonandi heldur þetta áfram í þessum dúr.

    2
  8. Frábær leikur og engin sem átti slæman leik nema kannski Salah sem fór ekki mikið fyrir í dag.
    En 3 stig í hús og vonandi var ekki um meiðsli að kenna að Elliot fór af velli

    3
  9. Liverpool höfðu haft betra xG en andstæðingarnir og meira af boltanum. Vandinn var að fá á sig mark snemma og einhver doði fyrir framan markið.

    Vonandi er það mál leyst. Fyrir utan það augljósa með Firmino, Diaz, og TAA, þá var Elliot mjög góður — þurftum það eins og staðan er núna. Finnst Gomez enn vera soldið “laus” og hræðist þegar hann er með boltann aftast.

    Carvalho er leikmaður. Staðsetningar, hreyfingar, snertingar allt að koma og smella inní stílinn. Markið sýnir líka tækni og áræðni sem við þurfum sannarlega.

    Ef við getum haldið áfram að nota Hendo og Millie til skiptis og aldrei saman — og svo hvílt þá þegar yngri og fljótari miðjumenn koma — þá erum við í góðum málum.

    P.s. — er með til sölu kassa af hálftómum glösum sem ég gæti látið fara í skiptum fyrir hálffull. PM

    9
  10. Díaz og Bobby fóru hamförum í þessum leik eru báðir með 10 í einkun algerlega frábærir ég horfði á leikinn í Díaz nr 23 sem er mitt uppáhalds númer í sportheiminum fyrr og síðar þvílíkir íþróttamenn sem hafa borið þetta númer hátt og örugglega óþarfi að nefna þá nafni það vita allir hverja ég er að tala um !!

    YNWA

    5
  11. Hvað er Bournemouth að gera í þessari deild? Sorry, en ég held aðal munurinn milli leikja sé andstæðingurinn. Newcastle í næsta leik er það ekki? Sjáum hvað Firmino gerir gegn þeim. Ekki misskilja mig. Frábær sigur og góð frammistaða. En ég held að aðal ástæða þess að einmitt menn eins og elsku Firmino voru að vakna til lífsins er andlausa Bournemouth liðið. Sjáum til.

    Áfram Liverpool og áfram Firmino!

    8
    • Ef Firmino var svona góður að því að andstæðingurinn var slakur getur þú þá útskýrt afhverju Salah var svona slakur á móti svona slöku liði er hann semsagt þá allveg búinn samkvæmt þinni hugmyndafræði ?

      YNWA

      8
      • Hvorugur er búinn. Ég held samt það hafa hjálpað Firmino og Liverpool liðinu mikið hvað andstæðingurinn var andlaus ofan í litil gæði. Ég sé þá ekki halda sér í deildinni. Salah fannst mér ekki slakur. Hann var vissulega ekki að nýta færin en mér hann hann líflegur og standa sig vel. Þetta er engin sérstök hugmyndafræði. Bournmouth kom bara á goðum tíma að munu mati. Alveg eins og mér fannst ManU leikurinn koma á slæmum tíma.

        3
    • Hvað er southampton að gera í þessari deild? Töpuðu þeir ekki 9-0 gegn lélegu liði mu í fyrra?
      Liverpool voru helvíti góðir í þessum leik og ég held að bournmouth falli ekki, ekki frekar en southampton.

      2
      • Akkúrat. Ég aftur á móti held Bournmouth falli en Southampton haldi sér uppi.

        2
  12. Frábær frammistaða í dag hjá strákunum.

    Það var byrjað af krafti og einfaldlega keyrt yfir gestina og 9-0 sigur hefði getað orðið stærri.

    Það voru margir sem voru tilbúnir að tjá sig eftir drulluna gegn Man utd en þá mega þeir sömu vera tilbúnir að hrósa þegar liðið kemur með svona frammistöðu.

    YNWA

    9
    • Ég gerði það í stöðunni 2-0. Ég er mjög ánægður með að baráttan, áræðnin og leikgleðin sé komin aftur og megi hún halda áfram sem lengst.
      Vonandi geta þeir sem voru jákvæðir eftir síðasta leik séð það sem upp á vantar er illa gengur og séu ekki hræddir við að ræða þá hluti hérna líka.

      4
  13. Kemur í ljós að jú, Harvey var tekinn af velli af því að það var einhver grunur um meiðsli, og menn gátu leyft sér að taka hann útaf snemma í ljósi stöðunnar. En svo virðast frekari skoðanir hafa sýnt að það er í góðu lagi með hann.

    7
  14. Þetta gefur mönnum vonandi sjálfstraust og hafa sýnt hvor öðrum og okkur að þeir eru ennþá þarna.
    Maður veit að þetta Bournemouth lið er ekki gott og er ekki líklegt til afreka en að skora 9 mörk í sama leik er samt afrek að mínu mati.
    Það gékk allt upp hjá öllum nema Salah í dag en hann var brosandi allan leikinn og ég hef ekki áhyggjur af honum.

    Nú er að keyra eins á Newcastle næst sem verður talsvert erfiðari leikur en ég hef fulla trú á þeim !

    YNWA

    7
  15. Annað hvort í ökla eða eyra er stundum sagt, en ég er á því að andstæðingurinn fékk bara ekki að spila betur í dag. Held þetta sé komið hjá þeim, nú bara áfram gakk(pressa, hlaupa etc.).

    YNWA

    4
  16. Flottur sigur. Góður endir á erfiðri viku. Komið með næsta lið takk

    4
  17. Þetta leit kannski út fyrir að vera auðvelt en það var það alls ekki. Þetta kostaði mikla vinnu á æfingasvæðinu og það má ekki vanmeta vinnuna sem Klopp og félagar hafa unnið eftir þessa fyrstu leiki sem töpuðust. Þó það hafi ekki gengið vel í fyrstu leikjunum þá hætti Liverpool aldrei í þessum leik sem var vel settur upp a móti veikara liði. Það mætti spyrja sig hvernig hinir leikirnir hefðu farið ef við hefðum skorað fyrst? Leik planið hjá öllum liðum fyrir utan City er að taka það sem Ancelotti gerði í UCL(án þess að það sé farið nánara úti það) og treysta a skyndisóknir. Meðan það gengur eftir jafnvel þó að Liverpool eigi sigurinn skilið er það alltaf varnar þjálfarinn sem skilar taktiskum meistara sigri ef motherjinn vinnur sem er skiljanlegt að einhverju leyti en litur svo hrikalega illa út þegar það gengur ekki eftir eins og í dag(þó þetta sé mjög mjög ýkt tilfelli).
    Annars breytir þetta engu, miðjan er veik með svona mörg meiðsli, Firmino er vonandi að komast aftur í form eftir erfiða meiðsla hrinu o.s.frv
    Bottom line þetta er skref í rétta átt, en það eru samt svo mörg spurningamerki eftir sem verður vonandi betur svarað í næstu leikjum/vikum, sérstaklega varðandi miðju og ef út í það er farið framherja. Newcastle verður risa prof, bring it on!

    7
  18. Frábær leikur, en hvar voru þessir sömu menn á móti Man Utd hvar var þessi sprengikraftur þá og gleðin sem maður sá svo glökkt í þessum leik í dag. Ég veit að Bournemouth er líklega slappasta lið í deildinni og það er ekki eins og við séum orðnir Englandsmeistarar en við skulum samt gleðjast í dag og vonandi verður eins góður leikur á móti Newcastle.

    4
  19. Kaupa Rafael Leao frá AC milan. vængmaður, en þá getum við sett aðra á miðjuna. Hann er magnaður núna með AC. Það er talað um að Klopp og Henry hafi fundað og það sé samþykki milli þeirra að það eigi að kaupa miðjumann, og jafnvel að borga met upphæð fyrir þann miðjumann. Spurning hvort það sé Bellingham eða annar, eða jafnvel tveir.

    5
  20. Sæl og blessuð.

    Svakalega góð frammistaða. Jú, andstæðingurinn gat ekki mikið en það að skora 9 mörk í leik er afrek.

    Nú þarf að byggja á þessu – ekki ofrísa eins og þegar þeir unni CP á sínum tíma. Spennandi tímar framundan og þetta lið hefur amk sýnt að það er til alls líklegt.

    Takk fyrir mig.

    3
  21. Jú, Elliot fékk högg og þurfti að fara út af í dag. Það eru taldar 50% líkur á að hann verði með næst. Það er svakalegt að sjá 11 á meiðslalistanum okkar á meðan flestir aðrir eru ekki einu sinni með helminginn af þeirri tölu.

    Kaupa miðjumann til framtíðar strax takk!

    https://www.premierinjuries.com/injury-table.php

    1
  22. Jákvæð viðbrögð gegn lélegasta liði deildarinnar og 9-0 virtist vera ósanngjarnt miðað við hversu slakir B’mouth voru. Þessi sigur var svona veggfóðrun yfir rifurnar og áminning um að leikmenn þurfa að mæta til leiks frá núll til 90+ og gera þessa fótavinnu til að eiga séns og það sýndi sig í dag. Ég fæ enga ánægju yfir 9-0 gegn svona slöku liði en þetta vekur vonandi menn þegar stóru strákarnir mæta okkur.

    3
      • Mjög jákvætt að fá hann samt í janúar í staðinn þurfa bíða fram á næsta sumar eins og var talað um fyrst.
        En ég ætla ekki að halda niðri í mér andanum.
        Þurfum samt fá 1 inn núna ..R.Neves væri ekki slæmur kostur

        5
  23. ÞARNA KOM ÞAÐ!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

    Alveg er maður orðinn hund latur á að lesa meir um hversu mikið við söknum MANE.
    það er EKKI AÐ SJÁ.

    Klopp BÚINN að finna fjölina aftur 😉 Benitez sár heima???

    2

Liðið gegn Bournemouth – endurkoma í vændum?

Gullkastið: 9-0!