Rauði herinn snýr aftur á suðrænar slóðir er þeir spila sinn fyrsta leik í riðli A í Meistaradeildinni þetta tímabilið gegn Napoli á sögufrægum heimavelli þeirra í nýskírðum Stadio Diego Armando Maradona. Hefjum Vesúvíus-sjóðheita-upphitunina á hinu ítalska ilhýra: Iniziamo il riscaldamento!!!
Mótherjinn
Evrópu-Einar hefur á síðasta áratug fjallað margsinnis meistaralega og ítarlega um félagsliðið Napoli í fortíð og nútíð, boðið upp á umfangsmikilli umfjöllun um stjórana þar og eigandann skrautlega ásamt áhugaverðri ádrepu um dökku hliðar borgarinnar. Ég mun því ekki endurtaka það eðalefni heldur upplýsa nánar um breytingar síðustu ára ásamt almennri umfjöllun um stöðuna fyrir komandi leik.
Eftir enga innbyrðis keppnisleiki milli liðanna í 84 ár að þá hafa klúbbarnir heldur betur gert bragarbót á því til að vinna upp tapaðar stundir með því að vera á leið í sinn sjöunda Evrópuleik frá árinu 2010 að viðbættum sitt hvorum æfingaleiknum í eðalborgunum Edinborg og Dublin. Leikar hafa verið afar jafnir í þessum einvígum og tölfræðin er hnífjöfn með hvort liðið með tvo heimasigra og tvö jafntefli með markatöluna 5 mörk skoruð af hvoru liði. Af því leiðir að Liverpool hefur ekki enn tekist að sigra í fyrrnefndum San Paolo og hefur enn ekki þanið netmöskvana þar í borg með einu jákvæðu úrslitin verandi markalaust jafntefli í fyrsta leik liðanna í október árið 2010.
Miklar breytingar hafa orðið á því liði sem við mættum tvö ár í röð í riðlakeppni Meistaradeildarinnar árin 2018 og 2019 en næstum heilt byrjunarlið af lykilmönnum og stórum nöfnum hafa yfirgefið himinbláliðana síðustu þrjú ár. Helstu nöfn brottfarinna eru Kalidou Koulibaly, Raul Albiol, Kostas Manolas, David Ospina, Marek Hamsik, Allan, Fabian Ruiz, Dries Mertens, José Callejón og Lorenzo Insigne en allir þessir upptaldir má telja sem bestu burðarása liðsins á þeim tíma. Eingöngu sitja eftir Meret í markinu, Di Lorenzo, Zielinski og Lozano af þeim sem voru að spila í þessum riðlakeppnisrimmum frá þeim tíma þó að sérlega stutt stund sé liðin í samhengi hlutanna.
Það má því með sanni segja að Napoli sé að tefla fram glænýju liði gegn okkur frá þeim leikmannahóp sem veitti okkur hörkujafna keppni og þar hafa bæst í hóp ný nöfn af sérlega alþjóðlegri blöndu. Í sumar kom suður-kóreski varnarjaxlinn Min-jae Kim frá Fenerbahçe á væna summu (18 mill evra) og Kamerúninn með kraftmikla nafnið, André-Frank Zambo Anguissa, kom frá Fulham fyrir litlu lægri upphæð (15 mill evra) ásamt því að vinstri bakvörðurinn og Úrúgvæinn Mathias Olivera mætti líka. Georgíumaðurinn kviki og kankvísi Khvicha Kvaratskhelia kvittaði undir með sínu kristaltæra kennileiti en til viðbótar má nefna norska varnarmanninn Leo Östigard og argentínsk-ættaða og fumandi feðraða Giovanni Simeoni. Öll þessi alþjóðlegu innkaup á einu sumri þóttu það yfirgripsmikil að António Guterres var beðinn um að vera vottur á flestum samningunum.
Í þokkabót þá er nýr þjálfari í formi Luciano Spalletti sem tók við fyrir síðasta sumar og gerði stórgott mót á nýliðnu tímabili með toppbaráttuframmistöðu fram eftir vetri. Pistlahöfundur gerðist svo frægur að taka stöðuna á Spalletti og þáverandi toppliði Napoli síðasta vetur er þeir mættu Torino í 1-0 sigri til að halda efsta sætinu á þeim tímapunkti í töflunni. Þar skal staðfest að hinn nýlega endurskírði Stadio Diego Armando Maradona er ógnandi og yfirþyrmandi heimavöllur þar sem að stressstrompandi sígarettureykur stuðningsmanna getur yfirbugað öflugustu áhangendalungu. Og ef magnþrungið Maradona-andsetið andrúmsloftið, svælandi sígarettumökkurinn, stigmagnandi stuðningstemningin og ljúflokkandi Limoncellið drepur þig ekki að þá mun leigubílaferðin frá vellinum leysa upp þitt litla líf. Að eilífu, amen & hönd guðs.
Aftur að Spalletti sem gerði stórfína hluti með Roma á tveimur tímaskeiðum og hélt þeim í toppbaráttu umfram efni að þá hefur hann klárlega náð góðum tökum á þessu Napoli-liði. Sérstaklega ef miða má við 3.sæti síðasta tímabils og þá staðreynd að liðið hefur byrjað þessa Seria A keppni taplausir og sitja í 2.sæti deildarinnar er þeir mæta okkar mönnum í Liverpool. Það er alveg á hreinu að þarna er hæfileikaríkur þjálfari á ferð sem er verðugur arftaki Maurizio Sarri, Carlo Ancelotti og Gennarro Gattuso sem voru hans forverar í starfi og er líklegur til að viðhalda þeirri velgengni Napoli hefur haft mestmegnis síðasta áratuginn.
Að öllu ofansögðu frá síðustu árum aftur til fornrar eldgossögu að þá er þetta líklegt byrjunarlið Napoli á morgun að mati pistlapárara:
Liverpool
Rauði herinn hefur ekki byrjað tímabilið eins og vonast var eftir verandi í 7.sæti úrvalsdeildarinnar með 9 stig af 18 mögulegum eftir 6 leiki. Eftir að hafa komist grátlega nálægt fullkomni fernutímabili að þá vakti öflugur sigur á City í Samfélagsskildinum væntingar um að við værum í góðum gír í byrjun tímabils. En annað hefur komið daginn þar sem að flestir leikir, að Bournemouth-barsmíðinni fráskilinni, hafa verið bölvað bras frá upphafi til enda.
Eflaust gætu bjartsýnni menn en ég horft til þess að einhver XG-tölfræði eða stöðug stangarskot vísi til þess að hlutirnir séu nú ekki jafn slæmir eins og margir vilja vera að láta. En staðreyndin er einfaldlega sú að við höfum fengið 1 stig gegn tveimur erkifjendum okkar og stigasöfnun upp á 1,5 stig að meðaltali er ávísun á 57 stig í lok tímabils sem er harla ólíklegt til að duga til Meistaradeildarsætis, hvað þá að vera nægilega nytsamlegt til að taka þátt í toppbaráttu.
Mikil mistök með miðjumönnun á miðsumarmarkaðnum þýddi að við fórum í neyðarlán á lokadegi og þessi vinnubrögð eru augljóslega ekki sú yfirvegaða og úthugsaða langtímasýn sem einkennt hefur okkar “kaupnefnd” og klúbb síðustu árin. Hvort að um sé að kenna óþarflega aðhaldssömum eigendum eða ofmati þjálfaranna á leikmannahópnum skal ósagt látið en það er kýrskýrt að við förum alvarlega undirmannaðir inn tímabilið á miðsvæðinu. Það að fjórði dýrasti leikmaður í sögu Liverpool kemst ekki einu sinni í CL-hópinn í stað 17 ára drengs með 1 A-leik á ferlinum undirstrikar að lestin hefur farið af teinunum hvað þessi mönnunarmál varðar.
En við erum þó komnir með nýjan miðjumann í hópinn og það verður áhugavert að sjá hvort að Arthur Björgvin Boltason byrji inná eða verði á bekknum líkt og um helgina í Bítlaborgarbardaganum. Án þess að hafa mikið horft á kappann síðustu árin að þá virkar hann af þúvarps-þjálfuðu fótboltafránu auga mínu sem fátækari útgáfa af Thiago okkar en það þarf þó ekki að vera neitt slæmt. Klopp gaf það þó út í kvöld að King Arthur of the round football væri ólíklegur til að byrja leikinn en það er aldrei að vita nema að hálft liðið meiðist í upphitun þannig að hver veit.
Ég geri ekki ráð fyrir að bakvarða-skiptimarkaðurinn verði í gangi fyrir þennan leik þannig að við verðum með TAA & Robbo á sínum stað en stærri spurning gæti verið með Gomez vs. Matip en ég hallast að því að sá sem er í leikforminu fái plássið umfram þann sem er að koma úr meiðslum. Þá ætla ég að spá því að Thiago komi inn í klukkutíma en verði skipt útaf fyrir Arthur fljótlega í seinni hálfleik. Nunez fær annan séns í framlínunni enda brillerað þar með Benfica og fær sætið um fram Firmino. Byrjunarliðið gæti því litið svona út:
Kloppvarpið
Jürgen Klopp var rétt í þessu að ljúka blaðamannafundi sínum suður með Miðjarðarhafssjó og Alisson veitti honum markverða forvinnu í eftirfylgninni. Hér má sjá helsta úrdrátt af blaðamannafundinum í boði hinna frábæru This is Anfield.
Tölfræðin
- Liverpool hefur aldrei skorað á útivelli gegn Napoli í sögu liðanna.
- Liverpool og Napoli eru með sama vinningshlutfall gegn hvort öðru eða 33,3% og jafn mörg mörk skoruð eða 5 gegn 5.
- Liverpool hefur fengið 1 mark á sig í síðustu 3 deildarleikjum eftir að hafa fengið á sig 5 í fyrstu 3 deildarleikjum tímabilsins.
- Diego Armando Maradona fékk ekki dæmda á sig hendi í aðdraganda marks á HM 1986. Martin Atkinson sá um VAR-dómgæslu í þeim leik.
Upphitunarlag
Dean Martin er þrekinn þjálfari sunnarlega á Íslandi en þokkafullur alnafni hann söng ljúfsáran og ljósbláan lofsöng um hina lostafullu og suðrænu sjávarborg Napólí. Vonandi munu rauðliðar okkar ekki kolfalla fyrir kossum knattspyrnunnar heldur sigra með okkar meymörkum í hinni merku Miðjarðarhafsborg:
In Napoli beside the sea
It happened on a night like this
In Napoli our hearts were free
And we surrendered to a kiss
Varamanna-upphitunarlagið
Fyrir þá sem ekki eru að digga Dean Martin og hans yndistóna að þá er upphitunarlag til vara fyrir vandfýsna. Við vendum þá okkar kvæði í kross tónlistarlega en förum þá bara í nágrannabæ Napólí sem merkilegt nokk er hinn fyrrum sagnfræðilega sjóðheiti Pompeii þar sem hinir engilsaxnesku Pink Floyd héldu mannlausa tónleika í hringleikvangi hinna horfnu sála. Það verður alger andstæða við sjóðandi stuðninginn á Stadio Diego Armando Maradona en við hvetjum áhugasama um prufukeyra að spila magnaða músíkina undir leiknum og tímalengdin ætti að duga fyrir venjulega leiktíma ásamt uppbótum:
Spaks manns spádómur
Okkar menn eiga að vera ýmsu vanir þegar að kemur að því að ná framgangi í Evrópukeppnum og þar er lykilatriðið að halda góðri yfirvegun á útivöllum og skila hagkvæmum úrslitum heim í hús. Heimamenna hafa byrjað tímabilið stórvel og eru í toppbaráttunni án þess að hafa tapað leik á meðan við höfum verið í bölvuðu brasi miðað við okkar himinháa gæðastaðal.
Ef við fáum liðstyrk í endurheimt af meiddum miðjumönnum að þá er ég bjartsýnn á að þetta sé leikur sem hægt sé að ná stjórn á og þrátt fyrir ógnandi andrúmsloft á Diego Armando Maradona Stadium að þá ættum við að hafa sterkara liðið með fleiri match winnera í okkar röðum. Ég ætla því að vera vongóður á að við náum að skora okkar fyrstu mörk í Napólí-borg í sögu Liverpool FC og að þau dugi okkur til 1-2 útisigurs með mörkum frá Mo Salah og Luis Diaz.
Til viðbótar þá benti Klopp á þá staðreynd að í bæði skiptin sem við höfum mætt Napólí í riðlakeppni CL að þá höfum við komist í úrslitaleikinn. Just sayin….
YNWA
Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.
Vönduð upphitun fyrir meistaradeildarleik eins og venja er hér, vel gert. Forréttindi að hafa þessa síðu.
Muchos gracias mi amigo.
Sælir félagar
Ég hefi engu við að bæta svo frábæra upphitun. Vona bara að Magnús verði sannspár um úrslit leiksins. Ekki veitir af að liðið okkar fari að gefa okkur niðurstöðu sem gleður.
Það er nú þannig
YNWA
Kærar þakkir meistari Sigkarl.
Frábær upphitun meistari Beardsley. Hrein unun að lesa og frábær forréttindi fyrir forfallna fótboltafábjána eins og mig að hafa 😉
Sammála, geggjaður penni. Efnið hreinlega lifnar við í textanum hjá honum. Kannski Magnús geti prófað að skrifa handrit af leiknum til að hvort Liverpool lifni ekki líka við.
Kærar þakkir félagar Sævar Þór og Kristján!
Einstaklega vel heppnuð upphitun, vona að leikurinn í kvöld verði í sama klassa, væri gott að byrja á eins og 3 stigum eða svo á erfiðum útivelli.
Líklegt að Arthur fái sínar fyrstu mínutur og vonandi stingur hann sokk eða sokkum upp í þeim sem telja hann ekki verður til að spila með okkar ástkæra. Treysti því að herr Klopp viti hvaða mann og ekki síst týpu hann er að taka inn í hópinn, ekki veitir af að hressa miðjuna aðeins eftir ströggl í byrjun tímabilsins. Spái erfiðum leik, 1-1 eða 1-2 og vona að Salah, Días og Nunes verði eitraðir í framlínunni og mataðir af Thiago og eða Arthur sem ku hafa getu til að finna framherjana eftir því sem sagt er.
Kærar þakkir Þórarinn! Við treystum á Sir Arthur of Camelot að stinga sokkum upp í vantrúaða.
Vona Magnús að Arthur fái ekki á sig nafnið Arthur J. Sívertsen hinn dónalegi eins og sagði í lagi Ladda hér í denn en það er allt önnur Ella.
Sæl og blessuð.
Tek undir pistlalofið og erum við þó góðu vön. Varðandi leikinn í kvöld þá er ég svartsýnn og hef ekki fleiri orð um það.
Svo er búið að reka Tuchel karlinn. Engar æviráðningar hjá bláliðum! Er þá Pottechino að koma aftur til lundúna?
Viljum við ekki að Firmino byrji inná, svona miðað við hvað hann er buinn að vera í miklu stuði síðustu leikjum
Geggjuð upphitun! Takk ?? og YNWA!!
Og Milner startar
Sælir,
er einhver með link á leikinn?
Sælir félagar
Liverpool leikmenn teknir í kennslustund í fótbolta. Þeir eru heppnir að vera bara 3 mörkum undir. Eitt skot á markið í 45 mínútur. Niðurlæging drullulélegra leikmanna LFC er alger. Ég vona að ég eigi aldrei eftir að sjá Gomes spila í Liverpool treyju framar. Sauðslegt yfirbragð leikmanna liðsins er grátlegt. Sóknaraðgerðir fálmandi og bitlausar. Móttaka á boltanum skelfileg hjá þeim nánast öllum. Spilið reikult og marklaust. Þvílík skelfing sem það er að horfa uppá þetta lið í kvöld. Hvað er eiginlega að þessum leikmönnum semn léku eins og englar á síðustu leiktíð en mundu ekki vinna annarar deildar lið í dag.
Það er nú þannig