Leikjum Liverpool í ensku deildinni er frestað hægri vinstri þessa dagana eftir andlát Bretlands drottningar en það er ekki frestað Meistaradeildarleiknum sem fer fram annað kvöld þegar Ajax heimsækir Anfield.
Síðast þegar Liverpool spilaði þá skeit liðið upp á bak í stóru tapi gegn Napoli í fyrsta leik riðlakeppninnar en Jurgen Klopp sagði það hafa verið líklega versta leik og frammistöðu sem hann hefur séð Liverpool spila undir hans stjórn. Hann hefur ekki rangt fyrir sér þarna og gaf hann í skyn að liðið þarf í ákveðna naflaskoðun til að finna þá hluti sem hafa verið að ganga illa til að geta lagað þá og vonandi hefur það tekist í þessari pásu sem liðið hefur fengið undanfarna daga.
Á meðan Liverpool tapaði gegn Napoli þá fór Ajax ansi illa með Rangers í sínum leik. Það er klárlega mikið af góðum fótboltamönnum þarna í Ajax og þetta er sterkt lið sem hefur þó gengið í gegnum nokkuð stórar breytingar í sumar. Þeir selja meðal annars þá Lisandro Martinez og Antony til Man Utd, Sebastian Haller fór til Dortmund og Gravenberch fór til Bayern. Þá bæta þeir við sig leikmönnum eins og Steven Bergwijn frá Tottenham, Calvin Bassey frá Rangers, Brian Brobbey frá Leipzig og Lucas Ocampos frá Sevilla.
Það er svolítið erfitt að sjá fyrir sér hvað Klopp hyggst gera með Liverpool annað kvöld og hvort við megum búast við einhverjum nokkuð stórum breytingum á liðsvali eða uppstillingu. Chamberlain, Henderson, Keita, Konate og Jones eru pottþétt allir enn frá og ekki klárir í leikinn og tveir þeirra ekki einu sinni í hóp í Meistaradeildinni. Þá er Andy Robertson einnig meiddur svo Tsimikas mun að öllum líkindum taka sæti hans í liðinu.
Thiago kom inn á gegn Napoli og var líflegur, Arthur kom einnig inn á sem og Joel Matip svo hópurinn er klárlega að breikka aftur. Þá var Carvalho ekki með í leiknum gegn Napoli vegna smávægilegra meiðsla en ætti að vera klár í slaginn á morgun.
Síðast þegar Liverpool mætti Ajax í þessari keppni þá var það leiktíðina 2020/2021 en þá vann Liverpool báða leikina 1-0. Við viljum að sjálfsögðu að Liverpool sigri báða leikina gegn þeim aftur en miðað við undanfarna leiki þá tekur maður engum úrslitum sem gefnum eða sjálfsögðum hlut.
Trent – Matip – Van Dijk – Tsimikas
Elliott – Fabinho – Thiago
Salah – Nunez – Diaz
Ég ætla að giska á að það verði nokkrar breytingar frá því í leiknum gegn Napoli. Matip mun koma inn fyrir Gomez sem átti ömurlegan leik gegn Napoli og hefði í raun bara átt að vera kippt út af strax í upphafi leiksins. Tsimikas kemur sjálfkrafa inn fyrir Robertson.
Það er erfitt að segja til með miðjuna en ég reikna með að Thiago byrji með Fabinho og þá bara spurning hvort þeir verði tveir á miðjunni eða hvort að Elliott yrði með þeim – jafnvel aðeins langsóttara hvort að þeir byrji með fjóra framherja og tvo miðjumenn.
Salah og Diaz, sem hefur verið einn sá besti í liðinu undanfarna leiki, halda sínum sætum reikna ég með þó svo að Jota og Nunez séu mættir aftur til leiks eftir meiðsli og leikbann. Ég hugsa að annar þeirra muni byrja inn á og ætla ég að giska á Nunez þar sem hann ætti að vera ferskari en Jota sem er nýlega kominn til baka úr meiðslum og fengið minna undirbúningstímabil en hinir. Ég hlakka hins vegar mikið til að fá Jota aftur á fullu gasi inn í þetta og myndi ekki hata að fá að sjá þá báða inn á á einn eða annan hátt annað kvöld.
Við setjum að sjálfsögðu kröfu á sigur í þessum leik og vonumst eftir því að Liverpool finni aftur dampinn og geti loksins byrjað leiktíðina af þeim standard sem frábært lið eins og Liverpool á að gera!
Nú þurfa leikmen að hysja upp um sig pilsin og vinna þennan leik. Getum ekki staðið í því að dragst aftur úr í riðlinum ofan á allt annað.
Ef Liverpool vinnur ekki þennan leik, þá ná bara engar afsakanir yfir það.
Sælir félagar
Takk fyrir upphitunina Ólafur Haukur og ég hefi bara eina athugasemd við hana. Þó ég og fleiri höfum verið að jarða Gomes, niður á 6 fetin, verður að benda á að hann á sér málsbætur í síðasta leik gegn Napoli. Fyrir það fyrsta skar hann sig ekkert sérstaklega úr í ömurlegri frammistöðu liðsins. Í annan stað var hann afar einmana með varnarleikinn áhægri vængnum og hafði lítinn sem engan stuðning af bakverði sínum. Þannig lenti hann hvað eftir annað í mjög erfiðum stöðum sem hann leysti að vísu ekki vel en . . .
Hvað um það, nú þarf liðið að sanna að síðasti leikur hafi verið slys. Liðið þarf að mæta til leiks algerlega tilbúið og leikmenn verða að fara að nenna að hlaupa fyrir málstaðin. Tölfræðin sem segir að öll lið sem liðið hefur spilað við í upphafi leiktíðar hafi hlaupið meira, tekið fleiri spretti og sýnt meiri vinnslu á vellinum, en Liverpool. Öðruvísi mér áður brá. Hvernig sem uppstillingin verður (mér finnst uppstilling ÓH líkleg) þá er krafan um baráttu, hlaup og vinnslu, ásamt með góðum fótbolta í fyrirrúmi.
Það er nú þannig
YNWA
munar líka miklu þegar Henderson er ekki hægra megin. Þrátt fyrir að Elliott hafi gert margt vel þá er hann engan veginn sami stuðningur varnarlega og Henderson.
Ofan á það hefur Trent lítið nennt að sinna varnarleiknum.
Vinstra megin er maður líka að sjá hversu mikilvægur Mané var varnarlega.