Man City á morgun

Á morgun kemur Man City í heimsókn á Anfield og þessi leikur er nú aðeins öðruvísi en þegar liðin mættust á síðustu leiktíð. Staða liðana eins og hún er núna er mjög ólík, Man City er núna 13 stigum á undan Liverpool og þó það teljist ólíklegt að Liverpool nái að enda fyrir ofan Man City á þessari leiktíð þá mun það sko alls ekki auka líkurnar á því ef Liverpool tapar fyrir þeim!

Liverpool tapaði fyrir Arsenal í síðasta deildarleik í mjög pirrandi leik sem endaði 3-2 og helsta vandamál Liverpool á leiktíðinni, varnarleikur liðsins var hreint út sagt ömurlegur. Í stórsigrinum á Rangers í miðri viku þá tókst þeim skosku að leika sér í gegnum vörn Liverpool og komust yfir snemma leiks – það er svona það helsta sem maður óttast helst í þessum leik á morgun. Ef vörnin stendur sig ekki þá mun City skora mörk á Liverpool – og þá líklega slatta af þeim.

Seinni hálfleikurinn gegn Rangers var flottur og þó mótherjinn hafi nú ekki verið sá allra sterkasti þá sá maður loks eitthvað sem minnti á það sem Liverpool á að vera að gera. Boltinn gekk hratt og örugglega á milli leikmanna sem varð til þess að þeir komust í góð færi og skoruðu mörk. Mo Salah og Jota komu frábærlega inn í leikinn af bekknum – Salah með fljótustu þrennu í sögu Meistaradeildarinnar og þrjár stoðsendingar frá Jota. Þá átti Firmino frábæran leik með tvö mörk og stoðsendingu, Nunez skoraði annan leikinn í röð og Elliott skoraði.

Konate var í byrjunarliðinu og átti góðan leik en nú virðist sem að hann sé eitthvað tæpur fyrir leikinn á morgun og hann sást ekki á æfingu með liðinu í gær, það væri slæmt ef hann getur ekki verið með því hann er virkilega öflugur og Liverpool hefur vantað það í vörnina hjá sér. Vonandi getur hann byrjað leikinn. Til að bæta gráu ofan á svart þá er Joel Matip frá vegna meiðsla líka og Joe Gomez leysti af í hægri bakverðinum fyrir Trent sem er líka meiddur.

Alisson

Milner – Gomez – Van Dijk – Robertson

Fabinho – Thiago

Salah – Firmino – Jota
Nunez

Ég hef í raun ekki hugmynd um það hvernig Klopp gæti ákveðið að stilla upp í þessum leik. Ef Konate er ekki heill fyrir leikinn þá mun Gomez líklega fara í miðvörðinn og Milner í hægri bakvörðinn. Robertson er kominn aftur til baka og ég held að hann komi inn í byrjunarliðið fyrir Tsimikas.

Henderson hefur byrjað undanfarna leiki en bæði Fabinho og Thiago hafa báðir byrjað á bekknum, ég yrði ekki hissa ef að Henderson muni taka sér sæti á bekknum og þá annað hvort í þessum leik eða leiknum á eftir. Mögulega gæti Klopp ákveðið að byrja með þrjá miðjumenn en undanfarið hefur hann bara spilað með tvo – sem mér þykir henta liðinu ágætlega hingað til og hjálpar til við að hámarka notin í þeim miðjumönnum sem eru heilir og nýtir styrkleikana frammi vel.

Frammi hafa þeir Salah, Nunez, Firmino og Jota allir gert vel undanfarið og allir á sinn hátt réttlætt það að þeir eigi að fá að byrja þennan leik, kannski er áhætta að byrja með svona marga framherja í þessum leik en það er samt alveg þannig að Liverpool þarf að fara að taka áhættur ef það á að komast ofar upp töfluna. Örugga leiðin hefur ekki verið örugg og ekki skilað miklu á töfluna hingað til. Mögulega gætu verið að Harvey Elliott komi inn í liðið en hann átti góðan leik gegn Rangers en mögulega gæti það þýtt að Salah færi meira inn að miðjum vellinum – sem er nú ekki slæmt.

Það var jákvætt að sjá viðbrögð Liverpool eftir að hafa lent undir gegn Rangers og eitthvað sem maður vonast til að verði einhver “turning point” á leiktíðinni. Við vonuðum að það hefði verið sigurmarkið gegn Newcastle á síðustu sekúndum leiksins, 9-0 sigurinn gegn Bournemouth og já frábær sigur gegn Man City í Samfélagsskildinum á upphafi leiktíðar en það hefur ekki verið raunin hingað til – svo í fullkomnum heimi hefði maður alveg viljað mæta einhverju öðru liði en Man City eftir leikinn gegn Rangers – vonandi er þetta skiptið sem hjólin fara að snúast og leikurinn gegn Rangers gefi vítamínsprautuna sem þarf til að sigra City á morgun og fara að skríða upp töfluna!

10 Comments

  1. Sælir félagar

    Þessi leikur leggst vel í mig einhverra hluta vegna. Ef til vill vegna þess að enginn býst við neinu í þessum leiknema öruggum sigri M. City. Málið er samt að allt getur gerst í fótbolta og það er orðið langt síðan Liverpool hefur tapað á heimavelli og vonandi fer það ekki að breytast. Spái 3 – 2 í verulega hunderfiðum leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    7
  2. Líður aðeins betur með þennan leik eftir 7-1 sigurinn á móti ÍBV í vikunni. Sá að Jonathan Morley var búinn að spá leiknum 2-2 og sá mikli mæti sendiherra og sérfræðingur hefur eigilega aldrei rangt fyrir sér.
    2-2 lokatölur og þá geta stuðningsmenn Arsenal haldið áfram að gera sig að fíflum með fáránlegum yfirlýsingum.

    Það er nú þannig.

    5
  3. Ef við ætlum að stilla upp tveggja manna miðju á móti City og Milner á móti Foden eru mín skilaboð einföld: Guð blessi Ísland.

    6
  4. Vinnum þetta 3-1!

    Við erum eins og sært dýr sem getur bitið frá sér.

    4
  5. Fabinho í hafssentinn með Van Dijk og Gomez í bakvörðinn. Thiago og Henderson á miðjunni og fyrir framan þá Jota, Firmino og Salah með Nunez fremstan í 4-2-3-1

    13
  6. Sæl og blessuð.

    Krakkar mínir – við skulum ekki blekkja okkur. Þetta verður því miður leikur kattarins að músinni. Einhvern veginn tekst leiðtogum þessa liðs okkar að skapa aðstæður á æfingarsvæði og velli sem eru stórhættulegar leikmönnum. Varnarlínan er hriplek af þeim ástæðum og enn þarf að para saman nýtt miðvarðarpar og til viðbótar nýja bakverði. Þetta er löngu hætt að vera fyndið.

    Haaland í allri sinni stærð og þyngd hefur í gegnum tíðina verið frá keppni löngum stundum vegna meiðsla – enda er hann vafalítið leikinn grátt af örvæntingarfullum varnarmönnum. Hann hefur lýst því hvernig móttökurnar eru há Pep. Færustu sjúkraþjálfarar fylgjast með honum hvert fótmál og hann er undir virku eftirliti til þess að fyrirbyggja meiðsli. Eitthvað annað virðist vera uppi á teningnum hjá okkar mönnum.

    Ég skil þetta satt að segja ekki. Ef við teiknum ,,köngulóargraf” fyrir félagið okkar – þar sem við gefum hverjum þætti einkunn þá er augljóst að meiðslaþátturinn skekkir myndina og þar með fyrirbyggir að félagið nái þeim árangri sem að er stefnt.

    Fyrr en þessu hefur verið kippt í liðinni – annað hvort með miklu öflugri þjónustu við leikmenn – nú eða tveimur byrjunarliðum (!) þá verðum við alltaf í þessum sporum.

    Mín spá? City skorar innan 10 mínútna og svo þori ég ekki að velta því frekar fyrir mér hvernig framhaldið verður.

    5
  7. Eins og staðan er í dag er miðlungs lið að mæta toppliði það er því miður bara raunveruleikinn
    mín spá 0 – 3 eða 1 – 4

    2
  8. Sveiflast milli þess að þetta verði algjör nail-biter þar sem Allison skorar sigurmarkið fyrir okkur með skalla á 98 mínútu yfir í það að þetta verði pynting dauðans fyrir okkar lið þar sem Bernardo Silva setji þrennu fyrir fram Kop stúkuna. Hvað sem verður þá efast ég um steindautt 0-0 jafntefli, og frekar að þetta verði sögulegur leikur. Vonandi á jákvæðan hátt fyrir okkar menn. YNWA!

    1
  9. Jæja, Milner karlinn í byrjunarliði. Klopp, hvað ertu að hugsa?

Rangers 1 Liverpool 7

Tvöföld veisla í dag – stelpurnar heimsækja Spurs