Stelpurnar mæta City

Við erum væntanlega meira og minna öll í sjokki eftir leik gærdagsins, og sjálfsagt margir sem hafa lítið geð til að veita fótboltanum minnstu athygli næstu daga. Aðrir munu sjálfsagt vilja fá að tjá sig um stöðu liðsins okkar ástkæra – jafnvel hella úr skálum reiði sinnar – og við munum halda áfram að veita fólki farveg til þess.

En í millitíðinni heldur vegferð kvennaliðsins áfram, og þær munu mæta Manchester City þegar heil umferð fer fram í deildinni í dag kl. 14:00. Liðin mættust á undirbúningstímabilinu í haust, og þeim leik lauk með jafntefli. En það var undirbúningstímabilið, og nú er komið að alvörunni. Vonum samt að stelpurnar mæti a.m.k. svipað vel mótíveraðar og í æfingaleiknum. Ekki veitir af, enda er prógrammið í fyrstu leikjunum ekki árennilegt. Stelpurnar okkar verða áfram án Leanne Kiernan, en Shanice van de Sanden er farin að æfa aftur, og hún nær á bekkinn í dag:

Laws

Flaherty – Fahey – Campbell

Koivisto – Matthews – Kearns – Hinds

Holland – Stengel – Lawley

Bekkur: Cumings, Robe, Silcock, Roberts, Wardlaw, Furness, Humphrey, van de Sanden, Daniels

Yana Daniels fer á bekkinn frá síðasta deilarleik, og líklega er Ceri Holland í framlínunni í hennar stað, en látum það koma í ljós þegar leikurinn hefst.

Leikurinn verður sýndur á The FA Player, en eins og áður virðist þurfa að vera með breskt VPN í gangi til að sú síða leyfi manni að horfa (annars verður bara hægt að hlusta). VPN lausnir eru margar og mismunandi, t.d. virkar ExpressVPN ágætlega í þetta.

Færslan verður svo uppfærð síðar í dag með úrslitum og stöðu.

Liverpool 1 – Leeds 2

Krísa í gangi hjá Liverpool.