Það verður miðjumoðsmæting í hádeginu þegar að Rauði herinn tekur á móti bláliðum í Bítlaborginni í viðureign verulegra vonbrigðaliða í bardaga um að bjarga meistaradeildarsæti. Miðnæturlestin fyrir Meistaradeildina er að fara úr stöðinni, hver ætlar um borð?!? Upphitun!
Mótherjinn
Bláir Brúarbúar hafa byrjað fyrri hluta tímabilsins í deildinni með sömu hörmungar vangetunni og okkar eigin lið en í þeirra tilviki er ekki hægt að kenna því um að þeir hafi ekki fjárfest í liðsstyrk fyrir mótið og einnig núna í janúar. Nýi múltímilla-eigandinn Todd Boehly sparkaði Thomas Tuchel í haust en Þjóðverjinn mislyndi hafði massað Meistaradeildina árið 2021 með Chelsea og komið þeim í bikartvennutap gegn Liverpool síðasta vor þannig að mörgum brá í Brúnni þegar að hann fékk grjóthart auf wiedersehen! Sunnan frá Brighton var fenginn galdrakarlinn Potter en þrátt fyrir ágæta örbyrjun að þá hafa töfrar hans engan veginn hrifið innan landamæra Lundúna og Chelsea eru í bláum skugga með innan helmings sigurhlutfall undir hans stjórn og 7 töp í 20 leikjum.
Fjárstyrkingar fjármálatröllsins Todd hafa verið stjarnfræðilegar og inn hafa komið 13 nýir leikmenn í kaupum eða lánum fyrir samtals 425,5 millur evrur útgreiddar með eingöngu 56,5 mill í söluinnkomu þannig að rauneyðslan er yfirþyrmandi á ekki lengri tíma. Augljóslega eykur það pressuna á núverandi stjóra og það er víða Potter brotinn í hans leikskipulagi en vissulega hafa áberandi mikil meiðsli sett strik í reikninginn. Fyrir leikinn gegn Liverpool þá er meiðslalistinn álíka langur og innkaupalistinn með 9 leikmenn lemstraða (Kanté, Chilwell, James, Sterling, Pulisic, Mendy o.fl.) og einn ólánspésa í banni (Jói Fel). Hugsanlegt er að hinn nýkeypti og fokdýri Mykhaylo Mudryk verði í byrjunarliðinu en líklegra er að hann byrji á bekknum. Og bara til þess að gefa öllu financial fair play fagurfræði feitan fingurinn að þá ákváðu Chelsea að kaupa Noni Madueke í kvöld á litlar 30 millur punda í kvöld og reiknifærir stærðfræðimeistarar eru hvattir til að spreyta sig á viðbótum við heildartöluna.
Allt þetta þýðir að Chelsea eru líklegir til að stilla upp eftirfarandi liði á laugardagshádegi:
Liverpool
Okkar menn áttu sinn daprasta leik í ansi langan tíma um síðustu helgi í hörmulegu tapi fyrir Brighton en gerðum ágæta betrumbót í baráttusigri gegn Wolves í FA Cup í miðri viku. Það er erfitt að vita hvort Dr. Jekyll eða Mr. Hyde mæti til leiks í rauðu treyjunni en okkar menn hafa oft átt það til að stíga upp í stórum leikjum gegn toppliðunum þannig við getum verið vongóðir að vissu leyti. Til tilbreytingar þá voru jákvæðar meiðslafréttir varðandi Darwin Núñez sem er bæði líklegur til að spila og byrja í leiknum. Okkar eigin nýkeypti janúarleikmaður Cody Gakpo er einnig líklegur í byrjunarliðinu en hans byrjun hjá liðinu hefur verið ansi hljóðlát þó að vissulega sé ósanngjarnt að ætlast til þess að menn fari hamförum hjá nýju liði í miðju móti.
Hinn stórefnilegi Stefan Bajcetic gæti verið maður til að byrja leikinn eftir mjög flottan leik gegn Wolves og yfirlýsingu Klopp þess efnis að það þyrfti ekki að vernda þennan 18 ára leikmann neitt sérstaklega. Ég ætla þó að spá því að Klopp veðji á hina mun reyndari miðju með meðalaldur yfir þrítugu en leyfi unglingnum að bíða á bekknum. Svona giska ég á að Klopp stilli upp:
Kloppvarpið
Klopp mætti fyrir framan myndavélarnar og lét gamminn geysa:
Tölfræðin
- Í síðustu 12 viðureignum liðanna í öllum keppnum hafa 6 þeirra endað með jafntefli en Liverpool unnið 4 leiki móts 2 töpum af restinni.
- Í Úrvalsdeildinni þá hafa liðin spilað samtals 60 leiki með mjög jafn hlutdeild en Liverpool hafa unnið 23 leiki gegn 21 hjá Chelsea.
- Á Anfield þá hafa Liverpool unnið 50% Úrvalsdeildarleikja liðanna með 15 sigra, 8 jafntefli og 7 töp.
Upphitunarlagið
Fyrir sléttum 40 árum og einni viku betur þá gaf Liverpool-bandið Echo and the Bunnymen út hið stórfína lag The Cutter sem skar nýjan og ferskan hljóm í tónlistarsenunni. Skýrskarpir lesendur átta sig klárlega á skýrskotun meiningarinnar “spare a cutter” sem vísar til enska slangursins um að gefa smápening líkt og kom fram hjá lúbörðum vandaleysingjanum í Clockwork Orange hjá meistara Kubrick. Við vonumst því eftir að Liverpool splæsi ögn meiri smápening í leikmannakaupin í janúar til þess að eiga einhvern fræðilegan möguleika á velgengni á þessu tímabili og í framtíðinni. Og lagið er gott. Og já, landslagsmyndirnar eru frá Íslandi:
Spaks manns spádómur
Á síðasta tímabili þá mættum við Chelsea í 4 leikjum samtals og í 420 mín plús uppbót af leiktíma að þá stóðu leikar hnífjafnir milli liðanna. Hvorugt liðið gat sigrað hitt nema fyrir tilstilli tveggja vítaspyrnukeppna á Wembley sem að Liverpool var sparkvissara í að lokum. Okkar klúbbur hefur sýnt glórulaust kæruleysi í styrkingu og endurnýjun liðsins á meðan Chelsea hafa stundað glórulausa eyðslusemi ásamt brottrekstri stjórans sem barðist gegn okkur á síðasta tímabili í þessum jafnteflisleikjum.
Graham Potter má eiga það að hann hefur reynst okkur erfiður með Brighton á Anfield með mjög svo jafnri skiptingu á 1 sigur, 1 jafntefli og 1 tap en hann er undir mikilli pressu um sitt starfsöryggi og mætir með lemstraðri hóp en okkar eigin stórslysadeild. Ég ætla því að leyfa mér þann lúxus að vera hóflega bjartsýnn um það að okkar leikmenn og áhorfendur á Anfield stigi upp fyrir þennan mikilvæga leik. Ég gerist því svo spaklegur að spá 2-1 sigri fyrir heimamenn og sé fyrir með að Mo Salah og Darwin skori mörkin á meðan að Mason Mount sér um eina mark gestanna.
Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.
Ég er svo sem ekkert serstakleg bjartsýnn fyrir þenna leik.
Chelsea er að vísu búnir að vera í miklum vandræðum eins og við í vetur enn mannskapurinn þeirra er ógnvænlegur!
Mín spá 1 – 1 eða 1 – 2
Spenntur og bjartsýnn fyrir leiknum. Unnum stórkostlegan sigur á Wolves í vikunni og getum alveg náð í 1 eða 3 stig á móti þessum botnlausu eyðsluklóm.
Ég veit ekki af hverju enda hefur spilamennskan ekki ýtt undir það en ég ætla að segja að við slátrum Chel$ea á morgun 3-0
Það er kominn tími á að menn vakni aðeins upp og fatti að það er mikið eftir af þessu tímabili og við eigum bullandi séns á að blanda okkur í topp 3-4 sætin.
Þetta lið hefur á undanförnum árum sýnt að þeir geti vel farið á langt sigur run og engin ástæða til að kasta inn einhverju handklæði þó að það sé engin séns á að vinna deildina úr þessu.
easy peasy
Bjartasta Liverpool ljósið í langan tíma, birtist mér fyrir nóttina. Hafðu kærar þakkir fyrir Magnús, alltaf jafn skemmtilegt að lesa orðasamsetningar hjá þér, “Say we can, say we will”. Þetta dugar til að “Conquering myself” og hunsa ekki leikinn og “Waiting for things to give”, eftir þvílíka hörmungahyggju og neikvæðni í sálartetrinu undanfarinar vikur. Að minnsta kosti “Until I see another hurdle approaching”.
Hugsa að þetta verði enn ein skitan, sé ekki hvernig á að vera hægt að vera bjartsýnn á þennan leik miðað við spilamennskuna á þessari leiktíð.
Sæl og blessuð og takk fyrir góða upphitun ,,víða er Potter brotinn” – svona skrifa engir meðaljónar. Vel gert!
Enn situr sjimpansinn við lyklaborðið og hamrar jákvæðan spádóm: Vinnum þetta vel og örugglega. Nýliðinn opnar reikninginn og Nunesarklakastíflan brestur endanlega. Bláliðar eru brotnir og leikmenn vilja augljóslega fá Potterinn út. Hann haltrar því yfir á golfvöllinn að leik loknum með alla vasa úttroðna af starfslokagreiðslum.
Éssör.
Vona að þú hafir rangt fyrir þér með miðjuna. Hendo er búinn, punktur. Hefur ekkert að gera þarna. Farið að gruna að Fabinho sé með falsað vegabréf og er í raun 33 ára. Hann er líka búinn.
Vona að Klopp hafi dreymt 343; ali, konate, gomez, matip defs, trent og robbo audda wingbacks, thiago og bajcetic miðja, gakpo, darwin og salah.
Sælir félagar
Þetta verður erfitt – svo skelfilega hunderfitt . . .
Það er nú þannig
YNWA
FSG out og það STRAX
Er einhver staður í Borgarnesi sem sýnir leikinn á eftir?
Salah á bekkinn takk
Elliot upp á hægri kant
Þetta myndband og live performansinn, maður minn þetta kemur bara úr efstu hillunni.
Snilldar upphitun.
Vona að Liverpool spili meira eins og upphitunin og minna eins og lagið.
Ég skil ekki alveg þetta FSG out.
Þegar þeir tóku við liðinu vorum við í rústum, nálægt gjaldþroti. Maður var hættur að láta sig dreyma um titla hvað þá ensku deildina!
Síðan þá hefur tekjumódel félagsins verið snúið við og samkeppnishæft við stærstu klúbba heimsins, Jörgen Klopp kom og vann ensku deildina ásamt því að gera 2-3 stigamet, meistaradeild, FA, UEFA super cup, FIFA (í fyrsta sinn í sögunni). Svo ekki sé talað um stækkun á Anfield og nýtt æfingasvæði.
Þeir hafa sett félagið á sölu enda telja sig hafa náð markmiðum sínum.
Ég þakka þeim bara kærlega fyrir en hræðist hinsvegar nýja eigendur.
Já, gerðu FSG okkur samkeppnishæfa við stærstu klúbba heims?
ég hef nú ekki séð það þegar kemur að leikmannamarkaðinum?
Jurgen Klopp er búinn að vinna gott starf hjá Liverpool og á flest sem kemur að árangri Liverpool ekki FSG, en undir öðru og mun fjársterkara eignahaldi er ég nokkuð viss um að Klopp væri búinn að færa okku mun fleir stóra titla en þessa tvo sem Liverpool hefur unnið undir hans stjórn með góðri þökk frá sölunni á Philippe Coutinho!
FSG out og það STRAX!
Þrjár breytingar frá sigrinum gegn Úlfunum. Alisson, Robbo og Salah koma inn í liðið.
Liðið í dag: Alisson, Milner, Konate, Gomez, Robertson, Bajcetic, Thiago, Keita, Elliott, Salah og Gakpo.
Varamenn: Kelleher, Fabinho, Henderson, Oxlade-Chamberlain, Jones, Tsimikas, Nunez, Matip og Alexander-Arnold.
Haddi ástandið á liðinu nú eftir áramótin segir allt sem segja þarf.
FSG out og þaðSTRAX
Sigkarl,
Ástandið á liðinu nú eftir áramótin ?
Það eru liðnar 3 vikur af þessu ári!!
Ef það ætti að skipta um eigendur hjá liðum í hvert skipti sem það kemur slæmt tímabil, þá væru lið bara seld eins og pylsur, trekk í trekk.
Ég held að menn þurfi að róa sig aðeins og sjá hvernig þetta endar í vor.
Insjallah
Carl Berg
Maður hefur víst takmarkaða ástæðu til að vera bjartsýnn en við þennan lestur fæddist lítið bros… og svo annað og annað. Kærar þakkir fyrir það Magnús. Það hafði þau áhrif að èg spái 2-1 sigri. Skemmtilegur lestur hefur þessi áhrif á mann, þó lítil innstæða sé fyrir spánni.