Það ætti ekki að koma á óvart að slúður þess efnis að Katar væri búið að kaupa Liverpool eru bull, það var engin marktækur heldur að segja annað. Félagið verður ekki selt núna í janúar og líklega verður ekki búið að selja það í sumar heldur.
FSG hefur alla tíð haldið því fram að þeir væru tilbúnir að selja minnihluta í félaginu til að fá inn aukið fjármagn frekar en að selja félagið í heild, miðað við fréttir í dag þar sem vitnað er í innanbúðarmenn er það ennþá klárlega vilji meirihluta eigendahópsins. Ef ég skil þetta rétt er þar verið að meina hlut í Liverpool FC ekki FSG endilega. Þá að það komi fjárfestir inn í eigendahóp Liverpool en ekkert endilega Boston Red Sox, má vera að það sé misskilningur. Red Bird Capital kom t.a.m. inn í FSG á síðsta tímabili. Ef að FSG selur hlut í Liverpool fengi RedBird þá sinn hluta af þeirri sölu. Hreinlega nenni ekki að lesa mig betur til um þetta enda þessi mál ekki beint upp á borðum.
Það hefur aldrei verið útilokað sölu á félaginu í heild komi inn tilboð sem ekki er hægt að hafna. Liverpool Echo tók saman mjög góða greiningu á því afhverju það er ekkert galið að fjárfestar væru tilbúnir að kaupa hlut í Liverpool án þess að taka yfir stjórn félagsins. FSG er með mjög góða ferilsskrá í fjárfestingum á íþróttafélögum, hafa aukið virði þeirra töluvert og náð árangri innanvallar, oftast með því að vera mjög tölfræðimiðaðir og þannig snjallari en keppinauturinn. Það á klárlega við um Liverpool ef horft er á tíma þeirra í heild, ekki bara þetta tímabil. Hagur fjárfesta eða fjárfestingasjóða í því að kaupa hlut í Liverpool væri þá að fjárfesta í framtíð Liverpool og treysta á að félagið sé enn að auka virði sitt. Auk þess fylgir því auðvitað töluvert sviðsljós að vera í eigendahópi liða eins og Liverpool og opnar vafalaust hurðir af einhverjum kokteilveislum.
Sala á félaginu í heild eða að hluta á engu að síður ekkert að stoppa leikmannakaup hjá Liverpool til skemmri tíma litið. Leikmannakaup nánast allra keppinauta Liverpool undanfarið sýna að okkar menn ættu að öllu eðlilegu að hafa mun meira svigrúm en 57m nettó eyðslu (með Gakpo kaupunum).
Eins hugsa ég að það sé nú verulega ódýr og illa ígrunduð gagnrýni að halda því fram að FSG hafi allt í einu misst áhugann á Liverpool og vilji núna selja til að safna pening fyrir NBA liði. FSG er öflugur fjárfestingasjóður sem fer inn í NBA ef þeir meta það hagkvæmt algjörlega óháð sölu á Liverpool, rétt eins og þeir keyptu Liverpool og sáu tækifæri þar óháð eignarhaldi sínu á Boston Red Sox. Ef að nýjir fjárfestar koma inn í eignarhald Liverpool þarf augljóslega að eyrnamerkja töluvert af þeirri fjárhæð í leikmannakaup og miðað við umræðu og ástæðu söluferlis virðast þeir alveg meðvitaðir um það. Það er a.m.k. augljóst miðað við samkeppni á leikmannamarkaði nú að uppfæra þarf núverandi stefnu.
Vandamálið í vetur
Sama hvernig þessu er snúið þá er Liverpool á góðri leið með að verða búið að bæta eigið met þegar kemur að meiðslum yfir heilt tímabil strax í apríl, það umfram allt annað er að kála þessu tímabili. Það er enganvegin það eina en klárlega aðalatriði.
Það er öllum ljóst að miðjan er alls ekki nógu góð og bara við það að fá ferskar lappir á miðsvæðið gegn Wolves sáum við hvað það gerði fyrir liðið í heild, miðjan var ekki eins og vængjahurð fyrir vikið. Ef að miðjan í Klopp fótbolta getur ekki varist er engin tilgangur með henni því að ekki skora þeir nokkurn skapaðan hlut og restin af liðinu fúnkerar ekki ef ekki er hægt að treysta á vinnusemi á miðjunni. Bakverðirnir verða allt í einu “hræðilegir varnarmenn” og leikmaður sem spilað hefur alla úrslitaleiki mögulega með félagsliði 22 ára er “ekki treystandi varnarlega” og viðlíka kjaftæði. Ödegaard leikmaður Arsenal er einn og sér búinn að skora meira en allir miðjumenn Liverpool samanlagt, bæði núna í vetur og heilt yfir tvö tímabil.
Henderson hefur klárlega ekki lappir í þetta risastóra hlutverk sitt lengur, Fabinho virðist einnig vera fjara út og Thiago VERÐUR að hafa ferskar lappir með sér til að hægt sé að fullnýta hans krafta. Hann er okkar langbesti miðjumaður, sérstaklega þegar hann hefur meira frjálsræði. Þegar hann er ekki frá vegna meiðsla auðvitað.
En í öllum pirringnum rétt eins og gerðist árið 2020 er töluvert horft framhjá áhrifum þess að vera alltaf með 7-9 menn á meiðslalista. “Það er mjög vont að vera án allra þessara leikmanna en…”
Sóknarlína Liverpool hefur raunar líklega aldrei verið betur mönnuð, Salah, Nunez, Diaz, Jota, Firmino og núna Gakpo. Auk þess tveir efnilegustu leikmenn félagsins í einhvern tíma í Doak og Gordon.
Þrátt fyrir þessa sex sóknarmenn og tvo ofur efnilegu stráka hefur miðjumaðurinn Ox-Chamberlain núna byrjað þrjá deildarleiki í sóknarlínunni. Harvey Elliott og Fabio Carvalho byrjuðu síðasta leik. Engin af þeim er meðtalin í þessari upptalningu á sóknarmönnum.
Mest allt þetta tímabil hafa um 2-3 sóknarmenn verið frá í vetur og núna þegar búið er að kaupa einn í viðbót eru þetta 3-4 sem eru viðvarandi frá vegna meiðsla. Gordon hefur meira að segja verið frá í eitt ár vegna vaxtaverkja! Diaz, Jota og Firmino eiga allir a.m.k. mánuð í land og líklega mun meira.
Skoðum sóknarlínuna hjá hinum liðunum með fjóra sóknarmenn fjarverandi, merkjum þá með rauðu svona til að sjá þetta myndrænt.
Hvernig haldið þið að City myndi ganga án Haaland, Alvarez og Foden? Nógu er þetta erfitt hjá þeim með þá með.
Chelsea sem er í 10. sæti nota bene og nýbúið að kaupa tvo til viðbótar í sóknarleikinn væri samt að finna vel fyrir sambærilegum meiðslalista.
Veit ekki hvort Ten Hag væri svona klár án enn fleiri sóknarmanna, hann reyndar styrkti liðið með því að reka Ronaldo.
Tottenham sem hefur nú verið í töluverðu basli með 1-2 á meiðslalistanum væri vel tæpt með fjóra sambærilega okkar fjarverandi.
Arsenal má ekki við mikið meiri skakkaföllum frammi, redda sér alveg í skemmri tíma en þetta fer að bíta til lengri tíma rétt eins og við þekkjum. Hvað þá með liðið í Evrópukeppni og aukaleikjum í bikar.
Það er svo varla hægt að lýsa því hversu dæmigert það er fyrir Liverpool að missa Diaz, Firmino og Nunez alla í meiðsli þrátt fyrir verulega takmarkað leikjaálag í desember m.v. vernjulegt árferði. Diogo Jota er svo alveg að verða nýr Harry Kewell sem ekkert er hægt að treysta á.
Ógeðslega pirrandi og greinilega aðeins vanmetið hversu dýrt þetta er yfir lengri tíma. Jurgen Klopp er auðvitað alls ekki hafin yfir gagnrýni og aðferðir hans eiga mögulega sök á þessum meiðslalista, en sum af þessum meiðslum eru bara hrein óheppni á meðan önnur eru svo viðvarandi að það verður að setja spurningamerki við félagið í heild og sérstaklega þessa snillinga sem sjá um að setja saman hópinn, þeir hafa undanfarin ár fengið ekkert lítið lof en virðast alveg fyrirmunað að losa leikmenn sem eru meira og minna meiddir í 2-5 tímabil af launaskrá.
Arsenal
Liverpool og Arsenal virðast því miður vera hratt að skipta um hlutverk aftur, bæði innan sem utan vallar. Þegar FSG keypti félagið var Arsenal hvað helst módelið sem þeir byggðu á ásamt auðvitað því sem kom þeim á kortið hjá Red Sox.
Núna er það Arsenal sem er með unga og ferska liðið sem er að bæta sig ár frá ári, leikmannakaup í takti við rekstur félagsins og jafnvel eitthvað back-up frá fjársterkum eiganda til að viðhalda og bæta árangur liðsins.
Arsenal þurfti heldur betur að taka til í sínum leikmannahópi og leyfði Arteta að taka töluverða tiltekt til að koma liðinu á þann stað sem það er núna. Undanfarin fjögur tímabil er Arsenal búið að kaupa leikmenn fyrir tæplega 550m á móti um 260m hjá Liverpool ef við teljum Gakpo með. Nettó eyðsla hjá þeim er hinsvegar tæplega 420m á móti 140m hjá Liverpool.
FSG er vissulega búið að lána Liverpool fyrir uppbyggingu á nýju æfingasvæði og stækkun á Anfield, það er fjárfesting sem borgar fyrir sig sjálf á x löngum tíma. Hvernig hefur Arsenal sem ekki hefur tekið þátt í Meistaradeildinni á þessum tíma á meðan Liverpool hefur núna farið þrisvar í úrslit á nokkum árum efni á að eyða 280m meira á leikmannamarkaðnum en Liverpool?
Eigandi Arsenal er þekktur fyrir að eyða ekki um efni fram í sínum íþróttaliðum og ekki má gleyma að þó eigendur Liverpool séu ekki giftir einum af erfingjum Wall Mart þá eru þeir verulega efnaðir einnig.
Ég er all for it að versla rétta leikmenn og reka Liverpool sem allra mest fyrir þann pening sem reksturinn skilar í kassann. Óskiljanlegt að í þrjú ár hafi þeim ekki enn tekist að finnan þennan “rétta mann” á miðjuna samt og að nettó eyðsla sé 60m á þessu tímabili miðað við blikkandi ljós og sírenuvæl í sumar. Liverpool er ekki ennþá búið að setja neitt fjármagn í kaup á miðjumanni.
Man Utd
Það er heldur betur að koma á daginn líkt og maður bjóst við að Erik Ten Hag er miklu betri stjóri en United hafa áður verið með eftir að Ferguson hætti. Öfugt við Moyes, Motormouth og Van Gaal er hann algjörlega í takti við tímann sem stjóri en ekki einhver sem var að toppa sem stjóri áratug áður en hann tók við United, við skulum bara hlífa Óla Gunnari við samanburðinum.
Fyrir vikið er United strax aftur orðið miklu hættulegra innan vallar og leikmannakaupin ekki eins skemmtilega hlægileg. Það hefur reyndar oft gleymst í umræðunni um leikmannakaup United að flestir voru þessir leikmenn mjög góðir hjá liðinum sem þeir komu frá en fundu sig ekki jafnvel í stjórnleysinu hjá United.
Mikilvægasta verk Ten Hag var samt að vinda ofan af þessum fáránlegum leikmannakaupum á Ronaldo og standa í lappirnar gagnvart þeirri prímadonnu. Ungu sóknarmenn United voru farnir að lofa nokkuð góðu undir stjórn Ole Gunnar á sínum tíma en koma Ronaldo virtist fullkomlega taka frá þeim sviðið. Rashford er holdgervingur þess og líklega er það ekki tilviljun að hann var frábær áður en Ronaldo kom og hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit fyrr en núna undanfarnar vikur.
Það er ekki góð tilhugsun ef að Ten Hag fær svipaðar fjárhæðir í leikmannakaup og United hefur verið að eyða undanfarin ár því að þeir hafa verið að spila í allt öðru sólkerfi en Liverpool á leikmannamarkaðnum.
Hvernig má það vera að hin hræðilega Glazer fjölskylda er búin að heimila leikmannakaup fyrir 700m undanfarin fjögur tímabil og nettó eyðslu upp á 566m. Ten Hag hefur nú þegar fengið 240m í leikmannakaup og nettó eyðslan í hans tíð er tæplega 230m.
Klopp væri líka að skila betri árangri með auka 100-200m á þessu tímabili. Liverpool hefur saxað hratt á forskot United rekstrarlega undanfarin ár og skuldar miklu miklu minna er að eyða rúmlega 400m minna á leikmannamarkaðnum undanfarin fjögur tímabil. Það er einn Bellingham á ári.
Erfitt að segja að FSG hafi ekki verið snjallari en eigendur United undanfarin ár en óljóst hvort það haldi að óbreyttu. En spáið í þessum muni á fjárhæðum og hvaða leikmenn þetta gætu verið. 400m munur á nettó eyðslu á aðeins fjórum árum og það þegar Liverpool var frábært. Galið.
Chelsea
Roman mokaði peningum í Chelsea og skuldaði félagið honum 1,5-2B þegar hann var neyddur til að selja félagið. Nýr eigandi hefur samt bara gefið ennfrekar í og er núna á þessu tímabili búinn að eyða svipað mikið nettó og Liverpool hefur gert á 10 árum, án gríns.
Með fyrirvara um einhverjar smávægilegar villur eru þetta leikmannahópar Liverpool og Chelsea eins og staðan er núna fyrir leik liðanna um helgina. Merki leikmenn sem komu 2022-23 með grænu og hef ekki einu sinni pláss fyrir einn 10m markmann
Bara á þessu tímabili eru þetta orðnar 425m í nýja leikmenn og gleymum ekki að hópurinn hjá Chelsea var mjög stór og öflugur fyrir, mun dýrari en lið Liverpool.
Fofana (80m) er einn dýrasti miðvörður sögunnar, Koulibaly (38m) ein heitasta vara í heimi í þerri stöðu og líklega með laun sem endurspegla það og núna í janúar miðvörður frá Monakó á 38m. Samtals 156m bara í miðverði. Liverpool svaraði þessu með að halda Nat Phillips og semja við Joe Gomez.
Gleymum samt alls ekki vinstri bakverðinum frá Brighton á 65,3m úr því að Ben Chilvell sem kom á 50m fyrir tveimur árum er meiddur. Liverpool svaraði þessu með Calvin Ramsey, óljóst reyndar hvort hann sé til í alvörunni!
Zakaria á láni frá Juventus er flott til að leysa búningastjórann af, Chukwuemeka frá Villa verður að vera með, eins gott að kalla Gallagher til baka út láni og fá einhvern Santos frá Brasilíu á miðjuna, hann er örugglega góður. Vonandi passlegt, 33m samtals í miðjuna en Liverpool átti heldur betur svar við þessu, Arthur Melo!
Úr því að Liverpool fékk Fabio Carvalho var réttast fyrir Chelsea að fá Joao Felix á láni (samt á 11m) enda hópurinn svo lítill. Þar sem að Sterling (56m) var ekki nógu sannfærandi er líka best að taka þennan Mudryk (70m+) svo Arsenal fái hann ekki. Samtals um 137m í sóknarlínuna.
Aubameyang sem Barca fékk gefins í janúar var keyptur á 12m í sumar og eins einhver David Fofana frá Molde á 12m Guð má vita hver það er og hvað þá hvar hann er.
Leikmannakaup Liverpool undanfarin fimm ár, með stóra glugganum fyrir fimm árum (140m) er með tæplega helmingi minni nettó eyðslu en Chelsea bara núna í vetur.
Undanfarin fimm á hefur Chelsea keypt leikmenn fyrir rúmlega milljarð (1.044m) en selt á móti fyrir 479m. Nettó eyðsla yfir fimm tímabil er því 566m. Þar af 369m það sem af er þessu tímabili.
Man City
Kom inn á það í Gullkastinu að City virkaði rétt eins og Liverpool þreytt eftir síðasta tímabil og mögulega síðustu tímabil. Ekki endilega bara líkamlega heldur heilt yfir. Slagur Liverpool og City í fjórum keppnum í fimm ár hefur verið rosalegur og bæði lið virðast eiga erfiðara með að koma sér í gang. Auðvitað hefur eyðsla annarra liða töluvert að segja og bilið því minnkað töluvert.
United undir stjórn Ten Hag er miklu betra lið en þeir hafa verið og Arteta er að sýna það hjá Arsenal að hann er að stimpla sig inn sem þjálfari í hópi þeirra bestu. Newcastle er eins miklu beta lið en þeir voru og njóta góðs af litlu leikjaálagi í bili. Lið eins og Leicester og West Ham eru í fallbaráttu sem ætti að segja eitthvað og nýliðar Nottingham Forrest eru búnir að kaupa leikmenn fyrir 182m það sem af er tímabili eða um 60m meira en Liverpool í leikmannakaup!
Fjórir sigrar í átta leikjum er áhugavert run hjá City þó maður búist ennþá við þeim nær Arsenal í lokin. Næstu leikir hjá City eru samt síður en svo auðveldir.
Mest er þó svekkjandi að þetta helvítis félag hafi ekki getað tímasett svona tímbil hjá sér á eitthvað af þessum +90 stiga tímabilum hjá Liverpool.
Newcastle
Það er að gerast hraðar en maður óttaðist að taka þurfi Newcastle alvarlega í toppbaráttunni. Þeir eru með 38 stig eftir fyrri umferðina eða á hraða fyrir 76 stiga tímabil sem er jafnan Meistaradeildarsæti. Það er búið að kaupa leikmenn fyrir samtals 260m undanfarin tvö tímabil og ljóst að það mun halda áfram á næstunni.
Verra er að sjá hversu vel Sportwashing verkefnið hefur tekist og orðræðan snúist upp í að það sé nánast óhákvæmilegt að leyfa ríkisreknum félögum að vera með og kaupa þau lið sem þau vilja.
Endar enski boltinn kannski sem LIV mótaröð, eða stofna þeir á endanum þessa Ofurdeild?
Vonandi er ekki langt í ríkisstjórn Bandaríkjanna og t.d. Þýskalands ákveði að fjárfesta í félagsliðaboltanum og kaupa lið á Englandi.
Það er alltaf jafn vont að skoða samanburð á þeim fjárhæðum sem fara í leikmannakaup hinna liðanna í samanburði við Liverpool, sérstaklega þegar þörfin er svona hrikalega augljós hjá okkar mönnum. Sváfu bara illa á verðinum og hömruðu ekki járnið meðan það var heitt.
Fyrir þá sem eru læsir á milli línanna hjá Klopp á blaðamannafundum á þessu tímabili er alveg ljóst að hann hefur ekki stjórnað veskinu hjá félaginu.
Ég tel mig ekki þurfa að hafa áhyggjur af buddu eigandans. Ef við fáum eiganda sem er til í að nota jafnmikla peninga og eigendur man.utd. þá fagna ég því. Þessi andskotans meðvirkni með ríkum eigendum hér á síðunni er algjörlega óþolandi. Ef við fáum eigendur sem eyða 500 milljónum punda í miðjumanna þá fagna ég því, því ég vill að liðið mitt sé alltaf að keppa um allar dollur sem í boði eru. Þess utan eru það ekki mínir peningar. Ég er alveg viss um að ríkt fólk sem kaupir félagið á 3 milljarða punda verður að eyða peningum til að viðhalda fjárfestingu sinni.
Mikið rosalega er þessi umræðu um að það eigi að fara að Klopp leiðinleg og barnaleg. Það eru engin teikn á lofti um að hann sé að fara fá sparkið. Hann er án nokkurs vafa með 99,99% traust hjá öllum sem styðja klúbbinn.
Ef salan á klúbbnum er ekki að fara fram á næstuni er við í mjög slæmum málum!
Einar, ég skil ekki þessa meðvirkni þína og dálæti á FSG?
Þvílíkir pappakassar sem þeir eru, I don´t give a shit ef einhverjir telja að þeir séu búnir að skapa sér sjálfum tífalda verðmætasköpun á klúbbnum á þessum tólf árum, við eru með neðstu liðum ár eftir ár þega kemur að kaupum vs sölur!
Þetta eru skjelfilegir eigendur, þeir voru nálægt á pari við Mike Ashley krabbameinið sem var eigandi Newcastle, mikið ofboðslega voru Newcastle heppnir að losna við hann. á einu ári hefur Newcastle risið frá því að vera í botnbaráttu í það að vera í toppbaráttu spáið í því!
Þetta FSG hyski má hypja sig í burtu sem fyrst frá Liverpool FC!
FSG out og það STRAX!
Liverpool er búið að taka þrjú +90 stiga tímabil, farið þrisvar í úrslit CL og verið eitt besta félag í heimi undanfarin ár. Þetta hafa verið fínir eigendur hingað til og ekki hægt að horfa á þetta bara annað hvort svart eða hvítt.
Er svo ekki viss um að þú hafir lesið færsluna ef þú ert að sjá hana sem sérstaka varnarræðu fyrir FSG?
Einar, ég er búinn að gera grein fyrir því nokkrum sinnum afhverju liverpool náði svona mögnuðum árangri þessi fjögur ár sem við vorum við toppinn, það var salan á Coutinho!
Ef couthinho hefði ekki grenjað sig til Barcelona hefðum við ekki náð þessum tveim stóru titlum sem hafa unnist undir FSG svo einfalt er það.
Auðvitað las ég færsluna, þetta sem þú ert að telja upp hefur ekki skilað þessum árangri undanfarina ára, það er nú bara þannig.
Þú mátt allveg dásama þessa eigendur, mér gæti ekki verið meira sama. Svo ert þú að saka mig um að þú sért að dásama þá en í næstu settningu á undan ert þú að segja að þeir séu fínir 😉
furðulegt að vera stanslaust að halda því fram að Liverpool eyði aldrei neinu Einar, þú ert í einhverjum blekkingarleik . afhverju tekuru bara 4 ár? fyrir 5 árum eyddu Liverpool rúmum 120 miljónum net spend og jú næsta ár urðu þeir meistarar.
Hvernig myndu andstæðingum ganga ef 4 framherjar væru meiddir ? klárlega illa en eru einhverjir búnir að kaupa 6 framherja eins og Liverpool er með eru einhverjir með betri breidd fram á við ? Eitthvað kostaði þessir 6.
nei held að “vandræði” Liverpool liggja annarstaðar en að þeir kaupi aldrei leikmenn. Er það ekki?
Hérna er NetSpend síðustu 5 ára auðvitað er alveg hægt að eyða meira en samt er alveg verið að því.
https://www.football365.com/news/transfers-premier-league-five-year-net-spend-man-utd-man-city
Hér eru fimm ár:
Arsenal
2022-23 / Inn = 132m Út= 23,8m Nettó 108,2m
2021-22 / Inn = 167,4m Út= 31,4m Nettó 136m
2020-21 / Inn = 86m Út= 19,1m Nettó 66,9m
2019-20 / Inn = 160,8m Út= 53,7m Nettó 107,1m
2018-19 / Inn = 80,2m Út= 9,1m Nettó 71,1m
= 489,3m
Liverpool
2022-23 / Inn = 95,3m Út= 80,7m Nettó 14,6m
2021-22 / Inn = 87m Út= 29,6m Nettó 57,4m
2020-21 / Inn = 84,1m Út= 17,2m Nettó 66,9m
2019-20 / Inn = 10,5m Út= 44,5m Nettó -34m
2018-19 / Inn = 182,2m Út= 41,3m Nettó 140,9m
245,8
Já og Liverpool er ekki að setja mikið í félagið m.v. árangur innan vallar og hvað önnur lið eru að gera. Gaman reynda að vera sakaður um meðvirkni með FSG í fyrstu ummælum og andstæðuna í því næsta 🙂
Sælir félagar,
Það er alltaf fagnaðarefni þegar Excel Einar setur inn pistil, og það er auðvitað ekki hægt að vera ósammála í veigamiklum atriðum, sem skipta máli.
Mér finnst nú bara ekki ein einasta meðvirkni með eigendunum í þessum pistli, heldur þvert á móti.
Þið sem skiljið samt ekki afhverju stuðningsmenn Liverpool eru almennt ekki spenntir fyrir fyrir einhverjum sugar daddy eigendum, ættuð kanski að skella ykkur til Liverpool og ræða við fólkið þar, kynna ykkur söguna og um hvað þetta samfélag hefur snúist í tugi ára.
Í stóra samhenginu skiptir akkúrat engu hvort einhver Guðmundur eða Ari á Íslandi, séu til í þannig eigendur. Liverpool og stuðningsmenn í borginni, hefur fram að þessu snúist um annað og meira.
Að því sögðu, þá getur það gert mig geðbilaðan þegar hlutunum er stillt upp eins og gert er í þessum pistli. Það er hægt að leika sér endalaust með tölur til að fá niðurstöðu sem hentar.
Afhverju eru hér tekin 4 tímabil en ekki 5 ? Eða 3 ?
Við höfum eytt 137 m fyrir þetta tímabil, en Arsenal 132 = svipuð eyðsla
Tímabilið þar á undan eyddi Liverpool 87, en Ars 167
= Hér er Arsenal að eyða marktækt meiru
Þar á undan eyddi Liverpool 84 en Arsenal 86
= svipuð eyðsla
Þar á undan eyddum við 10+ en Ars eyddu 160
= hér er verulega mikill munur
Ef við tökum 5.tímabilið með þá eyddi LFC 182 en Ars eyddi 82
= hér er verulegur munur,
Við eyddum einnig meira en Arsenal árið þar á undan!!
Á þessum tíma var LFC auk þess búið að koma sér upp talsvert betra liði en Arsenal.
Ég er alveg sammála þér að ég vil sjá LFC eyða meiru í leikmannakaup. En að vera endalaust að hamra á einhverju net spend, er bara rugl. Það segir miklu meira um hversu marga Brewster, Harry Wilson og Neco Williams við höfum selt.
Málið er nefnilega, að það skiptir mestu máli hvaða leikmenn við fáum til okkar.
Þeir leikmenn sem LFC hefur selt síðustu ár, veikja liðið okkar ekkert, og það er ekki eftirsjá af neinum þeirra. Fyrir utan auðvitað Mané, en við gátum bara ekki haldið honum!
Við erum bara búnir að nota það budget sem við höfum, frekar illa síðan sumarið 2018!! Það má alveg spyrja að því svona í hæðni, hvort það hefði hjálpað okkur eitthvað að eyða 150 millum í viðbót í vitleysu!!
Við erum búnir að vera að kaupa leikmenn sem skila litlu framlagi til liðsins heilt yfir.
Það er verið að tala um þessi meiðsli endalaust, og hreinlega stundum afsaka Liverpool með því hvað margir séu búnir að vera meiddir.
Þetta er bara mergur málsins. Við erum búnir að eyða okkar budgeti að miklu leyti, í menn sem eru alltaf meiddir!!!
Það er æpandi hvað okkur vantar mikið miðjumenn, en um leið og við fáum pening til að kaupa leikmann, þá kaupum við sóknarmann!!!
Mér finnst bara ekkert hægt að kvarta endalaust yfir því að liðinu skorti miðjumenn, þegar við kaupum þá hreinlega ekki fyrir peninginn sem við höfum til ráðsstöfunnar.
Við getum ekkert keppt við chelsea, United og City þegar kemur að því að eyða…. Þess vegna þurfum við að vera sniðugir og kaupa rétt. Það virkaði fínt, og skilaði okkur bókstaflega öllum málmi sem var í boði! Svo bara hætti þetta að virka, af því að kaupin misheppnuðust, og við hættum að vera sniðugir. Við hittum á þetta, til og með sumrinu 2018…, síðan þá hefur þetta bara ekki verið að gera sig, og við höfum gert of mörg mistök á markaðnum.
Ég hefði gaman af því að sjá góða Excel samantekt á framlagi þeirra leikmanna sem hafa verið keyptir til LFC síðustu 5-6 árin..
Við höfum hangið á leikmönnum eins og Keita, Ox, Gomez og fleiri, miklu lengur en meikar sens. Við höfum samið aftur við menn sem eru alltaf meiddir og þó ég elski Bobby Firmino, er ég ekkert viss um að það sé skynsamlegt að semja aftur við hann, miðað við aldur og hversu mikið hann er frá…
En aðalatriðið er, í mínum augum, að við höfum eytt okkar budgeti í leikmenn sem ná ekki að skila nægilega miklu framlagi á vellinum, heilt yfir!!
Insjallah
Carl Berg
Tók saman fimm ár Arsenal vs Liverpool á markaðnum hérna fyrir ofan. Liverpool hefur leyft liðum eins og Arsenal að brúa bilið sem var komið undanfarin ár og leyft okkar liði að verða of gamalt saman sem er að kosta okkur þetta tímabil, það er punkturinn.
Liverpool er búið að fara langt í mjólkurkúnni (Meistaradeildinni) öll þessi ár á meðan Arsenal hefur ekki spilað leik í þeirri keppni. Samt hafa þeir brúað bilið helvíti hratt og afgerandi undanfarin ár, án sugardaddy nota bene. Fyrir mér ættum við að miða við 2-3 ár frekar en fimm ár. Liverpool hefur staðið of mikið í stað og við sjáum afleiðingarnar núna. Líka hægt t.d. að brea saman hvað við erum með marga í kringum þrítugt núna eða rúmlega þrítuga þegar Gegenpressing var sem best.
Liverpool er svo að afla meiri tekna en United skv. Deloitte League núna, það á ekki lengur við að þeir séu með svona ofboðslegt forskot að það skýrir 400m mun á svona skömmum tíma.
Það má vel vera að þú hafir gert skoðunakönnun á stuðningsmönnunum í Liverpool, ég er nokkuð viss að Guðmundi og mér sé allveg sama um hvor þeir vilji að Liverpool sé miðlungsklúbbur eins og þeir eru nú í besta falli undir FSG.
Ég veit ekki alveg hvernig er best að svara svona útúrsnúningi, og þú mátt alveg hafa þínar skoðanir. Ég var að reyna að útskýra fyrir þér afhverju þetta er ekki viðtekin skoðun meðal heimamanna, sem eru hjartað og sálin í þessu liði. Við hér á Íslandi ættum frekar að aðlaga okkar stuðningskúltúr að klúbbnum, en ekki fara frammá að klúbburinn aðlagi sig að okkur.
Ef þér finnst klúbburinn vera miðlungsklúbbur, er ekki vanþörf á því að benda þér á, að við enduðum í öðru sæti síðast þegar deildarkeppninni lauk, unnum FA bikarinn, og vorum bókstaflega að keppa á ÖLLUM vígstöðvum.
Þegar núverandi eigendur tóku við klúbbnum, hafði liðið ekki unnið deildina í tugi ára, hafði lítið aðdráttarafl fyrir leikmenn, og ekkert í sjónmáli um að það væri að fara að breytast.
Það má vel vera að þessir eigendur séu komnir á endastöð, og geti ekki tekið þetta auka skref sem virðist vanta. Mér finnst bara hæpið að það komi í ljós aðeins hálfu tímabili eftir að við enduðum nr 2 á Englandi, grátlega stutt frá því fyrsta!!
Leikmannaglugginn er ekki einu sinni búinn að loka, og við vitum ekkert hvort bætt verður í, eða hvar við endum í vor.
Mér finnast þessir eigendur, þjálfari og aðrir sem koma að liðinu, bara eiga inni smá “loyalty” frá okkur. Að við stöndum allavega með þeim út þetta tímabil og dæmum ekki tímabilið fyrr en niðurstöðurnar liggja fyrir.
Ef það kemur í ljós að þeir ætla ekki að styrkja liðið, eða ef þeir fara að sýna klúbbnum minni áhuga, og láta þetta drabbast niður án þess að gera neitt, þá skal ég taka undir þetta. Þangað til, þá ætla ég að halda mig við að styðja liðið.
Þér er svo frjálst að hafa þetta eins og þú vilt, þín megin.
Insjallah
Carl Berg
Já þessi fimm ár eins og þú tókst þetta saman, gefa bara ekkert rétta mynd af stöðunni.
Liverpool er að selja menn eins og Rhian Brewster á 24 milljónir punda. Það er ekki að veikja liðið okkar neitt. Þessi netto tala sem þú ert fastur í að hugsa um, segir bara til um hversu vel okkur hefur gengið að selja menn sem aldrei hefðu komist í liðið okkar hvort eð er.
Ef við hefðum selt 20 leikmenn eins og Brewster, og hjólað í markaðinn og verslað fyrir 400 milljónir, værum við þá eitthvað að tala um að við hefðum “bara” eytt 80 milljónum net ?? Nei… ef Liverpool væri í 10.sæti eftir slíka eyðslu, þá værum við bara að tala um í hvað þessar 400 milljónir hefðu farið!!!
Það er líka það sem skiptir máli í þessu!! Ég skil vel hvað þú ert að segja. Þú ert að benda á, að ef við tökum með í reikninginn hvað LFC selur fyrir mikið, þá fari kanski ekki mikið í leikmannakaup. Það er alveg rétt (miðað við hin topp liðin), en einmitt af því að við höfum selt alveg “helling”, þá höfum við getað eytt alveg “helling”.
Við höfum bara verið á pari við Araenal (mögulega rétt undir), og eytt ívið meira en Tottenham.. svona sem dæmi.
Samanburður við United gengur aldrei, enda er sá drulluklúbbur hreinlega á hausnum, og skuldar næstum 400 milljónir, bara vegna leikmannakaupa, las ég einhversstaðar.
Fyrir mér eigum við bara miklu meira að vera að horfa í það hvernig við höfum eytt okkar budgeti.
Thiago, Jota, Keita, Diaz, Ox, jafnvel Konate ? þetta eru góðir fótboltamenn, en þeir eru bara of mikið frá. Þeir hafa ekki verið stöðugur valkostur í byrjunnarliðið okkar, eins og menn eiga að vera þegar þeir eru keyptir á þennan pening. Við eyddum líka lægri fjárhæðum í menn, sem virkuðu ekki, eins og Minamino og Shaqiri og svfr.
Þetta er það sem er að kosta okkur!! Mennirnir sem áttu að halda Milner og Hendo frá því að spila, og halda mönnum eins og Elliot á bekknum. Þegar Diaz kemur til baka í mars, þá verður hann búinn að spila 21 leik í deildinni fyrir okkur… á ca 15 mánuðum!
Þetta bara gengur ekki ef við ætlum að ná árangri, því miður.
Jota er með 58 leiki í deild en hann kom haustið 2020!! Hjá Ox er þetta enn verra. Thiago hefur spilað 61 leik í deild en hann kom líka haustið 2020!!
Og þessir menn hafa ekki einu sinni getað byrjað alla þessa leiki, vegna meiðsla, heldur bara komið inná hálf meiddir eða að jafna sig, í mörgum þeirra.
Það er alveg klárt fyrir mér, að ef við hefðum keypt leikmenn sem eru allajafna klárir í byrjunnarliðið okkar, (getulega og meiðslalega) með eðlilegum undantekningum eins og hjá öðrum liðum, þá værum við ekki í svona miklum vandræðum.
Ef Liverpool eyðir svona rosalega litlu í leikmenn, hvernig væri þá að nota þann litla pening sem er til, í að kaupa t.d miðjumann ?
Það æpa allir á að það vanti miðjumann, allt tímabilið og BÚMM!!! Um leið og leikmannaglugginn opnar, þá hlaupum við út í búð í ofboði og….. wait for it…. Kaupum sóknarmann ???
Carl Berg, Það má vel vera að þú aðlagir þína skoðanir eftir fjöldanum, og það er allt í góðu,
öllum er frjálst að tjá sína skoðanir hér og þar með ég og þú.
Ég tek því ekki persónulega þótt við séum ekki sammála, það er bara fínt og skapar umræðu.
Ég er á því að við eigum að halda Klopp enn nýtt eignarhald á klúbbnum er algjört forgangsatriði!
FSG out og það strax!
Mínar skoðanir haldast svolítið í hendur við þá menningu sem ríkt hefur innan klúbbsins og í samfélaginu í kringum hann síðustu áratugina.
Þó að þér sé alveg sama hvernig þetta horfir við þeim sem eru “local” stuðningsmenn í margar kynslóðir, þá vona ég að menn beri gæfu til að þetta fari allt saman þannig að þeir geti verið sáttir.
Ég tek þó eftir því að mér finnst viðhorfið aðeins vera að breytast meðal þeirra sem ég er í samskiptum við þarna úti. En ég er auðvitað ekkert í sambandi við alla stuðningsmenn.
En það er rétt hjá þér, við megum öll hafa skoðanir, og það er bara frábært þegar menn setja þær fram, og skapar umræðu. Til þess er þessi vettvangur ekkert minna en frábær. Ef menn gæta að sæmilegri kurteisi og komast hjá því að skrifa “víst að….” Þá sef ég alveg rólegur 🙂
So no hard feelings hérna meginn vinur.
Ég vil halda Klopp, og gefa eigendunum séns á að laga hlutina, eða klúðra þeim. Hálft eða eitt season sker ekki úr um það.
Insjallah
Carl Berg
Verulega= Getulega … smá autocorrect villa þarna í sviganum. Mættir gjarnan laga þetta fyrir mig Einar 🙂
Sæl og blessuð.
Takk fyrir frábæra greiningu og góðar umræður.
Ég staldra við meiðslin og legg inn í umræðuna þennan punkt: Lið sem er jafn þjakað af meiðslum ætti í raun að vera efst í eyðslu nýrra leikmanna. Og eðlilega ætti það að vera búið að kaupa heila álmu á sjúkrahúsi borgarinnar bara fyrir þessa liðsmenn sína.
Það er augljóst að eitthvað í skipulagi okkar virkar ekki sem skyldi í ljósi þess hversu skelfilega meiddir þessir leikmenn eru. Í hörmunginni gegn Brighton stóð Lallana eins og kóngur á miðjunni – leikmaður sem hafði verið meiddur heilu tímabilin hjá okkur. Hvað eru þeir að gera sem við kunnum ekki? Sjálfur var ég búinn að afskrifa piltinn, leið eins og við kæmum með fulla vasa af seðlum eftir ferð í endurvinnsluna. Nær allir þeir leikmenn sem hafa einhverja spilareynslu hjá liðinu hafa verið að glíma við þrálát meiðsli. Og þetta er vítahringur. Stöðugt þarf að tefla fram leikmönnum sem eru tæpir vegna þess hversu þunnur hópurinn er. Varamannabekkurinn er oftar en ekki aðhlátursefni. Það sást reyndar best þegar téður Lallana kom inn á í úrslitaleiknum í CL fyrir Mo Salah. Þá fórnuðu allir góðir karlar og konur höndum.
Ég nenni varla að telja upp þennan búlevarð brostinna drauma – við þekkjum þetta öll: varnarlínan hverfur þegar við erum efst í deildinni í byrjun árs 20 þegar hægt hefði verið að kaupa tvo nýja hafsenta. En nei: Besta miðja í deildinni er færð aftur í vörnina og við töpum sex heimaleikjum í röð. Besta miðjan í deildinni leggst í kjölfarið á sjúkrabekk. Við náum á undraverðan hátt að slefa okkur inn í CL. Svo kemur þetta tímabil þar sem við spilum alla leikina sem voru í boði. Jú, það var bölvun í dulargervi eins og við sjáum núna. Einhver andlegur doði yfir mannskapnum en þó fyrst og fremst er búið að dúndra lúnum löppum og liðamótum í gegnum eitt maraþon IKEA prófið enn.
Og já, undantekningin frá reglunni: þessir tveir lekimenn sem aldrei meiddust – Gini og Mané – yfirgefa félagið!
Keðjan er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. Fyrst ekki er enn búið að greina af hverju þessi meiðsli hrjá okkar lið í margföldum mæli m.v. keppinauta þá eigum við ekki breik. Fyrst ekki er vilji til að taka á sig þann kostnað að vera með leikkerfi, æfingakerfi, ónýtt læknateymi (ef eitthvað) eða hvað nú veldur – sem kostar þessi meiðsli þá eigum við ekki breik.
Niðurstaðan: Meiðslin (hvað sem veldur) ættu að útheimta enn meiri kostnað við leikmenn og umgjörð. Þá staðreynd virðast eigendur félagsins ekki vilja viðurkenna.
Lúðvík Sverriz segir meira en allt þrasið um peninga segir. Það er líka klárt að kaup LFC undanfarið eru í besta falli sérkennileg. Miðjan meira og minna (aðallega meira) ónýt. Meiðslalisti liðsins er legíó og búin að vera það lengi. Lallana dæmið hjá Lúðvík er dásamlegt í því sambandi. Ef LFC (les FSG) kaupir ekki alvöru miðjumann í janúar er líklegt að meistaradeildin sé farin því það eru 10 stig þangað. Menn geta rifist um prinsipp og peninga og viðhorf stuðningsmanna í Liverpool borg. Það breytir samt ekki því að nú eru breyttir tímar og tími rjómtíkurinnar liðinn.
Það er nú þannig
YNWA
FSG OUT og það STRAX
Sigkarl, ég er 100% sammála þér!
Aðeins varðandi Lallana, einn af þessum meiðslapésum sem voru of lengi hjá Liverpool.
Hann hefur lítið breyst og er núna búinn að spila 43% af deildarleikjum Brighton
Hann spilaði 46% deildarleikja hjá þeim í fyrra sem er það sama og hann gerði hjá þeim árið áður.
Það vantaði aldrei að hann væri ekki góður leikmaður. Áður en hann fór til Brighton var hann búinn að taka þrjú, án gríns þrjú, tímabil þar sem hann spilaði minna en 500 mínútur í deildinni. Byrjaði 1-5 leiki per tímabil.
Nákvæmlega Einar.
Menn eru full fljótir að hefja Lallana upp til skýjanna. Hann er einn af mörgum leikmönnum sem hafa verið of lengi hjá okkur miðað við framlag.
Það er ömurlegt að vera þessi gaur sem gagnrýnir þessa menn, því þeir eru margir hverjir frábærir í fótbolta og topp náungar. En menn eins og Lallana, Keita, Ox, Ings og fleiri, taka því miður pláss í liðinu og launabudgetinu. Við höfum hangið allt og lengi á mörgum af þessum mönnum.
Danny Ings kemur 2015, og fer sumarið 2019 eftir að hafa spilað 14 leiki í deild. (Ég veit að hann kemur áður en Klopp tók við). Hann kemur síðast við sögu í Liverpool leik í maí 2018, og yfirgefur ekki Liverpool fyrr en rúmu ári seinna, í júl 2019!!!
Það má alveg færa rök fyrir því að það eigi bara að losa suma af þessum mönnum miklu fyrr.
Það er yfirleitt einn svona leikmaður í hverju liði, en hjá Liverpool hafa þeir verið fáránlega margir
Insjallah
Carl Berg
Hér er mjög áhugaverð grein á síðunni Anfield Index þar sem fjallað er um leikmannamál Liverpool frá því Klopp tók við liðinu. Skv. greiniinni liggur vandi Liverpool f.o.f. í linku Klopp eða klúbbsins við að losa sig við leikmenn sem árum saman hafa lengi verið farþegar í liðinu á fullm launum og nú verðlausir. Ath. að heitið á greininni er ekki að leggja til að sagt verði bless við Klopp!
https://anfieldindex.com/53744/jurgen-its-time-to-say-goodbye.html
https://www.visir.is/g/20232366843d/man.-city-tekjuhaesta-felag-heims-en-liverpool-a-mikilli-uppleid
Vilja menn svo meina að það sé ekki til neinn peningur í leikmannakaup?
Í mínum huga er alveg skýrt hvar vandinn liggur.
Endurnýjun og viðbót á gæðaleikmönnum hefur verið of lítil og of hæg og þar kenni ég innkaupastefnunni og stjórnendum/eigendum um.
Í stað þess að bæta gæðaleikmönnum við góðan hóp á meðan liðið var upp á sitt besta, til að verða betra, þá var ekkert gert. Þau fáu kaup sem hafa verið gerð hafa nánast öll verið til að fylla skörð, og stundum voru þau meira að segja ekki fyllt. Lovren, Gini. Ég vil meina að ef að þetta hefði verið gert almennilega þá væru dollurnar fleiri, okkur vantaði meirti gæði til að vinna þessi aukastig sem til þurfti til að vera ekki 1 stigi á eftir Shitty, og að vinna Real alla vega í öðrum leiknum.
Að sama skapi áttu menn að vita hver aldurssamsetningin væri og því vera löngu byrjarðir á því að kaupa þá menn sem áttu að koma í stað þeirra sem voru klárlega að verða búnir með sitt. Einhverjir hemaaldir áttu reyndar að gera það en ekki skilað sínu.
Það þarf að bregðast við þessu STRAX ! Ekki í sumar þegar við erum dottnir út af topp 4. FSG hlýtur að hugsa þetta dæmi til enda. Ef við kaupum Bellingham á 100 millur núna, vs næsta sumar, en töpum svo ca 60 millum á að ná ekki í CL.
Þetta er nú ekki flókið dæmi, en kannski vill Dortmund ekki selja núna.
Djöfulsins vitleysa að eyða tíma í fúddboll manadér öll þessi ár. Þetta er svo auðvelt.
1. Finna ríkan eiganda
2 Kaupa alla bestu leikmenn heims og aldrei gera mistök.
3. Banna leikmönnum að meiðast
Þá vinnur maður allt. Eins og PSG og City í UCL.
Og maður sefur vel og er glaður eins og Nenni Níski.
Og þetta getur ekki klikkað. Af því að ríkt fólk og þjóðarsjóðir elska verkamanna bæinn Liverpool.
Jesús hvað menn geta fabúlerað.
LFC og FSG eru að ná árangri langt umfram raunhæfar væntingar. Fullt af mistökum — en færri heldur en hjá flestum hinum. Ætla ekki að pissa á mig þótt komi lélegur kafli einn vetur. Og ætla sannarlega ekki að gefast upp á 4. Sætinu þegar 20 leikir eru eftir.
Doubters into believers.
Andri er ekkert á flandri……
Ja sko, hvað mundi heyrast í London-manchester-sky-klíkunni ef Salah væri að dýfa sér út um allan teiginn líkt og Haaland er að gera núna í kvöld.
Og loksins þegar City er að skíta í sig (afsakið orðbragðið) þá er Liverpool í tómu tjóni. Einhvern tímann hefðum við nú sleikt út um að sjá flokkinn hans Pep svona bitlausan.
A – það er jafnan best að bíða með að svona þegar Spurs er í forystu þar til leikurinn er búinn
B – Það er jafnan best að bíða með svona þegar City er undir þar til leikurinn er búinn
🙂
Það sem ég skil ekki er hvernig SAMI mannskapurinn kom út í seinni hálfleik og spilaði eins og andsetinn. Ég bjóst við þrefaldri skiptingu hjá Pep. Og já, það er líklega best að spyrja bara að leikslokum.
Takk fyrir að koma með þennan pistil og þráð Einar….loksins skrifa góðir pennar….ég er ekki góður penni…..FSG OUT er vanhugsað….vera með Klopp í þessari brekku getur varla verið betra…..vantar þetta og vantar hitt eru FSG Klopp og co það besta sem LFC hefur haft í 30 ár…
Sælir félagar
Því miður held ég að Bellingham komi aldrei til LFC. Það að liðið verði ekkert styrkt í janúar glugganum segir honum allt um stefnu og upp byggingu félagsins til framtíðar. Nú er reynt að tæla hann með því að hann verði nýr Gerrard. Gerrard sem spilaði allan sinn feril með liðinu og vann ekkert markvert nema einn Meistaradeildatitil með Liverpool. Er það sú framtíð sem á að fá Bellingham til félagsins? Aumingjaháttur FSG í leikmanna málum er skelfilegur og á eftir að fara illa með klúbbinn.
Það er ljóst hvernig sem allt veltist og snýst að ef miðjan verður ekki styrkt með klassaleikmanni þá er voðinn vís.
Það er nú þannig
YNWA
FSG OUT og það STRAX
Sigkarl, Það er alveg rétt hjá þér, það gæti verið að við tveir séum í minnihluta vegna þess að við erum í þeim hóp að muna og upplifðu þá tíma þegar Liverpool var stórveldi!
Ég er búinn að vera allan tíman á móti þessu eignarhaldi eins og ég var með þá eigendur sem voru á undan þeim. Rekstur FSG er eflaust ágætur þegar um væri að ræða einhvern bygginga verktaka enn alls ekki fótboltalið sem á að vera í allra fremstu viglínu!
Þetta miðjuvandamál er búið að standa yfir lengi, vandamálið er að FSG er aldrei að fara að láta beinharðan pening í leikmann úr efstu hilluni. Það er skrifað í skýin að þeir séu að fara selja leikmenn í sumar til að fá pening upp í kaupin á Cody Gakpo.
Ekki veit ég það hvort það sé yfir höfuð rétt að FSG séu búnir að tífalda verðmæti Liverpool?
þeir hafa allavega ekki gert það árangurslega séð, þessi fjögur góðu ár eru bara afrakstur af sölunni á Coutinho, það er nú bara þannig, ef hann hefði ekki farið fyrir þennan stjarnfræðilega pening hefðu Alisson og van Dijk aldrei verið keyptir!
FSG eru og munu halda áfram að vera dragbíturinn á árangur Liverpool Fc!
Það gæti verið að söluverðið á klúbbnum sé of hátt og þar með muni það tefja fyrir kaupum nýrra eiganda á Liverpool Fc?
FSG out of það STRAX!
Hahaha ef þið eruð í minnihluta, þá er það ekki vegna þess að þið munið eitthvað betur eftir því þegar Liverppol var stórveldi. Hér á þessari síðu er fjöldinn allur af mönnum sem upplifðu það að Liverpool vann reglulega bikara.
Ofaní allt saman, að tala S.Gerrard niður eins og Sigkarl gerir hér að ofan, er svo í besta falli ömurleg eftirmæli um hann, og ekki til þess fallið að maður haldi að þar skrifi maður sem muni nokkurn skapaðan hlut!!
Insjallah
Carl Berg
Frábærar umræður og ég hef engu við þetta að bæta!
Amen á eftir efninu, næst er það Chelsea á morgun!
YNWA
Carl Berg, Ég get ekki séð að Sigkarl sé að tala Steven Gerrard persónulega niður?
Þetta er nú svolítið skrítin staðhæfing hjá þér, hann er bara að benda á það að Liverpool var ekki að vinna marga titla þegar hann var að spila fyrir okkur, ég er á því að hann var frábær leikmaður ef þú ert efins um mína skoðun á honum.
Ég er nokkuð viss um að við Sigkarl tilheyrum þeim hópi sem man þann tíma þegar Liverpool var stórveldi á nýunda áratuginum og höfum margar góðar minningar frá þeim tíma, það er ósköp eðlilegt að ,margir stuðningsmenn Liverpool séu fæddir eftir 1990. Ekki veit ég hversu gamall þú ert og hvort þú upplifðir þessa tíma?
Það er allt í lagi að sýna okkur smá virðingu þó þú lifir á þessum fjórum góðu árum sem Liverpool var við toppinn. Það sem ég held að Sigkarl sé að benda mönnum á er að Liverpool hefur ekki unnið nema þrjá stóra titla síðan á nýunda áratuginum, og það er ekkert rangt við það hjá honum.
Ari,
Ég ætla ekki að standa í því að þræta við þig um einhver smáatriði, en ég kalla það bara víst að tala S.Gerrard niður þegar menn segja: “ Gerrard sem spilaði allan sinn feril með liðinu og vann ekkert markvert nema einn Meistaradeildatitil með Liverpool.”
Hann vann í fyrsta lagi talsvert meira en það, auk þess að hann er alger goðsögn hjá klúbbnum og stuðningsmönnum, fyrir sitt loyalty, leiðtogahlutverk og gæði í knattspyrnu.
Ég veit ekki hversu mikið mark á að taka á mönnum sem finnst það ekki markvert að vinna FA bikarinn, UEFA bikarinn eða aðra titla sem Gerrard vann með Liverpool.
Ég veit ekkert afhverju þú ert að svara fyrir Sigkarl hérna, og giska á hvað þú heldur að hann hafi verið að benda mönnum á. Hann var nefnilega ekkert að benda mönnum á að LFC hefði ekki unnið nema 3 stóra titla síðan á 9.áratugnum. Hann var að segja að Gerrard hafi ekki unnið neitt markvert með Liverpool, utan við einn Meistaradeildar titil, en Gerrard yfirgaf Liverpool árið 2015 eftir rúmlega 700 leiki fyrir félagið. Fyrir utan að þó hann hefði verið að meina það, þá hefði það ekki einu sinni verið rétt hjá honum.
Síðan á níunda áratugnum eru komnir 4 FA bikarar, 1 UEFA bikar, 2 Meistaradeildar titlar og 1 Englandsmeistaratitill. Auk annarra titla.
Þegar þú fullyrðir að ég lifi á einhverjum fjórum góðum árum hjá Liverpool, og talar svo um í sömu setningu að það eigi að sýna þér virðingu, þá ættir þú kanski aðeins að líta í eigin barm.
Mér finnst allavega markvert þegar Liverpool vinnur FA bikarinn (og alla bikara reyndar), þó ykkur finnist það ekki. Mér finnst sigur í FA bikarnum markverður, þrátt fyrir að ég hafi fylgst með liðinu vinna þónokkra Englandsmeistaratitla á minni stuttu ævi.
Insjallah
Carl Berg
Carl Berg, Það eina sem ég kannski gleymi í minni upptalningu er UEFA bikarinn 2001 ég skal viðurkenna það;)
Ég er búin að svara því hvað mér finnst um Steven Gerrard og það er allveg á hreinu að hann er goðsögn hjá félaginu að mínu mati!
Þótt að ég sé sammála Sigkarli er ekkert að svara fyrir hann, ég er einungis að túlka mína skoðun á hans svari.
Ég ætla bara að segja við þig að ég nenni ekki að vera í einhverjum skotgrafahernaði við þig, eins og ég sagði þá mega allir hafa sína skoðun, við túlkum mikilvægi þess sem eru kallaðir titlar eða bikara mjög ólíkt. Ég reyni að bera virðingu fyrir skoðunum annara, ef það er eitthvað vandamál hjá þér verður þú að eiga það við sjálfan þig. Við eru sennilega sammála um að vera ósammála og það er í góðu lagi frá minni hlið.