Leikið gegn Leeds – mánudagur til mæðu?

Það er komið að leik númer 30 hjá Liverpool á leiktíðinni, en á einhvern óútskýrðan hátt er um að ræða útileik númer 17.384 (talið er að tímalúppur komi við sögu við að útskýra muninn). Sem betur fer er þetta ekki hádegisleikur á laugardegi… og svosem ekki útlit fyrir að Liverpool þurfi að þola jafnmarga slíka á næstu leiktíð ef það verður sem allt útlit er fyrir að liðið verði fyrir utan Meistaradeildina.

Andstæðingurinn annað kvöld er ekki ofarlega í töflunni, eða í 16. sæti nánar tiltekið (Eurovision sætið svona fyrir þau okkar sem erum komin yfir vissan aldur). En Liverpool er reyndar búið að vera sérfræðingur í því að tapa leikjum gegn liðum neðarlega í töflunni, þar á meðal gegn næstu andstæðingum sem sátu á botninum þegar þeir mættu á Anfield í haust og urðu þar liðið sem batt endahnút á lotu 70+ leikja sem Virgil van Dijk hafði spilað á Anfield án þess að tapa. Og nú þarf að mæta þeim á útivelli, þar sem okkar menn hafa aðeins náð í 13 stig af 45 mögulegum. Já það þýðir undir 1 stig í leik, og slíkt væri einfaldlega fallbaráttuform ef um væri að ræða bæði heima- og útileiki, svo verum þakklát fyrir að heimaleikjaformið er nú talsvert betra (þó það sé fjarri því að vera fullkomið).

Ekki hjálpar formið í síðustu leikjum heldur. Síðustu 4 leikir í deild eru 2 jafntefli (Arsenal og Chelsea), og 2 töp (City og Bournemouth). Já við þurfum að fara alla leið aftur í 7-0 leikinn – sem við megum svo sannarlega ekki gleyma og munum að sjálfsögðu rifja upp reglulega – til að finna síðasta sigurleik. Það er einfaldlega eins og þessi fullyrðing Klopp á sínum tíma, um að vilja frekar vinna 7 1-0 sigra heldur en 1 7-0 sigur, hafi þurft að sýna okkur afhverju þetta er hárrétt fullyrðing (og “for the record”, þá hefði ég SAMT ekki viljað fórna 7-0 leiknum). En ef við rifjum upp hvernig liðinu gekk tímabilið 2019-2020, þá var það einmitt fullt af 1-0 og 2-1 sigrum. Það væri því mjög æskilegt ef liðið færi að sýna aðeins meiri stöðugleika í leik sínum og þá vonandi í úrslitum í framhaldinu.

Hér að ofan talaði ég aðeins um möguleika Liverpool á því að ná 4. sætinu. Við getum sagt að í augnablikinu séu þeir jafnir möguleikum Aston Villa, sem í dag eru með 50 stig eftir 31 leik, á meðan Liverpool er með 44 stig eftir 29 leiki, og getur því jafnað lið Villa með því að vinna þessa tvo leiki sem liðið á inni. Og EF það næst (þetta er mjög stórt ef), þá á liðið samt eftir að vinna upp 6 stig á Newcastle – og þarf að stóla á að hinir svarthvítröndóttu auki það forskot ekki enn frekar því þeir eru bara búnir að leika 30 leiki í augnablikinu. Staðan gæti því hæglega verið sú að það verði 9 stig í 4. sætið þegar 31 leikur verði búinn hjá öllum, og þá erum við jafnframt að vona að Brighton, Tottenham og téðir Aston Villa eigi eftir að gefa eftir á lokasprettinum sömuleiðis. Útilokað? Nei. Líklegt? Mjög fjarri því. En ég bar þetta saman við möguleika Aston Villa. Þetta lið var í 11. sæti eftir leikviku 24, þá næsta lið fyrir neðan Chelsea í töflunni. Svo það er ýmislegt hægt þegar lið fara á svolítið “run”. Ef liðið okkar nær að sýna svipaða baráttu og það sýndi eftir að Granit Xhaka ákvað að henda logandi eldspýtu í heilan Anfield eftir rúmlega hálftíma leik fyrir viku síðan, og nær að sýna þá baráttu í næstu 9 leikjum, þá er sjálfsagt eitt og annað hægt, mögulega með dassi af smá heppni saman við.

Nú og þó svo að liðið nái ekki 4. sætinu, þá höfum við rætt það áður að þó farseðillinn í Meistaradeildina sé mikilvægur út frá bæði peningalegu sjónarmiði, og eins líka einfaldlega til að eiga möguleika á því að bæta einum Evrópubikar í safnið, þá er slíkt ekki nauðsynlegt til að geta náð í góða leikmenn. Tökum sem dæmi Sadio Mané. Hann kom til félagsins sumarið 2016, þá var Liverpool nýbúið að enda leiktíðina í 8. sæti deildarinnar, og var ekki í einni einustu Evrópukeppni tímabilið á eftir. Var Mané heitasti bitinn á markaðinum a la Bellingham? Nei… en samt var alveg vitað að hann var mikið efni. Nýbúinn að skora hröðustu þrennu í sögu úrvalsdeildarinnar (ok tæpu ári áður en hann skrifaði undir hjá Liverpool). Hann leit ekki á töfluna rétt fyrir undirskrift, hugsaði með sér: “Enginn Meistaradeild á næsta ári? Já nei þá gengur þetta alls ekki”. Onei, hann vissi hvaða möguleika liðið hafði, og hvaða verkefni var í gangi. Þetta vita líka aðrir leikmenn sem Liverpool á eftir að bera víurnar í á næstu vikum. Sama hvort þeir heita Bellingham, Caicedo, Rice, Barella, MacAllister eða hvað. Liðið vill nýja leikmenn sem geta hjálpað til við að draga vagninn, ekki bara leikmenn sem ætla að hoppa á vagninn og fá far. Er sama verkefni í gangi eins og þá? Klopp nýkominn, hungraður í titla? Nei, en nú munu leikmenn mæta til félagsins þar sem Klopp verður með 8 ára reynslu í deildinni á bakinu, og þroskaðri fyrir vikið. Það þarf einfaldlega að vera pínku galinn leikmaður sem heldur að Liverpool sé klúbbur á niðurleið, og svoleiðis leikmenn viljum við hvort eð er ekki.

Jæja. Að leiknum að morgun. Meiðslalistinn er bara alveg ótrúlega stuttur. Bajcetic er frá út leiktíðina, Ramsay sömuleiðis, og Keita er með vöðva úr gleri sem í augnablikinu eru með einhverjum sprungum. Thiago er kominn aftur, ekki víst að hann sé tilbúinn í að byrja, en það gæti samt alveg gerst. Díaz er líka kominn til baka, líklega meira spurningamerki yfir því hvort hann sé tilbúinn í að byrja, en líka minni þörf á því. Það voru einhverjar fréttir af því að Konate og Alisson hefðu verið eitthvað frá æfingum í vikunni, en þær hljómuðu eins og það hefði verið smávægilegt hnjask og þeir yrðu líklega leikfærir.

Líklega.

Ég spái því a.m.k. að Klopp geri engar svakalegar breytingar á byrjunarliðinu frá því í Arsenal leiknum, aðrar en þær að taka Jones og Jota út úr byrjunarliðinu og setja Thiago og Nunez þangað inn. Ekki það, bæði Jones og Jota voru alveg furðanlega frískir í þeim leik, en for helvede ég held að Klopp velji einfaldlega sitt sterkasta lið.

Alisson

Trent – Konate – Virgil – Robbo

Hendo – Fab – Thiago

Salah – Gakpo – Darwin

Díaz kemur svo inná á 60. mínútu, og fagnar endurkomunni með því að skora mark undir lokin.

Spáum 1-3 sigri, með mörkum frá Trent, Nunez og Díaz.

KOMA SVO!!!

11 Comments

  1. Töppum alltaf á mánudögum og sérstaklega þar sem Chelski og Totth, töpuðu stigum
    Annars á maður ekkert að vera að vona að við náum 4 sætinu, þetta er bara farið

    3
  2. Góður pistill Daníel…….. þetta hér hjá þér fannst mér “cool” og gæti alveg átt heima í frösum Bill Shankly…………

    “Liðið vill nýja leikmenn sem geta hjálpað til við að draga vagninn, ekki bara leikmenn sem ætla að hoppa á vagninn og fá far.”

    Annars hljótum við að fara á “rönn”….. og byrjum í kvöld!

    4
    • Þessi frasi er alveg 100% ekki frá mér kominn upphaflega. Man ekkert hvar nákvæmlega ég sá þetta eða hvernig hann var orðaður.

      1
      • Skítt með það, eins og þú skrifar hann þá er hann flottur! :0)

  3. Ég er sammála þér Daníel að þetta séu aðalvalkostir Liverpool á miðjunni í dag . Eftir þetta átakanlega tímabil eru það líklega Henderson-Thiago-Fabinho. En hversu mörg mörk hafa þessir leikmenn skorað samanlagt? Svarið er stórt feitt núll. — Já, þið lásuð rétt. Engin mörk frá miðvarðartríói sem nánast skráði sig í sögubækurnar í fyrra. Það sem af er tímabilinu hafa þeir spilað alls 99 leiki og ekki skorað eitt einasta mark.

    6
  4. Varnarmennirnir hafa þurft að þola mikla gagnrýni en þegar allt kemur til alls hafi aðeins fjögur lið fengið á sig færri mörk – Arsenal, Man City, Newcastle og Chelsea. Vörnin getur sýnt betri tölur en Man United og Tottenham og munurinn er ekki mikill á City eða Arsenal. Það er markaskorun sem er í lamasessi. – Mo Salah hefur verið misjafn allt tímabilið, Nunez hefur staðið sig vel, en Liverpool hefur neyðst til að vera án Diaz og Jota í langan tíma og Gakpo er ferskur. Frá miðjunni gerist ekkert. Keita hefur ekki heldur skorað og hvorki Jones né Milner. Oxlade-Chamberlain og Bajcetic hafa skorað sitt mark hvor. Þetta eru tvö mörk frá sjö miðjumönnum. Aðeins Harvey Elliott getur sett upp tölur sem eru sæmilega virðingarverðar. Sama með stoðsendingar. Við erum með sjö stoðsendingar frá ellefu miðjumönnum sem notaðir voru á tímabilinu. Berum þetta saman við Man City og þá sjáum við vandamálið. Miðjumenn hafa skorað 35 mörk og þeir eru einnig með 40 stoðsendingar.

    15
    • Alveg sammála þér Guðmundur. Þetta er vandamálið í hnotskurn: enginn mörk frá miðjumönnum. Meira að segja Scott McTominay hjá MU er farinn að skora en ekkert gerist hjá okkar miðjumönnum. Það eru meira líkur á því að vinna í lottóinu en að þeir skori mark !!

      Salah er að eldast og Nunez er ennþá óskrifað blað þannig að mörkin eru ekki alveg að flæða inn hjá okkur. 9-0 og 7-0 sigrar rugla þetta aðeins.

      í fínni umfjöllun hér að ofan kemur fram “að Liverpool sé ekki á niðurleið”. Því miður er það þannig. Ég kenni þar um bæði slakri innkaupastefnu og margir sem hafa verið keyptir hafa ekki staðið sig.

      Við sjáum hvað setur í kvöld………………

      3
  5. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Daníel og ég hefi engu við hana að bæta og vona bara að allt gangi eftir sem þar er sagt. Ég las einu sinni bók sem heitir “Þegar vonin ein er eftir” og hún endaði eins vel og hægt var að ætlast til á þeim viðsjárverðu tímum sem sagan gerist á. Nú er svo sem ekki mikið meira en vonin ein hvað varðar 4. sætið.. Höldum samt í vonina og ef til vill gerast kraftaverk í næstu 9 leikum. Þó ber að hafa það í huga að Leeds virðist alltaf ná sínum bestu leikjum gegn Liverpool en vonum samt.

    Það er enú þannig

    YNWA

    1
  6. Tímabilið í ár hefur skipst á miskunnarlausum stórsigrum og tilgangslausum botnum og þegar Liverpool hélt á Elland Road var kominn tími á það fyrrnefnda enn og aftur. Í kvöld hélt Trent Alexander-Arnold áfram uppteknum hætti frá Arsenal leiknum að spila meira eins og „sexa” og það virkaði vel. Í lok leiks spurði ég sjálfan mig hvort nýr hægri bakvörður væri lausnin á að leysa stóra miðjuvandamál okkar. Trent Alexander-Arnold fær meira svigrúm og sóknar eiginleikar hans nýtast betur í sexu hlutverkinu hjá Liverpool en í bakvarðarstöðunni. Sönnun þess fyrrnefnda er þegar hann fann Darwin Núñez með Thiago flís sem endaði þennan stórsigur sem ætti að vekja bara gleði en í staðinn vakti spurningar. Ætti að endurþjálfa Trent Alexander-Arnold í meira miðlægt hlutverk á lokakaflanum og þannig gæti Liverpool hugsanlega blandað sér inn í topp 4 keppnina í síðustu umferðunum? Hvað finnst ykkur?

    1

Hvað er raunhæf fjárhæð til leikmannakaupa í sumar?

Liðið gegn Leeds – Luis Diaz á bekknum