Dómarar vilja útskýringar á afturköllunum

Enskir dómarar hafa beðið enska knattspyrnusambandið um útskýringar á því hvers vegna svo mörg rauð spjöld hafa verið afturkölluð og leikbönn felld niður í vetur (fréttina má lesa á íslensku hér). Þetta gera þeir eftir að FA afturkölluðu enn eitt spjaldið eftir síðustu helgi, í þetta sinn var það Brad Friedel sem slapp eftir að hafa fengið rautt fyrir að brjóta á Torres.

Ég verð að vissu leyti að taka undir með dómurunum hérna. Stundum þykja manni rauð spjöld hörð en ef dómgæslan á á annað borð að vera í höndum manna verður að gefa ákveðið svigrúm fyrir mat dómara á aðstæðum og annað slíkt. Sjái dómari hins vegar eftir leikinn, eða þyki sérstök ástæða til að komast að þeirri niðurstöðu, að hann hafi gert mistök í brottvísun leikmanns ætti að vera sjálfsagt að afturkalla spjaldið og/eða leikbannið. Til dæmis man ég eftir góðu dæmi fyrir nokkrum árum þegar Alan Shearer var rekinn af velli fyrir að skalla boltann beint aftur fyrir sig og í andlit varnarmanns sem hné niður. Dómarinn, Uriah Rennie, hélt að Shearer hefði rykkt höfðinu aftur og skallað andstæðinginn beint og rak hann útaf en sá dómur var svo afturkallaður af nefnd knattspyrnusambandsins.

Ég vorkenndi Brad Friedel þegar hann var rekinn útaf um helgina. Honum gengur augljóslega ekkert illt til, hann reynir eins og hann getur að beygja sig undir Torres og vera ekki fyrir, en það var of seint. Hann kom of langt og hratt út í Torres og tók hann niður = klárt rautt spjald. Maður getur vorkennt Friedel en það gerir dóminn ekkert síður réttan.

Það sama gerðist í febrúar þegar Frank Lampard var rekinn útaf á Anfield fyrir sólatæklingu gegn Alonso. Endursýningar sýndu að Lampard var á undan í boltann og Alonso þrumaði svo í sólann á honum en það breytir því ekki að Alonso fór löglega í tæklinguna, með sólann niðri, á meðan Lampard flaug inn með takkana hátt á lofti og gat því varla annað en farið á Alonso. Hér er ekki verið að dæma á umfang meiðslanna þannig að það að Alonso hafi verið seinni í boltann og/eða sloppið við meiðsli (Lampard hefur nú fótbrotið hann áður) skiptir engu máli – ásetningurinn hjá Lampard var klár, takkarnir voru á lofti og því átti réttilega að reka hann útaf.

Það sem gerist þegar knattspyrnusambandið veltir svona dómum til baka er tvennt; í fyrsta lagi gefur það liðinu sem missti mann útaf ástæðu til að væla endalaust yfir ranglæti (eins og Chelsea-menn gerðu þegar Lampard, og fyrr um veturinn Terry, voru reknir útaf (og báðum þeim dómum var snúið við, enda fokka menn ekki í landsliðsfyrirliðanum og genginu hans)) sé leikurinn í járnum þegar rauða spjaldið fer á loft. Í öðru lagi, þá grefur þetta undan dómurunum og valdi þeirra. Auðvitað eiga þeir ekki að vera allsráðandi né undanskildir eftirlits yfirvalda en það getur ekki verið hollt fyrir leikinn að leyfa liðum að komast upp á lagið með að áfrýja hverju einasta spjaldi.

Í haust, þegar tímabilið hófst, fór knattspyrnusambandið af stað með ógurlega herferð sem miðaðist að því að leikmenn, þjálfarar og aðdáendur liðanna í Úrvalsdeildinni sýndu dómurum virðingu. Á meðan flestir virtust virða þessa herferð inná vellinum til að byrja með voru það forráðamenn knattspyrnusambandsins sjálfir sem vanvirtu þá hvað mest og hafa grafið undan valdi dómaranna í Englandi í allan vetur með því að snúa við dómum án frekari útskýringa. Það gefur augaleið að ef dómarar njóta ekki virðingar hjá sínu eigin knattspyrnusambandi geta þeir varla krafist hennar af fólki úti í bæ.

15 Comments

  1. Fín grein og ég er sammála flestu því sem þarna kemur fram en eitt atriði ætla ég að taka út úr og vera greinarhöfundi ósammála um.

    Frank Lampard átti EKKI skilið að fá rautt spjald á Anfield fyrr í vetur. Ef það á að gefa rautt spjald fyrir það að koma með takkana of hátt eða sólann á móti andstæðingi í hvert sinn sem það gerist í leik í ensku deildinni, þá verða ekki margir eftir í hvoru liði í mörgum leikjanna í deildinni. Mér fannst þetta brot hans Lampard aldrei verðskulda rautt spjald, allra síst eftir að maður hafði séð það mörgum sinnum endursýnt.

    Ég er sammála með spjaldið á Friedel. Kannski má segja að þetta sé óheppni því brotaviljinn er klárlega ekki til staðar en samt sem áður tekur hann Torres niður þegar hann er að fara að rúlla boltanum í markið og því ekki annað hægt en að reka hann útaf.

  2. Var einmitt að hugsa hvað það þyrfti að koma svona pistill um þetta efni hjá ykkur og þá kemur hann nafni með einn framúr erminni!!

    Góð skrif og ég er sammála niðurstöðu hans, það verður að vanda betur til þeirra mála þar sem að spjöld eru feld niður og í raun finnst mér að það ætti bara að vera gert ef að dómarinn viðurkennir í skýrslu sinni eftir leik að hafa orðið á mistök!!

    Ég er hins vegar ekki alveg sammála þessu með spjöldin á Lampart og Friedel. Lampart fer vissulega af stað með sólann á undan sér en hann beygir svo fótinn svo að Alonso sparkar í sköflunginn á honum. Ekki rautt að mínu viti, til að taka af allan vafa að þá er ég þeirrar skoðunar að ef að menn fara með sólann á undan sér og fara alla leið, hátt eða lágt og hvort sem er þeir taka boltann eður ei, að þá eigi það að vera rautt spjald, við erum að tala um sekúndu brot um hvort að menn slasi sig alvarlega þegar að þeir fá slíka tæklingu á sig. Friedel er að því að mér finnst búinn að taka sér stöðu á vellinum þegar að Torres skapar snertinguna, í körfubolta hefði mér þótt eðlilegt að dæma ruðning, þ.e. sóknarmaðurinn veldur snertingunni því ætti ekki að refsa varnarmanninum!!

    Áfram Liverpool, kv Stjáni

  3. Er sammála KAR með spjöldin á FL og BF, Alonso sparkaði ekki í sköflunginn á Lampard, hann sparkaði beint undir sólann á honum og þegar leikmaður er kominn á rassinn í tæklingu hefur hann ekki lengur vald á tæklngunni og telst því ekki leika boltanum. Freidel tók sóknarmann niður í óumdeilanlegu marktækifæri og fékk rétta refsingu frá Atkinson. Enska sambandið er enn og aftur að kúka upp á bak í sínum ákvörðunum. Lampard, Terry, Robinson hjá WBA og nú Friedel hafa allir fengið sínum rauðu spjöldum hnekkt og svo sýnir Wayne Rooney afar sérstaka hegðun eftir að hafa fengið rautt spjald gegn Fulham og það er litið fram hjá því en Mascherano fékk 2 auka leiki eftir sitt fíaskó á OT í fyrra.

  4. David Silva!!! talað um það í Echo í dag að hann sé á radarnum og það er greinilega eitthvað í gangi.

  5. Það er mikið hægt að velta þessu fyrir sér og vega og meta – ef Friedel fékk réttlætanlegt rautt hefði þá Reina átt að fá rautt á móti Man.Utd? Maður spyr sig. Hann var kominn of langt og fór of hratt eða…?

  6. Bendi á grein á þeirri stórgóðu síðu sammarinn.com (http://sammarinn.com//index.php?option=com_content&task=view&id=1505&Itemid=2) Þar sem útskýrt er afhverju það var rétt hjá Atkinson að reka Friedel útaf.

    Varðandi spjaldið hjá Lampard þá er það aldrei rautt spjald og ástæða þess að hún var dregin tilbaka var sú að Riley vildi það sjálfur. Sagði að hann hefði gefið gult hefði hann ekki verið með þetta sjónarhorn sem hann var með. (sjá þessa grein: http://sammarinn.com//index.php?option=com_content&task=view&id=1438&Itemid=2 )

  7. þetta er svo dæmigert, liverpol klíkan ræður öllu þarnna, ekki hev ég orðið var við það að knattspyrnusambandið afturkalli rauðu spöldin sem utd fékk á móti fullham, tilviljun??? NEI, bæði spjöldin ósangjörn, það er verið að reina að hjálpa liverpoool að vinna þessa deild.

  8. Hahahhaa, þú ert fyndinn (feiti ?) Frank.

    Varðandi öll þessi spjöld þá finnst mér Terry vera að sleppa lang best úr þessu. Nú hefur hann fengið 2 rauð spjöld, mjög svo réttilega og bæði hafa verið dregin til baka. FA er náttúrulega algjör brandari og þykir ekki fá mikla virðingu innan knattspyrnugeirans í Englandi almennt.

  9. Alltaf gaman að fá svona spaugara til að kommenta eins og í # 7.

    Annars hef ég heyrt Man.Yoo menn segja þetta í fúlustu alvöru með Fulham leikinn. Hef nú sagt viðkomandi að það sé nú lágmark að vita um hvað málin snúast og hvernig reglurnar eru. Rooney fékk 2 gul spjöld og það er hreinlega ekki hægt að áfrýja slíku. Scholes varði með höndum á línu og það er hreint og klárt að það er ALLTAF rautt spjald. Það kom manni á óvart að sá rauðvínslegni virðist heldur ekki kunna knattspyrnureglurnar. 🙂

  10. Ég er alvega sammála með að það þurfi að vera samræmi í þessum reglum svo að það myndist ekki vafamál um að F.A. sé að “hjálpa” liðum og að einhver lið fái einhverja sérmeðferð. Í sambandi við leikbönn eftir að hafa fengið rauð sjöld, hélt ég að reglan væri sú að þú fengir einn leik ef þú fengir 2 gul í leik, tvo leiki fyrir beint rautt og svo gæti F.A. bætt á leikbönnum ef brotið væri það alvarlegt.. Þetta virðist vera reglan með önnur lið en topp 4 liðin (ég man reyndar ekki hvort einhver Liverpool leikmaður hafi fengið rautt í ár). Fékk Nolan ekki 2 leiki fyrir sitt spjald hjá Newcastle?
    Hefði Vidic ekki átt að fá 3 leikjabann þar sem að hann fékk beint rautt og 1 leik auka í bann því þetta var annað rauða spjaldið á tímabilinu?

  11. Lucas fékk rautt gegn Everton. En það er mikill munur á spjaldi Nolans og Vidic. Nolan fær rautt fyrir Violent Conduct en Vidic fyrir professional foul.

  12. Mér finnst þetta ágætt eins og það er, nema að það þarf að rökstyðja viðsnúning spjaldanna betur.
    Ég var algerlega ósammála því þegar Terryspjaldið var dregið til baka. Dómarinn, sem var nokkra metra frá, metur tæklinguna hættulega og það verður að vera hans ákvörðun. Eins og með Lampard. Hins vegar viðurkenndi dómarinn að hann hafi metið brot Lampard rangt og þá auðvitað á að breyta.

    Um helgina er að sjálfsögðu hægt að gefa rautt spjald, eða sleppa því með fullt af rökum. Er sjálfur starfandi dómari og ég tel að ég hefði gefið Friedel gult spjald. En ef staðan hefði verið 0-0 og Gerrard hefði brennt af vítinu, hvað þá ef Friedel hefði varið, værum við öll alveg brjáluð yfir skandalnum á dómaranum.

    Mér finnst að markmaður þurfi að fá eilítið meira tækifæri en aðrir leikmenn, þar sem hans hlutverk er svo sérhæft og þess vegna þarf að mínu mati að skoða reglurnar uppá nýtt.

    En ég skil dómarann frá Anfield mjög vel að vera pirraðan með að spjaldinu var snúið við. Friedel var klárlega að ræna Torres marktækifæri, mun betra tækifæri en Vidic helgina áður. Þá fannst okkur sjálfsagt að Vidic færi útaf, hans spjald stendur, en ekki hjá Friedel…

    Af því að óvart og viljandi er ekki til í fótboltareglum sko……

    En beint rautt í Englandi er ekki sjálfkrafa þriggja leikja bann. Að leik loknum sér aganefndin alfarið um lengd banns, t.d. fékk Mascherano langt bann vegna tveggja gulra spjalda þar sem að hann þótti dóni þegar hann labbaði útaf, Rooney ekki langt fyrir að rífast við dómara og berja hornfána.

    En ummæli #7 segja hvers vegna það var lendingin……..

  13. Mér finnst þetta mjög áhugavert og fáránlegt í raun. Fyrst það má afturkalla rauð spjöld. Hvers vegna er þá ekki hægt að taka mörk til baka líka eftir leiki?

    T.d. ef að lið skorar, og það sést eftir leik að um rangstöðu var um að ræða. Hvers vegna er markið þá ekki tekið til baka? Sama mark ræður úrslitum heils leiks og það er látið standa. EN ef leikmaður hefur ranglega fengið rautt spjald 30 sekúndum áður þá er það afturkallað.

    Mér finnst þetta knattspyrnusamband vera að koma sér í asnalega stöðu með þessu. Ef að það á að taka til baka mistök og vitleysur eftir leiki, hví ekki að fara í mikilvægu hlutina? Þ.e. hlutina sem að ráða úrslitum leikja?

    Annað hvort á að fara alla leið eða sleppa þessu alveg. Þetta gengur aldrei svona upp.

  14. Alonso vs Lampard dæmið var bara þannig að gult spjald hefði alveg verið nægilegt. Málið er það að hann tók boltann, en gerði það með sólann á undan sér og það er gult spjald. Hefði hans vegar farið í Alonso eins og dómarinn hélt að hann gerði, hefði það verðskuldað rautt.

    Friedel átti klárlega að fá rautt ef hann var að dæma víti á þetta, síðan er spurning hvort þetta sé víti. Mér fannst þetta vera víti en aftur á móti skil ég hugsun Friedel að hann gat ekkert farið neitt hann var búin að vera þarna allan leikinn og Torres hljóp á hann.

    Adios

Nýr varabúningur!

Liverpool að eltast við David Silva