Fulham á Anfield annað kvöld

Á morgun mætir Fulham í heimsókn á Anfield í 34. umferð ensku deildarinnar en liðin léku bæði á sunnudaginn þegar Liverpool vann Tottenham 4-3 og Fulham tapaði fyrir Man City 2-1.

Tap Fulham gegn Man City var fúlt fyrir þá og sömuleiðis dýrkeypt því það brutu tveir leikmenn þeirra bein í leiknum, varnarmaðurinn Tim Ream braut bein í hendi og Andreas Pereira miðjumaður braut bein í fæti. Klárlega missir fyrir þá en sömuleiðis er Mitrovic þeirra besti framherji enn í leikbanni eftir ágeng mótmæli við dómara og þá eru þeir Willian og Kurzawa tæpir og ólíklegt að þeir verði með. Hef alltaf gaman af því þegar ég spái í því hvað mér finnst þetta Fulham lið vera Football Manager-legt þegar ég sé leikmannahópinn þeirra!

Talandi um mótmæli við dómara þá hefur Klopp verið ákærður af knattspyrnusambandinu fyrir orð sín í garð Paul Tierney dómara eftir leikinn á sunnudaginn en hann sakaði dómarann um að hafa sýnt sér vanvirðingu með orðum sínum og dróg smá í efa hlutleysi hans gegn sér og sínu liði. Hörð orð vissulega en það má nú alveg bakka upp þessa skoðun Klopp á Tierney sem hefur nú um tíðina dæmt marga ansi furðulega dóma (eða jafnvel bara ekki dæmt!) í leikjum Liverpool og er þetta ekki í fyrsta skipti sem þeim félögum lendir saman á einhvern hátt.

Allavega þá er ósköp lítið að segja frá því á sunnudaginn annað en það að Thiago mun ekki leika meira á leiktíðinni en hann er á leiðinni í aðgerð vegna meiðsla sem hann varð fyrir um helgina og Klopp segir að Diogo Jota sé tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla í baki, það hrjáði hann sömuleiðis fyrir leikinn gegn Tottenham og byrjaði hann þar á bekknum. Þá er Roberto Firmino enn frá sem og þeir Naby Keita og Stefan Bajcetic.

Alisson

Trent – Konate – Van Dijk – Robertson

Henderson- Fabinho – Jones/Elliott

Salah – Gakpo – Diaz

Þá er stóra spurningin hvernig Klopp mun koma til með að stilla upp liðinu. Liðið byrjaði mjög vel gegn Tottenham og hefði átt að gjörsamlega klára leikinn eftir fyrstu tuttugu mínúturnar en eitthvað bras var á liðinu – en to be fair þá sótti Tottenham líka virkilega vel í skyndisóknum sínum. Ég held að Klopp breyti samt ekki of miklu ef hann þarf þess ekki.

Vörnin verður líklegast óbreytt held ég og Fabinho heldur eflaust stöðu sinni á miðjunni en Thiago átti að byrja á sunnudaginn en meiddist og Elliott kom inn á og eflaust var Henderson að fá smá hvíld. Mér þykir ekki ólíklegt að Henderson komi inn í byrjunarliðið í leiknum og það er þá líklega spurningin hvort að Jones eða Elliott byrji með þeim tveimur. Jones hefur verið frábær og skoraði í síðasta leik en hann er á sérstöku prógrami sem þýðir að hann geti endað á að missa af leikjum til að forðast þrálát og langvarandi meiðsli og er frídagurinn hans í miðri viku svo mögulega verður hann ekki með á morgun. Þá reikna ég sterklega með því að Elliott verði í byrjunarliðinu.

Gakpo verður pottþétt áfram frammi með Salah og þá spurning hver verður með þeim. Jota hefur nú byrjað fleiri leiki en færri undanfarið en byrjaði á bekknum um helgina því hann var tæpur en kom svo inn á og skoraði sigurmarkið í blálokin. Fyrst hann er ekki alveg heill þá giska ég á að hann byrji á bekknum og líklega byrjar Diaz aftur en hann var alveg furðulega beinskeyttur og flottur í leiknum fannst mér og kom það bara pínu á óvart. Ef hann er tilbúinn í annan byrjunarliðsleik á skömmum tíma þá heldur hann sætinu annars gætum við séð Nunez detta inn í liðið.

Meistaradeildarsætið er ólíklegt en ekki útilokað, það er að minnsta kosti alls ekki í höndum Liverpool en mikilvægt er að Liverpool haldi áfram á þeirri braut sem liðið er á og endi tímabilið af krafti og sjái hvað setur þegar allt er búið. Ef það dugar ekki til Meistaradeildarsætis þá er engu að síður mikilvægt að enda erfiða leiktíð vel og setja tóninn fyrir komandi leiktíð. Heimavöllurinn aftur á morgun og að sjálfsögðu viljum við og förum fram á sigur gegn Fulham, gæti verið strembinn leikur auðvitað en ekkert annað en þrjú stigin takk!

5 Comments

  1. Nú koma fréttir að Thiago er úti það sem eftir er,er nú ekki fullreynt á hann selja í sumar.

    9
  2. Ég væri til í að sjá Klopp fara í 4-2-3-1

    —-Hendo – Fabinho
    Salah – Gakpo – Diaz
    ———–Nunez——–

    4
    • Sammála því.

      Við höfum engu að tapa. Erum ekki að fara að ná CL sæti.

      Thiago meiddur og spilar ekki meira á tímabilinu. Er með 200 þúsund GBP á viku og alltaf meiddur. Hann þarf að fara í sumar.

      Bellingham til Real Madrid. Þá þarf ekki að ræða það meira !

      2
      • Já, Bellingham til Real Madrid, enn einn leikmaðurinn úr efstu hillunni sem við missum af
        þvílíkur aumingjaskapur að hafa ekki keypt hann!

        1

LIVERPOOL 4 – SPURS 3 (Skýrsla uppfærð)

Stelpurnar mæta Chelsea