Lokaleikur tímabilsins: Southampton heimsóttir

Það gerist ekki oft að Liverpool spili deildarleiki sem hafa enga þýðingu, hvorki fyrir okkar menn né fyrir andstæðingana. Undirritaður man satt að segja ekki eftir slíkum leik í nálægri fortíð. En á morgun er komið að nákvæmlega þeim aðstæðum. Okkar menn verða í 5. sæti, og Southampton enda í neðsta sæti deildarinnar og falla. Hvorki úrslit þessa leiks né annarra leikja munu breyta því.

En auðvitað skipta þessir leikir alltaf máli. Menn vilja ekkert labba inn í sumarið með tap á bakinu.

Undirritaður ætlar n.b. ekki að telja það einhvern sérstakan sigur í spádómsdeildinni að hafa spáð nákvæmlega þessari stöðu í leikskýrslu um síðustu helgi, enda þurfti ekkert sérstaklega stóra né kröftuga kristalskúlu til að sjá að líkurnar á því að United liðin tvö myndu bæði klúðra sínu eins stórkostlega og þurfti voru einfaldlega ekki nógu miklar. Við skulum bara líta svo á að Evrópudeildin muni verða gæfuspor fyrir félagið af ýmsum sökum:

  1. Klopp á enn eftir að vinna þennan bikar
  2. Mögulega voru þetta skilaboðin sem eigendurnir þurftu að fá til að sýna að það má hvergi slaka á í baráttunni um efstu sætin
  3. Kannski þýðir þetta fleiri tækifæri fyrir unga og efnilega leikmenn eins og Doak, Bradley, Morton o.fl.
  4. Þetta gæti þýtt færri hádegisleiki á laugardögum

Gleymum líka ekki að framkvæmdum við Anfield Road stúkuna á Anfield lýkur í haust (líklega í tæka tíð fyrir leik nr. 2 á næsta tímabili), og þá verður staðan sú að klúbburinn verður hvorki í framkvæmdum á æfingasvæðinu né á vellinum, líklega í fyrsta sinn í einhver 5-6 ár. Það gæti því verið kominn tími til að snúa sér að liðinu, og að byggja upp það lið sem mun fylgja Klopp síðustu 3 árin hans hjá félaginu.

Klopp var með blaðamannafund í gær, og hann gaf að sjálfsögðu ekkert uppi um það hvernig hann mun stilla upp liðinu, en ef einhverntímann er tækifæri til að experimenta aðeins, þá er þetta leikurinn. Hann neitaði því a.m.k. ekki. Spurningin er t.d. hvort Carvalho fái séns, Klopp talaði um að fáir leikmenn hefðu verið jafn eftirtektarverðir á æfingasvæðinu eins og Fabio litli. Hann vildi líka alls ekki útiloka að Carvalho færi hugsanlega á lán á næstu leiktíð.

Það má líka aðeins minnast á innleggið sem Salah setti á samfélagsmiðla strax eftir að fjórða sætið var tölfræðilega úr greipum runnið. Klopp minntist aðeins á það á blaðamannafundinum, og sagði einfaldlega að Salah væri vel stemmdur og þetta væri ekki til marks um að Mo vildi fara. Reyndar lét hann hafa eftir sér að hann myndi persónulega keyra hvern þann leikmann sem vildi hætta hjá félaginu til næsta klúbbs. Ég hugsa að til þess muni ekki koma.

Svo var fólk eitthvað að lesa í það að Tsimikas var óvenju tilfinningasamur eftir leikinn á Anfield, og einhverjir vildu meina að það þýddi að hann væri á förum. Það hefur verið borið til baka, og engin merki um annað en að gríski scouserinn okkar verði áfram næstu leiktíð, þó svo það eigi eftir að koma í ljós hversu vel honum gengur að spila þetta 3-2-2-3 kerfi með Trent á miðjunni. Kannski þjálfast það betur upp í sumar.

Meiðslalistinn er í stysta lagi, en ótrúlegt en satt þá eru líkur á að Keita missi af leiknum vegna vöðvameiðsla. Eins fann Robbo fyrir einhverju sem fannst svo ekki í skönnun, og Konate var eitthvað tæpur. Nunez hins vegar æfði með liðinu aftur eftir einhver furðuleg támeiðsli. Ramsey og Thiago verða frá enda að glíma við langtímameiðsli.

Það er eiginlega ómögulegt að spá fyrir um uppstillinguna. Mun Klopp spila ungu strákunum og gefa þeim færi á að sanna sig fyrir næstu leiktíð? Mun hann spila þeim sem eru á útleið, sem kveðjugjöf fyrir vel unnin störf? Eða stillir hann kannski bara upp sínu sterkasta liði eins og venjulega?

Nóg um það. Eigum við að reyna að giska á uppstillingu?

Kelleher

Trent – Matip – Virgil – Tsimikas

Jones – Fab – Carvalho

Salah – Gakpo – Nunez

Í raun er þetta algjörlega skot út í loftið. Kannski fær Gomez að byrja. Það gætu hvaða tveir sem er af þessum fjórum frammi byrjað (Gakpo, Nunez, Díaz og Jota), en Salah held ég að byrji alltaf. Nema þá ef Klopp prófar að láta Elliott byrja í stöðunni hans Salah. Nú svo fullyrti Hendo að Ox hefði líklega aldrei verið í betra formi, en hann náði hins vegar ekki einusinni í liðið í síðasta leik svo ég er ekkert mjög bjartsýnn fyrir hans hönd með að byrja.

Það verður a.m.k. mjög spennandi að sjá þegar byrjunarliðið verður gefið út kl. 14:30 á morgun.

Nú og svo er það bara silly season. Hvað spáið þið að Liverpool kaupi marga leikmenn í sumar? Munu Liverpool Women loksins fá aftur íslenskan leikmann í kjölfar Katrínar Ómarsdóttur? Hvaða kjúklingar fara út á láni? Verður þetta sumarið þar sem Nat Phillips verður loksins seldur? Hver drap James? Var það butlerinn eins og venjulega?

Spáum 3-1 á morgun. Salah, Nunez og Jones með mörkin.

KOMA SVO!!!!

12 Comments

  1. Auðvitað þarf að klára tímabilið með stæl og vinna þennan leik. Fyrir stöðu liðanna þá skipta úrslitin reyndar engu máli. Ætla að spá því að Firmino og Milner byrji báðir inná.

    5
  2. Held að Liverpool þurfi Chelsea sumar. Bobby, Ox, Milner og Keita að fara. Eg ég ætti að ráða myndi ég selja Tiago, Salah, Elliot og Nat Phillips líka a.m.k. Myndi vilja sjá nýjan miðvörð, einn hægri bakvörð, 4 miðjumenn, einn ungan og hraðan vinstri fótar vængframherja. Það er nóg til af leikmönnum út um allt sem þurfa ekki að kosta augun úr. (Napoli, Brighton og fleiri hafa sýnt það oft) Liverpool er með haug af njósnurum út um allt og kominn tími á snjöll kaup eftir vinnu þeirra. Finnst Salah vera að dala mikið. Tiago allt of mikið meiddur og Elliot ekki nógu góður. Væri gaman að sjá Kvaratskelia í Liverpool búningi!

    3
    • Magnað alveg hreint út sagt magnað seljum Salah….gerir þér grein fyrir hann hefur tekið þátt i öllum leikjunum í deildinni á þessu tímabili…. Er hægt að segja það um Jóta Diaz Firminho Nunez ? Fynnst þér skrýtið að Salah sé kannski ekki upp á sitt besta þegar hann spilar nánast með allskonar framlínu útaf því það er alltaf einhver meiddur skrýtið af hverju Gakpo kom í janúar? Leggðu svo höfuðið aðeins í bleyti og spurðu sjálfan þig hvað hafa margir spilað á miðjunni margar útfærslur af leikmönnum……Salah er alltaf heill annað enn Jóta Firminho Diaz Thiago Henderson Keita Ox Jones sérðu hvað Salah þarf að gera? Spila með ótrúlegan fjölda af allskonar leikmönnum 1-2 leik þú getur ekki sinni sagt hversu oft sterkasta liðið hefur oft spilað sorglega er það er lá tala….. Sumir horfa ekki á heildarmyndina hvað Liverpool er gjörsamlega í ruglinu þegar kemur að meiðslum og leikmenn not available….

      14
    • Salah var betri en Rashford sem menn keppast um að ausa lofi yfir þetta tímabil hann var bæði með fleiri skoruð mörk og meira en 2 falt fleiri stoðsendingar en juju seljum hann bara.
      Elliot er ný orðinn 20 ára.

      6
    • Sælkir félagar

      Bobby er alveg með þetta er það ekki. Að selja Salah er auðvitað bull. En allir hinir eru alveg hugmynd nema ef til vill Elliot þó mér finnist að hann sé ekki alveg í Liverpool klassa. En ef til vill nær hann því á næstu leiktíð.

      Það er nú þannig

      YNWA

      1
  3. Fínn þáttur eins og vant er. Smá neikvætt rant frá Magga um Aston Villa leikinn en svo náði sá karl sér nú á strik. Mark Gagpo hefði átt að standa. Augljóst að leikmaður AV sendir hælinn viljandi í boltann. Þetta var svosem alltaf langsótt, að ná 4. sæti. Nennum ekki að kvarta yfir dómsgæslu. Liverpool er miklu betra en Aston Villa og hefði átt að klára þennan leik. Leikjauppstilling og dómgæsla hefur ekki alveg unnið með okkur í vetur. Spái 2. sæti á næsta ári. Það er einfaldlega ekki hægt að keppa við Man City á þeirra rönni þessi ár. Mings hefði sannarlega átt að fjúka út af fyrir brotið á Gagpo. Hugsum ekki meira um það. Vinnum Evrópudeildina.

    2
  4. Sælir félagar

    Það eru gríðarleg vonbrigði að liðið nái ekki einu af fjórum efstu. Það breytir engu að taka einhverja Pollýönnu á þetta og reyna að klístra upp einhverri ánægju með Evrópudeildina og að Klopp eigi eftir að vinna þennan titil og svo framvegis. Þetta er einfaldlega ekki ásættanlegt og ekkert fær því breytt. Að horfa á lið eins og MU og Newcastle í Meistaradeildinni og Liverpool í Evrópudeildinni er bara ömurlegt og ekkert annað.

    Hvað leikinn í dag varðar þá er maður minna en ekkert spenntur fyrir honum. Hann breytir engu í bráð og lengd. Frammistaða Liverpool á þessari leiktíð er afar slök og nokkrir sigrar í lokin breyta þar engu um. Jafnvel 7 – 0 sigurinn á MU er farinn að firnast og veitir manni takmarkaða gleði í dag en á líklega eftir að gera það þegar frá líður og farið verður að rifja upp skemmtilegustu leikin á þessari leiktíð og öðrum.

    Upphitari spyr hvað við höldum um sumarkaup. Satt að segja er ég ekki bjartsýnn á þau. Eftir að í ljós hefur komið að Klopp fékk því ekki ráðið að halda Milner (og ef til vill fleirum – Bobby?) þá sýnist mér ljóst að Klopp og félagar fái litlu ráðið um hvað verður keypt og fyrir hvaða pening. Ef Klopp fær ekki að ráða svo litlu atriði eins og að hafa Milner vélina áframfyrir lítinn pening í eitt á eða svo þá fær Klopp að líkindum litlu ráðið um stærri atriði. Eins og staðan er núna þá er það svona: MacAllister til City, Mount til MU og Bellingham til Real. Sem sagt – ekkert af mest orðuðu markmiðunum virðist vera á leiðinni eins og orðrómurinn talar núna. Hvernig framhaldið verður læt aðra um að spá fyrir um.

    Það er nú þannig

    YNWA

    1
  5. Við komum til með að spila í meistaradeildinni á næsta tímabili, city verður dæmt í bann í meistaradeildinni og fært niður um deild í ensku deildinni út af svindli og svínaríi.

    Tímabilið klárlega vonbrigði miðað við væntingar og tímabil á undan þar sem við vorum að berjast um alla titla sem voru í boði.
    Ég held að það komi fjórir nýjar menn í sumar, þrír miðjumenn og einn í vörnina hvort það verðu mið eða bakvörður veit ég ekki og hvort þessir menn koma úr efstu hillu fótboltans efast ég um því miður.
    Hverjir fara umfram þessa sem þegar er búið að staðfesta er erfitt að segja og eins hvaða guttar eru nógu góðir til að koma upp úr unglinga starfinu upp í aðalliðið.
    En eins og alltaf þá verður næsta tímabil tímabilið okkar.
    YNWA

  6. Ef Mohamed Salah skorar gegn Southampton verður hann fyrsti úrvalsdeildarmaðurinn til að skora 20 mörk og 10 stoðsendingar á þremur tímabilum – hann og Thierry Henry hafa gert það tvisvar áður.

    Alisson og Salah eru þeir leikmenn sem hafa spilað alla 37 deildarleiki Liverpool til þessa. Alisson er sá eini sem hefur byrjað alla leikina.

    Rauðir hafa unnið síðasta deildarleik tímabilsins á sex tímabilum í röð eftir 1-1 jafntefli gegn West Bromwich árið 2016.

    Aðeins Robbie Fowler (8) hefur skorað fleiri mörk gegn Southampton í úrvalsdeildinni en sjö mörk Salah.

    Ef Salah skorar mun hann einnig verða fyrsti leikmaður Liverpool síðan Roger Hunt (1965/66) til að skora 20 deildarmörk á þremur tímabilum í röð.

    Ef Roberto Firmino kemur af bekknum og skorar tvisvar mun hann jafna félagsmet David Fairclough sem er 18 mörk sem varamaður.

    Liverpool sækist eftir sigri númer 50 gegn Southampton.

    Næsta mark sem Liverpool skorar verður þeirra 100. á þessari leiktíð, allar keppnir meðtaldar.

    Í 47 deildarleikjum liðanna á St Mary’s hefur aðeins einn leikur endað markalaus. Það var í nóvember 2016.

    Liverpool hefur unnið tíu af síðustu 11 deildarleikjum gegn Southampton með markamun 28-5. Þeir hafa unnið fjóra af síðustu fimm útileikjum í deildinni.

    Roberto Firmino skorar að meðaltali mark á 138 mínútna fresti, sem er betra en nokkur annar leikmaður Liverpool. Salah er næstbestur á 140.

    36 leikmenn hafa leikið með bæði með Southampton og Liverpool, þar á meðal Peter Crouch, Nathaniel Clyne, Bruce Grobbelaar, Danny Ings, Kevin Keegan, Adam Lallana, Rickie Lambert, Dejan Lovren, Sammy Lee, Sadio Mané, Takumi Minamino, Alex Oxlade-Chamberlain og Virgil van Dijk.

    7

United mæta á Prenton Park – síðasti leikur kvennaliðsins í bili

Southampton – Liverpool