Dominik Szoboszlai búinn að skrifa undir?

Mögulega tilkynntur á morgun

David Ornstein, blaðamaðurinn sem kom fyrstur með fréttirnar af kaupum Liverpool á Ungverjanum Dominik Szoboszlai heldur því fram í kvöld að læknisskoðunin sé að baki án vandræða og að Szoboszlai verði tilkynntur formlega einhverntíma á næsta sólarhringnum.

Þar með er Liverpool búið að ganga frá þeim tveimur leikmannakaupum í sumar sem voru langmest aðkallandi að klára og hefðu sannarlega mátt koma 12 mánuðum fyrr. Mac Allister og Szoboszlai gjörbreyta valmöguleikum Jurgen Klopp til hins betra eru og eru gríðarleg styrking á Keita og Ox sem yfirgáfu Liverpool formlega núna um mánaðarmótin. Ef eitthvað er að marka slúðrið í kvöld er ennþá líklegt að Liverpool bæti enn frekar við á miðjunni, Lavia frá Southampton er sterklega orðaður við Liverpool og Thuram hjá Nice hefur verið sterklega orðaður í mest allt sumar. Báðir eru þeir meira varnartengiliðir en Alexis og Szoboszlai.

Líklega vanmeta ansi margir stuðningsmenn Liverpool hversu spennandi leikmann verið er að kaupa. Þetta er nafn sem hefur margoft poppað upp í umræðunni um möguleg leikmannakaup og Szoboszlai klárlega einn af þeim betri úr Red Bull framleiðsunni, var bæði hjá Salzburg og er auðvtað að koma núna frá Leipzig.

Látum liggja milli hluta hvort hann eða Mac Allister sé stærra nafn en Szoboszlai hefur miklu lengur verið í umræðunni (a.m.k. í Evrópu) um efnilegustu leikmenn í boltanum í dag. Mögulega er það líka vísbending að hann er með næstum helmingi hærri söluklásúlu í sínum samningi?

Szoboszlai er fyrirliði Ungverja (hann er bara 22 ára) og var fyrirliði U17 og U19 hjá Ungverjum einnig, þeirra langmesta vonarstjarna síðan Puskás og félagar.

Fyrir í sumar tók ég saman lista yfir helstu miðjumenn sem voru i umræðunni og var Szoboszlai sannarlega á þeim lista, ástæðan er einföld þetta er einn af mest spennandi miðjumönnum í boltanum í dag og á frábærum aldri til að taka næsta skref undir handleiðslu Jurgen Klopp. Raunar fór hans nafn ekki sérlega hátt í slúðrinu þar sem talið var að erfitt yrði að fá hann og mjög dýrt. Hann er hinsvegar með klásúlu í samningi sínum hjá Leipzig sem var í gildi til 30.júní og vrikjaði Liverpool hana með því að greiða að fullu. Leipzig vildi ekkert gefa eftir þar og var með annan kaupanda tilbúinn ef Liverpool vildi ekki klára málið, hitt liðið er Newcastle en Klopp heillaði auðvitað meira en bensínstöðvarliðið með Howe á dælunni.

Það er löngu vitað að Bellingham var ekki að fara koma til Liverpool en úr því svo fór er erfitt að vera ósáttur við þá tvo sem búið er að staðfesta og hvað þá ef við bætum 1-2 við í viðbót af þessum lista. Liverpool klúðraði undanförnum árum þannig að í sumar þurfti að gera mun stærri breytingar en Bellingham einn getur leyst.

Flest af stóru liðunum virðast vera kaupa miðjumenn með svipaðan profile og Szoboslai, þ.e.a.s. sóknartengilið einhversstaðar á milli þess að vera átta eða tía. Leikmenn sem skapa og skora mörk af miðsvæðinu.

  • United er að klára kaupin á Mason Mount sem Liverpool var á tímabili orðað nokkuð sterklega við. Miðað við viðbrögð margra stuðningsmanna Liverpool við því einu að nota Mount sem dæmi í færslu um hvað nýjir miðjumenn gætu gefið Liverpool liðinu er vonandi óhætt að áætla að þeir hinir sömu séu þá sáttir við á fá Szoboszlai í staðin. Kaupverðið er svipað en talið er að launatölur Mount verði öllu hærri. Þeir eru á svipuðum aldri en persónulega held ég að þakið sé mun hærra hjá Ungverjanum.
  • Arsenal ætla klárlega að styrkja sig gríðarlega í sumar og eru nú þegar búnir að staðfesta Kai Havertz á svipaða fjárhæð og Szoboszlai er að fara á til Liverpool. Þar hugsa ég að hann sé að fara til stjóra sem hefur vit á því og þarf ekki að spila honum sem sóknarmanni heldur færir hann í sína eiginlegu stöðu fyrir aftan sóknarlínuna. Satt að segja væri ég ekki minna spenntur fyrir Havertz hefði hann verið raunin hjá Liverpool og held að hann eigi rúmlega töluvert inni en hann var að sýna hjá Chelsea, það á reyndar við um alla leikmenn Chelsea? Áhugavert líka að þair kosta svipað mikið.
  • Tottenham var svo að kaupa Maddison frá Leicester. Hann er fjórum árum eldri en Szoboszlai og líklega nálægt sínum toppi sem leikmaður.
  • Man City og Newcastle er svo meðal liða sem eru sterklega orðuð við Gabri Veiga, leikmann sem var orðaður við Liverpool í vor, það slúður dó væntanlega með Szoboszlai, Veiga engu að síður gríðarlega spennandi leikmaður einnig.

Szoboszlai – Loksins sóknartengiliður hjá Liverpool 

Bæði Mac Allister og Szoboszlai virka báðir sem augljósir kostir í 3-4-2-1 leikkerfið sem Liverpool endaði tímabilið með. Szoboszlai myndi þá klárlega ógna stöðu Henderson mest miðað við síðustu leiki síðasta tímabils eða t.d. þeirri stöðu sem Harvey Elliott var að leysa í upphafi tímabilsins.

Hjá bæði félagsliði og landsliði hefur hann verið að spila meira í sóknarlínunni en hann verður líklega hjá Liverpool enda Salah okkar maður í sambærilegum stöðun á vellinum. Samvinna hans, Trent og Salah á hægri vængnum sóknarlega er hinsvegar verulega spennandi tilhugsun.

Hann getur spilað allar stöður á miðsvæðinu og hefur spilað bæði hægramegin og vinstramegin í tígulmiðju sem og auðvitað sem tían í slíku leikkerfi.  Hann er frekar hávaxinn (1,87m) fyrir sóknartengilið sem hafur oft leyst nokkuð út á vængina.

Eins má ekki vanmeta hvaða ógn kemur með honum úr föstum leikatriðum, þetta er vítaskytta Leipzig og landsliðsins og það magnaða við hann er að öll vítin hans eru í sama horn og virðast öll fara jafn mikið í markið fyrir því. Hann er jafnframt stórhættulegur úr aukaspyrnum og það þarf ekki að horfa á mörg video af honum til að átta sig á að hann er með algjöra fallbyssu í hægri löppinni. Ísland fékk heldur betur að finna fyrir henni frá 20 ára Szoboslai sem klálaði fyrir okkur EM drauminn 2020.

Hér er frábær þráður á Twitter um gæði Szoboszlai

Hann flýgur í gegnum youtube testið sem spennandi leikmaður en tölfræði nördarnir eru einnig gríðarlega spenntir fyrir þessum leikmannakaupum. Hann er svipað og Thiago (og Keita) gríðarlega jákvætt þenkjandi í sóknaruppbyggingu og sendir boltann jafnan framávið í átt að marki. Liverpool vantaði ekki lítið slíkan miðjumann allt síðasta tímabil, einhvern sem getur tengt saman miðju og sóknarlínu.

Breiddin á miðsvæðinu í dag

Það er áhugavert að Liverpool er ennþá nokkuð sterklega orðað við Lavia og/eða Thuram, ef annar eða báðir kom hugsa ég að Thiago gæti verið á útleið strax í sumar og jafnvel að Bajcetic fari á láni rétt eins og Carvalho.

Það sem sker Szoboszlai úr í samanburði við t.d. Mac Allister er að hann er miklu meira sóknarþenkjandi miðjumaður. Það hefur hreinlega hvílt bölvun á öllum þeim leikmönnum sem Klopp hefur stillt upp sem einhverskonar sóknarógn af miðsvæðinu.

Lallana var upphaflega hans maður þegar Klopp tók við og náði varla að spila tvo leiki í röð og aldrei heilan leik. Ox var keyptur sumarið eftir á fáránlega háu verði m.v. samningstöðu hjá Arsenal og meiðslasögu og viti menn hann meiddist um leið og hann var búinn að finna taktinn hjá Liverpool. Síðan þá höfum við nánast ekki spilað með svona tegund af miðjumanni. Maður var að vona að Keita og Thiago gætu leyst þetta hlutverk að einhverju leiti en hvorugur getur haldist heill. Curtis Jones lofaði svipað góðu Covid tímabilið og hann gerði í lok þessa tímabils en hefur ekkert náð að byggja ofan á það vegna endalausra meiðsla. M.a.s. Harvey Elliott meiddist í heilt ár eftir að hann fékk sénsinn í þessu hlutverki 12 ára gamall.

Það er annars alveg eðlilegt að nýr leikmaður gangi ekkert í byrjunarliðið hjá Liverpool, ef allt er eðlilegt þarf hann sem dæmi að ná þessari stöðu af t.d. Curtis Jones og væntanlega gerir Harvey Elliott tilkall einnig. Það er einmitt þar sem Liverpool þarf, alvöru samkeppni um stöður. Eins þyrfti það ekki að koma á óvart ef þeir miðjumenn sem Liverpool kaupir í sumar verði ekki allir fastamenn í byrjunarliðinu frá fyrsta leik. Fabinho fór ekki að spila að ráði fyrr en í okt/nóvember eftir að hann kom og Robertson komst ekki í liðið fyrr en Moreno meiddist. Það er ekkert sjálfgefið að Szoboszlai byrji gegn Chelsea í ágúst.

Mac Allister er líklegri til að fara beint inn í byrjunarlið Liverpool frá fyrsta leik og tekur væntanlega hlutverkið vinstra megin á miðsvæðinu. Thiago ætti að vera helsta samkeppnin við hann um stöðu og líklega Henderson.

Aftasta línan sér maður svo fyrir sér að verði Fabinho og Trent þegar Liverpool er með boltann, Trent þá í þessu hybrid hlutverki sem hann endaði síðasta tímabil. Mögulega gætu Fabinho eða Henderson verði hugsaðir sem back-up fyrir það hlutverk núna þegar Milner er farinn? Eða þá að Connor Bradley sé lengra kominn en við áttum okkur á.

Hvernig sem þessu er snúið er mjög líklegt að Mac Allister og Szoboszlai loki rosalega stóru samkeppnisforskoti sem helstu andstæðingar Liverpool höfðu á okkar menn í fyrra. Það að geta spilað sömu leikmönnum sem oftast og auðvitað þá helst ungum og ferskum löppum skapar stöðugleika sem Liverpool hafði alls ekki í fyrra.

Miðjan var í tómu rugl allt tímabilið, það voru aldrei sömu leikmenn að spila saman og þetta var ekkert skárra í vörn og sókn heldur. Miðjan tengdi lítið sem ekkert saman vörn og sókn allt tímabilið. Þessir tveir leikmenn í stað Keita, Ox (og Arthur) ættu að fara rosalega langt með að snarlaga það. Minnka einnig mikilvægi Henderson, Elliott og Thiago til muna sem dæmi.

Samanlagt hafa þeir Alexis og Szoboszlai misst úr einn leik undanfarin tvö tímabil vegna meiðsla. 7 – 9 -13!

Hjá Liverpool voru níu leikmenn að skipta með sér spilatíma á miðjunni í deildinni síðasta vetur og inn í allan þann hóp vantar samt panic viðbótina Arthur sem átti að leysa svipaðan vanda og við erum einmitt að gera okkur vonir að sé núna verið að laga, hann náði ekki einni mínútu í deildinni:

Fjölbreyttari sóknarleik takk

Liverpool tapaði stigum í helmingnum af leikjunum gegn liðunum sem enduðu tímabilið í neðri hluta deildarinnar á síðasta tímabili. Aðeins tíu sigrar af tuttugu og 36 stig af 60. Það vantaði 22 stig til að vinna deildina og þau eru langflest einmitt þarna.

Liverpool náði ekki að skora mark í sjö af þessum tuttugu leikjum og það hafði líklega ekki minna að gera með fá mörk frá miðju og vörn heldur en bara frá sóknarlínunni. Samtals voru þetta átta mörk frá þessum tíu miðjumönnum sem lagt var inni í mótið með og þar af eru sex frá Jones, Carvalho og Ox sem verulega lítin part tímabilsins. Varnarlínan skilaði af sér sex mörkum.

Martin Ödegaard einn og sér skoraði 15 mörk fyrir Arsenal í deildinni eða næstum helmingi meira en öll miðjan hjá Liverpool samanlagt. Xhaka skoraði sjö og m.a.s. varnartengiliðurinn Partey var með þrjú mörk. Liverpool þarf ekkert endilega svona framlag enda sóknarlínan Liverpool miklu öflugri. En það þarf aðeins betra jafnvægi en þetta samt. Szobozlai er vonandi maður til að skipta máli hérna.

Gundogan, KDB, Grealish og Silva skoruðu 24 mörk fyrir City, lið sem er líka með 36 marka sóknarmann og tvo aðra sóknarmann sem skoruðu samanlagt 20 mörk.

Betri holning á miðsvæðinu hjá Liverpool ætti ekki að hjálpa síður til varnarlega og passa báðir þessir leikmenn mjög vel inn í gegenpressing hugmyndafræði Klopp og eru vanir að spila sambærilegan fótbolta og Klopp fer fram á frá sínum fyrri félögum.


Endum þetta í gamni á smá könnun

Hvern af þessum sóknartengiliðum myndir þú helst vilja til Liverpool í sumar?

  • Szoboszlai (79%, 137 Atkvæði)
  • Havertz (9%, 16 Atkvæði)
  • Mount (5%, 9 Atkvæði)
  • Veiga (4%, 7 Atkvæði)
  • Maddison (2%, 4 Atkvæði)

Fjöldi atkvæða: 173

Loading ... Loading ...

 

7 Comments

  1. Takk fyrir þessa analisu á nýja manninum okkar sem sannfærði mig um að kjósa drenginn þó að ég hafi aldrei séð hann spila fótboltaleik .

    5
  2. Takk fyrir þetta, alltaf gaman að lesa þessa pistla frá ykkur

    Þekki hann ekki neitt en virkilega spennandi eftir því sem maður les og sér meira af honum 🙂

    Væri frábært að fá einn enn ungan sterkan í viðbót fyrir tímabilið á miðjuna.

    Hefði verið hrikalegt að fara inn í nýtt tímabil með C.Jones sem byrjunarliðsmann 🙁

    5
  3. Takk fyrir góðan pistil. Alltaf svo fræðandi að lesa það sem hér kemur inn og jarðtengjandi eftir lestur á hinum ýmsu slúðursíðum á netinu sem sjaldnast er mark á takandi. Þetta er spennandi leikmaður.

    Miðjan greinilega að mótast og næst vonandi einhver stöðugleiki í vetur. Það er hinsvegar ljóst að það verður á brattann að sækja í vetur gegn þessum fjórum efstu frá síðasta tímabili. Styrking í vörn (aukin breidd) er að mínu mati nauðsynleg.

    2
  4. Frábær pistill. Og fræðandi.

    Ég kaus Szoboszlai, en viðurkenni ég hefði aldrei kosið hann ef einhver af hinum á listanum væru að koma í hans stað. Ég er t.d viss um að leikmaður eins og Mount myndi blómstra undir stjórn Klopp og sömuleiðis Havertz. Szoboszlai er aftur á móti miklu meira spurningamerki að mínu mati. Það hefur margur komið í ensku deildina með gott orðspor úr Þýsku og ekki staðið undir væntingum.

    Þrátt fyrir háan verðmiða reikna ég ekki með honum beint í byrjunarliðið. En ég er sammála, það er mjög spennandi tilhugsun að sjá hann spila hægra megin með Salah og Trent. Það var vandræða staða á síðasta tímabili að mínu mati. Ég er anægður með kaupin og að FSG sé að eyða pening. En liðið þarf meira.

    5
  5. Sælir félagar

    Takk fyrir þessa yfirferð Einar og það var ekki erfitt að kjósa Szoboszlai eftir hana. Nú held ég að alvöru miðvörður sé næstur en líka væri gott að fá öflugan varnartengilið. Vonirnar fyrir næstu leiktíð glæðast heldur betur ef svona verður haldið áfram mun liðið okkar verða öllum liðum ógn.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  6. Satt ..þetta er að koma saman núna finnst manni það væri statement frá FSG að bæta við þá sérstaklega eins og Sigkarl nefnir hér fyrir ofan miðvörð og ég er á því að okkur vanti 1 backup í bakvörðinn fyrir Trent. Annar eins og Thuram myndi þíða massíf breidd hjá okkur og maður hefði trú á að liðið gæti keppt við olíu veldin á þessu tímabili !
    Spennandi framundan !
    YNWA

    4

Szoboszlai að nálgast?

Szoboszlai kominn (Staðfest)!