Pæling í landsleikjahléi – hluti 2.

Ég rabbaði um fyrir nokkrum dögum hversu sáttur ég er með árangur liðsins í deildinni þetta árið og þá von sem ég ber í brjóstinu fyrir því að við náum titli nr. 19 í vetur. En nú langar mig að velta fyrir mér stöðu liðsins okkar almennt og hvað framtíðin ber í sínum skauti.

Síðustu tvö tímabil hafa verið undirlögð af vafaatriðum tengdum eigendum og framkvæmdastjóra liðsins. Ótal þjálfarar hafa farið og aðrir komið í staðinn. Boltinn byrjaði í höfuðlausnum þjálfaranna með brotthvarfi gamals vinar Rafa, Paco Ayastaran, í kjölfar uppsafnaðs ósamkomulags þeirra sem lauk með vinahótum Paco í garð erkióvinar Liverpool, mótormunnsins Mourinho.

Ekki voru allir sáttir meðal stuðningsmannanna með þessa ákvörðun Rafa, sérstaklega þegar að illa gekk ekki löngu síðar. Alls konar spjallþræðir komu upp um að Paco hafi verið gríðarlega mikilvægur liðinu og Rafa væri ekki hálfur maður án hans. Fræðiritgerðir um hversu skemmtilegur umræddur Paco var duttu upp og bara margir hundfúlir. Eftir að hafa verið á samningi við Liverpool til vors 2008 og enginn spurt eftir honum til starfa fékk svo umræddur Paco starf. Hann er líkamsþjálfari (fitness coach) hjá Benfica! Hlýtur eitthvað lið að fatta þó hversu mikil snillingur hann er…..

En þarna held ég að við höfum séð hversu miskunnarlaus Rafa er við þá sem ekki a) fara að því sem hann segir og b) hafa logandi, brennandi áhuga á að vinna fyrir Liverpool FC.

Þetta haust hófst svo farsinn með sölu félagsins sem svo varð staðreynd í febrúar 2007. Viðkunnalegir Ameríkanar keyptu liðið og lofuðu öllu fögru. Í maí töpuðum við svo stórleik fyrir AC Mílan og á morgunblaðamannafundi daginn eftir fengum við að kynnast því hversu ósáttur Rafa var með starf félagsins. Allt frá unglingaliðum þess til aðalliðsins. Ákvarðanafælni væri mikil og nú yrðu menn að átta sig á því að ef að liðið vildi keppa við þá bestu yrðu menn að breyta um brag. Hann hefði ákveðna sýn sem menn ættu auðvitað að fylgja.

Kanarnir hrukku við og eyddu peningum í stórstjörnur. Þeir samþykktu líka að stokka unglingastarfið upp, með þeim afleiðingum að goðsögn á Anfield, Steve Heighway, hætti fúll störfum. En egóið eigendanna var sært og um haustið ákváðu þeir að skoða aðra valkosti en þennan heimtufreka Spánverja. Stór mistök sem hefur kostað þá töluvert af vinsældum. Leiktímabilið var svo undirlagt af deilum þeirra og hreinni dellu, við unnum ekki titla og maður var ekki glaður í maí.

Eins og nokkrir leikmenn sem ekki sættu sig við “squad-rotation” LFC. Peter Crouch og Steve Finnan þar stærstir, báðir fínir leikmenn sem voru búnir að tjá sig um að þeir vildu fá meira að spila. Scott Carson og Danny Guthrie töldu sig ekki eiga séns. Rafa hélt áfram með þá meginreglu að þeir sem vilja fara mega fara.

Það tel ég vera lykilreglu hjá fótboltaliðum!

Fram að áramótum síðastliðnum var alls konar umræða um hvað framtíðin bæri. Eigendaskipti, brotthvarf Rafa og lykilmanna, jafnvel gjaldþrot.

En frá því í ca. febrúar hefur mér fundist hlutir vera að beygja í rétta átt. Mín kenning er einfaldlega sú að eigendur félagsins séu loksins báðir að átta sig á því hvaða möguleika liðið á í framtíðinni og það hafi orðið til þess að þeir hafi virkilega sest niður og sagt: “Hei dúddi (dude sko), við erum með stórkostlegt félag í höndunum á uppleið. Gerum gott úr þessu!

Fyrsta stóra ákvörðun þeirra var að skipta Rick Parry út. Sá ágæti maður hefur einfaldlega haft alltof stórt hlutverk hjá félaginu. Í framhaldinu ákváðu þeir svo að ganga að kröfum Rafa í öllum meginþáttum, þ.á.m. að hann fái að ráða í hvað “budget” liðsins, sem þeir auðvitað ákveða, fer.

Eins og Wenger, Moyes, O’Neill og Ferguson fá.

Þá gáfu þeir honum líka leyfi til að koma að samningagerð við leikmenn og þjálfara. Afrakstur þess er nú að koma í ljós, þjálfararnir voru fyrstir til að fá nýja samninga, enda Benitez gríðarlega sáttur með þann hóp manna.

Ekki leið á löngu þar til fyrrum Liverpoolmaður, Frank McParland var ráðinn til að gera úttekt á starfi unglingaliðsins. Varaliðið er Rafa sáttur með.

Hann byrjaði á því að tryggja þjónustu starfsfólksins sem ber sömu hugsjón og hann, og síðan að skoða hvað betur má fara hjá yngra liðinu sem hann hyggst styrkja verulega. Ekki kæmi mér á óvart þó á næstu mánuðum sjáum við fleiri formlega samninga gerða við lið sem hægt verður að senda unga menn til að fá leikreynslu. Það er spænska leiðin auðvitað…

Nú er karl að snúa sér að leikmönnunum og þar virðist hann ætla að vinna jöfnum höndum að framlengingu samninga þeirra sem hann vill hafa áfram og að leita nýrra leikmanna. Við höfum lesið um fyrirliggjandi samning við Captain Fantastic sem mun þýða það endanlega að hann mun klára feril sinn sem toppleikmaður á Anfield. Rætt hefur verið um nýjan samning við Torres og Kuyt, og nú berast fréttir af því að Daniel Agger fái fljótlega samningstilboð í hendurnar.

David Silva virðist ekki vera að koma (nema að Rafa sé að tala verðið niður) en ljóst er að farið er að undirbúa sumarið. Ég er alveg sannfærður um að þá verða keyptir tveir leikmenn sem munu styrkja liðið strax, auk þess sem líklegt er að yngri menn verði líka keyptir.

Rafa mun líka losa leikmenn, ég er á því að Dossena kveðji England og eftir síðasta ævintýri Yossi Benayoun er ég á því að Rafa myndi alveg hlusta á tilboð í hann.

Meðalaldur liðsins er á góðum stað, Hyypia í dag sennilega eini leikmaðurinn sem er eitthvað kominn yfir hæðina, þrátt fyrir góða frammistöðu Finnans fljúgandi í vetur og viðbúið að kjarni þessa liðs verði saman næstu 4 – 6 árin!

Þær fréttir sem nú eru svo að berast að eigendurnir séu farnir að skoða það að selja frekar hluti í öðrum íþróttafélögum sínum tel ég góða vísbendingu um það að þeir ætli sér að vera með af heilum hug. Sem ég held að hafi alveg kosti, ég allavega vill ekki fá fullar gullkistur til að kaupa einhverjar stjörnukippur manna sem er skítsama um liðið sem þeir spila fyrir.

Því í dag er staðreyndin sú að Liverpool FC hefur öðlast virðingu á ný. Frá barna- og unglingastarfinu og upp til afreksliðsins er nú gríðarlegur metnaður og sigurvilji rauði þráðurinn, með sérstaka áherslu á virðingu sem allir eiga að bera fyrir því sem eru svo heppnir að fá að starfa fyrir það. Markmiðin eru skýr, sigrar og titlar á öllum sviðum og síðustu vikur koma stöðugt fleiri jákvæðar fréttir frá Anfield. Hvort sem það er frá glöðum leikmönnum, metnaðargjörnum þjálfurum eða fréttum af nýjum styrktarsamningum. Ég er sannfærður að ekki er of langt í að framkvæmdir á Stanley Park fari í gang…

Svo þegar við horfum á gömul lið United og Chelsea, og skynjum hversu lítill andinn er á Emirates verður okkur það jú öllum betur ljóst að í fyrsta sinn í langan tíma getum við sagt með töluverðri sannfæringu:

THE GOOD TIMES ARE ON THEIR WAY BACK!!!

Myndirnar sem fylgja koma frá Wilkipedia.org og opinberri heimasíðu LFC

14 Comments

  1. Flottur pistill. Mér finnst samt mikilvægt fyrir Rafa að einbeita sér að klára þetta tímbabil með stæl áður en hann eytt er tíma í sumarið (þó vissulega verði að leggja grunninn strax). Það er samt algjört lykilatriði í sumar og mikilvægara en nokkurn tímann að styrkja hópinn með 2-3 klassa mönnum og einhverjum yngri kleinuhringjum.

  2. Klára þetta tímabil og svo spá í restina, gríðarleg pressa á Liverpool þessa dagana.

  3. Ég þakka ágæta pistla, sem er einmitt það sem á að gera í landsleikjahléum. Þú greinir stöðuna rétt að mörgu leyti, en það er eitt sem þú minnist ekki á og það er það sem ég hef mestar áhyggjur af. Hvernig nákvæmlega er fjárhagsstaða félagsins? Er lánið hjá RBS í lagi? Eru Gillett og Hicks að selja hin félögin til að geta haldið þessu úti með viðunandi fjárfestingum? Og eru kaupendur að hinum félögunum, miðað við ástandið í dag?
    Takk aftur fyrir góða pistla.

  4. Ágætis pistill en ég er ekki alveg að fatta hversvegna höfundurinn þarf að vera ausa ónotum í gamlan starfsmann þótt rekinn væri. ég held að þessi maður hafi reynst vel svo lengi hann starfaði fyrir klúbinn.
    En mig langar að nefna það hérna að í dag var Uffa að gagnrýna Liverpool fyrir að vera með allt of marga leikmenn á launaskrá eða samtals 62 ,já 62.
    Þarna er nú eitthvað sem mér finnst að þurfi að athuga,þetta hlýtur að kosta mikla peninga og ég kem ekki auga á tilganginn því að það gefur auga leið að það geta bara verið 11 inn á í einu. Þetta segir mér líka að það er nánast útilokað fyrir unga og óþekkta leikmenn sem keyptir eru til félagsins að komast nokkur tíma í aðalliðið svo að ég er hræddur um að íslendingurinn Viktor Pálsson eigi því miður sennilega aldrei eftir að spila fyrir aðallið LFC .

  5. Góður pistill, margar ágiskanir en kannski réttar. Varðandi gagnrýni á að vera með of marga leikmenn á launaskrá þá er fótbolti happdrætti. Þú nærð í ungan og efnilegan leikmann á aldrinum 7-21 árs og vonast til að hann verði nógu góður. Sumir verða nógu góðir og verða Owen eða Gerrard. Aðrir verða eitthvað minna.

    Svo ertu með 25-30 leikmenn sem eru nógu góðir og mynda aðalliðið. Hvort ungir leikmenn komist í aðalliðið vegna þess að 62 leikmenn eru á launaskrá veltur á því hvort þeir séu nógu góðir engu öðru. Svo er annað, íslenskur leikmaður sem er á samningi hjá Liverpool heitir Guðlaugur Viktor Pálsson. Eins og við getum ímyndað okkur þá er Guðlaugsnafnið erfitt fyrir Tjallana og aðra þannig að þeir nota Viktorsnafnið. En við Íslendingar ættum að geta kallað Gulla, Guðlaug, eða hvað?

  6. Aðeins að svara…

    3… Ég veit jafnmikið og þú í raun um lánið. Það sem ég les í gegnum stöðuna núna er það að þeir félagar hafi einfaldlega gefist upp á að selja hlut Gillett. Hicks ætlar sér að vera. Þess vegna séu þeir nú að huga að endurfjármögnun áður en lánið fellur í júlí. Auk þess sem nú virðast þeir ætla að fara “Arsenalleiðina”, þ.e. selja réttinn að leikvanginum.

    4… United er gamalt lið. Margir lykilleikmenn þeirra á útleið. Van der Sar er fæddur 1970, Giggs 1973, Scholes 1974 og Neville 1975. Svo skulum við bæta því við að Kristjana Rögg er ekki glöð, og viðbúið að Tevez fari í vor og við erum að sjá United í töluverðum vandræðum. Gamli maðurinn fer oft á kostum í markmannskaupum t.d. – hver man ekki eftir Taibi og Bosnich!

    5… Veit ekki hvaða saur ég er að ata á Ayastaran. Mér blöskraði svakalega að sjá menn hér verja það að hann var að tala við önnur lið, t.d. Atletico Madrid á bakvið Rafa, það var hann sem setti upp skipulagið að láta liðið vera þungt í upphafi leiktíða þrjú haust í röð. Það sem ég er einfaldlega að benda á er að dómarnir á Rafa vegna þess máls eru í besta falli kjánalegir, enda líkamsástand liðsins afar gott núna. Það var aðalmál Ayastaran og hann fékk að lokum starf hjá Benfica. Ef það er að ata saur, þá það. Hef svo ekki lesið þetta með 62 leikmenn í liði Liverpool en þar hlýtur allt að vera talið. Aðalliðið væntanlega minnst 22 og unglingaliðið líka væntanlega 22. Þá eru 18 leikmenn eftir, margir þeirra á láni sem við erum að fá borgað fyrir. Ég er afar sammála því kerfi og er sannfærður um að nú fara að týnast inn óslípaðir demantar í aðalliðið og fleiri “Guthrie-ar” koma til okkar. Danny Guthrie kom frítt frá Scum United, við lánuðum hann tvisvar, samtals fyrir um 1.5 milljónir og seldum hann svo fyrir 2.25 milljónir. Gætum líka skoðað Carson, græddum töluvert á honum.

  7. Ég skil Benayoun fullkomlega að spila fyrir landsliðið sitt. Ekki gat hann vitað að hann myndi meiðast. Finnst það skrítið ef Rafa er eitthvað ósáttur með að hann hafi viljað spila, lífið og fótboltinn er ekki bara LFC.

  8. Hvað eru menn alltaf að tala um meiðsli Benayoun? Er einhver búinn að staðfesta að það ami eitthvað að honum eftir landsleikinn? Ef svo er, þá hefur það farið fram hjá mér.

  9. ætli ritari hafi starfað í greiningardeild banka áður. allt svo ljómandi jákvætt allt saman. það þurfa margir þættir að falla saman til að lið verði meistari í
    þessari deild. það verður engin meistari fyrir slysni eða heppni. Scum utd. hefur tekist að gera allt rétt ansi oft en það þarf ekki mikið að fara úrskeiðis
    til að vandræði verði í paradís. Okkar möguleikar liggja í því að utd tók þetta
    14 leikja ,,run” sitt of snemma. við verðum að taka okkar ,,run” það sem eftir
    lifir leiktíðar. Sjálfstraust scummaranna er örugglega ekki það besta og þeir
    verða án lykilmanna í næsta og næstu leikjum. þarna liggur okkar tækifæri.

  10. Ég verð nú að segja að þessi síða er að dala… við skulum alveg róa okkur, við höfum ekki unnið neitt.. og Man Utd er að leiða deildina með eitt stig og eiga leik til góða.. Lið Man Utd er ekki gamalt það er yngra en okkar lið ef eitthvað er… þannig ég hvet stuðningmenn að vera ekki með þessi leiðindi endalaust út í hin liðið þó svo að við séum búnir að vinna síðustu leiki!

  11. Siggi #12.

    Er ekki að segja að við séum búnir að vinna neitt, heldur sé bjartari framtíð nú en síðustu ár.

    Varðandi meðalaldur Liv og Man Utd.

    Man. Utd. – Liverpool= 1-4 (Man U 28,8 ár – Liverpool 27,1 ár)
    Fulham – Man Utd= 2-0 (Man U 29,0 ár)
    Liverpool – Aston Villa= 5-0 (Liverpool 26,2 ár)

    Þarna tek ég meðalaldur þeirra 14 leikmanna sem komu að síðustu 2 leikjum liðanna. Veit satt að segja ekki hver munurinn er ef við færum að taka 18 manna hópa síðustu leiki, en þegar við skoðum bestu lið þessara félaga, þá leikmenn sem er treyst í stóru leikina munar ca. 2 – 3 árum í meðalaldri.

    Svo ætla ég ekki að biðjast afsökunar á því að vera með leiðindi í önnur lið en Liverpool, hvað þá United!

  12. Sælir félagar
    Fínn pistill Maggi og þó þú talir um ýmislegt sem ekki er fast í hendi get ég ekki séð að þú sért að fullyrða neitt sem ekki er raunsætt í sjálfu sér.
    Það er nú þannig að oft fara menn að tala um persónuna sjálfa sem skrifar og hnýta eitthvað í hana frekar en segja sitt álit á umræðuefnum og rökstyðja það ef vill.

    það er líka allt í lagi að hafa skoðanir og setja þær fram án rökstuðnings. menn eiga að vera frjálsir að skoðunum sínum. Það er þá helst ef menn setja þeir fram á mjög agressivan eða dónalegan hátt sem tala má til manna persónulega vegna þá framsetningar.

    En semsagt fínir pistlar og ég er að flestu sammála því sem þar kemur fram.
    Það er nú þannig.

    YNWA

Landsleikir kvöldsins

Agger hreinskilinn.