Undanfarin ár hefur Liverpool verið ágætlega duglegt við að kaupa unga leikmenn í akademíuna sem við auðvitað fylgjumst takmarkað mikið með og vitum ennþá minna um hvernig eru að spjara sig. Það er t.a.m. ágætt að hafa í huga að flestar af helstu hetjum liðsins í dag voru flestir ekkert lykilmenn hjá elítu liði á aldrinum 18-22 ára. Það virðist stundum vera rosalega randum hvenær og hvernig ungir leikmenn fá sinn séns ef þeir fá hann þá nokkurntíma.
Trent Alexander-Arnold, besta dæmið í núverandi liði Liverpool, fékk sinn séns 19 ára í kjölfar þess að Clyne meiddist alvarlega á undirbúningstímabilinu. Liverpool ákvað að fara inn í tímabilið með hann sem varamann fyrir hinn hægri bakvörðinn, Joe Gomez! Trent var að spila með djúpur miðjumaður árin á undan hjá Ljinders í akademíunni og þó að við látum núna eins og hann hefði auðvitað alltaf náð að brjóta sér leið inn í liðið með öll sín gæði er það hvorki sjálfgefið og síður en svo endilega sem hægri bakvörður. Þar skapaðist pláss í liði Liverpool og Trent stökk á það.
Auðvitað er Liverpool með nokkuð marga leikmenn á þessum aldri í stórum hlutverkum sem eru nú þegar partur af aðalliði félagsins.
Curtis Jones er sem dæmi ekki nema 2001 módel og því enn gjaldgengur í U21 lið Englendinga þar sem hann hefur verið að blómstra. Hann hefur verið í meiðslaveseni undanfarin ár sem rakin eru til vaxtaverkja sem er kannski annað dæmi um hvað hann er enn ungur. Þarna á Liverpool leikmann sem gæti spilað miklu stærra hlutverk á næstu árum og er vonandi að sýna það núna undanfarna mánuði að hann er sannarlega tilbúin til þess. Þegar Liverpool kaupir leikmenn á þessum aldri sem Jones er á núna sér maður fyrir sér næstu tíu árin…
Harvey Elliott er eins bara 20 ára, til að setja það í eitthvað samhengi var Luis Diaz tvítugur að brjóta sér leið inn í lið Atlético Junior í Kólumbíu og varð ekki lykilmaður þar fyrr en árið eftir og fór ekki til Evrópu fyrr en 22 ára. Darwin Nunez var hjá Almería í annarri deild á Spáni 20-21 árs. Mac Allister kom 21 árs til Brighton frá heimalandinu. Maður er ekki alveg að sjá hvar framtíð Elliott er í liði Liverpool en hann getur ennþá þróast í hvað sem er. Klopp hefur trú á leikmanni sem hefur komið við sögu í 66 leikjum fyrir tvítugt, hvað þá leikmanni sem missti úr rúmlega ár vegna meiðsla.
Þrátt fyrir töluvert stress fyrir ári síðan yfir miðjunni hjá Liverpool kom nafn Bajcetic að ég held aldrei til umræðu. Eftir síðasta tímabil er þarna allt í einu 18 ára strákur sem er búinn að koma við sögu í 22 leikjum Liverpool, þar af 11 deildarleikjum. Hann er kominn svo miklu lengra en flestir af bestu miðjumönnum í heimi voru að gera á sama aldri. Hvort hann haldi áfram að þróast er svo stóra spurningin.
Sepp van den Berg setti met í Hollandi yfir yngsta leikmanninn til að spila yfir 10 leiki. Það er magnað í sjálfu sér m.v. nöfnin sem komið hafa úr þeirri deild. Hann er núna skráður í aðallið Liverpool og gæti alveg verið hugmynd í sumar að skoða hann yfir æfingatímabilið. Hann er 2001 módel og ætti því að fara þróast í alvöru miðvörð fyrir fullorðinsbolta.
Pitaluga er svo kominn í markmannahópinn hjá aðalliðinu og er vonandi nú þegar bara orðin þriðji markmaður Liverpool.
Þetta eru þeir ungu leikmenn sem eru bókstaflega flokkaðir sem partur af aðalliði Liverpool Auk þeirra eru svo Ramsey og Carvalho sem farnir eru á láni út næsta tímabil.
Efnilegastir
Þeir sem verður hvað mest spennandi að fylgjast með í sumar og hvað mest hefur verið látið með eru strákar sem flestir hafa komið til Liverpool undanfarin ár úr öðrum akademíum með töluvert spennandi orðspor.
Það þurfi alls ekki margar mínútur af Ben Doak til að verða yfir sig spenntur fyrir þessum leikmanni. Hann er rosalega áræðin og með góðan hraða og virkar eins og fullkomin týpa fyrir Klopp fótbolta. Hann verður 18 ára á þessu ári og þarf því að fara fá fleiri leiki í alvöru fótbolta. Þar er samt Liverpool í sömu stöðu og þegar Trent fékk sinn séns nema bara að Liverpool liðið er miklu sterkara núna. Ef að Klopp ætlar að gefa Doak alvöru séns er það á kostnað Salah, Diaz, Nunez, Gakpo eða Jota en auk þeirra er Doak í alvöru samkeppni við stráka á sínu reiki sem gera ekkert síður tilkall, Harvey Elliott og Kaide Gordon sem dæmi. Það þarf eitthvað óvænt að gerast til að hann fái þennan séns í deildarleikjum. Bajcetic var að því sögðu með níu miðjumenn á undan sér í goggunarröðinni á sama tíma fyrir ári síðan.
Kaide Gordon var ári áður nákvæmlega jafn mikið efni og Ben Doak og kom til Liverpool sem einn sá allra besti í sínum aldursflokki. Hann er núna að hrista af sér tæplega tveggja ára meiðsli en ef að hann er orðin leikfær væri gaman að sjá hann koma eitthvað við sögu í sumar. Hann er ári eldri en Doak en stærra spurningamerki núna í kjölfar meiðsla.
Connor Bradley er núna búinn að spila heilt tímabil af alvöru fótbolta og sér sumarið vonandi sem tækifæri til að fylla skarð Ramsey í aðalliðshópi Liverpool. Hann er enn einn sem kom seint í akademíu Liverpool með töluvert orðspor frá heimalandinu og er nú þegar komin í landslið N-íra. Ef að Klopp telur hann tilbúinn sparar það kaup á hægri bakverði.
Tyler Morton var í fimmta sæti yfir flestar spilaðar mínútur hjá Championship liði Blackburn sem var í hörku baráttu um umspilssæti. Hann ætti á pappír að vera fyrir framan Bajcetic í röðinni og var svosem að gera svipaða hluti hjá Liverpool ári á undan Bajcetic. Hann verður bara 21 árs í ár og auðvitað vonlaust að fella stóra dóma um hann en hann virkar því miður ekki í sama gæðaflokki og spánverjinn. Morton er auðvitað úr akademíu Liverpool frá því hann var barn og fær tækifæri í sumar til að sýna sig en ætli hann sé ekki meira söluvara í sumar?
Billy The Kid Koumetio er svo einn enn sem virtist stefna í að verða alheimsefni 17-18 ára en hefur ekki náð að fylgja því eftir undanfarin ár. Hann fór á láni til Austurríkis í fyrra en kom aftur í vetrarglugganum. Flestir miðverðir eru ekki að skapa sér almennilega nafn fyrr en 23-25 ára og því engin þörf á að afskrifa Koumetio 21 árs. Það er helst í miðvarðarstöðunum sem hægt er að sjá fyrir sér leið fyrir unga leikmenn í byrjunarlið Liverpool.
Aðrir sem gætu komið við sögu í sumar
Bobby Clark hefur alveg komið sér á radarinn hjá Klopp og er líklega í flokki með Doak og Gordon sem eitt mesta efni félagsins af ungu leikmönnunum.
Cannonier er 19 ára á þessu ári og þarf að fara sýna einhversstaðar að hann getur raðað inn mörkum í fullorðinsfótbolta líka. Líklegur til að verða núna lykilmaður í U23 ára liðinu.
Jarrell Quansah er svo miðvörður úr akademíunni sem gæti allt eins verið komin framúr Koumetio núna. Erfitt að dæma um slíkt þegar maður sér þá lítið sem ekkert spila. Hann er a.m.k. töluvert efni og að komast á aldur þar sem taka þarf ákvörðun um framhaldið. Colwill sem við erum svo spennt fyrir núna er líka bara 20 ára.
Luke Chambers er scouser sem hefur verið góður í yngri liða boltanum og gæti komið við sögu í sumar. Mabaya fór með liðinu í sumartúrinn í fyrra og stóð sig ágætlega. Sama á við um Fraudendorf sem er enn einn leikmaðurinn sem nokkuð hefur verið látið með í gegnum tíðina.
Kone-Doherty og Scanlon eru svo með Bobby Clark þeir efnilegustu af næstu kynslóð, væri gaman að sjá þá fá eitthvað að sýna sig í sumar.
Líklegir til að fara í sumar eða næstu 12 mánuði
Nánast allir af þessum leikmönnum sem við erum búin að fara yfir verða aldrei lykilmenn hjá Liverpool. Það er svo rosalega erfitt að komast í gegnum þessa síu og ef að sumarið fer eins og við vonumst eftir eru Liverpool að fara kaupa bæði einn miðjumenn enn og miðvörð. Bæði myndi lengja leiðina fyrir þessa stráka enn meira. Stuðningsmenn vilja bæði fá unga leikmenn upp í gegnum akademíuna en á sama tíma helst alls ekki gefa þeim tíma eða traust, smá erfitt.
Það er erfitt að sjá framtíð hjá nokkuð mörgum leikmönnum hjá Liverpool, sérstaklega þeim sem þegar hafa náð tvítugu en hafa aldrei brotið sér almennilega leið inn í liðið. Þessir sem nefndir voru hér að ofan ættu allir að verða atvinnumenn þó það verði ekkert endilega hjá Liverpool. Svo eru aðrir sem gætu farið frá Liverpool á næstunni og mjög óljóst hvað verður um þeirra feril.
Arroyo og Adam Lewis eru sem dæmi ennþá leikmenn Liverpool, báðir fæddir 1999 og því eldri en margir af lykilmönnum liðsins. Pólski markmaðurinn Jaros á vafalaust framtíð fyrir sér sem atvinnumaður og var einn af þessum spennandi ungu markmönnum sem Liverpool hefur keypt undanfarin ár en það er vonlaust að sjá leið fyrir hann hjá Liverpool.
Paul Glatzel og Bobby Duncan voru þeir allra efnilegustu hjá Liverpool í kringum 17 ára en virðast hvorugur ætla að verða meira en það. Sorglegt með Glatzel sem lenti í alvarlegum meiðslum og enn sorglegra með Duncan sem var bara gráðugur kjáni.
Tom Hill lenti svipað og Glatzel í langtímameiðslum sem líklega kálaði endanlega vonum hjá Liverpool. Balagizi var töluvert efni fyrir tveimur árum en hefur ekki náð að brjóta sér neina leið í gegn. Musialowski hefur aldrei verið nálægt aðalliðinu þrátt fyrir að vera rosalegt efni fyrir 2-3 árum. Harvey Blair fékk ágætan séns fyrir ári síðan en hann ásamt Stewart og Woltmann verða líklega aldrei partur af framlínu Liverpool.
Skemmtilega við þetta er svo að það er jafnan einhver sem maður tók ekki einu sinni með í reikninginn sem nær í gegn og fær séns í aðalliðinu.
Hver haldið þið að verði t.d. Trent / Jones / Morton / Bajcetic þessa tímabils?
Sælir félagar
Takk fyrir þessa yfirferð Einar og gaman að þessum pælingum. Ég fyrir mitt leyti held að Bajcetic og Doak verði næstu fastamenn í aðalliðinu. Ég held meira að segja að Doak eigi eftir að fara fram fyrir Elliot hægra megin með Salah eða sem “bakkup” fyrir Salah sem er ekkert að yngjast þó hann sé enn öflugasti sóknarmaður liðsins. (Hvað með Nunez?) Það er afar áhugavert hvað Jones hefur stigið upp með 21 árs landsliðinu og mér sýnist að mesta áhersla í innkaupum ætti að vera á mjög öflugan miðvörð því vandræðin á miðjunni ættu að vera nokkurn vegin leyst. Sem sagt mín “10 cent”.
Það er nú þannig
YNWA
Takk fyrir þessa yfirferð, hef mjög takmarkaða þekkingu á strákunum í akademíunni, en þökk sé ykkur er maður farinn að þekkja einhver nöfn.
Vona að unglingarnir fái allavega nokkra bikar/evrópudeildarleiki.
Trent er loksins búinn að klippa af sér rollukolluna. Óska honum til hamingju með það!