Æfingaleikur hjá kvennaliðinu gegn Birmingham

Þó tímabilið sé hafið hjá strákunum þá er enn talsvert í að það hefjist hjá stelpunum – enda var HM bara að klárast núna í hádeginu, og ljóst að leikmenn sem spiluðu þar þurfa núna að ná hvíld. Það eru þó um 6 vikur í fyrsta leik sem er ansi vel í lagt… fyrsti leikurinn hjá okkar konum verður í byrjun október gegn Arsenal, og við förum betur yfir hvaða breytingar hafa orðið á liðinu þegar nær dregur. En þær ætla að spila gegn Birmingham á heimavelli þeirra bláklæddu núna kl. 14, og það verður hægt að fylgjast með leiknum á Youtube rás Birmingham (EDIT: líka á Facebook síðu Birmingham)

Það er talsvert af U21 leikmönnum í byrjunarliði og á bekk, við fáum ekki það mörg tækifæri til að fylgjast með þeim leikmönnum svo þetta er kærkomið tækifæri, en svona byrjar liðið:

Ég yrði ekki hissa þó svo liðinu yrði skipt út í hálfleik í takt við æfingaleikina hjá strákunum í sumar.

25 Comments

  1. Svona pistlar á þessari síðu finnst mér algjörlega til þess að minnka umferðina hér og eyðileggja umræðu. LFC kvenna er allt annað concept en LFC karla og ég tala nú ekki um ef um er að ræða æfingaleik hjá kvennaliðinu. Það er skrítið að gefa sér það að fólk sem horfir á karlafótbolta hafi endilega áhuga á kvennafótbolta. Þegar LFC kvenna er fyrsti pistill þá minnkar almenn umræða um LFC heilt yfir.

    Legg til að stjórnendur setji annan hlekk fyrir umfjallanir LFC kvenna.

    18
    • Sammála. Benti á þetta á síðasta tímabili en fékk holskeflu athugasemda um “kvenfyrirlitningu” og “karlrembu” yfir mig. Þetta skemmir fyrir almennri umræðu um karlalið lfc, ekki spurning.

      9
    • Ef þetta höfðar ekki til þín þá bara sleppir þú því að lesa þetta. Það er alveg hægt að halda umræðunni um karlaliðið gangandi í öðrum færslum þó þær séu ekki efst á síðunni. Málið leyst.

      8
    • Hugsa að það mætti nú alveg saka okkur frekar um að fjalla ekki nóg um kvk liðið enda bullandi uppgangur í kringum bæði Liverpool og enska kvennaboltann. Eitthvað sem Ísland var sem dæmi langt á undan með.

      Varðandi könnun væri líka hægt að reikna saman hlutfall af færslum sem fara í kvk boltann og karlaboltann. Hugsa að það sé ansi mikill munur.

      Þetta öfluga framtak Daníels gerir það að verkum að Kop.is er nær sambærilegum síðum erlendis sem gefa réttilega kvk liðinu meiri gaum orðið.

      Ég efa að það hafi nokkurntíma ekki verið færsla með virkri umræðu um málefni liðandi stundar hjá kk liðinu frá því Kop.is fór í loftið, þó að færsla sem einhver kannski hefur ekki áhuga á sé ekki efst akkurat þá.

      9
  2. Já, það er stórhættulegt að skrifa um kvennafótbolta. Íslensku stelpurnar eru núna í 17. sæti á heimslista FIFA en landslið karla bara í 63. sæti. Ég er viss um að það er blaðamönnum og svona fólki eins og Daníel að kenna.

    Voff!

    5
    • Ég var einfaldlega að tala um að þetta er gjörólíkt concept.

      Kemur íslensku landsliðunum ekkert við eða persónunni Daníel, heldur hvar áhugi og umræða myndast hjá lesendum og hvar efnið á heima.

      Endilega verum málefnanleg hérna.

      15
  3. Það er nú lítið mál að kanna áhugann á kvennafréttum af Liverpool liðinu
    Setja upp létta könnun
    Fyrir mitt leyti þá fylgist ég nkl ekkert með Liverpool kvenna boltanum og hef því ekkert um það að segja.
    En að sjálfsögðu að halda því áfram ef það er mikill áhugi á því á þessari síðu.

    3
  4. Verandi faðir ungrar stelpu sem hefur æft fótbolta í nokkur ár að þá styð ég þetta heilshugar.
    Umfjöllun um kvennabolta þarf að vera sýnilegri til að áhuginn haldi áfram að aukast. Fyrir mér er íþróttin sú sama hver sem spilar hana. Lítið mál fyrir þá sem hafa ekki áhuga á kvennaboltanum að scrolla fram hjá þeim fréttum og lesa allar hinar færslurnar.

    18
    • Getu og gæðalega stenst þetta engan samanburð og fyrir því eru margar ástæður.

      Það var enginn að commenta undir færsluna sem bendir þá til þess að eftirspurnin er mjög takmörkuð og þetta hefur þá áhrif á umfjöllun um LFC.

      Er það þá jákvæð auglýsing að troða svona umfjöllun inn þar sem eftirspurnin er ekki til staðar ?
      Eflaust má margt betur fara varðandi aðstöðumun kynjanna. En það breytir því ekki að bæði gæðalega og sögulega er um að ræða sitthvorn hlutinn.

      Að sjálfsögðu verður maður meira invested í íþróttum barna sinna og byrjar ósjálfrátt að fylgjast meira með en þá er áhuginn kominn út frá því en ekki vegna greina eða auglýsinga.

      9
  5. Á þessu ári hafa verið skrifaðar 14 fréttir um kvennalið LFC á meðan fréttirnar um karlaliðið eru aðeins 172. Ef þessar 14 fréttir eru að eyðileggja síðuna þá er eitthvað mikið að. Munum að LFC er ekki bara karlaliðið.
    Fréttirnar af kvennaliðinu gera ekkert annað en að draga aðeins úr punglyktinni sem væri annars hérna.

    11
  6. Ég les þessar færslur alltaf og bara fagna þeim og vil bara þakka Daníel fyrir frábær skrif. Þannig að já ég myndi vilja hafa þessa umfjöllun áfram.

    10
    • Fagna þessu framtaki Daníels. Les alltaf þessa pistla hans um kvennaliðið

      4
  7. Mér finnst þetta frábært framtak hjá Daníel og Kop, að fjalla um stelpurnar okkar. Ég sé bara ekki ástæðuna fyrir því, að fjalla ekki um þær, og hvernig það geti truflað einhverja að um þær sé fjallað.
    Nú sé ég á athugasemdum, að einungis karlmenn tjá sig, ég skal viðurkenna, ég sakna þess að sjá ekki kvennfólk gera það líka.

    YNWA

    5
    • Kannski fíla konurnar ekki umhverfið hjá okkur? Einhver nefndi punglykt…

      Tek það samt fram að stjórnendur kop.is hafa að mínu mati staðið sig mjög vel í að halda umræðum hér á réttu róli og hafa tekið fast á toxic skítkasti og leiðindum.

      2
  8. Ég les pistlana um kvennaboltann,þó svo að ég kommenti þó ekki mikið á þeim.Ef þessir pistlar um konurnar væru ekki hér,þá væri ég minna fróðari um þeirra gengi,þannig að ég fagna þessum fáu pistlum sem hér inn koma

    5
  9. Þetta er umræða sem hefur átt sér stað áður, og í sjálfu sér lítið vit í því að endurtaka hana enn einu sinni, en svo má líka líta svo á að öll umræða sé betri en engin umræða (svo lengi sem hún er á sæmilega vitrænu plani).

    Þetta hefur alveg verið rætt innan pennahóps kop.is, síðast fyrir ári síðan. Þá var það afgerandi niðurstaða að halda áfram umfjöllun um kvennaliðið. Það var niðurstaðan þrátt fyrir að það sé alls ekkert þannig að allir innan pennahópsins fylgist með kvennaliðinu yfirhöfuð, og við vitum alveg að það er ekkert einsdæmi.

    Það er klárlega þannig að það hafa alls ekkert allir Liverpool aðdáendur áhuga á að fylgjast með kvennaliðinu, við vitum það og það er ekki bara allt í lagi heldur líka sjálfsagður réttur hvers og eins að ákveða hvar sitt áhugasvið liggur. Persónulega hef ég t.d. (augljóslega) mjög mikinn áhuga á því að fylgjast með Liverpool, en svo hef ég lítinn áhuga á að fylgjast með restinni af leikjunum í enska boltanum, ekki þá nema hugsanlega ef viðkomandi leikir hafa beina þýðingu fyrir stöðu Liverpool í deildinni. Sumsé: mér ber engin skylda til að fylgjast með restinni af leikjunum. Sama gildir um kvennaliðið: þó þú haldir með Liverpool þarftu alls ekki að fylgjast með kvennaliðinu.

    Ég tel rétt að árétta þetta atriði, ef svo (ólíklega) skuli hafa farið að einhverjir taki þessa pistla sem ég hef verið að skrifa sem svo að þeir þýði að fólk verði að fylgjast með kvennaliði Liverpool til jafns við karlaliðið. Því fer fjarri. Og í reynd held ég að allir tilburðir til þess að óbeint ýja að því að ef þú fylgist með karlaboltanum þá beri þér skylda til að fylgjast með kvennaboltanum séu ekki bara til óþurftar heldur allt að því skaðlegir. (Sumsé: undirritaður er ekki sammála Pétri Péturssyni, ef einhver náði ekki þessari sneið).

    Það er greinileg slagsíða þegar kemur að karlabolta vs. kvennabolta, og undirritaður er á því að það langbesta til að leiðrétta þann halla sé með því að veita kvennaboltanum jákvæða athygli, og tileinka sér orð skáldsins “komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, fari þeir sem fara vilja”. Með jákvæðri athygli þá eigi þetta eftir að jafna sig með tímanum. Persónulega finnst mér t.d. allt annað að sjá umfjöllun um kvennaboltann í dag samanborið við t.d. fyrir 10 – 15 árum síðan, og við sjáum það líka t.d. á áhorfendatölum á HM kvenna.

    Semsagt, ég mun halda áfram að kvelja lesendur með umfjöllun um kvennalið Liverpool, en mun jafnframt halda áfram að láta það koma skýrt fram í titli að um kvennaliðið sé að ræða, svo það sé einfalt fyrir þá sem hafa ekki áhuga að skruna framhjá.

    p.s. ég hef ekki alltaf verið jafn hugulsamur, t.d. henti ég inn athugasemd á pennaspjallið á sínum tíma sem var eitthvað á þessa leið: “Fokk, Chamberlain á leið til United” og olli með því hjartsláttartruflunum hjá Magga okkar og sjálfsagt fleirum í smá tíma. Það fylgdi ekki sögunni að ég var að tala um Siobhan Chamberlain, en ekki Alex-Oxlade. En ég skal lofa að gera ekkert slíkt hér á síðunni, a.m.k. ekki á næstunni.

    15
    • Aðeins um kvennaliðið, frá minni hlið.
      Það er auðvitað absúrd að halda því fram að umfjöllun um kvennaliðið skemmi fyrir umræðu um karlaliðið. Það er akkúrat þetta viðhorf sem verið er að reyna að breyta.
      Það væri auðvitað ekki þessi áhugi á karlafótbolta nema bara vegna þess hvað settir eru miklir fjármunir í umfjöllun, útsendingar, markaðsstarf og fl. Við erum svona tæpum 100 árum á eftir með kvennafótboltann og því fagna ég aukinni umfjöllun.
      Að því sögðu þá get ég ekki varist því að hugsa hvað mér finnst þetta samt ennþá lélegt hjá eigendum LFC og margra annarra liða.

      Stelpurnar fá ekki að nota sama æfingasvæði, þær fá ekki að spila á sama heimavelli, þær mega ekki hafa samband við liðsmenn í karlaliðinu og svo fr. Það eru í raun ekkert mikil tengsl við Liverpool eins og við þekkjum það, og það er bara lélegt!
      Það myndi auka áhugann ef það væru meiri tengsl á milli þessara liða! Gætum byrjað á að leyfa þeim að æfa á sama stað, við sömu aðstæður. Fyrst það er hægt að láta unglingana æfa þar, þá hlýtur að vera hægt að leyfa konunum það líka!
      En við svo sem breytum þessum atriðum ekki hér á kop.is, en það hefur allavega skapast umræða um kvennaliðið og það er jákvætt 🙂

      Insjallah
      Carl Berg

      8
      • Alveg sammála því að eigendur LFC eru gagnrýni verðir fyrir stuðning við kvennaliðið, og mögulega má segja að þeir hafi gerst sekir um skort á framsýni. A.m.k. vil ég meina að það hafi mátt vera öllum ljóst að kvennaboltinn væri á uppleið og bara spurning hvar LFC ætlaði að staðsetja sig á þeirri báru. Þeir gripu ekki tækifærið og því er Liverpool ekki nema miðlungslið í augnablikinu. Því miður.

        Þeir mega þó eiga það að þó þeir hafi klúðrað því að gera ráð fyrir kvennaliðinu í Kirkby, þá fóru þeir þó í það að kaupa Melwood til baka núna í sumar (og má spyrja sig hvort það hefði ekki þá verið best að selja svæðið ekki á sínum tíma, en látum það vera…). Pælingin ku víst vera að vera með sameiginlegt svæði fyrir yngri árgangana hjá stelpunum, og það er reyndar mjög jákvætt. En það má líka færa rök fyrir því að líklega sé aðstaðan í Kirkby talsvert nútímalegri heldur en Melwood. Engu að síður, þetta er skref í rétta átt.

        Svo er bara að vona að liðinu verði fundinn betri staður til að spila leikina, ekki það að Prenton Park er auðvitað ekkert alómögulegur, en vissulega var hann ónothæfur á köflum á síðasta tímabili. Mér skilst að það hafi verið lagað með nýju grasi síðasta sumar. En í fullkomnum heimi þá myndi kvennaliðið laða að nægilega marga áhorfendur til að þær geti bara spilað á Anfield. Hugsa að það sé ennþá svolítið í það.

        Ég væri svo til í að fá aðra sameiginlega liðsmynd eins og var tekin 2019. Fannst það koma vel út, en hefði bara þurft að fylgja því betur eftir á sínum tíma.

        2
  10. Vonandi verður þetta framtak kop.is til að halda áfram því að fleiri konur sýni fótbolta áhuga. Dóttir mín 12 ára er að deyja úr spenningi að EA er að auka veg kvenna í nýju útgáfunni af “FIFA” og var mjög glöð að heyra að LFC eru með kvennalið þegar hún spurði mig fyrir ári síðan.

    Persónulega hef ég ekki nægan tíma til að fylgjast með bæði karla og kvennaliðunum. Einhvern tíma þarf að vinna inn fyrir fótboltaferðunum — en mér finnast pistlarnir fínir og hjálpa mér að fá stutt yfirlit um gengi kvennaliðsins.

    Áfram Daníel og kop.is og kvennalið LFC!

    6
  11. Gaman líka að sjá að þriðji leikur tímabilsins, heimaleikur gegn Everton, verður spilaður á Anfield

    1
      • Æfingarnar færast yfir á Melwood, en ég held að samningurinn við Tranmere sé enn í gangi. Veit ekki hvert planið er varðandi það, hvort þær færi sig eitthvað annað eða verði áfram vestan við Merseyside.

        1
    • 1-0 fyrir Birmingham. Ekkert stórkostlegt til að hafa áhyggjur af, það var spilað talsvert á akademíuleikmönnum, plús það að tímabilið hjá Birmingham byrjar á morgun en rúmur mánuður í það hjá okkar konum, svo það var alveg örugglega smá munur á því í hversu mikið form leikmenn voru komnir.

      1

Liverpool – Bournemouth 3-1 (leikskýrsla)

Alexis sleppur við 3ja leikja bannið