Tilboði Liverpool tekið, Ryan Gravenberch á leiðinni

Allir áreiðanlegustu blaðamennirnir eru nú að segja það sama, tilboði Liverpool í Ryan Gravenberch hefur verið tekið og leikmaðurinn er núna á leiðinni til Liverpool í læknisskoðun. Jurgen Klopp er búinn að tala við leikmanninn sem vildi ólmur koma til Liverpool í kjölfarið.

Ryan Gravenberch

Eitt ár getur verið ansi langur tími í fótbolta en það er kannski ágætt að hafa í huga að áður en Ryan Gravenberch valdi að fara til FC Bayern var hann búinn að vera lengi á óskalista Liverpool og var í fyrra sumar eitt af þremur nöfnum miðjumanna sem félagið vildi landa og sá fyrir sér að gætu þróast í alvöru heimsklassa leikbreyta. Hinir tveir voru Bellingham og Tchouameni.

Hann átti eitt ár eftir af samningi hjá Ajax og gat bókstaflega valið úr nokkurnvegin öllum stórliðum Evrópu og valdi Bayern. Það að þetta hafi ekki gengið upp á Bayern útilokar hann ekkert hjá Liverpool þar sem þjálfarateymið virðist hafa mjög mikla trú á honum. Vinnur líka með honum að samlandi hans er aðstoðarþjálfari, fyrirliðinn er hollenskur og hann talar tungumálið nú þegar, öfugt við þýskuna.

Gravenberch hefur sjálfur sagt að síðasta tímabil sé í raun það fyrsta sem hann hefur lent í einhverju mótlæti því ferill hans hafði verið eintóm sigurganga frá því hann spilaði sinn fyrsta leik í Meistaraflokki (16 ára). Núna vonum við auðvitað að hann verði svona Coutinho/Sturridge leikmaður hjá Liverpool. Hann hefur klárlega gæðin en vantar félag og stjóra sem hefur trú á honum.

Gravenberch virðist vera hálf heimilslaus á miðjunni, hann hefur leyst allar stöður 6-8-10 en ekki nelgt neina þeirra sem sína. Hjá Ajax spilaði hann t.d. best sem partur af tveggja manna miðju eða fyrir framan tvo varnartengiliði. Þróun Liverpool á miðjunni í sumar bendir sterklega til þess að Klopp ætli í vetur að þróa leikkerfi Liverpool nær því sem hann vann með áður, tvo djúpa miðjumenn sem eru mjög fjölhæfir fyrir framan þann þriðja sem spilar mun nær sóknarmanninum í holunni.

Mac Allister getur leyst allar stöðurnar á miðjunni en er frekar á milli þess að vera sexa eða átta nær tíunni. Szoboszlai hefur sýnt það strax að hann getur vel spilað miklu aftar á miðjunni en stóð utan á kassanum þegar hann kom. Hann er bara best geymdur í grend við mark andstæðinganna. Gravenberch er ennþá bara 21 árs og mjög svo óslípaður sem miðjumaður á þessu leveli. Það hafa margir bent á að Klopp tók Gini Wijnaldum sem var tölvert góður sóknartengiliður og þróaði hann sem vinnudýr sem ógnaði markinu mjög takmarkað. Hjá Hollandi hafði hann mun meira frelsi og spilaði mun nær markinu. Hann ætti sannarlega að geta gert það sama við Gravenberch.

Miðjan hjá Liverpool

Miðjan hjá Liverpool síðasta vetur var fullkomlega óþolandi og því verulega spennandi að sjá þá byltingu sem búið er að gera þar í sumar. Gravenberch verður líklega síðasta púslið.

Fyrir það fyrsta er búið að stökkbreyta meðalaldri liðsins á miðjunni. Meðaaldur þeirra fimm miðjumanna sem fóru í sumar var 29 ára og þar af voru yngstir Keita, Ox og Arthur, leikmenn sem voru meira saman á sjúkrahúsi en hermenn í miðju stríði. Meðalaldur þeirra fjögurra sem komu í staðin er 25 ára og þar tosar Endo aldurinn mjög upp.

Miðjan er því gjörbreytt og virkar miklu ferskari núna en hún var allt síðasta tímabil.

Ef að við gefum okkur að Liverpool stillir jafnan upp þremur miðjumönnum gera þetta 10.260 mínútur í deildinni yfir heilt tímabil. Klopp var að deila þessum mínútum á tíu leikmenn á síðasta tímabili og þá er ekki talið með þegar Trent var nánast farinn að spila á miðjunni. Þetta væru ellefu leikmenn ef Arthur hefði náð einum helvítis leik. Óstöðugleikinn var engin tilviljun.

Endo er eina eiginlega sexan á pappír í dag en líklega er ekki planið að láta hann einan fylla skarð Fabinho og spila honum í tæplega 80% leikjanna. Satt að segja er ennþá erfitt að sjá hvernig það var betra að selja Fabinho?

Mac Allister hinsvegar er rosaleg bæting frá Jordan Henderson og kemur með svipað ferskar lappir á miðjuna og Henderson var að gera fyrir 7-10 árum. Mac getur líka vonandi spilað +80% af tímabilinu sem myndi hjálpa töluvert upp á betri stöðugleika.

Szoboszlai er svo bara bylting í samanburði við menn eins og Keita, Ox, Elliott og Jones sem hafa verið að rembast við að spila fremst á miðjunni hjá Liverpool. Sjáum það strax að Szoboszlai er á allt öðru leveli en hefur verið í boði hjá Liverpool undanfarin ár, hann er vonandi rétt eins og Mac að fara spila +80% af leikjum liðsins.

Þessir þrír, Endo, Mac og Szoboszlai eru saman töluvert mikil bæting á Fabinho – Henderson og (veljið af handahófi).

Curtis Jones sýndi loksins undir lok síðasta tímabils að hann getur vel þróast í alvöru leikmann og nái hann að byggja ofan á endasprettinn í fyrra er hann klárlega að fara spila helling fyrir Liverpool. Samkeppnin er orðin miklu harðari núna og ekki í boði að vera meiddur 75% af tímabilinu ef þú vilt fá leiki. Klopp er klárlega að þróa hann í mun fjölhæfari leikmann en bara tíu, eitthvað sem eykur líkur hans á sæti í liðinu umtalsvert.

Harvey Elliott er að byrja í vetur svipað og Jones endaði í fyrra. Hann gæti ennþá verið mesta efnið af þeim öllum og vonandi losar koma Szoboszlai og Gravenberch aðeins um pressu á Elliott. Hann þarf ekki að bera miðjuna á herðum sér sóknarlega aðeins 20 ára heldur getur Klopp notað hann jafnt og þétt yfir tímabilið.

Thiago spilaði bara 37% af síðasta tímabili og hefur núna verið hálft ár í slipp. Ef að hann kemur endurnærður til baka úr því gæti Liverpool verið að endurheimta sinn besta miðjumann sem núna hefur fullt af miðjumönnum í kringum sig sem geta hlaupið. Ef hann nær sér ekki á strik virkar það ekki nærri því jafn mikilvægt núna og það hefur gert undanfarin ár.

Ryan Gravenberch gæti vel verið að koma inn sem framtíðar arftaki Thiago og ætlar klárlega að taka pláss í liðinu. Er ekki sanngjarnt að hugsa hann til að byrja með sem t.d. arftaka Arthur, Keita og Ox?

Bajcetic er svo ennþá á mála hjá Liverpool. hann spilaði 15% af síðasta tímabili, meira en Keita, Ox, Carvalho og Arthur. Núna virkar hann sem sjöundi valkostur en samt mun ólíklegri til að fá margar mínútur (í deildinni) en í fyrra þegar hann byrjaði tímabilið sem ellefti valkostur og það þá án þess að taka tillit til samkeppninnar í U23 ára liðinu.

Tveir afturliggjandi miðjumenn?

Frá því að Liverpool keypti Fabinho höfum við hugsað leikkerfið sem 4-3-3 þar sem Fabinho var afgerandi aftasti miðjumaður liðsins og helsta ryksugan á bakvið bakverðina. Henderson og Wijnaldum (og Milner) höfðu samt allir gríðarlega umfangsmiklar varnarskyldur líka.

Leikmannakaup sumarsins benda til þess að Klopp ætli að hugsa miðsvæðið allt öðruvísi en við þekkjum frá hans tíma sem stjóri Liverpool. Satt að segja er núna miklu auðveldara að sjá eitthvað í ætt við leikkerfið sem hann var að vinna með hjá Dortmund. Hvað sem mönnum líður best með að silgreina kerfið sem, 4-2-3-1 / 4-2-1-3 / 4-2-2-2 / 4-4-1-1.

Stóra breytingin virðist vera að Liverpool ætli núna að leggja meira upp með tvo afturliggjandi miðjumenn frekar en einn en á móti verði engin eiginleg sexa heldur þrír fjölhæfir miðjumenn sem geta leyst margar ólíkar stöður og geti stöðugt flætt milli lína á meðan leik stendur.

Klopp verður að finna betri lausn á leik liðsins en að færa Trent inn á miðjuna og tvöfalda þannig hlutverk Konate í stað þess að hafa varnartengilið sem ryksugar upp fyrir Trent. Eins þarf að stilla leikkerfið aftur þannig að Robertson virki sem besti vinstri bakvörður í boltanum. Það er erfitt að sjá hann sem betri kost en Joe Gomez í núverandi hlutverki. Klopp hefur vonandi lært það í tveimur síðustu leikjum að liðinu líður betur með fjögurra manna línu sem þekkir sín hlutverk.

Miðað við tveggja manna miðju er hægt að sjá nánast alla miðjumenn liðsins geta spilað allar stöður. Endo er sá eini sem fer frekar aftar á völlinn sé honum ætlað að spila aðra stöðu.

Newcastle leikurinn endaði með Jota – Szoboszlai – Elliott – Salah miðju fyrir aftan Darwin Nunez sem dæmi. Elliott vann t.a.m. boltann sem var upphafið á seinna markinu.

Niðurstaða

Heilt yfir eru breytingar Liverpool á miðjunni mjög spennandi, Szoboszlai er mest spennandi leikmannakaup Liverpool á miðjunni síðan Keita var keyptur og lofar strax mun betur. Mac Allister virkar sömuleiðis mikil bæting á Henderson og báðir stórbæta þeir möguleika Liverpool til að vinna boltann hraðar og tengja betur saman vörn og sókn með pressu frá miðsvæðinu. Þeir ættu að öllu eðlilegu að vera kjölfestan á miðjunni í vetur en meira róterað hlutverki þriðja miðjumannsins.

Sem formaður TeamDMC get ég ekki verið fullkomlega sáttur við sölu á Fabinho og enda með Endo sem eina raunhæfa like-for-like valkostinn í staðin fyrir hann. Endo er eldri en Fabinho og ekki með nálægt því sömu reynslu á þessu leveli. Þetta eru bara mjög sérstök skipti á varnartengilið og virka mjög eins og félagið hafi hvorki planað söluna á Fabinho og því síður kaupin á Endo. Kaupverðið á Fabinho er ekkert merkilegt á núverandi markaði. Hvað þá ef við höfum í huga að það tekur jafnan langan tíma að koma nýjum manni inn í hlutverkið. Misheppnað tilboð í Caicedo hjálpaði alls ekki til við að sannfæra mann um ágæti þessara skipta á varnartengilið Liverpool.

Ryan Gravenberch virkar sem spennandi viðbót sem eykur samkeppni og breidd í hópnum en er á sama tíma leikmaður sem getur alveg ennþá þróast í að vera einn besti miðjumaðurinn í bransanum. Það er ekki langt síðan hann var í öllum slíkum samtölum og það er alls engin nýlunda að leikmenn séu óstöðugir eða lendi í mótlæti 19-21 ára. Mjög spennandi að sjá hvernir Klopp sér fyrir sér að nota hann. Er hann t.d. hinn raunverulegi arftaki Fabinho frekar en Endo?

James Pearce setti á Twitter í kvöld að líklega yrði Gravenberch síðustu leikmannakaup Liverpool í sumar og því ljóst að félagið er enn á ný að taka mega séns á að varnarlínan haldist heil heilsu í vetur. Ótrúlegt að félagið sé ennþá að treysta á Matip og Gomez og það er klárlega hægt að bæta Konate við þann hóp. Þetta virkar svipað vitlaust og það var að kaupa ekki miðjumenn í fyrrasumar. Eins er Gomez núna eina varaplanið fram að áramótum ef Trent meiðist.

Það er mjög sérstakt að sumarið hafi ekkert verið nýtt í að bregðast við þessu.

36 Comments

  1. Við erum búin að fá here we go, hann er að koma. Frábær viðbót við hópinn

    9
  2. MAGNAÐ ! Hlakka til að horfa á þennan spila, honum hefur verið líkt við marga frábæra leikmenn. Nú er bara að næla í einn miðvörð, þá er þetta flottur gluggi. Kominn í 8/10 með Gravenberch.

    7
  3. Alltaf erfitt að meta glugga fyrr en það er komin góð reynsla á leikmennina sem komu. Þetta lofar a.m.k. góðu. En það er þó ljóst að betur má ef duga skal, og eins og margoft er búið að benda á er alveg nauðsynlegt að bæta við miðverði. Það virðist þó ekki vera í kortunum, eina slúðrið af einhverju viti sem maður hefur heyrt er um þennan Hincapié sem er hjá Xabi Alonso / Bayer Leverkusen, og það slúður er ekki það hávært að maður hafi trú á að af því verði. En sjáum til, það er rúmur sólarhringur til stefnu…

    9
    • Unglingnum Jarrell Quansah verður semsagt slitið út í vörninni í vetur, eins og Bajcetic á miðjunni í fyrra. Vonandi ekki með jafn miklum meiðslum í kjölfarið…

      4
    • Algjörlega sammála, bíðum með það að dæma leikmennina sem eru komnir.

      Enn mér finnst nú bæði Alexis Mac Allister og Dominik Szoboszlai hafa litið vel út í þessum fyrstu leikjum þó sérstaklega Szoboszlai sem hefur verið frábær!

      Vörnin er enn vandamál, við þurfum miðvörð og hægri bakvörð.
      Það er enganvegin hægt að treysta á þessa þrjá postulín vasa sem eru með Van Dijk í miðverðinum.

      Svo vil ég nota Trent á miðjunni, hann nýtist mun betur þar enn í vörninni.

      10
  4. Nú verð ég að viðurkenna fáfræði mína en er hann miðjumaður eða kantmaður?

    4
  5. Nú þegar við komum saman hér til kvöldverðar á Ystu Nöf sáust tár á hvarmi.
    Gleðin skein úr hverju andliti.

    Velkominn Ryan Gravenberch.

    YNWA

    25
  6. Gluggagæing

    Farnir:
    Millie
    Hendo
    Fab
    Keita
    Uxinn
    Carvalho (lán)
    Bobby (sókn)

    Komnir:
    Endo
    Szobo
    MacA
    Ryan G
    Quansah (frá akademíunni vörn — tel sem nýjan því hefði verið talinn efni ef borgað fyrir hann)
    Doak (frá akademíunni sókn— tel sem nýjan því hefði verið talinn efni ef borgað fyrir hann sbr. Elliott)

    Af þeim sem hafa farið er það bara Fab (eins og hann var fyrir síðasta tímabil, þeas) sem er eitthvað skarð að fylla. Allir hinir voru of gamlir, of linir, eða, bara ekki að henta lengur. Og Hendó var að verða vandamál að mörgu leyti vegna meiðsla og að geta ekki sinnt sýnu orkuboltahlutverki innan vallar.

    Við höfum séð alla nema RyanG spila fyrir LFC og hafa þeir staðið sig vel. Ekki hægt að dæma Endo sem hefur spilað 27 mínútur af 11×11 bolta.

    Hér eru nokkur augljós markmið sem LFC hafði fyrir gluggann.
    [x] Yngja hópinn
    [x] Auka tæknilega getu á miðjunni
    [?] Fylla skarðið af að missa Fab — það verður að ráðast af því hvernig miðju mennirnir sem við erum með leysa stöðuna. En Fab var engin hetja síðasta tímabil, svo mér finnst líklegt að við verðum betri í þessari stöðu.
    [x] Nýtt blóð
    [ ] Styrkja vörnina (höfum engum tapað en fengið inn Quansah — hér er skortur
    [x] Losa út andlega þreytu í hópnum (held að það hafi verið komin svolítil hópþreyta innanhúss vegna of fárra breytinga á hópnum)

    Ég veit ekki hversu miklu var eytt og eflaust á gráta einhver mistök. En eins og staðan er núna þá er þessi gluggi amk. 7-8/10 — og ef Endo reynist eins góður og ég vona þá jafnvel uppí 9.

    Auk þess legg ég til að FIFA og landsleikjahlé verði lögð niður.

    28
  7. Góðar fréttir sem létta á sálartetrinu, en hvað mun ske með Salah fyrir 20 Sept ,, Should I stay or should I go ,, ?

    5
    • Það meikar bara engann sens að selja einn besta mann liðsins þegar þú getur ekki fengið neinn í staðin. Þannig að Liverpool er ekki að fara að selja Salah fyrr en næsta sumar, og fá þá sömu fúlgur fyrir hann og getum keypt eins og einn Mbappe, eða bara eins og þegar við seldum Kút, keypt tvo þrusugóða.
      FIFA þarf að fara að samræma þessa transfer glugga.

      4
    • Held að hann sé ekki með klásúlu í samningum, þannig að þeir hafa neitunarvald … en hvernig er svo leikmaður sem vill fara en fær ekki …
      Ef þeir eru að fjórfalda launin hans og þarna er enginn skattur, þá get ég vissulega skilið hann .. Líklega myndi ég vera drullu spældur ef einhver myndi fjórfalda launin mín og það væri skattfrjálst, en ég fengi ekki að hætta í vinnunni minni …

      3
  8. Vel gert.

    Vonandi passar hann aftast á miðjunni. Verðum að fá vörð fyrir miðverðina.

    En þetta eru annars frábærar fréttir og verðið virðist vera gott.

    4
  9. Ég er spenntur! Þetta var sá sem ég vildi en hélt að hann myndi ekki koma eftir að við fengum Mac Allister og svo Szlobba. Gott að fá að éta ofan í sig eitt disk af illskeittum orðum í garð FSG, sem loksins vöknuðu smá.

    En talandi um sumarviðskiptin þá er þetta ekki galið. Mac Allister 35m, Szlobbi 60m og Gravenberch 34m sem gerir þetta að meðaltali 43m fyrir hvern leikmann. Á nútíma leikmannamarkaði er þetta virkilega gott verð. (Við teljum ekki með klámsúlurnar). Svo bætist við Japanski altenatorinn á 20 poka sem er talsvert fyrir 30 ára gaur. Ég vil samt telja þetta vera ágætis kaup þannig séð þrátt fyrir að Klopp hafi ekki verið að skreyta hann fögrum orðum undanfarna tvo leiki. Hann mun komast í leikskipulag Klopps og fylla inn í þar sem við á. Hef enga trú á öðru.

    Mjög fín lýsing á miðjunni í greininni sem þarf varla að bæta miklu við en við getum alveg skellt samanburði við þessa miðju (Szlobbi, Mac og Gravenberch) vs Fabinho, Wijnaldum, Hendo, sem var okkar miðja á meðan við vorum að gera hluti. Stærsti munurinn þarna hvað mitt álit varðar er að gamla miðjan var full af gaurum sem hlupu mikið og gátu varist vel. Þeir voru ekki eins góðir fram á við en þurftu þess ekki þar sem þeir létu Þríeykið Mané, Salah og Firmino sjá um það.

    Nýja miðjan er virkilega spennandi og að mínu mati, allt önnur en sú gamla þar sem við höfum þarna þrjá leikmenn sem eru miklu meira sóknarþenkjandi en Fab/Hen/Wijn voru. Ég tel að við séum meira opnari fyrir vikið sem gerir það að verkum að VVD og sá sem spilar með honum þann daginn séu mun opnari fyrir árásum. Þótt nýju miðjumennirnir geti varist þá tel ég að okkur mun veikari fyrir varnarlega með nýju miðjuna miðað við þá gömlu. Þar voru þrír naglar sem fengu borgað fyrir að tækla og éta andstæðinga. Ekki svo mikið “flair” hjá þeim sem vantar ekki hjá okkar nýju miðju. Þetta getur bara gert leiki Liverpool miklu meira skemmtilegri með fleiri mörk á báða bóga.

    Ég væri virkilega sáttur með að næla í einn leikmann í viðbót á góðum díl. Ég held að það gæti gerst ef Arabarnir komi aftur með tilboð í Salah eða Gómes (guð veit hvað þeim dettur í hug), en þá þurfa að vera snör handtök. Ég einhvern veginn efast um að Gomes t.d. myndi neita tilboði sem myndi þrefalda hans núverandi laun.

    1
  10. Góðar fréttir að styrkja hópinn. En mikið um ef, hefði, kannski, mögulega um styrkleika nýrra leikmanna. Í fyrsta lagi raunhæft að meta einhverja stöðu leikmanna eftir amk 10-15 leiki. Minni enn á Thiago sem sumir héldu ekki vatni yfir eftir fyrstu leiki en hvað svo. Álagið í PL er á öðru plani en td í Bundesligunni og þurfa miðjumenn að geta djöflast og hlaupið leik eftir leik og oft tvisvar í viku. En ég er bjartsýnn eins og alltaf og veit innst inni að árangurinn í vetur verður framar vonum.

    7
  11. Quansah virðist góð viðbót við vörnina. Kominn framar í röðinni en Rhys Williams.

    3
  12. Klopp talar um að Konate sé enn frá og Thiago komi ekki aftur fyrr en eftir landsleikjagluggann.

    2
  13. Sælir félagar nú var Aston villa að fá lenglet lánaðan hann er miðvörður sem notar vinstri….er það ekki einmitt það sem okkur vantar ætla rétt að vona að þeir komi mér á óvart þessir blessuðu eigendur

    3
  14. Þessi kaup, auk kaupin á Endó. Láta gluggan lýta allt öðruvísi út. Ég varð furðu lostinn þegar Hendo og Fab fóru á vit olíufurstadrauma sína og spurði mig hvað væri eiginlega að gerast, hvort þeir ætli virkilega að að koma ekki með eina einustu staðgengla. Nú þegar þessir tveir eru komnir er hópurinn allt annar. Það væri ekki verra að fá eitt stykki miðvörð. Kannnski er hann þegar kominn og heitir Quansah eins og Andri P bendir á hér að ofan.

    2
    • Fátækir þarna í eyðimörkinni, verða að uppfæra þetta í 500m.

      Ekki eins og þeir séu að verða olíu lausir….

      6
  15. Það er nú útaf fyrir sig jákvætt að fá Gravenberch inn en ég man ekki betur en að umræðan síðasta vor hafi verið á þá leið að við þyrftum 3 miðjumenn og tvo varnarmenn. Helst hafsent en einnig hægri bakvörð.

    Þá var rætt t.d. rætt um að Henderson tæki við hlutverki Milner, sem powerhouse á miðjunni sem gæti haldið uppi standard á liðinu á fjarveru meiðslum annarra, (við skulum ekki gleyma því að hann var nú ekki slappari en það að hann var byrjunarliðsmaður hjá Liverpool og enska landsliðinu þegar við seldum hann) og ekkert í kortunum að selja Fabinho (29 ára) enda hefur Klopp sagt að það hafi ekki verið planið.

    Eftir að Fabinho var seldur hefur umræðan fyrst og fremst snúist um að fylla skarðið hans í stað þess að bæta gott lið. Enginn af þeim sem hafa verið keyptir er djúpur miðjumaður nema 30 ára japaninn Endo sem er langt frá því að vera í sama klassa og Fabinho þannig að það vandamál er óleyst.

    Ég get því ekki betur séð en að væntingar okkar stuðningsmanna í vor séu langt frá því að vera uppfylltar þó Mac Allister og Sloboslai lofi góðu og Gravenberch sé spennandi.

    Okkur vantar í raun tvo miðjumenn, hafsent og hægri bakvörð og það hefur því miður sýnt sig strax að ekki hefði verið vanþörf á að kaupa slíka leikmenn.

    En þó ég sé ennþá þeirrar skoðunar að salan á Fabinho sé á pari við verstu sölur Liverpool og að liðið hafi frekar veikst en styrkst í sumar, þá erum við ennþá með Klopp sem stjóra og ekki mikið um meiðsli enn sem komið er. Svo er Salah ennþá leikmaður Liverpool en það gæti skipt sköpum fyrir árangri í vetur hvort við höldum í hann eða ekki.

    Vonum því hið besta – þetta gæti gengið upp verði Guð og lukkan (og VAR) með okkur í liði í vetur.

    Áfram Liverpool!

    5
  16. Gravenberch er ekki kominn / vesen á kaupum Bayern á Fulham brassanum svo Bayern gefur ekki grænt ljós á kaup Liverpool á Gravenberch.

  17. Er hann kominn í búning og með penna í hönd. Ef ekki, þá eru þetta bara sögur fyrir svefninn.

  18. Búinn að skrifa undir og búið að skrá hann sem okkar/og bíðið í klukkutíma segir Frabrizio eftir meiri fréttum af kaupum á fleirum.

    1
  19. Hvernig ætla menn að leysa stöðurnar í vörninni. Alltof margir meiðslapésar.í vörninni.

    1
  20. Nú er bara að “semja” um 300 millur + fyrir Salah næsta sumar. Taka svo Mbappe fyrir klinkið ;-

    1

Leicester í deildarbikarnum

Búið að draga í Evrópu