Þá er glugginn loksins lokaður, og hægt að snúa sér aftur að fótboltanum. Jújú, það er alveg gaman að spá og spekúlera í nýjum leikmönnum og því hvort einhver af okkar mönnum fari eitthvað annað, hvort einhver af ungu strákunum fari út á lán o.s.frv., en mikið er nú boltinn sem slíkur nú skemmtilegri.
Talandi um lánsdíla, þá fór það kannski ekkert brjálæðislega hátt í umræðunni, en Tyler Morton fór á láni til Hull og verður þar út leiktíðina. Nat Phillips fór til Celtic, a.m.k. fram að áramótum. James Norris var lánaður til Tranmere, og Billy Koumetio fór til Dunkerque í frönsku 2. deildinni. Svosem ekki loku fyrir það skotið að einhverjir fleiri eigi eftir að fara, enda mögulegt að lána leikmenn eitthvað lengur, en þó er áhugavert að sjá hvaða leikmenn fóru EKKI. Þar erum við helst að horfa á leikmenn eins og Ben Doak, Bobby Clark, Jarell Quansah, Kaide Gordon og Oakley Cannonier. Í einhverjum (flestum?) tilfellum þýðir það væntanlega að a) þeir eru ekki taldir tilbúnir, b) það var ekki bitastæður áhugi fyrir þeim hjá öðrum liðum eða c) planið er að nota þá í deildarbikar og/eða eiga þá til vara fyrir aðalliðið. Það allt saman skýrist í raun bara eftir því sem líður á tímabilið.
Nóg um það. Leikur á morgun, en þá mæta Aston Villa á Anfield og leikar hefjast kl. 13. Í raun er ekki svo langt síðan þessi lið mættust síðast á Anfield, en það gerðist síðast þann 20. maí og reyndist vera síðasti heimaleikur leikmanna eins og Bobby Firmino, James Milner, Jordan Henderson og Fabinho. Þeir komu allir við sögu, tveir fyrstnefndu komu inn af bekknum en Hendo og Fab byrjuðu. Enginn þeirra spilar á Anfield á morgun. Svo er vitað að hvorki Virgil né Konate muni spila: Virgil í leikbanni og Konate meiddur. Við megum því eiga von á ansi breyttu liði sem byrjar leikinn.
Hvað andstæðingana varðar, þá verða klárlega breytingar hjá þeim sömuleiðis, en kannski ekki jafn miklar og drastískar og hjá okkar mönnum. Leikmennirnir sem byrjuðu leikinn í maí eru allir á skrá hjá félaginu áfram, en vissulega er Tyrone Mings meiddur og verður frá í einhvern tíma. Nokkrir leikmenn komu í sumar, og þeir sem hafa fengið einhvern spilatíma í augnablikinu eru Tielemans sem kom frá Leicester, miðvörðurinn Torres sem kom frá Villareal, og Diaby sem kom frá Bayer Leverkusen. Einhverjir fleiri eru mættir á svæðið en hafa lítið komið við sögu í haust.
Ef við skorum árangur Aston Villa á almanaksárinu 2023, þá eru það eiginlega bara City sem hafa náð í fleiri stig en þeir. Hins vegar ef við skoðum árangurinn í deildinni, þá hafa þeir unnið Burnley og Everton, en töpuðu illa fyrir Newcastle 5-1. Líklega var vandamálið að þeir voru með 11 leikmenn inni á vellinum allan tímann…
Allavega. Þetta er þrælöflugt lið, valtaði yfir Hibernian í sambandsdeildinni (8-0 samtals), og verða ólseigir á morgun. Sjálfsagt verður Ollie Watkins þarna frammi, sá hefur nú reynst okkur óþægur ljár í þúfu í gegnum tíðina.
Okkar menn
Nóg af andstæðingnum, snúum okkur að okkar mönnum. Við fengum jú kærkomna viðbót í gær þegar Ryan Gravenberch kom til félagsins, hann nær væntanlega einni æfingu í dag, en það er einhver pappírsvinna sem kemur í veg fyrir að hann geti spilað á morgun. Við sjáum hann því fyrst í rauðu skyrtunni gegn Úlfunum eftir landsleikjahlé.
Nú svo er Curtis Jones aftur orðinn leikfær og gæti byrjað, þó það sé kannski líklegra að hann byrji á bekk, og ef svo fer þá munum við sjá algjörlega nýja miðju frá því í leiknum í maí. Jafnframt verður miðvarðarparið breytt, og hver veit nema Núñez hafi spilað sig inn í byrjunarliðið eftir frammistöðuna gegn Newcastle í síðasta leik. Skulum a.m.k. orða það þannig að menn hafa alveg gert minna til að hafa verðskuldað byrjunarliðssæti. Það er því ekki ólíklegt að við munum sjá 6 breytt andlit frá byrjunarliðinu þann 20. maí: öll miðjan, tveir miðverðir og einn sóknarmaður. Segið svo að liðið sé ekki að þróast og þroskast.
Við skulum a.m.k. spá því að byrjunarliðið verði eitthvað á þennan veg:
Það er auðvitað alveg séns að framlínan muni líta eitthvað öðruvísi út. Kannski er Klopp ekki nógu sáttur með pressuna frá Nunez og ákveður að byrja með Gakpo í staðinn. Kannski fær Jota sénsinn í staðinn fyrir Díaz. Kannski fær Nunez að byrja, en þá vinstra megin. Þetta kemur allt í ljós kl. 12:00 á morgun þegar liðið verður kynnt.
Spáum því að sóknin haldi áfram að skora, og að vörnin haldi áfram að leka mörkum þrátt fyrir hetjulega tilburði frá Alisson. Segjum 3-2 með mörkum frá miðjudúóinu okkar, þ.e. MacSzobo, og svo eitt frá Jota af bekknum.
Þetta var alls ekki ónýtur gluggi. Mac, Sab og Ry inn fyrir Fab og Hendo. Endo kemur svo sem tímabundin lausn á brottför Uxa, Milly og Keita (þótt hann sé auðvitað þarna sem tímabundinn arftaki Fab). Tveir þeirra voru nánast enginn partur af liðinu lengur vegna meiðsla. Svo segjum bara Endo fyrir Milly. Firmino hafði þegar verið rípleisaður í Gagpo og Diaz komið inn fyrir Mané. Svo eru ungir og mjög spennandi leikmenn að koma upp sem vonandi auka hjá okkur breiddina. Býst við að við kaupum miðvörð í janúar. Einn gæða slíkur hefði hækkað þennan glugga úr 7 í 9. Hið jákvæða er kláralega mikil ynging og aukin hlaupageta. Nú er bara að vona að aftasta lína haldist nokkurn vegin heil fram í janúar.
Heilt yfir finnst mér þetta vera svona: Sumir leikmannanna sem komið hafa inn eru betri en þeir sem fóru, aðrir álíka góðir, og enn aðrir tímabundin lausn sem verður betur útfærð síðar. Aftasta línan er næsta verkefni og hún hlýtur að vera tekin í gegn í næstu tveimur gluggum, gætum átt von á 2-3 brottförum þar og 2-3 nýjum kaupum.
En bara, áfram með smjörið. Vonandi vinnum við Villa!
YNWA
Hefðum átt að kaupa Moises Caicedo 🙂
Flottur gluggi og ég sé að chelski hefði átt að kaupa aðeins meira!
Glugginn er reyndar ekki lokaður allsstaðar. Hann er galopinn í Saudi, og þar reyna eigendur newca$tle og $hitty að kroppa í aðal keppinauta sína til þess að veikja okkar lið og koma úr jafnvægi.
Það er alveg merkilegt hvað liðin í olíu deildinni reyna við leikmenn Liverpool, en ekki leikmenn annara liða í deildinni.
Hvað um það, þetta verður erfiður leikur en Liverpool á að vinna ÖLL lið á heimavelli, spái þessu 3-1.
Ég opna Kampavínsflösku næst þegar við höldum hreinu.
eigendur City eru ekki frá Saudi Arabíu
Þetta verður mögnuð viðureign. Nýtt lið eins og okkar getur verið brothætt. Vonum bara að þeir mæti vel stilltir inn í leikinn og láti þá purpurarauðu finna til tevatnsins.
Framlínan er sannarlega ógnarsterk og ég reikna með sömu meðferð og gegn Newcastle – salah og Gakpo þreyta miðverðina og svo mætir Nunez…
Helvíti var gott á tuddana hans Eddie Howe að fara heim með þrjú mörk í brókinni og núll stig!
Og gaman þegar eldri-borgararnir frá Liverpool komu inn á af bekknum til að loka sjoppunni fyrir Brighton: Lallana og Milner. Skemmtilega retró líka að sjá appelsínugular dómaratreyjur.
Ekki sem verst.
Og ég reikna fastlega með 200 milljóna boði frá Chelsea í þrennuskorarann Evan Ferguson, strax í janúar. Fáliðað hjá Boehly eins og er, og árangurinn eftir því…
Þá er “bara” vörnin eftir sem þarf að gæta að. Gomez og Matip allt of meiðslagjarnir og Konaté jafnvel líka þannig að aftasta línan verður mikið áhyggjuefni í vetur.
Eftir þessa fyrstu leiki er ég á því að Virgil sé virkilega sloppy og kominn fram á fremsta hlunn í gæðum og dugnaði og Trent er bara alls enginn varnarmaður og Gordon lék sér að honum um daginn en gat ekkert í dag gegn betri varnarmanni,bara svo að ég taki dæmi.
En svona er hópurinn í bili og áfram gakk.
Að því sögðu spái ég 2-0 á morgun í bjartsýniskasti fyrir vörnina og tvennu frá Sly!
Hvar var VAR dæmið þarna?
https://fotbolti.net/news/02-09-2023/annad-mark-man-city-vekur-umtal-thetta-er-1000-rangstada
Maðurinn er svo langt fyrir innan að það má þakka fyrir það að hann sé á sama vellinum!
Hahahaha….”inni á sama vellinum”! Góður Ari!
Já þetta VAR lið og hvað er að gerast þarna uppi hjá þeim það sem af er tímabils er meira en lítið furðulegt! Og Haaland viðurkennir í viðtali að hann hefði orðið brjálaður ef gerst hinumegin á vellinum!
Ég steingleymdi auðvitað að tala um það í upphituninni að þetta verður í fyrsta sinn í deildarleik síðan 2014 að scouser leiðir liðið inn á völlinn sem fyrirliði. Curtis Jones auðvitað búinn að vera fyrirliði í deildarbikarleik í millitíðinni, en annars gerðist þetta síðast þegar Gerrard lék síðasta deildarleik sinn á Anfield.
Sælir félagar
Takk fyrir upphitunina Daníel . Þetta verður mjög erfitt og ekki síst þegar horft er til varnarinnar sem er nánast í henglum. Ég veit ekki hvernig henni verður stillt upp en öllum er ljóst að Matip er alltof hægur til að spila þennan leik og Comes er sjálfkjörinn hvað sem öðru líður. Miðjan er klár en sóknin er spurning þar sem mannval er nægt þar. Ég er ekki viss um að Darwin byrji og eini maðurinn sem maður veit að verður þar örugglega er Salah, 200 millu gaurinn sá.
Ég vona að þetta náist með mikilli vinnu og styrk miðjunnar sem verður að verja vörnina vel og styðja við sóknina líka með öflugum sendingu og árásum á vörn A. Villa. Andstæðingar okkar eru með þrælöflugt lið sem erfitt verður að brjóta á bak aftur. Nú dugir ekki að gefa mark í forgjöf og treysta á að sóknin bjargi því sem bjargað verður. Liðið okkar verður einfaldlega að mæta til leiks og fyrirliðinn að vera með hausinn skrúfaðan á frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Mín spa og von er 3 – 1 í hunderfiðum leik þar sem Dom setur eina sleggju, Salah smyr einu í vinkilinn og Darwin klárar svo dæmið.
Það er nú þannig
YNWA