Afsakið það að ég ryðjist hér fram á völlinn, veit að margt er nú þegar ritað um leik helgarinnar og strákarnir ræddu þetta líka í podcastinu. Ég fékk ekki þá útrás og langar aðeins að bæta inn mínum pælingum um það…kannski ekki síst af því ég fæ ennþá að hlaupa um fótboltavelli með flautu í munni og er í virkum pælingum um þátt dómarans og það mikilvægasta í hans hlutverki, leikstjórnina.
Ég stilli hér á “meira” strikið fyrir þá sem vilja halda áfram að lesa, ég er kannski bara að skrifa mig út úr pirringnum og þeir sem hafa alveg fengið nóg af þessu sleppa þá við langa færslu!
Dómarinn sem stjórnandi
Það er ansi oft sem frasinn um að ekki sé neinn leikur án dómara skýtur upp kolli. Sem er auðvitað ekki alveg rétt, það væri alveg hægt að spila leiki án dómara svona í hugmyndafræðinni þeirri að allir séu sanngjarnir og spili nákvæmlega eftir reglum. Skólabalar landsins og firmahópar þekkja þá útgáfu.
En hlutverk dómarans liggur að stórum hluta í því að vera stjórnandinn í leiknum, sá sem sér til þess að reglurnar séu virtar og heldur utan um það að flæðið í leiknum fái að njóta sín. Eins og með öll störf sem kalla á stjórnanda er það lang farsælast að sem fæstir verði varir við dómarann, hann flauti á það sem er augljóst og nýti sín verkfæri í verkstjórn á þann hátt að athyglin beinist sem mest að leikmönnum. Það er lykillinn að átta sig á flæði leiksins og setja upp línu sem leikmenn átta sig á og fylgja.
Reglur og áherslur
Til að aðstoða dómarann eru skýrar reglur og nú er það svo að knattspyrnusambönd gefa árlega líka út áherslur í dómgæslunni, atriði sem sérlega er ætlað að fylgja með það að markmiði að auka gæði leiksins og líka til að draga úr huglægu mati í þeim aðstæðum sem koma upp í leiknum.
Við þekkjum áratuga bras um bolta í hönd/hönd í bolta sem hefur verið rifist um frá upphafi leiksins en ekki síðar þekkjum við þá sögu að sérstök áhersla hefur verið lögð á að taka út alvarleg leikbrot til að vernda hæfileikaríka leikmenn, koma í veg fyrir svindl (dýfur) og það að draga úr leiktöfum sem má segja að sé nýjast. Þetta þarf dómari að setja sig inní og ná tökum á fyrir hvert leiktímabil.
Þáttur tækni
Fyrir nokkrum árum fór að koma inn tæknileg aðstoð til dómara til að koma í veg fyrir það að atriði í leiknum sem dómarar ná ekki að grípa í aðstæðunum sjálfir ráði úrslitum. Fyrsta skrefið var marklínutæknin sem vissulega hefur komið í veg fyrir rifrildi sem áður þekktust nokkuð vel, þekktast líklega í úrslitum HM 1966 þegar England urðu heimsmeistarar þegar augu aðstoðardómara mátu bolta inni sem enn hefur þó ekki sannast.
Svo fyrir nokkrum árum var farið að nýta sjónvarpsvélarnar til að hjálpa dómurum í öðrum atriðum leiksins. Við sem hlaupum reglulega á línunni vitum að það er stundum erfitt að greina bil milli varnar og sóknarmanns á fullri ferð og það er sannarlega þannig að þegar upp kemur tækling og dómarinn er á fullri ferð líka getur sannanlega hans sjónarhorn ekki gripið allt. Alger bylting varð þegar farið var að nota talbúnað milli dómara í störfum, ég held að enginn sem ekki man “fyrir og eftir” þar átti sig á því hvað hjálpin í samtali dómaranna er mikil. Tækni í dómgæslu er frábær leið til að verða betri stjórnandi og regluvörður.
Enska útgáfan
Englendingar hafa á sér orð að vera íhaldsöm þjóð. Og þeir segjast hafa fundið upp fótboltann (þó Skotar séu að meina annað). Þeir hafa sýnt það í verki á þann hátt að hafa yfirleitt verið síðastir til að samþykkja tækni sem aðstoð fyrir dómarana sína og búið til önnur skilyrði um notkun hennar.
Á sama hátt hafa þeir ekki alltaf talið rétt að fylgja áherslum í dómgæslu í sinni deild – þó þeir dómarar sem frá þeim dæma hjá UEFA og FIFA fylgi þeim í leikjum sem dæmdir eru á þeim vettvangi. Þetta hefur auðvitað þýtt það að þessi þekktasta deildakeppni í heimi hefur á köflum verið dæmd annars staðar en áður og sumar áherslur þar jafnvel farið inn í umræður um fótbolta.
Hér er t.d. hægt að taka ýktasta dæmið þegar árás Pickford á Van Dijk var viðurkennd sem næstum ekki leikbrot því hann komst víst fyrst í boltann, nokkuð sem er algengasta þvælan í umræðu um dómgæslu (og þarna kannski með “aftasti” líka) á byggðu bóli, það má ekki stórslasa leikmenn með þeirri afsökun að sekúndubroti fyrir árás hafi ég náð að snerta boltann. Enda viljum við það almennt ekki. Englendingar tala stundum um það að allt “passion” hafi verið tekið út úr leiknum í þessari umræðu.
Hvað skiptir þetta máli með helgina?
Sorry. Ég sagðist verða lengi. Ég nefnilega er ekki bara að tala um þetta ævintýri í London út frá því eina. Það var svo ofboðslega margt sem var birtingarmynd þess pirrings sem ég hef stundum haft fyrir hinni ensku útgáfu dómgæslu. Því hinn ágæti Simon Hooper og hans teymi voru að mínu viti svo langt frá því að valda því verki að fá að dæma þessa frábæru íþrótt leikinni af hágæðamönnum fyrir framan tugþúsundir í stúku og milljónum í sjónvarpi.
Stóra atriðið var eitt (og ræði á eftir) en lykilþættirnir í störfum dómarans voru sannarlega á skrýtnum stað. Leikstjórn hans var snemma komin á þann stað að hann virtist ætla sér að búa til sína línu sem varð ólík eftir atvikum, leikbrot dæmt á eitt og ekki á annað sambærilegt stuttu síðar. Ekkert endilega eftir liðum í fyrri hálfleik.
Svo kemur leikbrot Curtis Jones. Þar gefur Hooper gult en fær þá skilaboð úr VAR herberginu að Jones hafi gerst sekur um leikbrot sem samkvæmt áherslum er ástæða til að veifa rauðu spjaldi. Sem er rétt, tækling ofan kúlu á þann hátt sem þarna henti er rautt spjald og nokkuð sem ég sagði mínum sessunaut yfir leiknum í fyrstu endursýningu. Svo þar virkaði tæknin sannarlega.
Hins vegar situr svo hroðalega fast í mér að umrætt VAR herbergi gerir sig sekt um tvöfalda þvælu. Annars vegar atriði sem reglulega kemur upp í Englandi, það að einhvern veginn ætla að fara að gera vítateiginn annað svæði en aðra hluta vallarins. Já, ég er að tala um þegar Joe Gomez er straujaður niður í teignum. Kannski var þetta Pickford syndromið um að mögulega, jafnvel, kannski var einhver boltasnerting og einhvers konar fordómur fyrir bakvörðum líka. Veit ekki, en hitt er klárt að þarna átti að hjálpa Hooper að taka rétta ákvörðun og dæma víti. Eins og aðstoð barst vegna Jones.
Þá stóra atriðið sem kannski þarf minnst að ræða fyrr en þá um eftirleikinn. Það er bara ekki varið á nokkurn hátt og að sjálfsögðu það sem dregur mest úr trausti fólks á aðstoð tækni fyrir dómarann. Við sáum strax að ekki var rangstaða, ég hlusta á enskar lýsingar og Neville segir það strax en kemur svo og segir að þetta hljóti að vera erfitt sjónarhorn því það sé búið að segja check complete, þetta verði skoðað í hálfleik. Sem ekki varð…frekar en vítið á Gomez. Það er engin tilviljun, meira síðar. Staðan 1-1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur er svo sennilega gott dæmi um dómara sem misst hefur tök. Ég var ekki á staðnum og maður á ekki að lesa of mikið inn í það en ójafnvægi Hooper í seinni er algjört. Sem birtist í því að hann fer að flauta út og suður og í kjölfarið spjalda og hleypa mönnum í röfl við sig. Við höfum séð fram á það að a.m.k. spjöldin á Salah, Ali og Robbo eru hans leið til að verða “stóri kallinn á svæðinu” en hann sveiflaði þeim líka á Spurs…þó svo hann hafi gleymt áherslunum um að spjalda menn sem biðja um spjald. All rosalega. Jota situr uppi með seinna spjaldið sitt, það var rétt en hið fyrra tæpt.
Svo er klikkt út með því að setja upp 6 mínútur í uppbótartíma…líklega í takt við áherslur um leiktafir…en þá reglu þarf líklega að útfæra á annan hátt því þarna voru ekki nýtt öll skiptislott og meira að segja fá útspörk á ferð…eða meiðsli. Á lokamínútunni fá svo Spurs stigin þrjú. Þeir um það. Óbragðið þvílíkt!
Síðan þá
Þá kemur eftirleikurinn. Útskýringin um mannlegu mistökin sem auðvitað halda engu vatni. Engu! Ég er svo að vona að um bara ofboðslega óhæft starfslið þarna sé að ræða út frá mögnuðu freelance ferðalagi á heimasvæði City en með ofboðslegum þunga í hjarta þá getur maður ekki alveg bara kvittað fyrir það.
Við vitum það öll að til að VAR herbergið hafi talið mark hafa verið dæmt hefðu öll sjónvörp verið slökkt. Við vitum líka að þeir voru allir búnir að átta sig á því hratt og koma skilaboðum a.m.k. til Michael Oliver sem auðvitað hefði átt að sjá til þess að stjórnandi leiksins fyndi leiðir til að leiðrétta svindl í leiknum. Ef ekki nýta kraft sinn til að dæma markið þá einfaldlega kalla á stjóra Spurs og fyrirliða og óska þeirra aðstoðar við réttvísi. Það hefði líka verið hægt að gera í hálfleik. Því þá var þetta klárt þó heimurinn fengi ekki að vita það fyrr en strax að leik loknum. Engar afsakanir gildar takk. Tæknin á að koma í veg fyrir alvarleg mistök í leiknum!
Í staðinn er haldið áfram og dómarinn fer af stað aftur flautandi og veifandi í allar áttir. Það er sannarlega þannig að þú þarft að koma með hreint blað, lið eiga “ekkert inni” en á sama hátt þá er það sannarlega mannlegt að gæta meðalhófs og aftarlega í kollinum átta þig á því að þú ert á þeim staðnum að ýkja ekki þau mistök sem þegar eru orðin. Sem sannarlega varð með fyrra spjaldi Jota og þessum uppbótartíma…og sem dæmi yfirlætislegu spjaldinu á Alisson.
Hvert á að fara
Við förum víða í umræðunni og ég er alls ekki sammála öllu. Ég vil sannarlega ekki VAR út. Ég horfi á töluvert af neðri deildum Englands og þar verða reglulega svakaleg mistök ætti að leiðrétta jafnóðum, sama mátti segja í Carling leiknum okkar þar sem Leicester skoraði rangstöðumark og við fengum ekki leikbrot á Doak og víti. Rifjið líka upp fyrir mér öllu rosalegu mistökin sem þið sjáið í EL eða CL…?
Vandinn liggur í útfærslu enskra og það er því frábært að LFC ætli að fá allt upp á þetta borð. Það þarf að verða svarað fyrir þau tvö risaatriði sem ég hef nefnt áður að VAR átti að leiðrétta, líkt og þegar liturinn á spjaldi Jones var leiðrétt (aftur – réttilega miðað við áherslur) og þeir sem eru í skjánum verða að þora að yfirtaka ákvarðanir félaga sinna á vellinum til að fá rétta niðurstöðu miðað við leikreglur og áherslur. Ef til þess þarf að breyta tíma ákvarðana um hvort mark er gilt eða ekki þá er það bara ekkert mál. Eða tilkynning dómarans á grasinu um þær niðurstöður – bara fine. Ekki láta rangar ákvarðanir ráða úrslitum. Til þess fengu menn tækni, tækni sem a.m.k. ég hefði þegið að hafa í bakhöndinni í nokkrum leikjum í sumar þar sem mín teymi tóku splitsecond ákvarðanir sem hugsanlega voru ekki réttar.
Einhvern veginn virðast enskir dómarar eiga erfitt með að sætta sig við það að hafa VAR með í sínu liði, nema þá kannski til að taka drastískar ákvarðanir. Það er sú lína sem ég á erfiðast með að sé í gangi. Við sáum þetta aftur í Forest – Brentford DAGINN EFTIR þessi risamistök svo að þar sást enn og aftur að ástæða er til að rýna í allt ferlið.
Ég er ekkert að biðja um endurtekningu leiksins og sé ekkert hvers vegna á að áfrýja spjaldinu hans Curtis (nema til að pirra FA) en það verður að vera þegar að svo rækileg mistök verði afleiðingar. Þegar við svo bætum því við að enskir dómarar séu nú í freelance ferðum til að dæma leiki óralangt í burtu rétt fyrir sína stórleiki þá eru áherslurnar að verða skrýtnar. Sem dregur heilindi dómarans og leiksins í efa.
SEM ER STÓRALVARLEGT MÁL!!!
Þeir sem lásu hingað niður þurfa ekkert að vera sammála mér. Það einhvern veginn súnkaðist svo margt inn eftir þetta allt, miklu meiri en einhver einstök reiði. Sumt er örugglega ég að dramatísera og að láta kannski of mikið með það að hlaupa um í dómarahlutverkinu. Þá það, ég bý við þau forréttindi að fá að skrifa hingað inn og notaði þennan pistil til að skrifa mig út úr pirringnum. Það tókst…..að stórum hluta. Vonandi verða næstu dagar til að skýra myndina betur og við sjáum alvöru aðgerðir í átt að því að fleiri leikir verði ekki laskaðir á þann hátt sem þessi!
Var að hlusta á samskiptin úr VAR herberginu, og aðra eins steypu hef ég ekki heyrt lengi.
Það virkar eins og þeir séu sauð drukknir, koma engu orði upp og frosnir. Skilja ekki hvorn annan.
Enginn tekur af skarið.
Þetta lítur skelfilega út.
Aðal spurningin á þessu augnabliki er auðvitað: “Hvað svo?”
Hvað varðar leikinn sjálfan, þá eru auðvitað svona sirka 0% líkur á að þessum úrslitum verði eitthvað breytt. Jafn öööööömurlegt og það annars er. Ef það væri eitthvað réttlæti í heiminum, þá yrði þeim breytt, en við vitum að heimurinn er ekki réttlátur. Og nei, ég vil ekki að þá verði allir leikir í heiminum sem voru ekki 100% rétt dæmdir verði spilaðir aftur.
Framkvæmd dómgæslu og VAR breytist vonandi eitthvað, þó ekki nema að VAR herbergið tilkynni dómara nákvæmlega hver ákvörðunin var. Kannski breytir það einhverju….
… en það sem hefur EKKI breyst og sem ég sé ekki breytast á næstunni er traust til dómara og VAR teymisins. Er búið að múta einhverjum þeirra? Maður vill ekki trúa neinu slíku upp á menn, en þegar frammistaðan er eins og hún var á laugardaginn þá óhjákvæmlega vakna spurningar. Það er a.m.k. þeirra að vinna sér inn traust með því að dæma rétt, og það er það eina sem maður biður um. Ég vil ekki sjá það að Liverpool fái einhverja sérmeðferð hjá dómurunum héðan í frá til að leiðrétta þetta ranglæti. Það á bara að dæma rétt, og ég treysti liðinu alveg til að vinna leiki ef rétt er dæmt.
Það eina sem Klopp og hans leikmenn geta raunverulega breytt er að nýta sér pirringinn/reiðina/óréttlætið, og sýnt héðan í frá á leikvellinum að þeir ætli að standa saman. Þeir gegn óréttlætinu. Og vonandi verður það stærsta breytingin sem við verðum vör við. Ekki það að liðið hafi verið að standa sig illa á leikvellinum það sem af er hausti, en nú er bara kominn allt annar kafli í sögu þessa tímabils. Ég vona svo innilega að menn nái að breyta þessari reynslu í jákvæða orku, og streyma henni á rétta staði inni á leikvellinum. Einsetji sér að gefa dómurunum sem allra fæst tækifæri til að finna að því hvernig þeir spila, og einsetji sér að kremja hvern einasta andstæðing sem liðið mætir héðan í frá (í óeiginlegri merkingu að sjálfsögðu).
Sammála. Þetta ber öll merki þess að hafa verið viljandi gert að mínu mati. Arabíudómararnir heyrðu línuvörðinn segja að hann ætlaði að bíða með að flagga rangstæðu og þykjast svo ekki hafa tekið eftir að dæmd hafi verið rangstæða. Toppa svo leikritið með að búa til þá reglu að það sé ekki hægt að stoppa leikinn þegar gaurinn sem teiknar línuna segir þeim að gera einmitt það. Auðvitað var það hægt og ekkert sem bannar það. Ömurlegt leikrit og bullandi spilling og vanhæfni.
Ósammála að það sé ekki hægt að spila leikinn aftur. Menn mega ekki rugla saman dómaramistökum og rangri framkvæmd leiksins. Dómaramistök eru hluti leiksins en þetta er ekki svoleiðis að mínu mati. Ef leikur er t.d. flautaður af í fyrri hálfleik eða mörk sem eru skoruð telja ekki þá á að endurtaka leikinn. Þetta snýr augljóslega að framkvæmd leiksins.
Fyrst að við pennarnir eru byrjum að tjá okkur um þetta þá er hérna mín sýn.
1. Ég er en þá reiður og sár fyrir hönd stuðningsmanna Liverpool. Þetta á ekki og má ekki gerast.
2. Þetta gerðist samt sem áður og hvað er hægt að gera í því?
Nákvæmlega sem Liverpool gerði að láta í sér heyra og tala um að þetta sé ekki boðlegt.
3. Held ég að þetta hafi verið viljandi gert? Reiði kallinn segir já allan daginn en aðeins rólegri en samt sári kallinn heldur að þetta hafi verið einfaldlega ótrúlega lélegt hjá þeim og þeir sem sáu um VAR og dómgæslu einfaldlega ekki hæfir í þessi störf en að þessi ákvörun hjá þeim var ekki út af hinu illa heldur út af getuleysi.
4. Ég vona að þetta verður til þess að strákarnir og þjálfarateymið noti þetta til góðs. Noti þetta sem við gegnum heiminum og fái auka kraft á þessu svindli.
Ég vona að við horfum ekki til baka á tímabilið og sjáum að þetta var vendipunkturinn þegar allt hrundi hjá okkur og við fórum í fórnarlambs gírin út allt tímabilið.
5. Ég hef trú á að Klopp nái að snúa þessu okkur í vil og við mætum til leiks gegn gríðarlega sterku Brighton liði næstu helgi.
YNWA – Klárum pirringin og svekelsið (það er en þá í gangi ) og byrjum aftur strax næsta fimmtudaginn með sigri í Evrópukeppninni fyrir framan troðfullan Anfield.
Reiði kallinn ? Fólk er að borga fúlgur, fúlgur, til þess að horfa á liðið sitt, spila ÍÞRÓTT, sem á að vera hlutlaust dæmd af dómurum. Hvað heldurðu að þetta geri fyrir EPL ? VIRKAR SPILLT !
Minn áhugi beið hnekki, ég hugsa mig tvisvar um. Kannski er þetta hluti af áhróðursherferð Saudi, gera allt vitlaust á Englandi. Beina áhuganum til Saudi.
Fíflið sagði að honum væri skítsama um sportwashing.
Reiði kallinn var ég svo að það sé á hreinu.
https://www.bbc.com/sport/football/66998252?at_link_type=web_link&at_campaign_type=owned&at_ptr_name=facebook_page&at_link_id=006B2A62-6215-11EE-A491-BC6AAD7C7D13&at_campaign=Social_Flow&at_format=link&at_bbc_team=editorial&at_medium=social&at_link_origin=Match_of_the_Day&fbclid=IwAR2n40rlBhCyMb32lh88ekBA5fsyRjrNFiopGEJo4V7Fj4HmAaVcevE020U
Replay operator: On-field decision was offside. Are you happy with this image? Yeah it’s onside. The image that we gave them is onside.
Assistant VAR: He’s played him. He’s gone offside.
VAR: Oh [expletive]
Þvílík steypa ! í þessum samskiptum ? Hvað á sér stað þarna eiginlega ? Can´t do anything ? Er ekki hægt að stöðva bara leikinn ! þarna er 100% rangur dómur ? Lið RÆNT löglegu marki, RÆNT löglegu marki ! Af dómurum, með myndbandstækni, MYNDBANDSTÆKNI !
Sama tækni og er nú búin að dæma Jones í 3 leikja bann ! HVAR endar þetta. Í fyrsta skipti á ævinni, þá hefur áhugi minn á enskum fótbolta stórlega minnkað. Ég er að fara á 1 leik hjá Liverpool í vetur, og það mun verða minn síðasti í langan tíma, ef ekkert breytist.
HOWARD WEBB ? sendir vanhæfa dómara til saudi, ? af hverju ? á fimmtudegi ? af hverju , eiga að dæma á laugardegi í UK. Það þarf að uppræta allt þetta spillingar drasl. BURT með HOWARD, og ALLA þessa fituhlunka.
Nokkrir hlutir sem komu mér á óvart í þessu VAR klippu.
1. hversu hratt allt gerist, þetta er á 100% hraða, dómarinn hljómar þreyttur og ekki i formi að reyna sitt besta, sem er bara virkilega furðulegt.
Þeir eru að reyna gera allt á met hraða, ég vinn mikið og lengi, ferðast mikið og mæta i vinnuna daginn eftir að ég lendi á Íslandi, þegar ég ferðast á verð ég ” Jet legged” og mín vinna eftir að ferðast er klára það sem ég þarf og komast heim til að sofa eða leggjast upp i sofa og horfa á eitthvað með Will Ferrell. ” brain dead dont think movie ”
= Þeir eru ekki að gera vinnuna sýna 100%
2. delay the game / delay the game / Olie is asking you to delay the game.
Þarna á dómarinn að stoppa leikinn 100% alltaf.
delay the game , þýðir stoppaðu leikinn og talaðu við okkur.
Hann gerir það bara ekki, furðulega við þetta er að dómarinn heyrir hvað hann segir þangað til að það kemur af ” delay the game ”
Þá fer hann i Fxck mode og leikurinn gengur áfram i smá tíma.
Samkvæmt öllu á dómarinn að stoppa leikinn og hlusta, það getur verið að einhver er að fá hjartaáfall eða eitthvað er i gangi og hann á að stoppa leikinn þar sem VAR segir stoppaðu leikinn.
Hann gerir það ekki sem er mjög skrýtið.
= afhverju stoppar hann ekki leikinn þegar boltinn fer útaf og tekur sér 30 sec til að hlusta á þá, leikurinn stoppar ekki, dómarinn er ekki að hlusta.
3.
Skiltið sem segir offside / goal, kemur alllllllllltaf í mynd þegar Var dómurinn er tilkynntur.
Hversu oft höfum við séð þetta, offside no goal eða onside goal skilti?
í öllum leikjum sem við horfum á, þetta skilti er með nokkra taka ” on / off ” goal / no goal / þegar ég sá leikinn minnir mig að ég sá offside, ég var búinn með 3x bjóra og ekki alveg 100% en afhverju kemur ekki mynd af þessum stóra skjá sem segir öllum hvað er i gangi í mynd ?
= ég þarf að drekka minna.
Ég svo vona að dómarnir séu ekki að fá einhvern auka bónus fyrir smá heimadómgæslu fyrir ” okkar lið ”
En ég dæmdi aðeins i handboltanum og það er rosalega auðvelt að gefa smá inn á milli ef þú ert að leita eftir því.
Ef þeir gefa út 90+6 mín klippu af öllu sem gerist og þetta er bara once in a lifetime bull þá mun ég segja okay, shit happens.
En eins og staðan er í dag þá er ég meira að leitast eftir því að dómarar fái smá meira svigrúm til að taka ákvarðanir, reglurnar sem eru í fótboltanum eru 100 ára gamlar margar hverjar og afhverju má dómararinn ekki stoppa leikinn og vinna sýna vinnu ?
Off topic / Nunes er að fara skora 20+ mörk i næstu 8-9 leikjum svo anda rólega og sjáum hvað gerist.
M.United tapaði í kvöld svo krakkarnir eru ekki að fara commenta á ykkar póst <3
Ef ég hafði einhverntíman gaman að því að tuða um dómara og garga á þá, drap áralöng vinátta við góðan vin úr stéttinni það. Hryllingssögur hans af því sem hann hefur stunduð fengið að herya frá leikmönnum og áhorfendum koma nú oft fljótt upp í huga þegar ég ætla að fara af stað og segja ósmekklega hluti um þá og ásaka menn um hitt og þetta.
Það sem þessi helgi hefur hinsvegar gert kýrskýrt, í svona þúsundasta skiptið, er að það er einfaldlega eitthvað við dómsgæslu á Englandi sem virkar ekki. Auðvitað er sú hugmynd að hver einasti leikur sé fullkomnlega dæmdur óraunhæfur draumur, þó hann sé fallegt markmið. Nú eru sjö vikur liðnar af tímabilinu og satt best að segja held ég (án þess að vera hundrað á því) að hverja einustu helgi hafi verið allavega eitt risaatriði sem hafði áhrif á úrslit leikja, sem var í besta falli vafasamt. Í hverri umferð eru tíu leikir. Ég held að í flestum starfstéttum þætti það afar slæmt að eitt að hverjum tíu verkum væri meingallað.
Það eru margir í vinklar á þessu. Viðhorfið til dómara í fótbolta almennt (frá leikmönnum) virðist vera töluvert verra en í flestum hópíþróttum, kannski vegna þess að í fótbolta eru afar fá stór atvik sem skiptir þeim mun meira máli að séu rétt. Rangt rautt spjald í handbolta breytir leik, í fótbolta eyðileggur það leikinn. Einnig hafa fótboltadómarar í raun aðeins eitt tækifæri til að vara leikmenn við að fullri alvöru með gulu og næsta gula er þá sjálfkrafa orðið rautt. Þetta veldur að reglunum er klárlega beitt öðruvísi eftir því hvað mikið er liðið af leiknum. Þetta gæti líka haft eitthvað að gera með sú ótrúlegu tölfræði að síðasti leikmaður til að fá tvö gul gegn Liverpool í deild var Sadio Mané árið 2015(!).
Nýliðun er líka mikið vandamál allstaðar í þessari stétt en virðist vera extra slæmt á Englandi. Það að dómarasambandið virðist fyrst og fremst vera lokaður klúbbur þar sem nokkrar risaeðlur taka allar ákvarðanir og þurfa bara að svara til síns sjálfs getur ekki hjálpað.
Skrýtnast við þennan karlaklúbb er að þeir virðast hafa ákveðið að það að ákvörðun dómara sé leiðrétt, lítillækki það hann. Þessi þráhyggja að virðast fullkomnir er ekkert annað en eitur í dómgæslu á Englandi. Það, ásamt því að stuðningsmenn og þjálfarar geta aldrei sammælst um að krefjasta úrbóta, er það sem heldur aftur að allri tilraun til að bæta verkferla og þjálfun dómara í Englandi.
Þá kem ég loksins að stóru málunum um helgina og þau eru tvö og aðskilin. Í fyrsta lagi ákvörðunin með Luiz Diaz. Eftir að hafa hlustað á upptökuna er maður nánast orðlaus. Takið eftir að það er ekki VAR dómarinn sem fattaði mistökin, það er aðilinn sem klippir til fyrir hann. Síðan er það þessi samstundis uppgjöf “ekkert sem ég get gert” sem aðal VAR-dómarinn lætur útúr sér. Það sorglega er það sem hann virðist vera að reyna er að gera það sem við viljum: Taka ákvörðunina hratt og örugglega. Sturlað.
Svo er það hitt málið: Helvítis ferðin til Mið-Austurlanda. Jafnvel þó ég tryði að dómarinn gæti tekið á sig þetta ferðalag, náð sér í feitan tékka og verið 100% tilbúin í verkefnið fyrir helgina þá skiptir það ekki máli. Dómarar verða ekki bara að vera óspilltir, þeir verða að vera algjörlega hafnir yfir allan vafa. Því annars kálast traustið til þeirra. Að dómari taki að sér risaverk fyrir ríki sem á lið í ensku deildinni einfaldlega á ekki að mega. Ef það má núna, gott og blessað. En vonandi verður það núna bannað með öllu.
Von mín er að þessi heldi verði vendipunktur. Að dómarastéttin á Englandi geti ekki lengur þóst daga gagnrýni og ráðisti í raunverulegar umbætur. Hef ég trú á því? Ekki minnstu. Svo lengi sem samband dómara á Englandi lýtur á það sem áras í hvert sinn sem dómari er gagnrýndur, svo lengi sem stuðningsmenn allra liða hætta ekki að segja “já en manstu eftir þegar þíð grædduð á lélegum dómum,” svo lengi sem ný tækni er séð sem árás en ekki verkfæri er ekki neitt að fara að breytast.
Því er miður.
Brot líkt og CuJo hefur bæði verið sleppt með gult og einnig gefið rautt, þó ég muni frekar eftir þeim tilvikum sem þau voru gul. En gott og vel, ef það verður gefið rautt á öll svona atvik hér eftir þá fyrst skal ég samþykkja þetta sem rautt spjald.
Annars algerlega sammála.
Menn hafa meira að segja sloppið við spjöld fyrir svona brot og meira að segja verri, sbr. Pickford á VVD, Kane á Robertsson og fleiri mætti telja.
Dæma leikinn ómerkann ! Spila hann aftur.
Viltu ekki bara hæfa einstaklinga í störfin Maggi minn ? Þeir sem voru að dæma þarna eru, ofurþreyttir, vegna þess að howard nokkur fokking webb(utd shit) sendi þá til saudi að dæma á fimmtudegi ! Þeir koma svo þunnir og meðvitundalausir til UK og dæma stærsta leik umferðarinnar ?
Þessi fokking Hooper er síðan með skilti á leik Fulham vs Chelsea á mánudegi ???? WTF !
Átti ekki að grafa það fífl ? Senda hann í pílu ?
Svo virðist helvítið hann howard fokking webb bara skauta framhjá allri ábyrgð, eins og ICE HOT ONE
Frábær skrif Maggi. Nokkrir punktar um hvað gæti bætt dómgæsluna á Englandi og traust fólks á henni.
1. Öll samskipti milli dómara og annarra starfsmanna leiksins í beinni á meðan leik stendur. Mistök eru hluti af lífinu og við lærum að þurfa að svara fyrir þau. Engin ástæða til að fela sig.
2. Brjóta upp ensku hvítukallaklíkuna sem dæmir fótbolta. Konur, fólk frá öðrum löndum, fólk af öðrum litahætti getur alveg dæmt fótboltaleiki. Og það að hafa fjölbreyttari hóp tryggir að þetta verður ekki eins og einhver frímúrararegla. Fyrir utan hvað það er fáránlegt að sjá hversu einsleitur þessi hópur er.
3. VAR dómarar eiga ekki að vera fengnir úr sama hópi og þeir sem dæmi leiki. Það veldur skrítnum anda ef fólk sem er að fylgjast með störfum hvers annars er dregið úr sama mengi — býr til rugl eins og þetta að finnast verið sé að rengja gæði dómara að nota VAR.
4. Við þurfum að vita að dómarar séu allsgáðir, úthvíldir og tækir til að dæma leiki. Ég get ekkert fullyrt, en þessi mistök í leiknum benda eindregið til að svo hafi ekki verið með VAR dómarana. Dómari með 20 ára reynslu í dómstörfum gerir varla svona mistök nema hann sé í óhæfu ástandi (hver sem ástæðan er).
5. Þjálfa dómara í því að hugsa fyrst um hvað sé hlutverk dómara í að tryggja jafnræði og meðalhóf. Mark Clattenberg benti á (líkt og Maggi) að bæði í síðara gula spjaldi Jota og rangstöðunni þá hafi dómarinn verið að flýta sér og ekki leyft sér að skilja hvað leikurinn kallaði á. Það kemur af hroka og tengist atriðum hér að ofan — þetta er þröngur og einsleitur hópur sem er ekki að ýta sér í að vera besta útgáfan af sér.
6. Það þurfa að vera skýrar vinnureglur — en engar reglur trompa skynsemi sem vegur að grundvelli dómgæslunnar. Löglegt mark verður að standa. Leikurinn verður að stöðvast ef það er grunur um að svona grundvallarþáttur sé brotinn. Þetta er bara sjálfgefið. Það er leyfilegt að stöðva leik fyrir margar sakir — það sem gerðist í Diaz rangstöðunni hefur aldrei gerst (svo við vitum) en allir sem hugsa um íþróttir, dómgæslu (eða bara hugsa) vita að það er fáránlegt að spila leik í 60 mínútur eftir að dómari hefur strokað út löglegt mark. Ekkert vafaatriði — bara bókhaldsvilla. Við verðum að geta treyst því að dómarar séu fyrst að dæma leikinn af skynsemi og svo að fara eftir einhverjum bókhaldsreglum. Þetta er skýrasta dæmið sem ég hef séð að dómarastéttin leggur meiri áherslu á að viðhalda sínum reglum og innviðum en að virða leikinn sem hún er þó að sinna.
Að lokum. Ég veit ekki hvort er verra að þessi úrslit fái að standa eða að leikurinn verði endurleikinn. Það er ekki þess að vænta að nokkur myndi styðja LFC því það er alltaf talað um önnur mistök oþh. Auðvitað eru þessi mistök af allt öðrum toga og nær svindli, eða galla á framkvæmd. En samt… Nema þetta: hvað ef þetta hefði gerst í 38. umferð og lið unnið deild/fallið? Myndum við hugsa eins um þetta þá? Gætum við þolað að Tottenham hefði unnið deildina á þessu? Ekki ég, þá væri ég hættur að horfa á EPL. Og það er kannski eitthvað sem þarf að svara: af hverju er þetta öðruvísi í 7. umferð en þeirri 38?
Styttist ekki í að maður hætti að horfa á þetta “ógeð”. Hvað gera dómarasamtökin ? Af hverju eru þetta ekki ómerk úrslit ?
Mitt persónulega svar hefur verið að á meðan LFC er ekki í eigu lands og á meðan deildin er gegnsósa af svindlpeningum og slíku að einbeita mér mest að því að njóta þess hversu góðir okkar menn eru í fótbolta. Það er ekki sjálfgefið að svo sé, sérstaklega þegar liðið og umgjörð þess virðist að mestu samanstanda af góðu fólki. Er á meðan er.
Clattenberg hefur líka bent á að það eigi að nýta menn í því sem þeir eru besti í. Sumir eru einfaldlega betri á vellinum en í VAR herberginu og öfugt. Hann sagði einmitt að dómarar sem eru að dæma á vellinum ættu ekki að vera líka í VAR herberginu, það ætti að þjálfa dómara sérstaklega í þeim hluta dómgæslunnar og þeir ættu eingöngu að sinna þeim hluta.
Það er þó alltént hægt að hlakka til jólanna. Við fáum góða gesti á Anfield 16. des.
Ligg ég hér nú undir feldi á Ystu Nöf.
Kemst ekki yfir það hversu ófagmannleg þessi samskipti dómara og VAR dómaranna eru. Meira bara eins og eitthvað spjall. “Jamm búinn að tékka, þetta er flott, fullkomið.” En segir aldrei hver niðurstaðan er. Og dómarinn svarar álíka kammó “Flott hjá ykkur strákar, þið eruð duglegir.” Gaurinn á tökkunum hlustar og er bara “Halló! eruð þið sð horfa á leikinn, hann dæmdi rangstöðu!!” En þá þykjast þeir allt í einu ekkert geta gert. Þvílíkur sirkus.
Hef engann séð minnst á brott Skipp á Diaz á 33 mínútu sem er 100 % RAUTT
miklu ljótara enn brot Jones sem fékk rautt …. skoðið það
Andri, alveg sammála. Ég er einmitt að vinna þar sem ég nota fjarskiptabúnað. Þar er regluverk sem við notum til þess að koma upplýsingum á milli, og það er mjög mikilvægt að nota þá rétt. Svo auðvitað erum við ekki að spjalla um hitt og þetta að óþörfu. En ég neita að trúa að þeir hafi verið að vinna eftir regluverki.
Greinilega ekki mikið regluverk á bakvið samskiptin, hvaða merkingu hefur td delay í þessu samhengi? Ótrúlegt hreinlega að á engum tímapunkti komi skýrt fram í samskiptum dómara og VAR hvort að markið skuli standa eða ekki
Hugsum aðeins út frá sjónarhóli fjársterks aðila í mið-austurlöndum, segjum frænda Sheikh Mansour eiganda Man.City. Þeir hafa fengið að svindla sig til velgengni, opið og fyrir allra augum, og munu að öllum líkindum komast upp með það. Nágrannaríki tókst að kaupa sér heimsmeistarakeppni, fyrir allra augum, og eru með forseta FIFA svo rækilega í vasanum að hann flutti meira að segja þangað. Dæmin um ruglið í fótboltanum eru endalaus (Man.City, Real Madrid, PSG, ítalska deildin,…)
Með öðrum orðum, ef einhvern langar til að taka þátt í fjörinu, þá er þeim hinum sama nákvæmlega sama um hvernig hagræðing úrslita í stórleik í EPL gæti litið út fyrir almenning. Fyrir frændan þá myndi hann hugsa sig betur um að hagræða úrslitum í úlfaldakappreiðum í sveitinni sinni, heldur en að setja brún umslög í vasa einhverra tjalla, og skemmta sér svo konunglega við að horfa á niðurstöðuna.
Ég hef áhyggjur af eftirmálum þessa leiks. Eftir tapið í urslitaleiknum á móti Real Madrid í CL, þá datt Liverpool liðið í gólfið og tók langan tíma að komast upp aftur. Ég óttast að þetta sé svipaður atburður.
Þetta eru fínar umræður eftir fínan pistil frá Magga.
Það sem mér finnst standa upp úr er tvennt.
ANNARS VEGAR þá er nákvæmlega ekkert sem gefur til kynna að dómarinn hafi dæmt mark. EKKERT og því er óskiljanlegt að þeir skyldu halda það. ÓSKILJANLEGT. Það heyrist í línuverðinum að hann sé að bíða með að flagga rangstöðu, Luis Diaz fagnar ekki og Tottenham aðdáendur fagna. Þá sýndu sjónvarpsvélarnar flaggið koma á loft og það skal enginn segja mér að leikurinn sé ekki í gangi í VAR herberginu eins og við sjáum hann á meðan VAR dómararnir teikna línu. Einnig hvernig þetta er gert í hasti og leikritið þegar þeir þykjast ekki vita að ekki hafi verið dæmt mark. Svo þegar Arabíufararnir segja báðir, “can´t do anything” þegar þeim er beinlínis ráðlagt að stoppa leikinn. Mér þykir leitt að segja það að það er ekkert sem bendir til annars en hér sé um spillingu og svindla að ræða. Að þeir hafi fengið út að dæmt hafi verið mark gengur bara alls ekki upp. ENGANVEGINN.
HINS VEGAR er það hitt sem er sjokkerandi. Það er á hversu lágu plani VAR er í Englandi. Það er endalaus umræða um VAR og PIGMOL hefur endalaust legið undir gagnrýni. Að það séu ekki verklagsreglur eða eitthvað protocol til hvernig á að framkvæma hlutina í VAR herberginu er sláandi og MIKLU VERRA en maður gat ímyndað sér. Það er enginn sem spyr dómarann hvað hann sé að dæma. Einnig segja þeir bara “check complete” en ekki “check complete – not offside” eða “onside”. ÞAÐ ER BILAÐ. Svo þegar gaurinn sem dró línuna segir að það verði að stöðva leikinn segir England bara “can´t do anything”. Jú það var nefnilega heldur betur hægt að biðja dómarann að stöðva leikinn á meðan það væri farið yfir reglur um hvort það megi draga svona augljós og alvarleg mistök til baka. A.M.K. ræða það við dómarann sem ber mesta ábyrgð á framkvæmd leiksins hvort það sé yfir höfuð heimild til að stöðva leikinn. Ég veit ekki betur en að sú regla sé nefnilega ekki til sbr. þegar ManUtd fékk víti í fyrra eftir að búið var að flauta leikinn af eftir að VAR benti á vítaspyrnuna.
Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er ömurlegt að endurtaka leikinn. En það er miklu meira í húfi verður það ekki gert. Þá sitjum við uppi með það að sé framkvæmd leiksins ekki rétt skiptir það bara engu máli. Dómari gæti þá t.d. komist upp með að dæma leik af eftir 80 mín og sagst bara hafa litið vitlaust á klukkuna. Jafnvel þó klukkan sýndi augljóslega 80 mín. Sorrý dómaramistök. Svo er hægt að dæma ekki mark þegar dómara finnst svo. Sorrý dómaramistök. Þetta bara gengur alls ekki. Við áhangendur eigum fyllilega rétt á því að framkvæmd leiksins sé í lagi þó dómarar geti haft mismunandi skoðun á hvað sé brot og hvað ekki og séð svo eftir leik að þeir hefðu átt að dæma öðruvísi. Í Tottenham leiknum átti að dæma mark en það var ekki gert þrátt fyrir að það var löglegt. Og þarna skiptir máli að dómaranum ber að fara eftir VAR niðurstöðunni.
Svo er eitt nýlegt dæmi sem mér finnst útskýra þetta á einfaldan hátt. Á Partille Cup í sumar áttust við Íslandsmeistarar í 4. flokki í handbolta á móti Svíþjóðarmeisturunum. Svíarnir voru einu yfir þegar 25 sek voru eftir af leiknum og þá var brotið mjög illa á einum Íslendingnum og tíminn stöðvaður eftir að dómarinn gaf slíkt merki. Samkvæmt reglunum á að dæma víti þegar brotið er illa á leikmanni í sókn og lítið er eftir. Það gerði dómarinn ekki. Þegar leikurinn átti svo að halda áfram sagði dómarinn að það væri bara aukakastið eftir. Sem sagt hann stöðvaði ekki leikinn eins og hann gerði handabendingu um að ætti að gera. Þetta þýddi að þessar 25 sek sem voru eftir þegar brotið var voru ekki spilaðar og bara aukastið eftir sem fór forgörðum. Íslendingarnir kærðu og framkvæmd leiksins um að leiktíminn var látinn renna út. Það fyrra var úrskurðað sem dómaramistök sem ekki væri hægt að breyta en það að stöðva ekki leikinn og láta tímann renna út var úrskurðað brot á framkvæmd leiksins. Þess vegna úrskurðuðu Svíarnir að leikinn skyldi endurtaka sem var gert. Ömurlegt já. Erfitt í stuttu móti já. En Svíarnir ætluðu ekki að láta úrslit mótsins ráðast á svona mistökum og leikir skulu fara rétt fram.
Ég var augljóslega ekki búinn að skrifa mig frá þessu eins og margir hér inni hafa þörf á að gera. Ég er nefnilega algjörlega sammála þeim að verði þetta látið standa þá gilda í raun ekki heiðarlegar leikreglur og spilling og vanhæfni mun ráða þvi hverjir standa uppi með sigurvegara að lokum. Jú maður hefur horft á ManCity verða meistara með óbragð í munninum undanfarin ár en ef þetta verður ekki leiðrétt þá fer maður heldur betur að hugsa sinn gang um hvort maður eigi yfirhöfuð að vera eyða tíma í þetta yndislega sport sem getur átt hug manns allan. Jú alltaf gaman að horfa á skemmtilegt lið Liverpool en ef eina leiðin er að liðið fari í eigu spilltra eigenda þá hreinlega veit maður ekki hvort þetta sé þess virði eins og margir hafa komið inn á hér á kop.is
Áfram Liverpool!
Sæll nafni og takk fyrir pistilinn. Það er mjög hollt og mjög gott að skrifa frá sér pirringinn, þetta er eitthvað sem fleiri í lífinu þurfa að tileinka sér. Það versta við það er að sumir hafa alltaf þörf fyrir svona pirrings-skrif í athugasemdum í fréttum á Vísir.is en ættu frekar að halda sig við stílabókina heima hjá sér.
Þetta er góð greining hjá þér og gott að fá yfirvegun líka í umræðuna, það er það sem ég tek út úr þessu en hinsvegar þá verð ég að aftur að nefna þetta með að standa með okkar liði. Af hverju er það bara automatískt að Curtis fái rautt og að þarna hafi VAR verið að virka fullkomlega?
Þeir eru báðir að sparka í átt að boltanum þannig að þegar Curtis fer af stað þá er ekki eins og að fóturinn á Bissouma hafi verið þarna fyrir honum. Fóturinn á Curtis fer í boltann, rennur yfir og lendir þá á Bissouma sem nær ekki í boltann heldur er einhvern veginn að reyna að sparka undir hann. Curtis fer strax að honum og hugar að honum og biðst þá líklegast afsökunar. VAR-herbergið kallar svo Saudi-dómarann í skjáinn og sýnir bara strax pásu-mynd af fætinum á Curtis djúpt ofan í ökklanum á Bissouma. Talandi um að bjaga til sönnunargögnin.
Þessi ákvörðun að svissa yfir í rautt, eins og allar aðrar ákvarðanir í þessum guðsvolaða leik, er röng. Það að senda hann beint í sturtu og automatískt þriggja leikja bann er galið. Hvernig má það vera að Curtis sé refsað fyrir þetta með sama hætti og ef einhver með ásetningi fer með takkana á undan í saklausan leikmann?
Við verðum og eigum við þessar aðstæður að standa með okkar mönnum. Þetta er vafasamt brot, vafasamur dómur og við eigum sem stuðningsmenn að standa með okkar mönnum við þessar aðstæður. Það hefur ekkert upp á sig að spila sig eins og Sameinuðu þjóðirnar í hlutleysi við þessar aðstæður. Við þurfum að standa í lappirnar af því ég get lofað ykkur að það er enginn annar að fara að gera það fyrir okkur. Ég er ekki að segja að við eigum að horfa blint á augljós brot og taka þrjóskuna á þetta, við eigum að vera með jarðtenginguna á hreinu en þegar uppi er vafi, sérstaklega þegar dómaraskrattinn og VAR-herbergið er að gera allt vitlaust í leiknum þá er augljóst mynstur þarna í gangi.
Það eina rétta í stöðunni er einmitt að áfrýja þessu spjaldi á Curtis, þó það væri ekki nema til þess annað en að lækka þetta autómatíska bann sem hann fer í við þetta óviljaverk sem er hann, að fara í boltann, rennur til og lendir á leikamanni sem stóð síðan teinréttur upp eftir atvikið og hélt áfram leik.
Nú þurfum við bara að hrista okkur í gang og eiga góðan leik á fimmtudaginn. Okkur veitir víst ekki af að koma fljúgandi út úr þessari Europa League þar sem allt stefnir í að ManUtd verði þar með í vetur eftir að þeir hrynja út úr riðlakeppninni í Champions League.
maður hefur líka séð svona brot eins og Curtis gerði, en þá er aldrei neitt hægt að gera útaf því það er ekki alveg “clear and obivious”.
Ég er bara alls ekki sammála greinarhöfundi um að þetta hefi verið rautt spjald. Sambærileg atvik hafa fallið á milli gulls og rauðra spjalda. Þetta atvik er klárlega vafaatriði og ekki intentional þar sem hann fer af boltanum. Þessi dómari hlustaði bara á VAR ef það var gegn Liverpool og VAR herbergið gætti engrar sanngirni bæði í myndbrotum og öllum aðgerðum, sérstaklega sem sneru að Liverpool.
Ég er nú bara þeirrar skoðunar að þetta VAR dæmi er að eyðileggja fótboltann, menn geta ekki lengur fagnað mörkum, leikmennirnir og stuðningsmenn verða að bíða eftir einhverju anskotans myndbandi, þetta tekur bæði ánæjuna og stemmninguna í burtu!
Algjörlega sammála! Þessi leikur var leikinn í meira en 100 ár áður en þessi hroði kom til sögunnar og gekk bara vel. Vissulega hafa komið upp vafaatriði í gegnum tíðina en það hefur bara þótt hluti af leiknum, dómarar eru misjafnir og eiga misjafna daga eins og allir aðrir. Auðvitað stundum óþolandi að horfa upp á “heimadómgæslu” eða bara lélega dómgæslu en maður sætti sig betur við að stundum misstu dómarar af einhverjum atvikum, enda mannlegir. Það er miklu erfiðara að sætta sig við ranga dómgæslu og lélega þegar menn eru að styðja sig við tækni sem á að útrýma röngum dómum en dæma engu að síður rangt. Skiljanlega verður gagnrýnin þá þyngri og minni þolinmæði fyrir mistökum. Að mínu mati hefur marklínutæknin sannað gildi sitt en VAR er meingölluð vara sem á að henda út í hafsauga.
Kannski rétt að hafa í huga að eftir að VAR kom til sögunnar, þá hefur ekkert félag notið þess jafn mikið og Liverpool. Þ.e. dómarar eru að jafnaði mest að dæma Liverpool í óhag, en svo hefur VAR sem betur fer náð að leiðrétta það að miklu leyti. Ekki öllu samt.
Og þar hittirðu naglann þráðbeint á hausinn með síðustu setningunni. Það er einmitt málið að VAR dæmir ekki rétt í öllum tilvikum, getur það ekki, og þá sé ég ekki hvernig íþróttin er betur sett en áður. Í staðinn er ástríðan á undanhaldi, leikmenn og jafnvel áhorfendur þora vart að fagna marki lengur vegna VAR. Og momentið í leiknum drepið á meðan beðið er eftir því hvort andlitslausir sjónvarpsdómarar finni eitthvað athugavert einhvers staðar, jafnvel svo mínútum skiptir.
Djöfull hagaði Son sér kjánalega eftir leik í stað þess að horfa réttum augum á fíflaskap hjá þessum dómara og VAR kjánunum.