Það er nóg að gera í boltanum í dag, svekkjandi jafntefli gegn Brighton sem Ingimar gerir góð skil í færslunni hér fyrir neðan, og svo ætla stelpurnar okkar að taka á móti Aston Villa núna kl. 17:45 að íslenskum tíma á Prenton Park.
Leikurinn kemur í kjölfar virkilega góðs sigurs gegn Arsenal á þeirra heimavelli um síðustu helgi, fyrsti sigurinn á útivelli í úrvalsdeildinni síðan í janúar 2020. Okkar konur byrjuðu síðasta tímabili einmitt líka vel, og unnu 2-1 sigur gegn Chelsea á heimavelli, en náðu svo ekki að fylgja því eftir í næstu leikjum, og liðið veit alveg að þar má bæta.
Úrslitin í fyrstu tveim umferðunum eru reyndar alls ekki eftir bókinni, þannig er Leicester eina liðið sem er með full hús stiga, en okkar konur geta jafnað þann árangur með sigri nú á eftir. Þar á eftir koma svo City, United og Chelsea, öll með 4 stig. Alltaf gaman að segja frá því að Everton eru með 0 stig eftir tvo leiki, en þær mæta svo einmitt á Anfield um næstu helgi. Skoðum þann leik þegar þar að kemur.
Það eru ennþá meiðsli að hrjá leikmenn, en horfir nú frekar til betri vegar, t.d. er Melissa Lawley mætt aftur eftir uppskurð í vor, og svona verður stillt upp í dag:
Clark – Bonner – Fisk
Koivisto – Holland – Nagano – Hinds
Höbinger
Kearns – Daniels
Bekkur: Micah, Matthews, Parry, Lundgaard, Taylor, Lawley, Flint, Enderby
Aðeins fjölmennari bekkurinn en í síðasta leik. Kemur ögn á óvart að Miri Taylor sé sett á bekkinn eftir að hafa skorað sigurmarkið um síðustu helgi, en gott að geta hent henni inná.
KOMASVO!
1-0 í hálfleik eftir flott mark hjá Marie Höbinger, svo átti Emma Koivisto magnaða vörslu á línu. Rachael Laws aftur með virkilega góðan leik og er búin að bjarga 2-3svar.
Leikurinn sýndur á Sky Sports fyrir utan The FA Player, en reyndar virðist vera orðið erfiðara að tengjast því í gegnum VPN.
Flottur sigur. Leikurinn var líka sýndur á viaplay.
2-0! Og aftur sýna stúlkurnar stálhnefann á meðan drengirnir tapa gullnu tækifæri.