Fyrir 18 mánuðum síðan var Liverpool að klára tímabilið 2021-22 með 92 stig einu minna en Man City og hafði samhliða því farið í úrslit í bókstaflega öllum keppnum í boði. Þetta voru 63 leikir og tímabil sem kom í kjölfarið á ömurlegu meiðsla/covid tímabili þar sem Liverpool fyrir kraftaverk og Alisson Becker komst í Meistaradeildina, magnaður endasprettur gerði það að verkum að liðið náði þrátt fyrir allt 69 stigum. Síðasta tímabil var rosalega svipað tímabilinu 2020-21 og varð niðurstaðan 67 stig og 5.sæti eftir mjög góðan endasprett.
Liverpool 2.0 sem Klopp er að smíða núna er nú þegar betra en liðið sem náði í 92 stig fyrir 18 mánuðum og var rétt búið að vinna fjórar keppnir. Kjarninn er að stórum hluta sá sami, aldurssamsetningin er orðin töluvert eðlilegri og þær breytingar sem við erum að sjá á miðjunni eru stökkbreyting á því sem var fyrir. Liverpool liðið er það eina sem hefur sýnt að þeir geta keppt við Man City yfir heilt tímabil og ef við berum saman hópana hjá bestu liðunum í deildinni sé ég ekki afhverju Liverpool ætti að hafa minnimáttarkennd. Rétt eins og gerðist tímabilið 2021-22 þurfum við að fara setja tímabilið á undan í baksýnisspegilinn.
Liverpool 2.0 vs Liverpool 2021-22
Byrjum á að skoða hvernig 25 manna hópurinn hefur breyst frá byrjun sumars 2021 til byrjun þessa tímabils.
Það má vel vera að Alisson sé talin ellefti besti markmaður í heimi skv. Ballon d´or en við myndum ekki skipta honum út fyrir nokkurn annan markmann. Alisson var með +11,4 í xG markvörslum á síðasta tímabili, þ.e. hann var að verja 11,4 mörk umfram færin sem Liverpool var að gefa færi á sér með í fyrra. Næsti í deildinni var með +4,7 í xG.
Trent Alexander-Arnold og Andy Robertson eru tveimur árum eldri og með svipað back-up í sínum stöðum og þeir voru 2021/22 en hlutverk þeirra hafa sannarlega breyst töluvert í Liverpool 2.0 útgáfu Klopp. Trent er reyndar bara 25 ára og því auðvitað á besta aldri á meðan Robbo er 29 ára. Sóknarleikurinn er ekki alveg jafn háður því að þeir hlaupi báðir maraþon í hverjum leik en mikilvægi þeirra er ennþá gríðarlegt. Trent er að taka snertingar á boltann út um allann völl núna öfugt við fyrir tveimur árum er hann átti hægri vænginn.
Van Dijk var að koma til baka úr meiðslum tímabilið 2021-22 og má alveg færa rök fyrir því að hann sé að spila betur núna en hann hefur verið að gera undanfarin ár þó vissulega sé hann orðin 32 ára. Konate er núna orðin 24 ára og hægt og rólega að taka við sem lykilmaðurinn í vörninni. Matip og Gomez hafa svo báðir byrjað þetta tímabil í fantaformi, sérstaklega Joe Gomez sem þrátt fyrir allt er bara 26 ára. Þetta var einn af stóru veikleikum Liverpool farandi inn í þetta tímabil en svo hefur ekki verið raunin enn sem komið er. Quansah er svo mjög spennandi framtíðar leikmaður.
Vörnin er svipuð og hún var 2021-22, alls ekki veikari en klárlega kominn tími á hraða endurnýjun. Ef að Gomez er að ná fyrri styrk og Quansah að koma inn í þetta þarf ekki að gera nærri því jafn alvarlegar breytingar og þannig vonandi hægt að setja frekar alvöru fjárhæðir í gæðaleikmann.
Varnartengiliður er ennþá að mínu mati algjör lykilstaða í Liverpool liðinu og enn sem komið er hefur Liverpool alls ekki fengið inn eftirmann Fabinho 2021-22, hérna er liðið veikara en það var 2021-22 en leikuppleggið hinsvegar svo mikið breytt að það er erfitt að bera þetta saman.
Fabinho var frábær 20-21 og batt ansi laskaða miðu Liverpool saman. Af núverandi hópi eru Endo og Bajcetic eðlilegri sem beinir eftirmenn Fabinho og hlutverkið sem Mac Allister er að leysa er alls ekkert það sama og Fabinho leysti hjá Liverpool. Mac er miklu nær því að vera hinn raunverulegi arftaki Wijnaldum og miðjuna hjá Liverpool vantaði einmitt hann á síðasta tímabili.
Kosturinn við Mac Allister sem akkeri á miðjunni er að rúmlega helmingurinn af liðunum sem Liverpool mætir í vetur leggur leikinn upp svipað og Nottingham Forest gerði (8-1-1) og því þörf á miklu meiri sköpun frá miðjunni í heild. Leikurinn gegn Luton var þ.a.l. töluert högg og mjög svekkjandi, ekki síst frammistaða Mac Allister í þeim leik. Draumurinn er áfram að Liverpool klári uppbyggingu miðjunnar í janúar. Gleymum ekki að félagið reyndi að kaupa leikmann í þessa stöðu fyrir rúmlega 100m í lok ágúst.
Hinsvegar er búið að stökkbreyta liðinu í heild með þeim breytingum sem gerðar hafa verið framar á miðjunni. Þar er grunnurinn af því að vinna upp þau 25 stig sem Liverpool tapaði milli tímabila. Fremstur fer það í flokki Szoboszlai, hann er bestu leikmannakaup Liverpool síðan Van Dijk og Alisson stökkbreyttu sínum stöðum, frábær alhliða leikmaður og eins og hannaður fyrir Klopp fótbolta. Stenst líka mjög vel samanburð við alla aðra miðjumenn í deildinni.
Það er smá fyndið að Henderson hafi tekið eina æfingu með honum og ákveðið í kjölfarið að hætta í fótbolta (eða svo gott sem) og yfirgefa Liverpool. Rosalegt að bera Szoboszlai núna saman við það sem Henderson var að reyna á síðasta tímabili. Hann er líka mikil bæting á því sem Hendo var að gera fyrir tveimur árum þó vissulega hafi fyrirliðinn verið mjög drjúgur það tímabil.
Gravenberch virðist svo stefna í að vera alveg ekta Jurgen Klopp / FSG leikmannakaup. Leikmaður sem var fáránlega vannýttur hjá Bayern en blómstar um leið og hann fær smá ást og umhyggju frá þjálfarateyminu. Hann er bara 21 árs gamall og þakið hans sem leikmaður er töluvert hærra en það sem hann er að sýna núna og ekki langt síðan hann var lykilmaður í umræðum um þá allra efnilegustu í sinni stöðu í heimsboltanum.
Til að setja aðeins í samhengi hvað Gravenberch er ungur ennþá þá var Henderson í Sunderland 21 árs, Fabinho var í Monaco þar til hann var 24 ára og Wijnaldum var 24 ára þegar hann fór frá PSV. Maður bjóst ekkert endilega við honum í liðinu mikið fyrir áramót en núna er erfitt að sjá Jones og Elliott taka af honum stöðuna! Gravenberch kom undir lok leikmannagluggans og spilaði eina mínútu í fyrstu fimm umferðunum. Hann vantar samt bara 1-2 leiki til að vera búinn að spila meira en bæði Naby Keita og Ox voru að gera á síðasta tímabili. Hann einn og sér er stjarnfræðileg bæting frá þeim farþegum.
Curtis Jones var varla búinn að koma við sögu á síðasta tímabili fyrr en Klopp breytti um leikkerfi í lok tímabilsins og gaf Jones traustið síðustu 11 umferðirnar. Sá leikmaður og sá Jones sem byrjaði þetta tímabil er allt annar og miklu betri leikmaður en Jones fyrir tveimur árum og styrkir miðjuna hjá Liverpool ekki síður en t.d. Gravenberch. Jones er enn bara 22 ára en hefur þróast í góðan alhliða miðjumann sem getur enn bætt sig töluvert.
Harvey Elliott er einnig að fullorðnast töluvert milli ára og hefur byrjað þetta tímabil frábærlega, hann er ennþá bara 20 ára. Það var mögulega aðeins of snemmt að afskrifa hann eftir síðasta tímabil.
Eins góður og Thiago var 2021-22 þá spilaði hann ekki nema helminginn af deildarleikjunum og ein mesta bætingin sem við sjáum á Liverpool núna er að hann er ekki lengur einn mikilvægasti leikmaður liðsins.
Þegar Henderson, Milner og Fabinho fóru allir á einu bretti í sumar voru töluverðar áhyggjur af leiðtogahlutverki í hópnum, það er síður en svo að sjá að það hafi verið vandamál það sem af er tímabili og satt að segja virkar það akkurat öfugt.
Frammlína Liverpool er svo bara sú besta í deildinni og eins og þetta tímabil byrjar hefur endurnýjun sóknarlínunnar tekist mjög vel. Salah skoraði 23 mörk og lagði upp 13 fyrir tveimur árum. Hann er núna í 12 leikjum kominn með 10 mörk og 4 stoðsendingar. Allt annað að sjá hann m.v. síðasta tímabil þar sem miðja og sókn Liverpool bara náðu ekki að tengja saman. Satt að segja er það ekki honum að kenna að stoðsendingarnar eru ekki aðeins fleiri. Hann hefur því engu gleymt og er einfaldlega að spila á pari við þá allra bestu í boltanum í því formi sem hann er núna.
Darwin Nunez er farinn að skila tölum sóknarlega í ætt við það sem hann var að gera hjá Benfica. Hann er búinn að spila helminginn af þeim leiktíma sem Salah hefur fengið en er með 4 mörk og fjórar stoðsendingar í deildinni. Báðir eru þeir svo að skapa helling umfram það sem þessi einfalda tölfræði nær utan um og eins að ná stórkostlega vel saman.
Nunez er frammherjinn í dag í samvinnu við Gakpo og leysa þeir saman Bobby Firmino af hólmi. Tímabilið 2021-22 spilaði Bobby minna en 1000 mínútur í deildinni og mikilvægi hans ekkert í líkingu við það sem það var. Núna er miðjan að taka mun stærri hluta af þeirri vinnu sem Bobby var að vinna og í staðin er Liverpool að vinna með meira alvöru níur.
Diogo Jota fór í gegnum heilt ár á síðasta tímabili án þess að skora mark en hefur skorað fjögur í deildinni það sem af er þessu tímabili og spilað svipað mikið og Nunez. Hann er 4. – 5. valkostur í frammlínuna núna með Gakpo sem er ansi öflug bæting frá Minamino og Lord Origi.
Luis Diaz er svo beinn arftaki Sadio Mané og standa sig vel sem slíkur, það er samt réttara að horfa á bæði hann og Jota sem arftaka Mané því Klopp getur núna róterað sóknarlínunni miklu betur bæði milli leikja og innan leika sem er stór bæting á liðinu.
Sóknarlínan er því klárlega betri en hún var fyrir tveimur árum og breiddin miklu betri. Ætla samt ekki að fullyrða strax að þessi sóknarlína sé betri en Salah – Mané og Bobby voru þegar þeir voru upp á sitt besta saman. Breiddin núna er samt klárlega betri.
Árangur Liverpool tímabilið 2021-22 kom nokkuð á óvart því að fyrir tímabilið voru svipaðar áhyggjur af miðjunni. Hún bara brann ekki út fyrr en árið eftir og það dugði fyrir Liverpool að endurheimta miðverðina. Það lið var gríðarlega vel þjálfað lið sem þekktu frábærlega inn á hvort annan og fóru í gegnum tímabilið eins og vél. Við sáum alveg glefsur af þessu liði á síðasta tímabili í 7-0, 9-0 og 6-1 leikjum en partýið var augljóslega búið.
Núna er búið að blása lífi í allan hópinn með ferskum leikmönnum sem leysa af mjög þreyttar lappir og fyrir vikið er liðið nú þegar miklu betra og klárlega aðeins rétt að byrja.
Það sem maður skynjar samt hvað mest varðandi mun á þessu tímabili og því síðsta er að hungrið er komið aftur. Þessir ungu fersku leikmenn komu með hungrið aftur til Liverpool og eru að smita það vel út frá sér í gömlu jálkana einnig.
Liverpool 2.0 vs önnur lið í deildinni
Þökk sé vestu dómgæslu í Liverpool leik frá upphafi hefur Liverpool aðeins tapað einum leik það sem af er þessu tímabili og raunar bara einum leik í 23 deildarleikjum. Liverpool var farið að líkjast sjálfu sér undir lok síðasta tímabils og var bara 1-2 umferðum frá því að ná í Meistaradeildarsæti.
Stóra vandamálið í fyrra voru leikirnir gegn liðunum sem enduðu svo í 11.- 20. sæti. Liðunum sem pökkuðu í vörn og Liverpool náði ekki að brjóta niður. Holningin á liðinu var í henglum og í þessum leikjum beit það fastast. Man City náði 20 stigum meira í þessum leikjum en Liverpool í fyrra. Liverpool náði í 60% af stigunum í boði sem er svipað hlutfall og liðið náði í leikjunum gegn liðunum í efri hlutanum. M.ö.o. Liverpool gat ennþá klárað liðin sem þorðu að mæta þeim.
Leikmanakaup sumarsins og breyting á leikkerfi hefur mikið til snúist um að leiðrétta þetta og virðist vera á nokkuð góðri leið. Ef að Liverpool vinnur til baka þessi 20 stig gegn neðri hlutanum er ekki langt að fara til að klára mótið.
Það er sannarlega hægt að finna veikleika á þessu Liverpool liði, alltaf erum við nokkrum meiðslum frá því að lenda í vandræðum. Það nákvæmlega sama á hinsvegar við um öll hin liðin og ef við bara berum saman hópana, byrjunarlið og breidd spyr ég bara, afhverju ekki Liverpool?
Hvernig stendur Liverpool í samanburði við þessi lið?
Liverpool vs Man City
Það er enga veikleika að finna á liði Man City enda tók það sögulegt financial doping að sjóða þetta mjög svo góða lið saman. Hópurinn þeirra er ekkert rosalega stór reyndar en það er klárlega eitthvað sem Guardiola er að gera meðvitað og viljandi. Liverpool matchar þetta lið samt ágætlega upp á pappír
Markmenn liðanna skipta bókstalega með sér markinu hjá landsliðinu en Alisson er með 61 landsleik á móti 25 hjá Ederson, lítið þarna á milli en myndi ekki vilja skipta.
Trent 25 ára er betri en 33 ára Kyle Walker og með mun stærra vopnabúr, sérstaklega sóknarlega. Trent er miklu mikilvægari Liverpool en Walker er fyrir City. Hlutverk hægri bakvarðar hefur á móti gjörbreyst hjá báðum liðum og fellur nýtt hlutverk Trent mjög vel að hans helstu styrkleikum. Hann er líka að byrja mun betur á þessu tímabili heldur en í fyrra, magnað hvað smá cover frá miðjunni gerir. Samt er ekki einu sinni búið að bæta við eiginlegum varnartengilið sem er mikilvægasti samherji leikmanns eins og Trent.
Vinstramegin er á mörkunum að hægt sé að bera saman Robbo við Gvardiol sem helst hefur spilað vinstramegin í vörn City enda leikkerfi City nokkurnvegin 3-2-4-1 þar sem einn af miðvörðunum leysir meira inn sem varnartengiliður.
City er komið lengra í enduruppbyggingu á sinni vörn en Liverpool og breiddin hjá þeim er fáránleg. Gvardiol (€90m) er dýrasti varnarmaður í heimi og samanlagt með Dias (€71,6m), Stones (€55,6m), Ake (€45m) og Akanji (€20m) kostaði þessi breidd líka rúmlega €280m. Van Dijk er samt bestur í deildinni og Konate er byrjunarliðsmaður í einu besta landsliði heims. M.a.s. Matip og Gomez hafa verið að veita ágæta breidd í vetur. Það er ekkert rosalegt á milli liðanna þarna heldur nema að þarna er breidd City mjög öflug.
Langstærsti munurinn á Liverpool og Man City í dag er Rodri og breidd City í stöðu varnartengiliðs. Hér eru raunar öll hin liðin betur sett en Liverpool sem er vont þar sem þetta er ein mikilvægasta staðan á vellinum. Það er reyndar óljóst hvort hugmyndin sé endilega að fá beinan arftaka Fabinho.
Ofar á miðjunni er Liverpool hinsvegar hratt að ná Man City í gæðum, Szoboszlai 23 ára er framtíðin á meðan 32 ára De Bruyne virðist vera ekki langt frá félagsskiptum til Saudi Arabíu, hann er búinn að spila 23 mínútur í deildinni í vetur. Gravenberch, Jones, Elliott og Bajcetic er svo vægast sagt efnilegur hópur miðjumanna sem eru hvergi nærri sínu þaki. Elstur af þeim er Jones, 22 ára. Alexis Mac Allister á svo auðvitað a vera í þessum hópi líka að öllu eðlilegu.
Frammlínur beggja liða eru svo auðvitað frábærar og breiddin hjá Liverpool a.m.k. ekkert síðri en hjá City.
Liverpool vs Arsenal
Undanfarin ár hafa tvö önnur lið en Liverpool ógnað Man City í titilbaráttu, United sem náðu einhvernvegin öðru sæti á aðeins 74 stigum 2020/21 og svo Arsenal í fyrra með mun alvarlegri 84 stiga atlögu. Þetta eru sem dæmi 14 stigum og 24 stigum minna en þegar Liverpool vann ekki deildina á 98 stigum! Gegni Arsenal núna m.v. sömu eða sambærilega leiki í fyrra en -3 stig (8,3%). Þeir voru líka með fjórum stigum meira eftir 12 umferðir á síðasta tímabili. Spurningin fyrir þetta tímabil var hvort Arsenal tæki eitt skref uppávið í viðbót því það þarf meira en 84 stig til að vinna deildina. Eftir fyrsta leikhluta tímabilsins virðist svarið vera nei, en ekki útilokað.
Heilt yfir er Arsenal með ungt og mjög spennandi lið sem getur náð hærra og eigendur félagsins eru að bakka þá mun betur upp á leikmannamarkaðnum en Klopp nýtur hjá Liverpool.
Einn stærsti munurinn á liðunum Liverpool í hag er samanburður á markmönnum liðanna. Eins og Ramsdale var blásinn upp í fyrra kom ekkert á óvart að sjá hann bekkjaðan í vetur.
Trent er einnig mun betri en bæði White og Tomiyasu þó reyndar sé orðið erfitt að bera hlutverk þessara leikmanna alveg saman.
Arsenal má alls ekki við neinum skakkaföllum í vörninni, eiginlega verr settir þar en Liverpool sem er ákveðið afrek. Saliba er engu að síður að stefna í að verða einn besti miðvörður í heimi og Gabriel er mjög góður einnig. Báðir fá svo geggjað cover af miðsvæðinu sem einfaldar þeirra starf umtalsvert. Engin okkar myndi svo skipta Robertson fyrir Zinchenko.
Declan Rice er álíka forskot Arsenal í vil aftast á miðjunni og Rodri er fyrir City. Liverpool vissulega reyndi að kaupa leikmanna í þessum gæðaflokki á 100m í sumar og þar sem það tókst ekki er það skarð ennþá á liðinu.
Framar á miðjunni brúar Szoboszlai vel bilið sem Ödegaard gaf Arsenal í svona samanburði á síðasta tímabili. Gravenberch sömuleiðis. Kai Havertz hefur ekki beint verið með flugeldasýningar enn sem komið er
Saka er auðvitað að þróast í einn besta leikmann liðsins og er næst markahæstur hjá þeim með 4 mörk og fjórar stoðsendingar. Salah stenst samanburð við hann mjög vel með sín 10 mörk og 4 stoðsendingar ofan á allt annað sem hann kemur með í leik Liverpool.
Diaz og Jota standa eins vel í samanburði við Martinelli og Trossard. Martinelli hefur reyndar byrjað þetta tímabil rólega m.v. síðasta tímabil. Fremstu menn Liverpool eru eins engir eftirbátar kollega sinna hjá Arsenal.
Bæði lið mjög vel mönnuð og ættu alveg að geta staðið í Man City ef tímabilið spilast þannig.
Liverpool vs Tottenham
Tottenham fékk ansi þung högg núna vikurnar fyrir landsleikjahlé og tapaði síðustu tveimur leikjum. Blaðran er ekkert endilega sprungin en það fór töluvert loft úr henni. Helsti styrkleiki Spurs er auðvitað að liðið er ekki að einbeita sér að neinu nema deildinni.
Það er erfitt að bera saman Alisson við Vicario þar sem maður veit svo lítið um markmann Spurs. Hann hefur fengið mjög mikið hype í byrjun tímabils en er svo þegar betur er að gáð búinn að fá á sig fimm mörkum meira nú þegar (sex réttara sagt þar sem Diaz skoraði eitt enn á hann). Þessi 27 ára fyrrum markmaður Empoli þarf að sýna aðeins meira til að standast samanburð við Alisson.
Svipað má eignilega segja með bakverði Tottenham, gefum þessu aðeins fleiri leiki áður en hægt að fella stóra dóma í svona samanburði. Hafa a.m.k. byrjað mótið af miklum krafti.
Romero náði sér í þriggja leikja bann á sama tíma og van de Ven lenti í meiðslum og kemur ekki aftur fyrr en eftir áramót. Fyrir utan þá er fátt um fína drætti í hjarta varnarinnar hjá Spurs. Meiðsli VDV gætu reynst þeir sérstaklega þung.
Bissouma byrjaði tímabilið mjög vel og hefur komið endurnærður til leiks hjá nýjum stjóra. Sem varnartengiliður er hann betri en sinn gamli samherji hjá Liverpool.
Maddison meiddist líka á dögunum og verður frá fram yfir áramót. Vont fyrir þá að missa hann enda kominn með þrjú mörk og fimm stoðsendingar í deildinni. Szoboszlai og félagar standst miðju Spurs samt mjög vel snúning, jafnvel þó Liverpool sé flestar vikur að spila einum leik meira en Spurs.
Salah vs Kulusevski þarf ekki að ræða. Diaz og Jota vs Gerpið ekki heldur. Son hinsvegar hefur tekið frábærlega við kyndlinum af Kane það sem af er móti. Nunez og Gakpo hafa verið að skipta með sér hjá Liverpool þeim mínútufjölda sem Son er að spila einn hjá Spurs.
Spurs getur vel náð í Meistaradeild í vetur og ættu satt að segja að ná því, en þeir standa ekki í City. 9 leikmenn Liverpool voru raunar fáránlega óheppnir að tapa gegn þessu liði í verst dæmda leik EPL sögunnar.
Liverpool vs Man Utd
Allt þetta og United er einhvernvegin samt bara sex stigum á eftir Liverpool í deildinni! Liverpool á City úti næst á meðan United á bara Everton! Þeir eru ekkert úr myndinni í CL umræðu ef þeir ná að safna stigum áfram. Eins eiga þeir slatta inni af meiðslalistanum. Að þeir séu þó með 21 stig er viðbjóðslegt ef maður hefur séð þessa sigurleiki þeirra í vetur, hreint ekki sannfærandi.
Onana er gott dæmi um markmann sem fær mann til að meta Alisson Becker. Umræða um AWB í samaburði við Trent var heimskuleg þá og hefur gufað upp núna. Nær hann yfirhöfuð í liðið þegar hann er heill?
Meiðslavandræði miðvarða United minna á Liverpool árið sem United svindlaði sér í 2.sæti. Maguire og Evans var helsta miðvarðaparið hjá þeim núna milli landsleikja.
Forskotið sem Caseimiro gaf þeim í fyrra hefur ekki verið til staðar í vetur og gráu ofan á svart meiddist hann núna fram yfir áramót.
Á miðjunni finnst mér Mount ekki einu sinni hafa sýnt neitt merkilegra en Elliott hefur verið að gera. Gott ef McTominay hefur ekki bara verið langbesti miðjumaður United í vetur?
Sancho sem United keyptu af Dortmund átti núna að vera svar United við Salah. Ef ekki hann þá £82m Anthony. Þess í stað er annar þeirra á botni frystikistunnar vegna ego keppni við stjórann og hinn getur ekkert innan vallar og er samt einhvernvegin í meira brasi utanvallar.
Rashford (26 ára!) er að verða næsti Lingard, efnilegur út ferilinn. Hann er með eitt mark og eina stoðsendingu í vetur. Gefið mér alltaf Diaz eða Jota frekar takk.
Miðað við meðferðina sem Nunez fékk frá fjölmiðum og svona banter síðum á síðasta tímabili og raunar ennþá á þessu tímabili er magnað hvað Hojlund hefur sloppið við slíkt hjá United. Daninn er hvorki búinn að skora né leggja upp í vetur. Hann kostaði nota bene jafn mikið og Nunez.
Það er óþolandi að þetta United lið sé í Meistaradeildinni á kostnað Liverpool og samanburður á liðunum sýnir að þetta verður Liverpool að leiðrétta í vetur.
Liverpool vs Newcastle
Ef það var vont að hleypa Man Utd uppfyrir Liverpool þá var viðbjóður að missa þetta Saudi Arabíu lið líka. Newcastle er núna með 20 stig í deildinni, minna en Man Utd en verra er að þeir eru að bæta sig um fimm stig milli tímabili miðað við sömu eða sambærilega leiki.
Sjáum hinsvegar til með nóvember og desember þegar Meistaradeildin fer virkilega að taka sinn toll, þar geta þeir ekki hvílt neina leikmenn.
Heilt yfir er Liverpool blessunarlega mun betur mannað ennþá. Trippier er sem dæmi orðin 33 ára og kominn yfir sinn hátind sem undanfarin ár hafa verið. Hann hefur reyndar verið drjúgur í stoðsendingum í upphafi móts. Livramento gæti hinsvegar orðið alvöru gæða leikmaður mjög fljótlega.
Botman hefur verið meiddur undanfarið og ekki væntanlegur fyrr en um miðjan des. Dan Burn var líka að meiðast. Varnarlínan hjá þeim er þétt og mikil orka sem þeir setja í leikina en þessi hópur hræðir mann ekki mikið á pappír.
Heilatognun Tonali gæti reynst rándýr og skilur Newcastle eftir með Guimares sem einu alvöru gæðin á miðjunni. Rest af miðjunni eru samt allt góðir og mjög duglegir leikmenn sem hafa passað mjög vel inn í leikstíl Howe. Enginn samt sem maður myndi vilja í Liverpool.
Sóknarlega er Liverpool svo mun sterkara í öllum stöðum. Hjálpaði ekki að Barnes meiddist hjá Newcastle og hefur aðeins náð tveimur leikjum í vetur.
Newcastle er aðeins sjö stigum á eftir Liverpool og enganvegin úr leik í Meistaradeildarbaráttu. Það er hinsvegar spurning hvort þessi hópur haldi það út að spila í tveimur keppnum af þeim krafti sem Howe er að láta liðið spila?
Liverpool vs Chelsea
Hvað verða mörg stig tekin af Chelsea fyrir að gera hreinlega grín af FFP regluverkinu úr því að Everton fær á sig 10 stiga frádrátt? Nýjustu fréttir staðfesta annars enn á ný það sem allir vissu að Chelsea hefur svindlað á FFP frá upphafi og stórt skástrik við allt sem þeir hafa gert á þessari öld. Nú síðast var lekið upplýsingum um hliðargreiðslur frá Roman, eiiiiinmitt að hann hafi ekki stundað það frá 2003.
Sanchez það sem af er tímabili hefur eins og Onana fengið mann til að meta hvað við höfum í Alisson.
Reece James er enn einn bakvörðurinn sem átti að vera svo mikið betri en Trent! Miðvarðahópur Chelsea er fáránlegur og kostnaður í ætt við hópinn hjá Man City, samt er Silva enn að byrja alla leiki ennþá. Meiðsli hafa hindrað Chilvell að halda áfram að þróast mikið frá því hann var hjá Leicester.
Chelsea er svo auðvitað með miðjuna okkar! Caceido hefði styrkt Liverpool liðið all hressilega og líklega væri hann að spila mun betur hjá Liverpool en hann hefur verið að gera hjá Chelsea. Lavia komst hinsvegar ekki í hóp áður en hann meiddist. Þessir kappar munu vonandi sjá mun meira eftir því sjálfir að hafa ekki farið til Liverpool en félagið að hafa misst af þeim. Endo er engu að síður ekki nóg til að leysa þetta skarð!
Fernandez hefur nú ekki sýnt mikið merkilegri hluti hjá Chelsea en t.d. Jones og Gravenberch hjá Liverpool. Er hann mikið betri en samlandi sinn Mac Allister? Mögulega, ekkert sem sannar það ennþá samt.
Cole Palmer hefur verið fremst á miðjunni eða hægri vængnum og spilað nógu vel greinilega til að komast í enska landsliðið, t.d. fyrr en Harvey Elliott. Þessi strákur gæti orðið einn bjartasti punkturinn á tímabilinu hjá þeim bláu.
Sterling vs Salah er eins og aðrir í þeim samanburði nánast ekki sanngjarnt. Mudryk hefur vægast sagt ekki staðið undir verðmiðanum ennþá. Frammi eiga þeir svo Nkunku ennþá alveg inni og gæti hann skipt þá töluverðu máli. Jackson er kominn með sex mörk það sem af er móti eftir afleita byrjun á mótinu.
Chelsea er bara með 16 stig í deildinni og 11 af þeim komu núna í síðustu sex leikjum. Þeir voru með 5 stig eftir fyrstu sex umferðirnar! Samt er liðið með sjö stigum meira núna í samanburði við sömu eða sambærilega leiki á síðasta timabili.
Þetta lið og þessi hópur getur ekkert farið nema uppá við og það hjálpar Pochettino með framhaldið að geta einbeitt sér að deildinni nánast eingöngu.
Að lokum
Hópurinn hjá Liverpool í dag stenst öllum hinum toppliðunum mjög vel snúning auk þess sem innan raða liðsins er nægjanlegt know how til að klára stórar keppnir.
Aftast á miðjunni er helst veikleiki á liðinu í samaburði við önnur lið en Liverpool er ekki að leysa það verr en svo að þeir hafa ásamt Arsenal fengið á sig fæst mörk í vetur. Vinnslan á miðjunni í heild er miklu betri og holningin á liðinu öllu miklu betri fyrir vikið. Auk þess sem Liverpool sannarlega reyndi að kaupa leikmann á 100m í þessa stöðu. Það eru líka veikleikar á hinum liðunum og hjá flestum mun stærri en það sem við erum að tala um hjá Liverpool.
1-1 tapið gegn Luton er í raun það sem helst slær mann nógu fast niður á jörðinni eftir byrjun þessa tímabils.
Góða er að Liverpool 2.0 virðist bara rétt að vera byrja sína vegferð og ljóst að þessi hópur á meira en nóg inni.
Sigur á Ethiad og við setjum allar vélarnar í gang
Game On
Það besta sem ég hef séð skrifað um liðið þetta haustið — sammála hverju orði!
Hvernig meta Koparar svo sumargluggann núna þegar líður að des?
Takk fyrir þetta yfirlit. Er sammála flestu en þó bara alls ekki um að liðið núna sé betra en liðið 2021-22. Veit ekki hvernig menn fá það út þar sem 21-22 liðið fékk 2,42 stig að meðaltali í leik á móti 2,25 stigum núna. Markatalan 21-22 var 2,47-0,68 í leik og núna 2,25-0,83 í leik. Finnst óþarfi að slá þessu fram með samanburðinn þó vissulega líti liðið vel út núna og ætla ég alls ekki að draga úr því. Þar fyrir utan finnst mér alls ekki tímabært að taka svo afgerandi stöðu þegar erfiðasti tíminn er frammundan og spurning hvernig nýir (og gamlir) leikmenn koma út úr þeim kafla. Svo spila meiðsli inn í enn okkar lið hefur oftar en ekki undanfarin ár lent í endalausum hremmingum sem dregið hefur verulega úr árangri. Til að halda væntingum í hófi og benda á tækifæri til bætinga……
….vantar enn alvöru arftaka Fabhino
….veikleiki á vinstri kanti þegar Robbó er ekki með
…færanýting er enn í slakari lagi amk hjá Nunez
….spurning hvort VvD haldi fullu gasi allt tímabilið
Svo er það lögmálið um að allt leiti í einhverskonar jafnvægi. Finnst enn að að liðið 2018-22 hafi verið það gott að það hafi átt að vinna miklu fleiri titla.
Sælir félagar
Mjög góður pistill Einar og takk fyrir það.
Það er nú þannig
YNWA
Takk fyrir þennan frábæra lestur Einar.
Ég er mjög bjartsýnn á uppbyggingu liðsins og vona heitt og innilega að keyptur verði djúpur nagli í jánúar.
Takk fyrir enn einn frábæran pistil meistari Einar. Mjög skemmtileg og fróðleg lesning.
En aðeins smá þráðrán. Hvað finnst mönnum um þessa kosningu hjá liðunum í EPL. Þar sem þau kusu um að lið í eigu sömu eigenda mættu lána leikmenn milli liða, úff, þetta var s.s. samþykkt ! Þetta eru ógeðisliðin sem samþykkktu þetta.
Newcastle, Sheffield United, Man City, Chelsea, Everton, Wolves and Nottingham Forest.
Liðin sem eru á móti þessu eru alls ekki sátt við að sheff utd hafi samþykkt þetta, en það er í eigu einh prins í saudi. Þetta eru ömurlegar fréttir.
Nú er bara að vona að þetta drasl falli, ásamt Forest, og helst Neverton
Alltaf að fá þessa góðu kop pistla sem næra liverpool hjartað.
Finn til með stuðningsmönnum annara liða á Íslandi að hafa ekki síðu á sama leveli og ykkur.
En því miður er þráðrán Hödda sem slær mann núna.
Hvað er í gangi með enska fótboltan ætla menn að láta vafasama einstaklinga fjöldahópa ganga frá þessu ?
Það er ekkert eðlilegt að sömu aðilar eigi fleiri en 1 félag og hvað þá að menn geti bara flutt leikmenn þeirra á milli eftir þörfum.
Það að þessi aðilar séu orðnir eigendur innan um mörg af þessum félögum er orðið verulegt áhyggjuefni og guð veit hvað menn samþykkja næst.
Ef bresk stjórnvöld eða hver sem hefur völd til þess fari ekki að geta eitthvað þá endar þessi deild með ósköpum.
Vill sjá þýska módelið fyrur utan orkudrykkhar félagiðá Englandi og fá gamla góða sjarmann inn aftur.