Fulham mæta á Anfield

Fjórtánda umferðin fer að bresta á, og okkar menn fá þá heimsókn frá Lundúnaborg. Harry Wilson og félagar hjá Fulham ætla að mæta á Anfield og freista þess að skemma þessa sigurlotu sem er búin að vera í gangi á heimavelli á þessari leiktíð. Nánar tiltekið: liðið er búið að vinna 10 fyrstu heimaleikina í öllum keppnum með a.m.k. 2ja marka mun – og það í fyrsta skipti í sögu félagsins! Það að vinna fyrstu 10 heimaleikina yfirhöfuð (þá með 1 marki eða meira) er líka sjaldgæft, og hefur bara gerst 3svar áður í sögu félagsins. Fyrst tímabilið 1893-1894, þá lék liðið í næstefstu deild og endaði á að vinna deildina það ár. Næst tímabilið 1972-1973 í efstu deild, og liðið vann deildina það árið. Svo að lokum tímabilið 1985-1986, og jújú liðið vann deildina það árið. Tilviljun? Kemur í ljós…

Það eru allar líkur á að Mohamed Salah spili tímamótaleik á morgun, en ef hann spilar þá verður það leikur nr. 300 fyrir Liverpool. Hann hefur n.b. spilað í 92% allra leikja sem Liverpool hefur spilað frá því hann kom til félagsins. Það eru meira og minna bara 3 ástæður fyrir því að hann hefur ekki spilað í þessum 8% leikja: a) Afríkukeppnin, b) Leikurinn sem um ræðir er í deildarbikarnum og það þurfti að gefa kjúklingunum séns, c) Covid. Við tölum held ég ekki nóg um það, en Salah hefur hægt og bítandi verið að klífa sig upp metorðastigann í sögu félagsins og hann mun eiga það skilið að verða minnst á sama tíma og Dalglish, Rush og Gerrard. Það eina sem gæti mögulega vantað til að gulltryggja þann sess er að ná í aaaaðeins fleiri bikara. Ég hef fulla trú á að Salah sé ekki hættur í titlasöfnuninni fyrir félagið.

Sameiginlegt lið

Það eru allnokkur dæmi um leikmenn sem hafa farið beint frá öðru félaginu til hins, og svo eru einhverjir sem komu við hjá öðru félagi í millitíðinni eins og t.d. Danny Murphy. Bara núna á síðustu árum þá hafa þeir Harvey Elliott og Fabio Carvalho komið til Liverpool eftir að hafa spilað fyrir Fulham, en á móti hafa Fulham fengið Lazar Markovic og Harry Wilson í sínar raðir (og hafa reynst þeim afgerandi misvel).

Það er alveg HÆGT að stilla upp liði leikmanna sem hafa spilað fyrir bæði félög – fyrir utan eina vandræðastöðu – en það lítur nú samt út fyrir að þeir leikmenn sem hafi spilað fyrir bæði félög hafi frekar átt það til að spila framarlega á vellinum:

???

Finnan – Money – Riise

Elliott – Murphy – Houghton – Babel

Carvalho

Collymore – Beardsley

Á bekknum gætum við svo haft kappa eins og Markovic, Sheyi Ojo og Karl-Heinz Riedle. Jú og svo Paul Konchesky. Ef mamma hans myndi leyfa honum að spila.

Andstæðingarnir

Merkilegt nokk, þá er Fulham elsta atvinnumannaliðið frá Lundúnum, var stofnað 1879, og verður því 150 ára eftir 6 ár eða svo. Titlasöfnunin hefur nú verið svona upp og ofan á þessum tæpu 150 árum, stærsti bikarinn hlýtur að vera UEFA Intertoto bikarinn sem liðið vann árið 2002, reyndar voru 3 sigurvegarar í þeirri keppni, en ég er viss um að klúbburinn hefur fagnað þessum titli alveg jafn innilega þrátt fyrir það. Síðustu 10 árin hefur liðið verið í eigu Shahid Khan sem er Pakistani/Bandaríkjamaður, og Fulham er fjarri því að vera eina íþróttafélagið sem hann á. Ekki hefur félaginu tekist að halda sér stöðugt í úrvalsdeildinni á þessum síðustu 10 árum, en eftir að hafa unnið Championship deildina vorið 2022 þá líta þeir ekki út fyrir að vera neitt á förum á næstunni. Marco Silva hefur stýrt skútunni síðan árið 2021, og virðist hafa náð að rétta skipið af.

Liðið kemur inn í þennan leik í 14. sæti deildarinnar, og hefur svosem ekkert verið að brillera eitthvað afgerandi í síðustu leikjum, en unnu þó Úlfana 3-2 á heimavelli í síðasta leik eftir að hafa fengið tvær umdeildar vítaspyrnur. Síðustu leikir þessara tveggja liða hafa nú verið flestir okkar mönnum í vil, en þó gerðu liðin jafntefli fyrir ári síðan í opnunarleik tímabilsins og reyndust þau úrslit gefa tóninn fyrir gengi okkar manna það tímabilið. Þá var Mitrovic í fremstu röð, en hún er hann farinn að elta olíupeninga og verði honum bara að góðu með það. Í staðinn eru það Jimenéz og Willian sem leiða línuna með Palhinha og Harry okkar Wilson með sinn eitraða vinstri fót ekkert langt undan þar fyrir aftan.

Okkar menn

Byrjum á meiðslalistanum:

  • Thiago Alcantara
  • Stefan Bajcetic
  • Andy Robertson
  • Alisson Becker
  • Diogo Jota

Þarna er búið að höggva ansi stór skörð í liðið okkar, stærstu skörðin hljóta að vera þeir Robbo og Alisson, enda eru þetta báðir leikmenn sem eru með bestu leikmönnum í heimi í sinni stöðu ef ekki bara sá besti (a.m.k. í tilfelli Alisson). Kelleher spilaði síðast í deildinni í maí gegn Southampton og fékk þar á sig 4 mörk, og hefur ekkert verið að heilla eitthvað afgerandi í þessum Evrópu- og deildarbikarleikjum sem hann hefur fengið í haust, en sýndi þó áberandi betri leik á fimmtudaginn og hélt hreinu með nokkrum góðum vörslum. Við vonum bara að hann haldi því áfram á morgun, tækifærið fyrir hann að blómstra og sýna hvað í hann er spunnið er sannarlega komið.

Þá hefur Kostas Tsimikas sýnt í síðustu tveim leikjum að það er alveg fínasti leikmaður þarna. Hvort hann sé nægilega stöðugur til að spila með Liverpool til lengri tíma á eftir að koma í ljós, en hann fær einmitt sama tækifæri og Kelleher til að sýna það núna fram að áramótum a.m.k. því það er ekki von á Robertson fyrr en í fyrsta lagi þá og líklega ekki fyrr en kannski undir lok janúar.

Það eru annars nokkrar stöður þar sem Klopp er kannski með smá valkvíða. Hann er með 4 í framlínunni en spilar sjálfsagt bara 3. Salah er sjálfkjörinn, Nunez er með góða tölfræði í haust heilt yfir en er svolítið “annaðhvort eða” leikmaður: annaðhvort finnur hann fjölina sína og er stórhættulegur, eða þá að hann getur ekki skorað þó hann fái borgað fyrir það (sem hann fær) og þó svo honum séu rétt dauðafærin á silfurfati. Gakpo hins vegar skoraði 2 á fimmtudaginn og minnti aðeins á hvað hann er fær um. Svo er það miðjan: Gravenberch átti virkilega góða innkomu gegn City og gerði þar með sterkt tilkall til byrjunarliðsstöðu með Dom og Mac, en svo var leikurinn á fimmtudaginn heldur síðri, á meðan Elliott átti aftur á móti virkilega góðan leik, en Elliott er hins vegar tæpast að fara að ýta Szoboszlai úr þessari stöðu hægra megin á miðjunni. Nú og svo er Jones þarna líka, og þó hann hafi ekki heillað gegn City þá þarf hann kannski bara að fá tækifæri fljótt aftur.

Vörnin er svo að mestu sjálfvalin, Matip virðist vera kominn fram fyrir Konate í augnablikinu, en annars hefur Quansah verið að heilla undanfarið og það væri bara margt vitlausara en að verðlauna hann fyrir góðar frammistöður með því að leyfa honum að fá mínútur í deildinni. Á samt tæplega von á að hann byrji á morgun.

Setjum þetta a.m.k. svona upp:

Kelleher

Trent – Matip – Virgil – Kostas

Szoboszlai – Mac Allister – Jones

Salah – Gakpo – Nunez

en yrðum ekkert hissa þó svo við sæjum t.d. Díaz byrja og þá annaðhvort Nunez eða Gakpo fremstir. Eins yrði maður ekkert gapandi hissa að sjá Gravenberch þarna í stað Jones.

Á bekknum verða svo höfðingjar eins og Adrian og fleiri, hann fékk ekki að vera á bekk á fimmtudaginn enda ekki skráður í hóp í Evrópukeppninni sem stendur, en ekkert slíkt að hindra í deildinni.

Spáum 3-1 sigri eftir að lenda 0-1 undir með marki frá Wilson.

KOMASVO!!!!

7 Comments

  1. Takk fyrir flotta upphitun!

    Er töluvert hræddur við fjarveru Alisson, enda líklega besti og mikilvægasti leikmaður liðsins. Ligg á bæn um að liðið lyfti sér upp um eitt level í varnarleiknum.

    Svo þýðir ekkert vanmat og færi verða að nýtast.

    Áfram Liverpool!

    7
  2. En getur einhver frætt mig; af hverju í andskotanum er enginn hádegisleikur þennan laugardaginn???

    Af hverju er ekki leikur Newcastle og Man United færður í hádegið? Er ekki stórhætta á því að stuðningsmenn mæti blindfullir og stórskaði menn og mannvirki í kvöld?

    Eða er bara gott að hafa hádegisleiki eftir landsleikjahlé?

    22
    • Ég skal svara þessu eftir minni bestu vitund. Það er litið svo á, að þessi leikur hafi ekki mikið skemmtanagildi, raunar tel ég að þessi leikur hafi ekkert skemmtanagildi. Það er litið svo á, að allir leikir LFC hafi mikið skemmtanagildi, hvort sem fólki finnist það gott eða slæmt.
      Þessi leikur fer 4-0.

      YNWA

      1
  3. Sælir félagar

    Takk fyrir frábæra upphitun Daníel opg ekki miklu við hana að bæta. Ég er þó Ryan maður fram yfir Jones sem var þó að spila ansi vel síðasta misserið en er dálítið kominn í “klappa boltanum” gírinn sem er slæmt. Það er ekkert annað í boði en sigur á Anfield á morgun og ég held að leikurinn fari 5 – 0 þó það sé öruggara að bíða spá uns spákonan á Ystu Nöf vaknar af transinum. Ég er alveg hissa eins og Dude með hádegisleikinn en skil þó mjög vel að það þarf að gefa MU leikmönnum eins langan hvíldartíma og mögulegt er, elsku drengjunum sem áttu svo góða ferð til Tyrklands.

    Það er nú þannig

    YNWA

    7
    • Hvað er að frétta af Ystu-Nöf? Er búið að renna á spákaffi?

      7
  4. Flott upphitun að vanda og glæsilegt framtak þessi síða!

    Það er líka alveg ljóst að ég beini mínum viðskiptum til stuðningsaðila síðunnar eftir fremsta megni.

    Að því sögðu þá er ég þokkalega bjartsýnn og held einmitt að Evrópudeildin og bikarkeppnirnar sýni núna ágæti sitt. Það eru allir leikmenn í leikæfingu, þ.m.t. Kelleher, eftir marga alvöru leiki undanfarið.

    Þetta fer 2-1… smá ströggl en kemur á endanum

    5

Liverpool – LASK 4-0

Byrjunarliðið gegn Fulham