Það er komið að síðasta leik ársins hjá Liverpool. Heimsókn rétt norður fyrir heimaborgina á annan í jólum líkur fyrri umferðinni í deildinni nú í blálok ársins 2023, sigur þýðir að við vermum toppsætið allavega þangað til á fimmtudag. Desemberbrjálæðið er alveg að verða búið hjá Klopp, ekki að byrjun janúar gefi mikla pásu. En okkar menn fá séns á að bæta upp fyrir að hafa tapað fjórum stigum í síðustu tveim leikjum, andstæðingurinn er Jói Berg og lærifaðir hans, okkar forni fjandi Vincent Kompany.
Burnley
Þegar Burnley fóru upp í efstu deild árið 2015 urðu þeir fljótt að táknmynd bresks stórkallabolta undir stjórn Sean Dyche. Leikmennirnir voru stórir, harðir og þéttir til baka. Þeir spiluðu stálheiðarlegt 4-4-2 og börðust eins og enskir bolabítar. Sean Dyche náði meira að segja að skila þeim í Evrópusæti eitt tímabil en að lokum sprakk blaðran, liðið féll og leiðir skyldu hjá Burnley og Dyche vorið 2022.
Við tók Vincent Kompany, fyrrum fyrirliði Manchester City sem hafði verið að gera ágætis mót með uppeldisfélagi sínu í Belgíu sem þjálfari. Önnur eins (vel heppnuð) umbreyting hefur sjaldan sést á einu liði. Kompany fékk 23 leikmenn til liðsins í næstu tveim gluggum og lét rúmlega þrjátíu fara. Hann gjörbreytti leikstíl liðsins úr gamaldags stórkallabolta í fótboltann sem hann hafði sjálfur spilað sem leikmaður.
Árangurinn lét ekki á sér standa. Burnley rústaði b-deildinni í fyrra, fóru yfir hundrað stiga múrinn og voru orðnir öruggir um sæti í efstu deild þegar sjö umferðir voru eftir, sem er met. Ótrúlegt þjálfræðilegt afrek í deild sem sumir vilja meina að sé ennþá erfiðari en Úrsvalsdeildin.
Lífið hefur þó ekki leikið við Burnley á þessu tímabili. Vandinn við að spila samba bolta í efstu deild er að hin liðin eru miklu betri í að takast á við hann en í b-deildinni. Eins og stendur sitja þeir í næst neðsta sæti, rétt fyrir neðan Luton. Þeir gætu náð að lyfta sér uppúr fallsætunum með því að sigra Liverpool ef Forest og Luton tapa, en vonum að svo verði ekki. Það eru líka mikil batamerki á leik liðsins, sjö af ellfu stigum hafa komið núna í desember. Það er því ljóst að okkar menn þurfa að vera á tánum gegn þessum gaurum. Sérstaklega hinum unga Wilson Odobert sem varð yngsti leikmaður Burnley til að skora og gefa stoðsendingu í leiknum gegn Fulham um helgina.
Okkar menn
Tvö stig á heimavelli úr tveimur leikjum er aldrei gott hjá Liverpool, jafnvel þó andstæðingarnir hafi verið United og Arsenal. Trent hlýtur að vera búin að hugsa stanslaust um þetta bévítans sláarskot á Þórláksmessu og fleiri leikmenn hafa væntanlega ekki verið sáttir með sig.
Verst eftir þennan leik er að Tsimikas tókst að viðbeinsbrjóta sig í árekstrinum við Klopp og Saka. Það er einhverskonar met að vera með tvö meidda fótboltamenn í sömu stöðu, annar axlarbrotinn og hinn viðbeinsbrotinn. Væntanlega mun Joe Gomez fá hlutverk vinstri bakvarðar. Það sem er mest pirrandi við það er að þá eigum við bara Quansah til að dekka hafsentana Konate og Van Dijk. Þeir verða í hjarta varnarinnar með Trent hægra megin við sig.
Á miðjunni heldur Endo vonandi uppteknum hætti. Szoboslai og Jones voru frábærir á miðjunni gegn Arsenal og fá vonandi að halda uppteknum hætti. Frammi er sagt að Diaz hafi ekki meiðst illa gegn Arsenal en ég efa að hann byrji inná. Þá eru ekki margir kostir nema Nunez, Gakpo og Salah frammi. Spái því allavega, nema að Gakpo þurfi pásu, sem myndi þýða Salah á toppnum og Harvey á kantinum. En svona held ég að þetta verði:
Spá
Annar í jólum leikir snúast að miklu leyti um hver vill sigurinn meira. Byrjunarlið ráðast af því hver er með minnsta mjólkursýru í löppunum og hver er minnst meiddur. Málið er að það á ekki að skipta neinu máli. Liverpool eiga bara að vinna þetta 2-0. Mörkin koma frá Trent og Nunez, sem skorar úr einhverju fáránlegu færi með hælspyrnu.
Að lokum: Gleðileg jól púllarar nær og fjær!
Gleðileg Jól kæra LFC fólk nær og fjær.
YNWA
Gleðileg jól kæru Poolarar.
Vinnum þennan leik Nunez og Szoboszlai með mörkin.
Vonandi er stutt í Andy Robertson, þurfum að fá hann til baka sem fyrst.
Getið þið heimshornaflakkarar mælt með stað á Tene þar sem ég get horft á Liverpool leikinn?
Ég verð staddur á Costa Adeje svæðinu.
YNWA
Prófa?
Konate Virgil Gomez
Szobo TAA Endo Jones
Salah Darwin Gakpo
Áhugaverð uppstilling….
Gæti orðið snúinn leikur. Burnley hefur átt fína spretti og eins og önnur lið þarf ekkert að hvetja þá til dáða til að ná upp stemmingu gegn Liverpool. Í öllum meiðslavandræðunum hefði verið gott að eiga inni einn tíu árum yngri James Milner. Talandi um Milner. Samkvæmt tölfræðigögnum er hann kominn í 1000 leikja klúbbinn og einn af 23 leikmönnum sem hafa leikið 1000 leiki og skorað 100 mörk. Goðsögn.
Joe Gomez og Endo hafa verið frábærir í síðustu leikjum, long may it continue.
King Sly hefur sennilega verið með flensu og eitthvað lúinn bara. Verður dýrvitlaus í næstu leikjum.
Þannig er nú það eins og skáldið sagði.
Liverpool á að vinna þennan leik en hvort þeir vinna hann er annað mál.
Vincent Kompany er ekki þekktur fyrir að leggja rútunni eins og mörg litlu liðinn gera (Man utd) á móti okkar mönnum, okkur hefur oft gengið ílla að vinna þessi svokölluðu rútulið.
Ég trúi á jólin og jólasveinninn og ég trúi líka á að Liverpool vinni þennan leik 1-4
Og af því ég trúi á jólasveinninn þá trúi ég líka á það að Nunez sé búinn að reima á sig markaskóna og stilla miðið á markið og skori í þessum leik tvö mörk og meistari Endó potar inn einu áður en Trent lúðrar einni aukaspyrnu í netið af 30 metra færi.
YNWA.
Sælir félagar
Takk fyrir upphitunina Ingimar og gleðileg jól til allra stuðningmanna Liverpool. Þetta verður snúið eins og alltaf þegar lið leggja rútunni. Þetta gæti orðið markaveisla ef það tekst að skora snemma og þeir þurfa að skríða út úr skelinni. Ef ekki verður þetta þolinmæðivinna í baráttu við einstaka skyndisóknir og svona. Liverpool á allan daginn að vinna þennann leik en hvort það gerist . . . Ég vona hið besta en spái engum markatölum sem geta verið frá einu og upp í 5 mörk.
Það er nú þannig
YNWA
Verður þetta leikurinn sem kemur stiðningmönnum Liverpool niður á jörðina. Lélegasta lið deildarinnar með óvæntan sigur á Liverpool? 3-1 sigur Burnley og næsti mánuður verður pirringur og vonbrigði yfir leikmannakaupum og ekki kaupum FSG. Hljómar ekki svo ótrúlega.
Eða vinnur Liverpool bara 2-1 og virka í öðrum eða þriðja gír. Salah með bæði.
Áfram Liverpool og áfram Klopp!!!
Furðulegt að vera 1stigi frá toppsæti en vera ótrúlega ósáttur með spilamennsku í liðinu.
Nú horfi maður upp á Newcastle fá víti og það ódýrt, það virðist sem það þurfi að myrða liverpool leikmenn til að fá eitthvað dæmt , ég trúi því ekki en að við fengum ekki vití á móti Arsenal. Ég man ekki eftir seasoni með jafn fatal ákvörðunum í dómgæslu og svona reglulega. Þetta hreinlega er að versna og versna.
Kalla á eftir framherja liðsinns að skora! heyruru það Nunez…
Klárið verkefnið
Jota á bekknum ??