Stelpurnar mæta City

Það er nóg að gera hjá liðunum okkar þessa helgi. Strákarnir mæta jú Bournemouth síðar í dag, sjá ágæta upphitun hjá Hannesi hér neðar. U18 liðið okkar pakkaði Arsenal saman 7-1 í gær þar sem Koumas (þrenna), Kone-Doherty (2) og Danns (2) voru á skotskónum, og núna kl. 14:30 ætla stelpurnar okkar að mæta stallsystrum sínum í City eftir u.þ.b. mánaðar hlé í deildinni. Þær spiluðu reyndar við Bristol City um síðustu helgi, en sá leikur var í FA bikarkeppninni og var hvergi sýndur á netinu. Þar unnu okkar konur mikilvægan 0-1 sigur með marki frá Gemmu Bonner undir lokin, þá voru þær orðnar 10 því Ceri Holland var rekin útaf um miðjan síðari hálfleik eftir að hafa fengið seinna gula spjaldið. Þær eru því komnar í næstu umferð þar og mæta London City Lionesses í febrúar.

En í dag er það deildin, og í augnablikinu eru stelpurnar okkar í 5. sæti með 18 stig en City í 3ja sæti með 22 stig. Síðustu leikir þessara liða hafa farið á ýmsa vegu: í vor unnu þær rauðklæddu góðan 2-1 sigur á Prenton Park, en svo unnu City konur þegar liðin áttust seinast við í deildarbikarnum í haust. City konur hljóta að teljast líklegri, líka í ljósi þess að þær hafa aðeins tapað einum leik á heimavelli í einhverja 16 mánuði. Sá leikur var reyndar bara núna í nóvember gegn Brighton, svo þetta er greinilega hægt.

Okkar konur mæta sæmilega ferskar eftir jólahléið. Sophie Roman Haug var frá um síðustu helgi, en er mætt til leiks aftur. Leanne Kiernan fékk eitthvað smá bakslag, en vonandi er það ekki langvarandi. Þeirra fjarvera hefur þýtt að Natasha Flint og Mia Enderby hafa fengið tækifæri í staðinn.

Svona verður stillt upp á eftir:

Micah

Clark – Bonner – Fisk

Koivisto – Nagano – Hinds

Höbinger – Kearns

Roman Haug – Flint

Bekkur: Laws, Parry, Fahey, Matthews, Lundgaard, Lawley, van de Sanden, Daniels, Enderby

Það er spurning hvort Ceri Holland sé að taka út leikbann vegna rauða spjaldsins um síðustu helgi þó FA bikarinn og deildin séu nú tæknilega séð sama keppnin… allavega er hún ekki í hóp. Sama á við um Kiernan eins og áður sagði, þá út af meiðslum. Eins er Miri Taylor ekki í hóp, líklega er hún bara útundan því það eru 9 á bekk og komast ekki fleiri.

Leikurinn verður sýndur bæði á Viaplay sem og á Sky Sports og mögulega víðar.

Myndi alveg þiggja 3 stig í dag (og þá 6 samtals hjá báðum liðum).

KOMA SVO!!!

2 Comments

  1. Líka rétt að láta það fylgja með að stig (1 eða 3) mun þýða að liðið fer upp í 4. sæti deildarinnar, þar sem United eru að tapa gegn Chelsea í þessum töluðu orðum og verða því áfram með 18 stig.

    1
  2. 0-1! Taylor Hinds skorar, vissulega gegn gangi leiksins, en við spyrjum ekki um slík smáatriði þegar upp er staðið.

    1

Upphitun: Bournemouth á útivelli

Liðið gegn Bournemouth