Enn einn hel*!$&**)!!is hádegisleikurinn: Brentford á laugardaginn

Það verður að teljast afskaplega jákvætt, að eftir næstum því viku pásu er aftur komið að Liverpool leik! Það neikvæða hins vegar er að leikurinn er fyrsti leikur helgarinnar, byrjar á hádegi og er á útivelli.

En á móti kemur að liðið er að fá leikmenn til baka úr meiðslum, veikindum og leikbanni. Það er nú alltaf jákvætt. Það sem er EKKI jafn jákvætt er að nú segir ólyginn að Alisson hafi meiðst aftan á læri, og sé því frá næstu vikurnar. Þetta kemur ofan í fréttir af því að Trent og Szoboszlai séu báðir frá í næstu leikjum, kannski einhver smá séns að Ungverjinn nái leiknum á Wembley.

Andstæðingarnir

Þessi leikur á morgun fer eins og áður sagði fram á útivelli, nánar tiltekið á heimavelli Brentford. Þetta er einn af örfáum völlum þar sem Liverpool hefur ekki unnið sigur í efstu deild, en vissulega eru þetta ekki margir vellir. Fjöldi leikja í þessu úrtaki er nú ekkert sérstaklega mikill heldur, enda stutt síðan Brentford kom upp í efstu deild, haustið 2021 nánar tiltekið.

Það var hinn danski Thomas Frank sem kom þeim loks upp í efstu deild, og hefur stýrt þeim síðan. Þetta hefur hann gert við það góðan orðstír að hann er talinn vera á lista yfir mögulega kandídata í stjórasæti Liverpool þegar Klopp lætur af störfum (nei það er ekki enn farið að venjast að þurfa að skrifa þetta). Allar slíkar tengingar og möguleikar fjúka út um gluggann þegar dómarinn flautar til leiks, og jafnvel þó svo hann sé búinn að skrifa undir hjá FSG (sem er hæpið), þá mun hann gera allt sem í sínu valdi stendur til að hirða stigin 3 á morgun.

Brentford eru jú búnir að fá Ivan Toney til baka eftir að hann freistaðist til að taka þátt í einhverjum smá veðmálum (ekkert má núorðið), en gengið í deildinni í síðustu leikjum er búið að vera upp og ofan. Þeir unnu vissulega Úlfana á útivelli í síðasta leik, en töpuðu fyrir City í leiknum þar á undan, og töpuðu fyrir Spurs nokkrum dögum áður. Höfðu þar á undan unnið Forest 3-2 heima, og eru þá upptaldir leikirnir þeirra í deildinni á þessu ári. Síðasta ár kvöddu þeir hins vegar með því að tapa fyrir Palace á útivelli.

Semsagt, erfiður andstæðingur, og ekkert gefið, en vel hægt að vinna þetta lið. Spyrjið bara Roy Hodgson.

Leikurinn á Anfield í haust fór 3-0 sællar minningar, þar sem Salah skoraði 2 mörk og Jota eitt.

Okkar menn

Eins og áður sagði er meiðsladraugurinn enn að hrella okkur. Það myndu hvaða lið sem er sakna markvarðar eins og Alisson Becker, og það að hann hafi meiðst aftan í læri eru bara alls ekki góðar fréttir. Jújú, væntanlega var planið að Kelleher myndi spila úrslitaleikinn á Wembley hvort eð er, en núna þarf hann að taka leikinn á morgun, Luton í miðri viku, og svo væntanlega Southampton í vikunni eftir deildarbikarúrslitin. Adrian verður þá væntanlega varamarkvörður, og í Burnley leiknum þegar Alisson var meiddur voru bæði Adrian og Mrozek á bekk. Munum að Mrozek hefur aldrei spilað aðalliðsleik fyrir Liverpool. Einhver kann að spyrja “en hvað með Pitaluga?”. Jú hann er leikmaður Liverpool, en hann fór til Írlands á láni núna í janúar.

Okkur til huggunar, þá var Alisson síðast frá í einhvern tíma haustið 2019. Hvernig gekk Liverpool það tímabil? Jú mig rámar í einhvern bikar sem fór á loft í lok þess tímabils…

Rifjum líka upp að Kelleher átti a.m.k. tvær virkilega fínar vörslur í síðasta leik, þá einn á móti sóknarmanni, og svei mér þá ef hann er ekki að vaxa aðeins inn í hlutverkið eftir ósannfærandi frammistöður í haust. Ef hann ætlar einhverntímann að sanna sig, þá er þetta tækifærið. Gjörðu svo vel Kelleher minn.

Liðið mun líka sakna Trent og Szoboszlai á morgun. Það var nú kannski nokkuð ljóst í Burnley leiknum að Trent var ekkert orðinn alveg heill, en sem betur fer fór Jones nokkuð létt með að slotta inn í hægri bak fyrir hann í seinni hálfleiknum. Conor Bradley er mættur til æfinga, og allar líkur á því að hann byrji þá á morgun, nýkominn með titilinn leikmaður mánaðarins. Restin af vörninni ætti þá væntanlega að velja sig sjálf.

Miðjan er líka svona hérumbil sjálfvalin. Endo, Jones og Macca. Ekki hefur Gravenberch verið að heilla, Elliott kemur betur út sem supersub, og líklega væri það þá næst Bobby Clark sem kæmi inná, mögulega McConnell.

Svo er það framlínan. Salah er mættur til baka, Jota var kjörinn leikmaður mánaðarins í einhverju kjörinu (þau eru ansi mörg er það ekki?) og erfitt að ganga fram hjá honum. Þá er það spurningin: hver þeirra Nunez, Díaz eða Gakpo byrjar? Minnstu líkurnar á að Hollendingurinn hljóti þann heiður, hann hefur einfaldlega ekki verið að sýna það mikið í síðustu leikjum, en hvort Díaz eða Nunez fær sénsinn verður bara að koma í ljós. Persónulega myndi ég vilja sjá Nunez, enda er það þannig að liðið tapar ekki leik þar sem hann byrjar.

Semsagt, spáum þessu svona:

Eins og meiðslalistinn er, hádegisleikur, og Coote í VAR herberginu (en Michael Oliver sem betur fer á flautunni), þá er það mjög einfalt að hvaða sigur sem er verður nóg. Og þetta er ekkert flókið: það bara má ekki misstíga sig í nokkrum einasta leik sem eftir er.

3 stig á morgun, og ég myndi reyndar alveg þiggja að meiðslalistinn lengist ekki meira en orðið er.

KOMA SVO!!!!!

4 Comments

  1. Takk fyrir upphitun!

    Engin afsökun þetta sé hadegisleikur, ef Liverpool ætlar að vera með þá verður liðið að skila sigri. Sama þó það kosti meiðsli. 3 stig takk.

    Hvar horfir maður á leikinn á Akureyri?

    Áfram Liverpool og áfram Klopp!!!

    3
  2. Allison meiddur aftan í læri. Hvað er í gangi hja þessu liði?

    Verður vesen á morgun.

    2
  3. Þó að ég haldi með Brønby hér i DK og þó mér finnist líka að nafni minn Thomas Frank sé mjög góður þjálfari og skemmtilegur karakter þá held ég ekki að hann sé á listanum yfir næsta stjóra Liverpool.Við viljum og ætlumst til að um þann sem tekur við, sé lítill vafi á að sé sá besti sem í boði er .
    Liðið sem Daníel hefur valið er sennilega nógu gott til að vinna Brentford og með þessa vörn fyrir framan sig ætti Kelleher að vera sæmilega varinn og ef sóknin er söm við sig og skorar þrjú mörk þá verður sigurinn öruggur.

    3
  4. Hádegi schmádegi. Betra að mæta á þennan völl með skelþunna Brentford-últras fremur en kvöldleik með alla í rífandi gangi. Allt annað að mæta í hádegi eftir vikufrí heldur en eftir þessi hræðilegu landsleikjahlé.

    Að því sögðu þá tek ég undir lokaorð skínandi góðrar upphitunar. Þrjú stig væru virkilega kærkomin. Gerum ekki meiri kröfur.

    Er líka sammála liðuppstillingunni og legg til að félagið festi kaup á góðu heilbrigðisstarfólki áður en nýr þjálfari verður ráðinn.

    3

Gullkastið – Ekkert svigrúm fyrir mistök

Liðið gegn Brentford