Hverjir eru líklegastir til að taka við Liverpool?

Jurgen Klopp tilkynnti okkur um vonlausa ákvörðun sína að hætta sem stjóri Liverpool eftir tímabilið fyrir rúmlega einum og hálfum mánuði síðan. Þegar hann kom til Liverpool var hann svo sannarlega heitasti bitinn á markaðnum og miðað við veðbanka og vilja mikils meirihluta stuðningsmanna Liverpool erum við vonandi að fara endurtaka leikinn.

Það sem af er þessu tímabili er Xabi Alonso lang heitasta söluvaran á þjálfaramarkaðnum. Bayer Leverkusen er taplaust það sem af er þessu tímabili og verða mögulega andstæðingar Liverpool í úrslitum Evrópudeildarinnar komist bæði lið þangað. Forsvarsmenn Leverkusen hafa eðlilega engan áhuga á að missa sinn mann og hafa talað um það undanfarnar vikur að hann sé með samning og hvorki hann né félagið þurfi að gera nokkuð í sumar þrátt fyrir áhuga annarra liða. Höfum heyrt slíkar sögur áður.

Frá því fréttirnar um Klopp voru opinberaðar hafa tvær slúðursögur varðandi hvað Liverpool gerir næst nokkuð óvænt gengið upp. Michael Edwards er kominn aftur til Liverpool öfugt við yfirlýsingar frá honum sjálfum. Með honum er svo einnig kominn Richard Hughes sem tekur við starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá Liverpool. Hans skrifstofa verður líklega beint á móti skrifstofu Alonso eða þess þjálfara sem verður ráðinn í sumar.

Hughes er sagður gríðarlega vel tengdur í knattspyrnuheiminum og var t.a.m. á svipuðum tíma fyrir ári síðan í miklum samskiptum við umboðsmannateymi Xabi Alonso þar sem þeir eru einnig með Iraola núverandi stjóra Bournemouth á sinni könnu. Hvort það hjálpi eitthvað samningsviðræðum við Leverkusen eða Alonso er óljóst, en svona tegsl skaða varla.

Forysta Leverkusen hefur svo bara aukist frá þeim tíma er við byrjuðum fyrst að velta fyrir okkur næsta eftirmanni Klopp, eru núna með 10 stiga forskot í Þýskalandi.

Aðrir

Þegar við vorum að velta þessu upp síðast var komið inná að Rúben Amorim hjá Sporting væri að standa sig það vel að hann ætti líklega að vera ofar á lista. Það hefur einmitt gerst í kjölfar þess að Edwards og Hughes voru ráðnir inn. Hann er núna næst líklegastur skv. veðbönkum og verður að teljast verulega líklegur til að yfirgefa Portúgal mjög fljótlega, hvort sem það verður til að taka við Liverpool eða öðru elítu liði.

Sporting keypti hann frá Braga á €10m eftir að hann hafði verið aðeins 13 leiki sem stjóri Braga. Þar áður hafði hann stjórnað B-liði Braga í 11 leikjum áður en hann tók við aðalliðinu. Hann leiddi Sporting til fyrsta sigurs félagsins í deildinni í 19 ár árið 2021 og er með þá á toppi deildarinnar núna. Síðasta tímabil hjá Sporting var þó litlu merkilegra en hjá okkar mönnum síðasta vetur.

Amorim er aðeins 39 ára og líklegur til að verða næsta stóra nafnið úr Portúgalska boltanum. Hann hefur hinsvegar hvorki spilað né þjálfað utan heimalandsins. Liverpool gæti verið full stórt stökk frá Sporting fyrir mann með enga aðra reynslu.

Roberto De Zerbi hjá Brighton var mikið í umræðunni í byrjun febrúar og er auðvitað næsti andstæðingur Liverpool. Það hefur ekki verið sama flug á Brighton í vetur og frá því RDZ tók við sem kannski eðlilegt er m.v. hvað þeir seldu af leikmönnum í sumar. Áhugi á honum hefur dalað í samræmi við það, a.m.k. meðal stuðningsmanna.

Julien Nagelsmann er skráður fjórði líklegastur og satt að segja kemur mér á óvart að hann skori ekki ofar en De Zerbi og jafnvel Amorim. Red Bull uppeldi með töluverð tengsl við Ralf Ragnick og með reynslu af því að stýra stórum liðum þrátt fyrir að vera aðeins 37 ára.  Bayern Munchen hafði það mikla trú á Nagelsmann 2021 að þeir keyptu hann frá Leipzig á €25m. Hann var rekinn 2023 þrátt fyri að vera með betra sigurhlutfall en Tuchel hefur verið með síðan.

Af öðrum sem eru ofarlega á lista skv. Bet365 ber kannski hvað helst að nefna Marco Rose og Simone Inzaghi.

Rose er núverandi stjóri Leipzig og annar sem FSG þekkir vel til og hefur stjórnað báðum Red Bull liðunum, Dortmund og Borussia Mönchengladbach. Hann var auk þess leikmaður undir stjórn Jurgen Klopp hjá Mainz og hefur tileinkað sér margt úr hans hugmyndafræði í þjálfun. Það kemur ekki á óvart að hann sé meðal líklegustu manna hjá FSG.

Inzaghi er svo að stimpla sig inn sem eitt af stóru nöfnunum í þjálfarabransanum. Hann fór með Inter í úrslit Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili og er núna búinn að rústa Seria A deildinni. Það sem hann er að gera á Ítalíu er engu minna merkilegt en Alonso er að gera í Þýskalandi. Inzaghi hefur vissulega verið átta ár að vinna sig upp í þá stöðu sem hann er núna. Fyrst sem stjóri Lazio þar sem hann stóð sig mjög vel og síðan þá (frá 2021) sem stjóri Inter Milan, þar tók hann við ríkjandi meisturum. Inzaghi hefur hinsvegar aldrei spilað eða þjálfað utan heimalandsins og ekki víst að hans leikstíll (3-5-2) sé það sem FSG er að leita eftir?

Pep Ljinders heldur svo áfram að vera ofarlega hjá veðbönkum en það er held ég nokkuð örugglega búið að sigla þeim bát og ekkert sem bendir til að Hughes reyni að breyta því.

Thomas Tuchel er á lausu í sumar og það væri ekki í fyrsta skipti sem hann tekur við af Klopp, en takk, nei takk.

Aðrir sem eru á lista 

Xavi Hernandez er að öllum líkindum ekkert búinn í þjálfarabransanum þó hann sé að ljúka leik hjá Barcelona í sumar. Það er allt í rugli bak við tjöldin þar og hann náði samt að leiða þá til sigurs í fyrra.

Hvað er Zidane að brasa, er hann hættur?

Hansi Flick er talinn líklegur hjá t.d. Bayern og Barcelona. Jafnvel Man Utd en hefur einhverra hluta vegna ekki verið ofarlega hjá veðbönkum hvað stjórastöðu Liverpool varðar, hann er t.a.m. jafn líklegur skv. Bet365 og Abel Xavier (þurfti að lesa þetta tvisvar). Hann væri auðvitað langeðlilegasti kosturinn fyrir Bayern í sumar. Stóð sig frábærlega þar áður en hann tók við landsliðinu og er ekki að gera neitt í dag.

Iraola er auðvitað vel metin af Richard Hughes og líklegur til að taka við stærra liði en Bournemouth einhverntíma í framtíðinni. En kannski ekki alveg Liverpool, ekki strax.

Prufum að taka Xabi Alonso út fyrir jöfnuna, það er öllum ljóst að hann viljum við langmest fá til Liverpool. Ef ekki hann, hver væri þá álitlegastur? 

Hvern af þessum myndir þá helst vilja sjá taka við af Klopp?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

 

22 Comments

  1. Ég er aðeins hugsi yfir því að ráða inn stjóra sem hefur litla eða enga reynslu sem þjálfari úr evrópskudeildinni eða meistaradeildinni, var ekki herra Klopp búinn að fara í nokkra úrslita leiki sem hann tapaði áður en hann náði loksins að vinna leik í úrslitum?

    Höfum við sem aðdáendur þolinmæði til þess að gefa reynsulitlum stjóra á stóra sviðinu þann tíma sem þarf ef hlutirnir ganga ekki upp í einum hvelli.

    Ég mann ekki betur en á síðasta tímabili sem var vonbrigðar tímabili þá voru menn farnir að tala um að reka Klopp þar sem hann væri útbrunninn, selja eða gefa megnið af liðinu eftir leiki sem töpuðust, vonandi eru þeir sömu að menn jappl á fjandans sokknum núna og hafa vit á að skammast sín.

    Ég dýrkaði Xabi Alonson sem leikmann og hann er að gera frábæra hluti núna sem þjálfari en hvort hann gæti gert það sama með Liverpool veit ég ekki frekar en nokkur annar.

    Unai Emery hefur ekki verið mikið í umræðunni en hann er búinn að sanna sig á stóra sviðinu og gjörbreytti til hins betra Aston Villa liðinu þegar hann tók við þeim af Steven Gerrard en hvort hann sé rétti maðurinn er annað mál.

    5
  2. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Unai Emery gæti verið besti kosturinn núna, ef Xabi næst ekki.
    Hann var hundleiðinlegur sem stjóri Arsenal en hefur stórbætt enskuna sína og er fínn þar í dag.
    Hann spilar mjög skemmtilegan og sóknarsinnaðan fótbolta og er orðinn mjög reynslumikill og kann að vinna titla (evrópudeild).
    Held að hann væri svona öruggasti kosturinn í dag til að halda áfram að vinna með liðið og að halda því í fremstu röð. Hann er of góður stjóri til að vera með Aston Villa.

    6
    • Tæki Emery fram yfir alla á þessum lista.

      1. Alonso
      2. Postecoglou
      3. Emery

      5
  3. Xabi Alonso hefur kannski ekki reynslu sem stjóri í úrslitaleikjum en hann hefur svo sannarlega reynsluna sem leikmaður og það hefur hann fram yfir Klopp þegar hann hóf sinn þjálfaraferil. Ættum að setja allan fókus á að landa Alonso en vera með gott plan B ef það gengur ekki upp.

    8
    • Held að fókusinn sé klárlega á Alonso. Könnunin er bara til að kanna hvaða tilfinningu menn hafa fyrir Plani B.

      Varðandi reynslu Alonso þá er hún ekki minni en Guardiola hafði þegar hann tók við Barcelona eða t.d. Arteta þegar hann tók við Arsenal.

      4
  4. Sælir félagar

    Á eftir Alonso sem er efstur á mínum lista þá tæki ég Simnoe Inzaghi sem er búinn að gera ótrúlega hluti á Ítalíu. Af þjálfurum á Englandi væri það Postecoglou sem er að gera miðlunglið T’ham að mjög góðu liði eða Emery sem hefur verið að gera fína hluti með A. Villa. En Alonso er alltaf efstur hjá mér hvað sem öðru líður.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  5. Hvernig var Xavier á lista hjá Veðbönkum. Maðurinn hefur enga reynslu nema með landslið Mozambique haha. Ótrúlegt

    1
    • Er ekki verið að tala um Xavier hjá Barcelona….held hann sé góður kostur ef Alonso kemur ekki…

      3
      • Nei nei hér er bara í alvöru verið að meina Abel Xavier, hann er jafnlíklegur skv. Bet365 og Hansi Flick. Segir okkur kannski hversu lítið er í raun að marka þessa lista.

        Eins er alveg ljóst að FSG er ekkert að fara útvarpa því hvaða stjórar eru undir smásjánni hjá þeim. Sérstaklega ekki ef Edwards er yfir þessu ferli. Fáum að vita þetta þegar þetta er frágengið.

        4
  6. Vonlaus ákvörðun fyrir Liverpool og stuðningsmenn … en ég skil hana mjög vel frá sjónarhóli Klopps sjálfs. Aðalatriðið er að Liverpool lendi ekki í einhverri þjálfara hringekju eins og United þar sem hver stjórinn tekur við af öðrum og því ekki unnið eftir neinni langtímasýn og plani, eða því amk aldrei hrint í framkvæmd því enginn fær tíma til þess. Það þarf að sýna næsta þjálfara þolinmæði ef svo færi að árangurinn verði kannski ekki á pari við þann sem hefur náðst hjá Klopp, svo framarlega sem ekki sé um einhverja fordæmalausa hörmung að ræða.

    2
  7. Sýnist sem að fóstbróðir minn, Sigkarl, sé alveg að hitta á naglann á höfuðið þarna. Fyrir mér er Xabi Alonso kostur nr. 1 og í raun var maður farinn að hugsa um hann sé líklegan arftaka Klopp seinna á þessum áratug áður en Klopp tók í gikkinn og kom með þessa bombu.

    Ef við tökum umræðuna upp á næsta stig og skoðum aðeins sjóndeildarhringinn þá er Simone Inzaghi sá sem ég myndi vilja fá til þess að þjálfa Liverpool. Þessi árangur hans með Inter Milan núna upp á síðkastið er svakalegur og eiginlega magnað að hann skuli ekki vera að skora hærra á þjálfararadarnum í Evrópu. Eitthvað í pokahorninu hjá honum sem við vitum ekki?

    Að því sögðu að þá er einn vinkill sem ég er að velta fyrir mér í þessu. Nú þegar búið er að staðfesta að Michael Edwards og Richard Hughes eru komnir til liðsins til að leiða reksturinn á félaginu þá hef ég verið að hugsa hvort það þurfi eitthvað ‘mótvægi’ við þá félaga? Þeir eru talnamenn, vita fátt betra en flókið og þungt Excel-skjal og skortir þá mögulega einhverja tilfinningagreind á móti sem klárlega Klopp er með doktorsgráðu í. Þyrftum við þjálfara á móti þeim sem væri drifinn áfram af ástríðu og tilfinningum sem mótvægi við hráleika gagnanna sem þeir félagar standa fyrir?

    Fyrir mér eru engir augljósir kostir sem myndu koma þar inn.

    Eina sem ég veit að ég hef engan áhuga á að fá inn einhvern óreyndan jólasvein, eitthvað svona Garry Monk-project, sem myndi gera áhorf á liðið okkar að þjáningu um hverja helgi.

    Xabi Alonso er valkostur nr. 1 – Inzaghi er close second…

    Áfram að markinu – YNWA!

    5
    • Þetta á að vera algjört forgangsverkefni Edwards/Hughes

      Trent vill vafalaust líka sjá hvað félagið ætlar að gera í kjölfarið á Klopp.

      4
      • Held einmitt að enginn sé til í að skuldbinda sig fyrr en þeir sjá hver verður í brúnni. Þetta er algjör forgangur að fá nýja þjálfara.

        1
  8. Nagelsmann fær mitt atkvæði (á eftir Alonso) og m.v. stöðuna núna þá er hann í efsta sæti í þessari kosningu okkar. Margt sem mælir með honum – reynsla úr öðrum deildum og reynsla af því að vinna í Red Bull módelinu sem við erum að sigla inn í – en ekki beint titlar (tveir með B.Munchen sem er ágæt en ekki frábært).

    Held að það sem mæli mest með honum er að hann er góður í að fóstra unga leikmenn og koma þeim upp í hóp hjá stórum liðum. Skorar örugglega hátt hjá FSG en ekki síður hjá local stuðningsmönnum. Höfum í huga að það að fá local stráka af æfingasvæðinu inn í LFC liðið er næstum því jafn mikilvægt fyrir stuðningsmenn í Liverpool eins og að vinna titla. Á eftir eigandanum, þá eru það stuðningsmennirnir sem eiga sæti á Anfield og syngja söngvana sem hafa mest um þetta að segja.

    Það er annars mögulegt að finna skemmtileg rímorð fyrir Alonso, en fyrir nýja söngva, hvað í andsk. rímar við Nagelsmann??

    4
  9. Enn eitt late comeback hjá Liverpool í dag og mikið var gaman að sjá Sven-Göran brosandi út að eyrum á þjálfarabekknum. Virkilega vel gert hjá Klopp & co að bjóða honum á Anfield!

    11
  10. Virkilega fallegt að horfa á Erikson stjórna LFC legneds í dag , og alltaf flott að sjá GERRARD og TORRES saman. Fullur völlur og frábær stemning. MAGNAÐ !
    Ég er núna að horfa á Þýskaland slátra Frakklandi, og guð minn góður hvað ég vona að við náum að kaupa Wirtz og Musiala. Þvílíkt efnilegir leikmenn hérna og þeir bestu í þessu þýska liði.
    Vona að Klopp græji þetta áður en hann hættir 😉

    4
  11. Umræðan undanfarna daga er farin að snúast meira að Rúben Amorim. Hér er áhugaverð grein um kappann:

    https://theanalyst.com/eu/2024/03/ruben-amorim-sporting-impact-demand/

    Sýnist hann vera hrifinn af 3-4-3 uppstillingu og eftir því sem ég les meira um hann, þeim mun meira heillaður er maður af honum. Hann var líka þokkalegur leikmaður þegar hann var upp á sitt besta inn á vellinum, vann nokkra titla í Portúgal og virðist vera með metnaðinn til þess að ná ekki síðri árangri við hliðarlínuna. Efast ekki um að Portúgala-tengingin eigi eftir að ýta hressilega undir áhugann hjá nafna mínum 🙂

    Við þetta bætist síðan að nú hefur Bayern verið í beinum viðræðum við de Zerbi á undanförnum vikum. Það þýðir að þeim er ekki að verða eins ágengt með Xabi Alonso eins og vonir þeirra stöðu til.

    Þetta er allt góðar fréttir fyrir okkur og gaman að upplifa þá tilfinningu að við séum í bílstjórasætinu á þessum rúnti!

    2
  12. Er ekkert að frétta af leikmönnum sem eru að fara að detta af meiðslalistanum fræga og fara að detta á leikskrá fljótlega ?
    Hverjir eru næstir til baka og líklegastir til í að vera í hóp um helgina ?

    1
    • Sýnist á ubjartsýnismræðunni að Konate, Curtis og TAA séu væntanlegir næst inn og ættu að vera klárir fyrir leikinn gegn Brighton. Restin eins og Alisson og Jota séu síðan klárir fyrir ManUtd-leikinn.

      3

Gullkastið – Lognið Á Undan Síðasta Storminum

Merseyside derby hjá stelpunum