Julian Ward líka kominn til baka

Arne Slot búinn að skrifa undir?

Það er nokkuð auðvelt að draga þá ályktun að á seinni hluta stjóratíðar Jurgen Klopp hafi eitthvað breyst í samvinnu hans við Michael Edwards og marga af þeim lykilmönnum sem unnu undir honum við rekstur félagsins, þá sérstaklega leikmannamál. Bæði samninga við núverandi leikmenn og auðvitað kaup á leikmönnum.

Það kom verulega á óvart sem dæmi þegar Michael Edwards tilkynnti að hann ætlaði að hætta á sínum tíma, loksins þegar hann var búinn að vinna sig upp á topp hjá Liverpool sem var á sama tíma besta lið í heimi. Virkaði satt að segja galið. Félagið er samt það vel rekið að FSG tilkynnti um leið hver arftaki hans yrði og hann var þá þegar að vinna með Edwards og gerði í sex mánuði til viðbótar. Julian Ward entist hinsvegar bara í 12 mánuði og sagði líka upp eftir að hafa á rúmlega áratug unnið sig upp í toppstöðuna hjá Liverpool.

Mögulega eigum við eftir að fá djúsí ævisögur á næstu árum þar sem fram kemur hvað gekk raunverulega á bak við tjöldin en það blasir aðeins við að samstarfið hafi orðið erfiðara eftir því sem á leið. Það var t.d. ekkert eðlilega ósannfærandi frá sjónarhóli FSG þegar Jörg Schmadtke var ráðin í staðin. Með virðingu fyrir honum þá er þetta líklega kunningi Jurgen Klopp sem var hættur í boltanum og hafði aldrei unnið á Liverpool leveli, ráðin í afleysingar sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool. Ekki að hann stóð sig eflaust mjög vel, en þetta var klárlega ekki skv. sannfærandi langtímaplani. Með Edwards og Ward hættu líka einhverjir af nördunum sem hrósað hefur verið í hástert undanfarin ár. Klopp var í raun sá eini sem var eftir sem maður treysti á.

Núna þegar hann er að hætta koma bæði Edwards og Ward aftur um leið. Báðir hafa hafnað mjög stórum tilboðum frá öðrum liðum og velja að koma aftur til FSG en vissulega í öðruvísi hlutverk. Er það málið, eru þeir að koma í svona mikið meira spennandi verkefni að FSG tókst að sannfæra þá eða er brottför Klopp einhver partur af ástæðunni?

Edwards, Ward og Pedro Marques verða allir meira bendlaðir við FSG og áætlanir þeirra um að stækka fótboltakökuna sína. Marques var áður lykilmaður hjá Man City í þeirra uppbyggingu á eignarhaldi margra klúbba en er núna að koma frá Benfica í heimalandinu til FSG. Hann líkt og Edwards og Ward er stór ráðning og eftirsóttur aðili sem sýnir kannski metnað FSG fyrir þessu verkefni. Hvaða þýðingu endurkoma þeirra hefur nákvæmlega fyrir Liverpool er mjög erfitt að segja. Richard Hughes er klárlega nýji Edwards og sá sem verður með skrifstofuna á móti Slot.

Eitt af því sem blasir aðeins við að hafi skapað núning milli Klopp og Edwards á sínum tíma var þegar ákveðið var að framlengja við alla helstu lykilmenn liðsins með mjög stórum langtímasamningum í stað þess að vera meira ruthless og kveðja suma þeirra áður en lappirnar fóru að gefa sig. Klopp er sérstaklega sagður hafa beitt sér fyrir því gegn vilja Edwards að framlengja við 31 árs gamlan Jordan Henderson með fjögurra ára samningi sem gerði hann að einum launahæsta leikmanni liðsins. Eins var samið við t.d. Alisson, Van Dijk, Robbo og Fabinho á samningum sem tók þá vel yfir þrítugt.

Þá er spurning hvort fleiri leikmenn sem enganvegin voru að skila nægjanlega verðmætum afköstum hafi líka valdið núningi? Liverpool virðist oft vera rosalega lengi að losa sig við farþega.

Sumarið 2021 eftir ömurlegt tímabil var samið við helstu lykilmenn liðsins nema Wijnaldum sem fór á frjálsri sölu og bara keypt Konate í staðin. Megnið af fjárhæðinni sem fór í þau leikmannakaup kom með sölu á Wilson, Shaqiri og Awoniyi. Erfitt að gagnrýna þennan glugga í ljósi þess að Liverpool var nálægt því að vinna bókstaflega allar keppnir í boði árið eftir en hefði ekki verið hægt að byrja endurnýjun liðsins meira þarna og vinna eftir langtímaplani? Dönsuðu Edwards og Klopp alveg í takt þarna?

Julian Ward kom sumarið 2022 og þá var bara selt Sadio Mané auk nokkurra yngri leikmanna og aukaleikara. Diaz kom í janúar þá um veturinn og um sumarið bættist Nunez við. Gakpo kom svo sex mánuðum eftir það.

Þrumurosarisaheljarinnarskitan sumarið 2022 var hinsvegar að klára ekki kaup á nýjum miðjumanni heldur enda gluggann á panic Arthur Melo lánsdíl sem fór þannig að sá leikmaður spilaði ca 8 mínútum meira en Thiago er að gera í vetur.

Ef að allt hefði verið í himnalagi hjá Liverpool bak við tjöldin hefði félagið mjög líklega verið betur undir það búið að ná ekki að landa kaupunum á Aurélien Tchouaméni og verið með eitthvað aðeins gáfulegra back-up. Hefðu þessi leikmannakaup heppnast hefði Liverpool léttilega náð í Meistaradeildina eftir síðasta tímabil. Rétt eins og að Liverpool hefði líklega landað titlinum í ár hefði Thiago náð þó ekki væri nema helmingnum af tímabilinu.

Richard Hughes er sagður vera mjög hreinskilinn og tölfræði miðaður, vonandi tekur hann fyrr á svona mikilvægum farþegum. Thiago er t.a.m núna að klára sitt fjórða tímabil hjá Liverpool. Hann hefur spilað 4.600 mínútur í deildinni á þessum tíma eða samtals um 52 leiki. Liverpool klárar um næstu helgi 152.deildarleikinn á þessum tíma. Thiago hefur spilað 34% af þeim. Ekki heldur gleyma að á sama tíma var meira og minna öll miðjan í meiðslum fyrir utan bara hann. Þetta versnar bara ef við horfum aðeins á síðustu tvö tímabil, þar hefur Thiago náð að spila samtals ígildi 14 leikja eða 18%

Þetta er rándýrt.

Það voru gerðar mjög jákvæðar breytingar á miðjunni síðasta sumar en allt virkar þetta aðeins bónusútgáfan af því sem til stóð skv. sögusögnum hvers sumars undanfarin ár.

2022 voru væntingarnar til að byrja með Aurélien Tchouaméni – enduðum með Arthur Melo á láni

2023 var það Jude Bellingham í nánast heilt ár, en leyst með Mac Allister og Szoboslai sem er nær því við viljum sjá frá Liverpool. Sama sumar fór hinsvegar svipað og árið áður hvað djúpan miðjumanna varðar. Núna var gert 100m boð í Caicedo en einhvernvegin enduðum við með Wataro Endo frá Stuttgart. Flottur leikmaður en enganvegin langtímalausn. Vonandi kemur Liverpool beittara til leiks núna í sumar.

Arne Slot búinn að undirrita?

Tökum því með fyrirvara en Fabritzio Romano fullyrðir að Arne Slot sé búinn að undirrita samning við Liverpool og Mirror heldur því fram að hann muni flytja í húsið sem Jurgen Klopp er í núna. Liverpool FC keypti húsið af Brendan Rodgers sem hafði áður keypt það af Steven Gerrard. Slot verður því þriðji stjóri Liverpool til að búa í þessu húsi í Formby.

Það er hinsvegar spurning hvort Liverpool tilkynni nýjan stjóra nokkuð formlega fyrr en eftir næstu helgi þegar við erum búin að kveðja Klopp og Slot búinn að klára tímabilið í Hollandi?

13 Comments

  1. Flott greining hjá Einari. Kveðjum Klopp vel en munum að klúbburinn er alltaf no. 1,2,3,4&5. Ég er eiginlega ánægðastur með að við munum ekki eyða næstu 10 árum í sama ruglinu og MUn (“sööööör Alex hefði aldrei gert þetta svona” eða Keane/Scoles/any-other-prick ýlfrandi um hvað allt var miklu betra í gamla daga.

    Bless Klopp, þú varst frábær og takk fyrir allar frábæru stundirnar, en farðu þinn veg!

    YNWA

    2
  2. “Ruthless” getur alveg þýtt tvennt ólíkt:

    a) félagið losar sig við leikmann því það sér að annar leikmaður er líklegri til að hjálpa liðinu að vinna titla
    b) félagið losar sig við leikmann á meðan það fæst ennþá góð summa fyrir hann.

    Maður væri alveg til í a), en endurskoðandi félagsins vill kannski frekar b), og hvað vilja eigendur? Eru þeir að hugsa um að reka þetta sem fyrirtæki þar sem “bottom line” er bara hver hagnaðurinn sé, eða er markmið eigenda að vinna eins marga titla og mögulegt er?

    Það má spyrja sig hvort rekstur knattspyrnufélags sé ekki að einhverju leyti ólíkur “hefðbundnum” fyrirtækjarekstri hvað þetta varðar. Vissulega þurfa öll fyrirtæki – knattspyrnufélög, pulsusjoppur, tryggingafélög o.s.frv. – að skila hagnaði. Spurningin er bara hvað telst vera ásættanlegur hagnaður, og er svo fyrirtækið með eitthvað annað markmið þar að auki? Sem maður myndi telja líklegt að knattspyrnufélög hafi, þ.e. þetta með að vinna titla. En ég hef lúmskan grun um að það séu allnokkrir eigendur knattspyrnufélaga sem líti svo á að krafa stuðningsmanna um titlasöfnun vegi létt samanborið við ávöxtunarkröfu eigendanna á eigið fé.

    4
    • Leikmenn eins og t.d. Thiago, Jota, Keita, Ox, Lallana, Matip, Gomez, Jota o.s.frv sem ár eftir ár er treyst á og borgað í samræmi við mikilvægi komast ekki á völlinn í 2/3 hluta leikjanna. Það eru menn sem ekki eru að skila nægjanlega miklu framlagi og taka pláss sem líklega væri betur nýtt af einhverjum sem getur spilað 2/3 af leikjunum sem dæmi. Auðvitað er ekki hægt að komast hjá því að vera með leikmenn sem lenda í meiðslum en Liverpool er rosalega lengi að gefa slíka leikmenn upp á bátinn.

      Svona er hlutfall deildarleikja sem eftirtaldir leikmenn hafa spilað á ferli sínum hjá Liverpool sem dæmi:
      Henderson 59,2%
      Jota 42,6%
      Gomez 31,0%
      Thiago 34,0%
      Ox 21,3%
      Keita 24,5%
      Lallana 32,4%
      Jones 25,7%
      Matip 44,2%

      7
      • Hvernig er Thiago með meiri spilunar tíma en Jones ? what the actual..

        Ox …LOL

        1
  3. Mér finnst pínu skrítið að það séu núna að koma fram einhverjar sögur um núning á milli þessara aðila en ef það reynist fótur fyrir þeim Guð minn góður hvað ég er glaður að eigendurnir stóðu með Klopp en ekki Edwards og félögum á sínum tíma.

    Ég verð nú að viðurkenna að koma Edwards og félaga hræðir mig að vissu leiti því mér sýnist þeir frekar eiga að búa til peninga fyrir eigendurnar en titla fyrir áhangendur. Og þetta fer því miður ekki alltaf saman.

    Enginn af þeim sem hefur verið ráðinn að undanförnu býr að að mínu mati yfir þekkingu og reynslu sem kemst með tærnar sem Klopp hefur hælana við að kaupa og selja leikmenn og stýra knattspyrnuliði. Það er mikið áhyggjuefni.

    Við skulum svo hafa það í huga að Klopp er nánast búinn að endurnýja liðið og ef okkur lánast að halda í hópinn en bæta við heimsklassa djúpum miðjumanni og hafsent eigum við algjörlega að geta keppt aftur við Man. City og Arsenal um enska titilinn og gera áhlaup að Meistaradeildartitlinum.

    Ef fleiri veðmál, eins og ráðningin á Slot vissulega er, þá held ég að við gætum verið í slæmum málum.

    6
  4. Ég fagna endurkomu Michael Edwards og Julian Ward til Liverpool. Þeirra bíður mikil vinna sem ég hef fulla trú á að þeir leysi vel með nýjum stjóra.

    10
  5. Er að horfa á manutd-arsenal…..vona að arsenal vinni þetta ótrúlega lélega lið utd….

    5
    • Í rauninni ótrúlegt hvernig ManUnt tókst að spila vel gegn okkur. Þeir eru alveg afspyrnulélegir eins og sást vel í dag.

      5
  6. Skrýtin tilfinning fyrir leiknum á morgun. Ef við vinnum þá gleðjumst við og gerum það verkum að Tottenham mæta með allt að vinna á móti City á þriðjudag. Þannig gæti sigur okkar fært Arsenal titilinn óbeint og fært Tottenham nær CL sæti. Tap á morgun og maður verður súr og City mæta hauslausu Tottenhamliði á þriðjudag og ná yfirhöndinni um titilinn. Þannig má segja að Liverpool geti óbeint valið hvort Arsenal eða City verður meistari og hvort Villa eða Spurs fara í CL. Persónulega vil ég frekar fá Villa í CL!!

    2
  7. Af tvennu illu, þá vill allan daginn að Man City vinni titilinn frekar enn Arsenal
    Það eru tvö lið sem ég vil aldrei sjá vinna neitt og það eru Man Utd og Arsenal!

    Áhugaverður þáttur frá SKY Sport um tíma Jurgen Klopp hjá Liverpool
    Þarna kemur nokkuð vel fram það sem ég er búin að segja um stuðning eigandana við liðið og af hverju stóru titlarnir voru ekki fleiri undir einum besta stjóranum í heiminum.

    https://www.youtube.com/watch?v=x3xnSIzzhs0

    2
    • Ari, ég er algjörlega sammála þér. Get ekki hugsað mér að sá Arsenal vinna, ef Man city vinnur þá er það bara “business as usual” liðið vinnur sem er með 115 kærur á sér.

  8. Hvað er að frétta af upphitun fyrir leikinn í kvöld ?
    Eru menn bara komnir í sumarfrí 🙂

  9. FSG er fjárfestingarfyrirtæki. LFC hefur aukist að verðmætum upp að þeim punkti að það er erfitt að auka það meira sem sjálfstæðs apparats. Fjárfestingarfyrirtækið er því einfaldlega að skoða hvað er leið til að nýta reynslu/þekkingu á þeim markaði sem það er á (evrópskur fótbolti) til að halda áfram að auka verðmætin. Niðurstaðan er sú að FSG vilja vera félag sem á nokkra fótboltaklúbba í heiminum sem verða meira virði sem samstæða og sérstaklega sem getur dregið úr helstu áhættu og kostnaði við rekstur á fótboltafélagi og tengist kaupum og launagreiðslum á leikmönnum. Fyrir þá sem þekkja ekki hafnarbolta er ágætt að benda á að þetta fyrirkomulag hefur tíðkast þar í áratugi og því vel kunnugt FSG.

    Þetta verkefni FSG að kaupa annað félag/félög til að hafa færiband fyrir unga leikmenn er væntanlega megin ástæða þess að Edwards og Ward eru að koma aftur inn. Þeir eru miklu meira íþrótta/fótboltaviðskiptakarlar en nokkuð annað.

    Markmið og leiðir eru svo annað. Klopp er ekki “bissnisskall” og hans leiðir eru að mörgu leyti áhugaverðar fyrir FSG, en eru ekki í anda þess hvernig FSG starfar. Hann er hjartað sem fjárfestingafélag getur aldrei haft en skildi að var mikilvægt að hafa til að tryggja stuðning við félagið og til að ná árangri í íþrótt sem byggist á samblandi tilfinninga og skipulags. Það eru ekki margir í heiminum sem geta það sem Klopp gerir. Arne Slot er held ég að koma inn af því að FSG hræðast að hjartað hafi verið að taka framúr skynseminni. Hann viriðist meira svona stjóri sem er starfsmaður á plani og gerir það sem honum er sagt. Sjáum hvernig það þróast.

    Það er erfitt að segja hvort að það var árekstrur við Klopp eða bara tilfinning að LFC hefði komist upp að sínu náttúrulega þaki sem lið í miðlungsstórri borg sem ýtti Edwards og öðrum út. Ekki ólíklegt að margt hafi spilað þar inní, bæði það að eigendurnir voru ekki að reyna að “stækka” umsvifin, og ekki síst að Klopp er örugglega ekki auðveldur í samskiptum. Þó að ég elski hann sem stjóra LFC og hvað hann hefur gert fyrir félagið, og myndi gefa mikið fyrir kvöldstund og spjall með honum, þá held ég ekki að ég myndi vilja vinna með honum langa daga, löng tímabil. Hann er skaphundur og gríðarlega kröfuharður. Fyrir manninn með Excelskjalið er það örugglega ekki alltaf skemmtilegt.

    Verða áhugaverð ár. Klopp hefur komið okkur á “fótboltakortið” aftur og nú verðum við að sjá hvort að FGS geti fundið leið til að halda okkur sem einu af topp 5 liðum í heiminum þegar kemur að áranri. Það er svo sannarlega ekkert sjálfgefið. Sem betur fyrir erum við besta lið í heimi að öllu öðru leyti..!

    2

Gullkastið – Brot af því besta og versta

Upphitun: Aston Villa á útivelli