L’Pool 3 – Cr. Palace 2

_40522979_barospen_300.jpg**Takk Milan!!!**

[Liverpool unnu Crystal Palace á heimavelli í dag](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/eng_prem/3988121.stm). Fyrir leikinn (og í raun allan fyrri hálfleikinn) hélt maður að þetta yrði auðvelt, en þetta reyndist vera allt nema auðvelt.

Liverpool liðið lék vel í 70 mínútur, en í 20 mínútur í seinni hálfleiknum var einsog leikmennirnir hefðu algjörlega gefist upp og ekkert gekk eftir. Þetta gerðist eftir að Crystal Palace höfðu jafnað í annað skiptið. Þá virtist einsog Liverpool menn gætu ekki gert neitt rétt og á tíma fór maður að óttast um að Liverpool myndi einu sinni ná jafntefli.

En hetjan okkar, Milan Baros reddaði málunum. Harry Kewell átti glæsilega stungusendingu innfyrir á Baros, sem var felldur og réttilega dæmd vítaspyrna aðeins 1 mínútu fyrir leikslok. Baros skoraði úr spyrnunni og fullkomnaði þrennuna og tryggði Liverpool sigur.

Allavegana, Benitez stillti liðinu svona upp:

Chris Kirkland

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Alonso – Hamann – Riise

Baros – Kewell

Ég var fyrir gríðarlegum vonbrigðum með að sjá Biscan ekki inná. Og í raun gerði Hamann ekkert til að minnka þau vonbrigði. Hann og Josemi voru slöppustu menn liðsins. Í raun hlýtur það að vera slæmt fyrir sjálfstraustið hjá Biscan að hafa spilað einsog engill í síðustu leikjum en vera samt tekinn útúr liðinu fyrir Hamann.

Liverpool byrjaði þetta allt vel og sköpuðu sér nokkur færi áður en Baros var felldur í teignum og réttilega dæmd vítaspyrna, sem Baros skoraði úr. Aðdragandi vítaspyrnunnar var sérlega glæsilegur. Xabi Alonso gaf frábæra sendingu á Hamann, sem sendi hann viðstöðulaust á Baros, sem var svo felldur. Allan fyrri hálfleikinn voru Liverpool menn í sókn og sköpuðu sér nokkur góð færi. Í raun hefði Baros átt að fá aðra vítaspyrnu þegar hann var felldur.

En svo allt í einu uppúr engu þá jöfnuðu Crystal Palace menn, Kolkka fékk boltann (hræðileg mistök hjá Josemi) og smellti honum í þaknetið aðeins mínútu fyrir hálfleik. Óverjandi fyrir Kirkland.

En Liverpool brugðust frábærlega við. Baros fékk aukaspyrnu við miðlínuna. Úr henni gaf Xabi Alonso SNILLDARsendingu inná Kewell, sem gaf glæsilega fyrir á Baros, sem skoraði af stuttu færi.

Seinni hálfleikur byrjaði einsog sá fyrri endaði, Liverpool í stöðugri sókn, en eftir að Crystal Palace jöfnuðu (Hughes skoraði eftir önnur mistök hjá Josemi) þá var leikur liðsins mjög slappur. Ég var orðinn verulega þunglyndur og byrjaður að röfla óhóflega í vini mínum, sem sat með mér á Ölveri. En Baros kom til bjargar einsog áður sagði og sá til þess að maður er í góðu skapi þessa stundina.


**Maður leiksins**: Hmmmm… þetta er erfitt. Já, eða ekki. Auðvitað **Milan Baros**. Frábær leikur hjá honum. Fyrsta þrennan hans fyrir Liverpool. Þetta var Milan Baros einsog hann gerist bestur. Hljóp einsog vitleysingur og barðist um alla bolta. Hann var allt í öllu í sókninni. Sá ekkert nema markið og í hvert skipti sem hann fékk boltann skapaðist hætta. Náði í báðar vítaspyrnurnar, sem hann skoraði úr. Frábær leikur hjá Milan Baros. Hann algjörlega bjargaði deginum. Það var líka augljóst að hann **naut** þess að skora þrennuna. Hann fagnaði öllum mörkunum vel og innilega og bresku þulirnir höfðu að orði að hann væri greinilega dauðþreyttur eftir fagnaðarlætin. 🙂

Auk Baros þá má ég tilmeð að nefna Xabi Alonso, sem einnig var frábær, sérstaklega í fyrri hálfleiknum.

Semsagt, góður sigur. Við áttum þetta skilið þrátt fyrir að hafa leikið illa stóran part seinni hálfleiks. Núna erum við komin uppí 6. sæti og ef að við vinnum leikinn, sem við eigum til góða, þá getum við komist uppí 3. eða 4. sæti.

Næsti leikur er svo gegn Middlesboro næsta laugardag. Sá leikur gæti orðið eftirminnilegur fyrir þær sakir að [þessi ágæti miðjumaður](http://www.liverpoolfc.tv/team/squad/gerrard/) gæti spilað sinn fyrsta leik í langan tíma. 🙂


Viðbót (Kristján Atli): Ég er sammála því sem þú segir Einar, og mikið rosalega er maður feginn að Milan Baros skuli spila fyrir Liverpool. Ég er að skrifa þetta með kveikt á leik Birmingham og Everton fyrir framan mig, og ég hreinlega skil ekki hvernig Houllier fór að því að velja Emile Heskey fram yfir Baros síðustu tvö tímabil. Bara skil það ekki!

En allavega, mig langaði bara að bæta einu við skýrsluna. Mér fannst rétt að minnast á það, af gefnu tilefni, hversu gríðarlega góðan leik HARRY KEWELL átti í dag! Hann átti tvær frábærar stoðsendingar í þessum leik í mörkum númer 2 og 3 hjá Baros og var út um allt. Hann var að vinna bolta, ná góðu samspili við miðjumennina hjá okkur og var duglegur að skapa pláss fyrir sjálfan sig og Baros í fyrri hálfleik.

Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik og eftir að hann var færður út á kantinn sýndi hann hluti sem hann hefur ekki sýnt lengi: hann var að sóla menn og skila fyrirgjöfum inná teiginn. Hann var hreint út sagt frábær í þessum leik að mínu mati og – fyrir utan Baros og Alonso – besti leikmaður okkar í dag.

Mér fannst frammistaða hans bara verðskulda það að minnst væri á hana. Þetta var allt annað en hann hefur verið að sýna í undanförnum leikjum og ég vona að þetta hafi aukið sjálfstraustið hjá honum. Vonandi er þetta vísir að því sem koma skal.

En já, á heildina litið þá er maður rosalega feginn að við skyldum ná að vinna þennan leik. Við áttum að vera búnir að gera út um hann áður en þeir jöfnuðu í byrjun seinni hálfleiks – og það mark var rosalega lélegt varnarlega séð, hvar voru Hyypiä og Carra??? – en við sýndum karakter, liðið hélt haus og uppskar fyrir alla pressuna. Þökk sé Milan Baros!

Hann er núna kominn með 10 mörk í öllum keppnum, þar af 7 í deildinni, og ég myndi ekki veðja á móti honum sem markakóngi vetrarins eins og hann er að spila!

9 Comments

  1. Ég nefndi það um daginn (fékk engin viðbrögð þá) og nefni það aftur. Josemi hafa átt of mörg mistök sem gefið hafa mörk…
    ég held að það þurfi alvarlega að athuga hægri bakvarðastöðuna hjá okkur. spurning hvort Finnan verði ekki okkar maður þarna?

  2. Ég er ekki alveg sammála með Josemi, hann er bara nýbyrjaður hérna, gefa smá tíma :).
    Ég sá ekki leikinn því ég var að keppa í dag og því spyr ég vitið þið hvar ég get séð mörkin eða highlights?

  3. Finnur, þú getur náð í leikinn [hérna](http://football.hn.org:6969/stats.html?info_hash=304d5176e167b3e01167da2a7e0c5497c6243551). Þetta er hins vegar svakalega stór skrá og í erlendu niðurhali (þetta er BitTorrent skrá). Annars er það bara að bíða eftir mörkum vikunnar. 🙂

    Ég veit ekki alveg með Josemi. Hann hefur verið að kosta okkur ferlega mörg mörk undanfarið og í raun lang veikasti hluti varnarinnar. En auðvitað tekur það tíma að aðlaga sig enska boltanum. Ég er ekkert á því að gefast upp á honum, en það er ljóst að Benitez þarf að lesa vel yfir honum.

  4. Josemi gat nú lítið gert í fyrra markinu, hann varð að velja milli 2 möguleika, þ.e. elta manninn (Kolkka) eða loka á manninn með boltann þar sem miðjumenn höfðu sleppt honum í gegn. Hefði hann ekki lokað fyrir boltamanninn þá hefði hann verið kominn einn inn. Að mínu mati gerði hann það rétta í þessari stöðu en við óheppnir þar sem Kolkka kláraði þröngt færi eftir frábæra sendingu óaðfinnanlega.

    Varðandi seinna markið þá er hægt að skoða stöðu leikmannsins sem skoraði og velta því fyrir sér hvernig stendur á því að hann væri einn og yfirgefinn á þessu svæði.

    Mér finnst menn of fljótir að skella sökinni á Josemi, hann er massívur varnamaður en fær oft á tíðum sökina á mistökum miðjumanna!

    Annars frábær síða hjá ykkur drengir, keep up the good job!!!!!

  5. Það þarf nú að skoða málið almennilega með hann Josemi, einhver ástæða er fyrir því hversu mörg mörk og hættuleg tækifæri skapast í kringum hann, okkur ekki í hag. Kannski er þetta ekki allt honum að kenna, kannski eru samskiptin hjá hægri miðverði og bakverði ekki að ganga nógu vel, eða þá að hægri kannturinn ver bakvörðinn ekki nógu vel.
    Það sem mér þykir nú verra er þessi áhugaverði varnarleikur í “set pieces”, afhverju var Benitez að breyta því varnarkerfi úr maður á mann í einhverja svæðisvörn. Liverpool átti aldrei í neinum alvarlegum vandræðum með föst leikatriði áður, en núna koma mörg mörk í gegnum þau.
    Sem dregur mig að einum punkti enn, heyrði það í lýsingu um daginn á Skjá einum (gott ef það var ekki á móti Birmingham) að annar lýsendanna var að kvarta yfir hversu léleg dekkunin í markinu var, þegar augljóslega átti ekki að vera nein dekkun. Er svæðisvörnin svona lítið þekkt í föstum leikatriðum, eða er hún bara svona léleg?

  6. Ég bara trúi ekki hvað ég er að lesa hérna. Vitið þið ekkert um varnarleik?(sagt í kaldhæðni en ekki leiðindum :wink:)

    Josemi gerir HÁRRÉTT í fyrra markinu. Hann stígur út(ásamt Carra og Traore) og ætlar að spila sóknarmanninn rangstæðan. Hyypia hinsvegar situr eftir og því er hann réttstæður. Ef Hyypia hefði stigið út eins og hann átti að gera og allir hinir gerðu, þá hefði þetta mark aldrei komið og menn talað um hversu vel rangstöðutaktíkin hafi virkað. Þetta mark er ENGANVEGIN hægt að skrifa á Josemi. Eftir þessi mistök hjá Hyypia gerir Josemi í raun vel, hann nær að hlaupa sóknarmanninn uppi og þrengir skotvinkilinn mjög mikið. Afgreiðslan var bara glæsileg og ekkert í raun sem Kirkland eða Josemi gátu gert úr því sem komið var.

    Í seinna markinu á Josemi hlut að máli. Ég er samt ekki tilbúinn að skella skuldinni algjörlega á hann. Sóknarmaðurinn er að komast í skotstöðu og Josemi fer í hjálparvörnina. Í þessu tilfelli er spurning hvort einhver hefið ekki átt að hjálpa Josemi(Garcia?) með manninn á kanntinum(sem gaf síðan sendinguna fyrir). Josemi hefur í raun tvo kosti þarna. 1) dekka manninn úti á kanntinum. 2) fara í hjálparvörn með Carra(minnir að þettahafi verði Carra). Hann velur seinni kostinn sem í raun ég held að hafi verið réttur kostur.
    En ég vil setja meira spurningamerki við dekkninguna í teignum þegar sendingin kemur. Gæjinn var aleinn í teignum og Hyypia og Carra hvergi nálægt. Josemi á kannski einhverja sök hérna, en ég vil meina að aðalástæðan sé léleg dekkning í teignum.

    Það er ekki hægt aðkenna bara Josemi um því þetta kom hans meigin. Vissulega er Josemi ekkert stikkfrí og hefur átt nokkra slaka leiki að undanförnu, en ég get ekki með nokru móti skilið hvernig menn með smá vit á knattspyrnu geta kennt honum um þessi mörk, og þá sérstaklega fyrra markið.

  7. Djöfull er ég sammála þér “Innvortis”! Ég set alltaf spurningarmerki við þegar verið er að pikka einhvern sökudólg úr liðinu okkar. Núna virðist Josemi fá að kenna á því. Mér finnst hann ekki hafa náð þessu hraða tempói ennþá en ég hef fulla trú á honum. Hann er líkamlega sterkur, er með góðar tæklingar, sterkur í loftinu og lætur finna fyrir sér!

    Fyrra markið hjá CP kom uppúr klúðri hjá Kewell í fyrsta lagi. Hann tapaði boltanum á slæmum stað þegar liðið var að hefja sókn. Hyypia sat eftir, tók strax eftir því þegar ég sá markið.

    Ég get samt alveg tekið undir það að hægri bakk er veikasti hlekkurinn hjá Liverpool og hefur verið það síðan Snillingurinn Babbel spilaði þar eins og þýskur herforingi!

    Tek ofan fyrir baráttuglöðu liði Crystal Palace, skemmtilegt lið með stórt hjarta!

    Annars er ég skííííthræddur um að núna komi einhver jólamartraðartímabil eins og undanfarin ár! Vona samt innilega að sá púki hafi fylgt Gerard Húllifer í burtu ásamt hans hafurtaski!

    Hvað halda menn?? Er Liverpool búið að kveða í burtu jólagrýluna sem hefur hrellt okkur undanfarin misseri!?

  8. Já, ágætist punktar hjá ykkur, Svavar og Invortis.

    Ég var kannski fullharður við Josemi með að kenna honum um bæði mörkin. Eeeeeen, hann er hins vegar alltof oft í vitlausri stöðu. Kannski er þetta bara að það vantar betri samrýmingu á vörninni og Josemi lendir alltaf í baslinu.

    Allavegana, þá hefur mér fundist hættan vera mest á hægri kantinum hjá okkur. Það getur svo sem líka verið að Garcia sé ekki að vinna nógu vel tilbaka. Hver veit.

    En þrátt fyrir allt, þá tel ég að Josemi sé besti kosturinn í stöðunni, mun betri en Finnan. En hann verður samt að taka sig á. Ég held að við getum allavegana verið sammála því að hann hefur verið ansi langt frá því að spila sannfærandi í síðustu leikjum.

  9. Smá Josemi viðbót. Ekki það að við hlustum oft á Demento, en athyglisverður [punktur í viðtali við Mark Lawrenson](http://icliverpool.icnetwork.co.uk/0500liverpoolfc/0100news/tm_objectid=14877725%26method=full%26siteid=50061%26headline=better%2dfor%2ddudek%2dto%2dkeep%2dhis%2dmouth%2dshut-name_page.html). Þar segir Mark:

    >At right-back, I know some people have been criticising Josemi lately, but I think he will be all right.

    >I was at a football dinner the other week where I was talking to Sir Alex Ferguson and he is a fan of the Spaniard.

    >That’s because, in his words, “he’s aggressive and likes a tackle”. If he’s good enough for someone like the manager of Manchester United, I think he will be good enough for Liverpool.

Crystal Palace á morgun!

Stevie’s back!