Stórar vikur framundan

Liverpool er bókstaflega eina liðið í Úrvalsdeildinni sem hefur enn sem komið er ekki bætt við sig einum einasta leikmanni frá síðasta tímabili og þó að Slot taki við góðu búi af Klopp viljum við nú alls ekki að félagið sitji aðgerðalaust í allt sumar á meðan helstu keppinautar eru að reyna styrkja sig.

Endurkoma Michael Edwards og stjórnendateymis sem vinnur í hans anda hefur sýnt ágætlega í sumar að blaðamenn sem helst fjalla um Liverpool er fullkomlega í myrkrinu hvað áætlanir félagsins varðar og fá að því er virðist ekki neitt til að vinna úr nema félagið stjórni því. Nú er talað um að næsta vika verði líklega stór og jafnvel fullyrt að Liverpool muni pottþétt láta til sín taka. Sjáum til með það en ef eitthvað verður gert í sumar eru næstu tvær vikur auðvitað líklegar enda hefst mótið eftir tæplega tvær vikur, eins eru allir lykilmenn núna að skila sér til æfinga eftir stórmót og æfingaferðir í aðrar heimsálfur að baki.

Skoðum aðeins hvernig staðan er á hópunum hjá stóru liðunum í dag og þær breytingar sem hafa orðið í sumar. Þó að Liverpool sé eina liðið sem enn hefur ekki keypt leikmann þýðir það ekki að öll hin liðin hafi verið á útopnum, eins má færa rök fyrir því að Liverpool þarf ekki jafn mikið á skurðaðgerð að halda og þau lið sem helst eru virk núna.

Liverpool 

Matip og Thiago eru auðvitað farnir og skilja aðallega eftir sig pláss á launaskrá, ekki svo mikið í hópnum. Thiago hefur lítið sem ekkert verið með í tvö ár og Quansah greip tækifærið þegar Matip meiddist.

Eins og staðan er núna stækkar endurkoma Sepp van den Berg, Tyler Morton, Bajcetic, Carvalho, Jaros og Ben Doak hópinn og spurning hvort einhver hafi náð að heilla Slot nógu mikið í sumar til að eiga framtíð fyrir sér á Anfield? Gætu Bajcetic eða Morton fyllt pláss Endo? Er Carvalho ekki bara nálægt því að vera klár í slaginn? Berg er töluvert upgrade á Phillips sem vara valmöguleiki í vörninni.

Áður en Liverpool kaupir fleiri leikmenn er líklegt að nokkrir verði seldir, Joe Gomez hefur verið í umræðunni í sumar. Liverpool hefur eins fengið tilboð í Endo, Carvalho, Clark, Berg og eins er sagður vera mikill áhugi á Morton. Kelleher hefur verið orðaður í burtu í allt sumar. Framtíð Trent og Diaz er jafnvel ekki alveg 100% hjá Liverpool.

Miðvörður helst örfættur, miðjumaður ættaður aftarlega á miðjunni og sóknarþenkjandi leikmaður virðist helst vera á matseðlinum í sumar. Öll plön gætu svo farið í háaloft ef félagið selur einhverja stóra bita sem ekkert endilega blasir við að sé í kortunum núna.

Man City 

Man City hafa ekki gert neitt í sumar sem ekki var búið að klára síðasta vetur. Þeir fá Savio frá City Football Group samsteypunni sinni en sá var að standa sig frábærlega á láni hjá Girona á síðasta tímabili. Echeverri er svo 18 ára leikmaður sem þeir fá frá River Plate og er mjög mikið efni. Þeir eru með öðrum orðin ekkert búnir að láta til sín taka heldur.

Á móti hafa þeir selt þrjá unga leikmenn og lánað einn mjög efnilegan. Líklega eiga þeir eftir að losa bæði Kalvin Phillips og Cancelo áður en glugganum loka, jafnvel Ederson sem fékk mjög gott tilboð frá Saudi í sumar.

Arsenal

Líkt og undanfarin ár eru Arsenal orðaðir við fjöldan allan af spennandi leikmönnum og líklega eiga þeir eftir að klára 2-3 stór leikmannakaup í ágúst. Enn sem komið er hafa þeir þó eingögnu gengið frá kaupum á Calafiori miðverði Bolognia sem var um tíma einnig orðaður við Liverpool. Eins kláruðu þeir kaupin á David Raya sem var tæknilega séð á láni síðasta vetur.

Emile Smith-Rowe er farinn til Fulham og Elneny og Soares kláruðu sína samninga.

Arsenal er því búið að styrkja vörnina sem var fyrir mjög öflug síðasta vetur og fá auk þess Timber til baka úr meiðslum. Þeir eru núna sterklega orðaðir við Mikel Merino frá Spáni sem myndi þétta miðjuna hjá þeim ágætlega.

Þannig að það sem af er sumri er Liverpool alls ekki að sýna neitt á leikmannamarkaðnum sem bendir til að félagið sé með meiri metnað en Arsenal.

Man United

Það er vel hægt að færa rök fyrir því að þrátt fyrir gríðarleg innkaup undanfarin ár hafi United í sumar þurft að gera mun meira en hin toppliðinu og þeir eru sannarlega að því. Ten Hag framlengdi samninginn við félagið en landslagið í kringum hann er gjörbreytt. United er búið að þétta vel þjálfarastöðurnar með Ten Hag, smá svona Houllier / Roy Evans vibe yfir því og ekki ólíklegt að Ten Hagi víki um leið og á móti blæs en einhver úr þjálfarateyminu taki þá við. Eins eru öllu skarpari hnífar komnir með veskið og að sjá um leikmannakaup, því miður.

Það sem af er hefur United klárað kaupin á einu besta efni fótboltans í Yoro frá Lille. 18 ára undrabarn í miðverði, stöðu sem þeir þurfa svo hressilega að styrkja að þeir eru sterklega orðaðir við De Ligt líka frá Bayern. Það er einmitt leikmaður sem Liverpool ætti að vera all over!

Frammlínuna eru þeir búnir að þétta með kaupum á Zirkzee frá Ítalíu. Auk þess er Sancho komin til baka úr láni og virðist ætla að verða partur af United liðinu í vetur eftir fundarhöld með Ten Hag.

Varane og Kambwala eru farnir úr miðvarðahópnum, Martial og Greenwood er ekki heldur leikmenn United lengur auk þess sem Ambrabat er farinn til baka eftir lán. Donny van be Beek er m.a.s. runnin út á samningi. Það er því töluverð tiltekt búin að eiga sér stað nú þegar og líklegt að enn meira verði sópað til í ágúst.

United er ekkert mikið sterkara núna eftir þegar flautað var af í maí en þeir virðast alls ekki hættir á leikmannamarkaðnum í sumar.

Chelsea

Hvernig í veröldinni öll umræða um Chelsea í sumar snýr ekki að því hvernig þeir ætla að standast PSR og FFP leikreglur er ómögulegt að skilja. Þess í stað halda þeir ótrauðir áfram á leikmannamarkaðnum.

Nýr stjóri tók með sér Dewsbury-Hall frá Leicester og eins kipptu þeir upp Tosin miðverði Fulham sem var samningslaus í sumar. Auk þeirra keyptu þeir danskan markmann frá Spáni á €24,5m.

Á móti er búið að selja tvo vinstri bakverði í Hall og Maatsen sem voru báðir á láni síðasta vetur. Auk þeirra var Hutchinson seldur til Ipswich á grunnamlega háu verði (€22,5m). Thiago Silva, Sarr og Ziyech eru svo allir farnir/samningslausir.

Chelsea á enn slatta af leikmönnum sem þeir gætu selt eða lánað í ágúst og eins verður fróðlegt að sjá hvað þeir geta bætt við hópinn. Chelsea er ekki í Meistaradeild, ekki með neitt ógulega stóran völl og eru búnir að eyða á við hin liðin til samans undanfarin tvö tímabil. Þeir sátu heldur ekkert aðgerðarlausir áður en Bohly kúrekinn (eða Saudi Arabía) keypti félagið

Tottenham

Sumarið hefur byrjað á tiltekt hjá Spurs, þeir voru með nokkra sleða á launaskrá sem ekki eru í plönum stjórans. Helst eru það Dier og Hojberg sem báðir eru farnir. Sessegnon stóð aldrei undir væntingum og NDoumbélé reyndust vera hræðileg leikmannakaup. Gil er farin aftur á láni og Pericic, Tanganga og Rodon eru samningslausir.

Á móti er Spurs búið að landa einu mesta eftir Bretlandseyja í Archie Gray frá Leeds.

Daniel Levy byrjar jafnan ekki að spá í leikmannaglugganum fyrr en á loka vikunum og því gæti þetta Spurs lið breyst töluvert í ágúst.

Newcastle

Stóra saga sumarsins það sem af er tengt okkur er auðvitað Anthony Gordon sem var víst nálægt því að fara til Liverpool og á móti myndu Newcastle kaupa Joe Gomez. Þetta var umræða fyrir mánaðarmót júní/júlí þegar Newcastle þurftu að rétta af bækurnar til að standast PSR. Er þetta eitthvað sem við sjáum endurvakið núna í ágúst þegar Gordon og Gomez eru mættir aftur til æfinga? Var Gordon t.d. alveg sáttur við að vera til sölu í júní en ekki núna? Eins er spurning hvort þeir þurfi að klára eina stóra sölu til að klára kaup í öðrum stöðum?

Það sem af er hefur Newcastle fengið Loyd Kelly frá Bournemouth auk þess sem þeir kláruðu kaupin á Hall frá Chelsea, hann var á láni hjá þeim í fyrra. Á móti hafa nokkrir lykilmenn fyrri ára runnið út á samningi auk þess sem þeir seldu Minteh til Brighton, sá var frábær á láni hjá Slot í fyrra hjá Feyenoord og var um tíma orðaður við Liverpool.

Þeir ættu svo að endurheimta Tonali í vetur sem gæti vel verið þeirra besti leikmaður. Myndi þó ekki veðja á það.

West Ham

Nýr stjóri og ágætis læti hjá West Ham á leikmannamarkaðnum. Þeir voru að klára kaupin á Sumerville frá Leeds, áður voru þeir búnir að ganga frá kaupin á Kilman frá Wolves auk Guilherme sem er gríðarlegt efni frá Palmeiras sem þeir keyptu á €23m. Þeir þurfa svo klárlega að bæta við sig alvöru níu.

Stóra spurningin er hvort kaup á Sumerville og Guilherme sé undanfari sölu á Kudus? Já og er Paqueté þeirra besti leikmaður á leið í langt bann frá fótbolta?

Aston Villa

Aston Villa er búið að eyða töluvert meiri fjárhæðum undanfarin ár en maður kannski áttar sig á og það hefur auðvitað skilað þeim í Meistaradeildina. Þeir voru fyrir vikið í vandræðum með PSR í sumar og tóku þátt í skrítinni hringekju í lok júní þar sem unglingar með litla reyslu voru seldir á undarlegar uppæðir til að láta bókhaldið ganga upp.

Stóra málið fyrir utan unga leikmenn á uppsprengdu verði eru kaupin á Maatsen frá Chelsea, Onana frá Everton og Ross Barkley frá Luton. Á móti misstu þeir Douglas Luiz til Juventus, Diaby til Saudi og Lenglet er farin eftir lán frá Barcelona.

Luiz var einn af þeirra bestu mönnum í fyrra og líklega gera þeir meira í sumar en að Evertonvæða miðjuna hjá sér og bæta við vinsti bakverði.



Veit ekki hvort þessi yfirferð yfir hin liðin láti manni líða betur eða verr með aðgerðarleysi Liverpool en þessi gluggi virðist vera mjög litaður af stórmótum í sumar og flest liðin virka í startholunum með að klára stór leikmannakaup á lokavikunum. Mögulega fer einhver spilaborg af stað sem hefur áhrif á nokkur lið.

Liverpool er í lúxus stöðu hvað það varðar að hópuinn er mjög þéttur og engin bráðnauðsynleg þörf í neinni stöðu. Klárlega hægt að fínpússa á nokkrum stöðum og líklega er ágætt að koma þannig inn í lokavikurnar og mögulega nýta sér örvæntingu annarra lið sem meira “verða” að klára leikmannakaup eða sölur til að önnur púsl gangi upp.

8 Comments

  1. (Set þetta hér úr eldri þræði þar sem þetta á betur við hér)

    Varðandi þetta 4231 kerfi, double pivot miðja, þá eru ansi margir miðjumenn til staðar. Mac og Szobo kannski fyrstu tveir á blað nema Slot hugsi Szobo sem tíuna. Þá ertu með Grav næstan inn? Hann var flottur í gær en þarf að sjá meira frá honum til að vera sannfærður. Endo og Bajetic kannski 5. og 6. kostir í þessa stöðu. Jones hefur verið að spila þarna en hann getur ekki spilað one touch ball. Verður að klappa honum og lélegt utd lið stal ítrekað boltanum af honum. Hentar betur sem tía. Pointið er samt að það eru of margir miðjumenn svo hægt sé að réttlæta ný kaup á miðjuna. Þó maður vilji fá heimsklassa sexu þarf að losa allavega tvo.

    Mest aðkallandi er miðvörður og vinstri bakvörður. Held að það verði einu stöðurnar sem mögulega verði keyptar inn í. Vona að Kelleher verði áfram. Lofa honum amk 20 leikjum á ári næstu tvö árin og svo fyrsti kostur 2026.

    Ef Trent verður ekki búinn að skrifa undir fyrir 20.8 þá selja hann. Því miður en þetta er royale fokkup að vara C sem btw er scouser og einn besti hægri bakvörður heims eigi 11 mánuði eftir af samning!

    p.s. Tsmikas er ekkert búinn að vera hræðilegur á pre season en gaf fáránlegt mark gegn Arsenal. Hann á það til að vera alveg clueless í varnarleiknum. Hann var góður til síns brúks þegar Robbo missti varla úr leik en núna þegar Robbo meiðist reglulega og kannski ekki alveg sami leikmaður og fyrir 2-3 árum þá finnst mér þetta vera mikilvægasta staðan að bæta.

    p.p.s. Held að það verði ekki keyptur miðvörður nema VDB verði seldur og mig svona hálfpartinn langar að sjá meira frá honum en hann vill spilatíma. Kannski er Slot búinn að lofa honum einhverjum leikjum og þar með möguleika á að sýna sig og sanna. Gakpo ætti svo að fá sénsinn sem fyrsti kostur sem AML, besta staðan hans og sjá hvort í svona 20 leikjum a.m.k. hvort tölfræðin sé ekki betri en hjá Diaz. Sófasérfræðingurinn ég varð stundum alveg brjál þegar ég sá Klopp byrja með Gakpo og Nunez báða inná en Gakpo frammi og Nunez á vinstri kant, bara wtf!

    p.p.p.s. Gleymdi svo Nyoni í miðjumanna upptalningunni. Mjög spennandi og hann fær pottþétt einhverja leiki. Eiginlega skil ég ekki að hafna 14 m.p. boð í Endo þegar það eru 7-8 aðrir sem geta spilað double pivot.

    13
  2. Ég hef horft á alla æfingaleikina og lesið um Slot og séð aðeins liðið hans frá Hollandi. Nokkrir punktar.

    1. Hann spilar allt öðru vísi en Klopp. Hann notar hápressu, jújú til að reyna að vinna boltann aftur ef hann er á efri hluta andstæðings. En hann spilar ekki eins háa varnarlínu og Klopp gerði síðustu 2 tímabilin. Kannski af því að vörnin gat það ekki, en alla vega ekki gert það.
    2. Hann aðlagar leikinn miklu meira að hópnum, að andstæðingnum, og ekki síst að því hvar leikurinn er. Klopp var með plan A og þegar það virkaði ekki var plan B að gera meira plan A—sem NB virkaði mjög oft með góðum skiptingum eða smávægilegum breytingum í hálfleik. Slot virðist vera með plön A/B/C/D í vasanum og nota þau öll í leiknum.
    3. Grunnplanið virðist byggiast á því að þegar liðið er með boltann að breyta hvernig boltinn kemst framávið. Það er ekki bara 3 sendingar og skot, heldur líka 3 sendingar og reyna að taka 1-1 og svo senda boltann. Og stundum fara upp að endamörkum og losa upp og fyrir eins og City gera. Þetta er mjög fjölbreytilegt — og það virðist vera líka að liðið sé að nota einhvers konar skilaboð um hvenær tempóið er hægt niður til að breyta um aðferðir og tryggja að allir séu á sömu síðu og fá hjartsláttinn og öndunina niður.
    4. Hann leggur miklu meira uppúr tæknilegri getu og stuttum “rondo” sendingum til að þreyta andstæðinginn. Þetta er svona Slot-i-taka/total voetbal dæmi sem sást mjög sjaldan hjá Klopp (nema á æfingum). Þetta eru augljóslega aðferð sem krefst þess að allir geti haldið bolta og allir geti sent nákvæmar stuttar sendingar hratt—þetta gerbreytir hverjir eru bestu leikmenn fyrir Slot miðað við hverjir voru bestu leikmenn fyrir Klopp.
    5. Að þessu sögðu, þá er í raun skiljanlegt af hverju Slot og Hughes og aðrir eru að halda að sér höndunum. Það þarf að selja og kaupa leikmenn. Og ég skil alveg af hverju einhver eins og Gomez er líklegur til að vera seldur. Hann er ekki mjög teknískur. Held að Konate verði líka seldur fljótlega — og gæti farið núna ef annar miðvörður keyptur. Konate passar engan veginn í það sem Slot er að gera og verður ekki byrjunarmaður. Endo er leikmaður sem kostar liðið lítið og verður hugsanlega áfram — en hann er svipað og hinir tveir held ég ekki nægjanlega teknískur til að spila fyrir Slot.
    6. Slot mun held ég alveg örugglega spila double six kerfi með 42 — ?? Eftir andstæðingnum. Þeas. Hvernig fremstu fjórir raðast er bara taktíst breytanlegt í leiknum. Og stundum mun double six verða triple 6/8 í 433 eins og á móti City kannski. Í þessu kerfi er enginn stöðluð varnarsexa. Kerfið byggist á því að hafa tækni og hraða til að verjast með fjölda, en ekki með einum “enforcer”. Enda er það varla hægt ef lið ætlar að pressa hátt.
    7. Það kæmi mér alls ekki á óvart ef við sjáum TAA spila með MacA og Jones og jafnvel Gravenberch seinna í vetur í double sex kerfi. Fyrir framan væri þá Elliot eða Szoboszlai sem tía, og stundum double tía og stundum ekki. Frammi verður Nunez til að hrella varnir og opna pláss fyrir tíuna hraðinn sem. Ég sé Carvalho og Lucho og Salah koma til með að spila sem “inverted” ten — þeas. Þeir munu fljóta inn og út eftir leiknum og hvernig tían er að spila og hvorum megin veikleikar andstæðings eru.

    Allt í allt held ég að þetta verði æðislegt tímabil. Slot er að taka grunninn sem Klopp hefur byggt og byggja ofan á það eitthvað sem gæti orðið listaverk.

    Mín spá um leikmannamál.

    1. Gomez, Phillips seldir. Konate hugsanlega í janúar ef Van Den Berg er haldið.
    2. Endo verður áfram, kannski. Held ekki að hann passi Slot og sé hann ekki spila mikið—en kannski role player í ákveðnum leikjum
    3. Keyptur einn fljótur sóknarmaður. Gordon eða slíkur. Vantar það því Elliot, Jones, Carvalho, Szobo eru allir frekar hægir. Og Salah er ekkert að yngjast.
    4. Held að verði ekki keypt 6 — kannski keypt 8 sem er stór og sterkur eins og Gravenberch, en með betri “hold up” hæfni. En held að verði reynt að þróa Gravenberch í það frekar.
    5. Kæmi ekki á óvart ef vinstri bakvörður verður keyptur. Kostas er ekki framtíðin og Robbo er ekki tæknilega það sem Slot er að leyta að. Ef Robbo væri ekki sá leiðtogi sem hann er held ég að hann hefði alveg geta verið til sölu. Ef ekki í þessum glugga, þá gerist eitthvað þarna fljótlega.
    6. Erfitt að spá með lánamál. Held að Slot vilji hafa þessa ungu hjá sér og kenna þeim sitt — en ekki hægt að hafa alla við aðalliðið.

    27
      • Rétt hjá þér! Ég var meira að hugsa um hraða með boltann á fótunum — en ég held að þetta sé bara rangt hjá mér. Szobo hefur hraða. En þá er kannski spurning af hverju það var ekki meiri hluti af leikkerfinu í fyrra og hvað Slot gerir með það?

    • Mjög áhugaverð greining hjá þér Andri P.

      Varðandi fyrri lið nr. 4 um “stuttar sendingar hratt” geturðu farið betur ofaní hvaða leikmenn græða á þessu og hverjir ekki? Er þetta t.d. gott fyrir Elliott en vont fyrir Jones og Endo?

      • Þar sem við höfum ekki séð þetta sem hluta af leik liðsins er kannski ekki gott að fullyrða of mikið. Menn spila oft rullu sem sýnir ekki tæknilega getu því það er ekki hlutverkið. En þeir sem ég hef séð eiga erfiðast með að taka fasta stutta bolta og valda þeim þangað sem þeir vilja og koma frá sér, eru Endo, Konate, Phillips, Gomez, Robbo, Tsimikas.

        Ég myndi ekki setja Jones í þann flokk — hann er oft að spila sem “hold up” og hans hlutverk er að halda bolta nógu lengi til að aðrir opnist. Hann getur sent vel með báðum fótum og í allar áttir — held að hann sé betri en margir halda af því að það hefur verið dauðasynd í huga okkar áhangenda að hanga á boltanum þessi Klopp árin! Bæði Virgil og van den Berg eru hollenskir svo þeir kunna þetta alveg frá A-Ö, en eru náttúrulega stórkarlalegir miðað við hina.

        Gravenberch er svo áhugaverður og Bajetic þar sem þeir eru báðir eiginlega alltaf að reyna að fara upp völlinn með boltann eftir að valda honum Held að það sé kostur, en þarf meiri sveigjanleika til að vera ekki auðlesinn.

        Þeir bestu í þessu eru sennilega Elliott, Lucho, Gakpo, Salah (en samt stundum aðeins klaufskur), Trent er lúmskt góður. Bradley ótrúlega góður á ferð. Jota er soldið einhæfur að fara alltaf uppá við. Trey Nyoni er alger unaður í þessu. Svona ungur og getur alveg tekið 2-3 smellur og svo allt í einu fundið opna akrein og sent bolta sem er boltinn fyrir stoðsendinguna. Myndi líka nefna Doak sem hefur mikla tækni og hraða — ég bara veit ekki hvað mér finnst um ákvarðantökuna hjá honum. Held hann ætti að fara á lán (ef það er ekki þegar gert).

        2
  3. Sælir félagar

    Takk Einar fyrir gott innlegg. Mér finnst innlegg Andra P hér fyrir ofan mjög athyglivert og gef því góðan þumal.

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
  4. Jæja vonandi er eitthvað til í þessu
    en þessi Pedro er vel tengdur í spænska boltanum

    Pedro Almeida
    @pedrogva6
    ·
    38m
    ??? Agreement in place between Liverpool and Real Sociedad for the transfer of Martin Zubimendi. €60m transfer fee. #LFC

    En svo er erfiðara vandamál og það er að sannfæra hann sjálfan um að koma til Liverpool

    Fabrizio Romano
    @FabrizioRomano
    ·
    3m
    ???? Martin Zubimendi has been called up for Real Sociedad next game while Liverpool try to convince him.

    Mikel Merino has NOT been called up as Arsenal talks are still ongoing, advanced but with deal structure/payment terms to clarify.

Æfingaleikur gegn United

Fullyrt að Liverpool kaupir varnartengilið í ágúst