Spá Kopverja – síðari hluti

Í gær fórum við yfir fyrri hluta spár okkar Kopverja um næsta tímabil. Spáðum nýliðunum öllum falli sem líklega er ekki óvænt.

Í dag er komið að toppslagnum. Áður en við leggjum af stað þarf að tilgreina að spáin er reiknuð út frá skilum 9 af okkur 10 sem eigum aðkomu að vefnum. Það var ritstjórnarleg ákvörðun mín (Maggi) að spá eins okkar þyrfti að fá að vera sér og með smá útskýringu.

Því að hann Daníel hefur meiri trú á mannkyninu en við hinir og hans spá hljóðar upp á það að enska deildin muni ganga það hart fram gegn Manchester City að liðið verði amk dæmt niður um eina deild!!! Svo frekar en að reikna þau stig inní stendur þessi spá sér (og við vonum öll að hún gangi eftir). Útfrá þeirri spá segir Daníel að Arsenal verði meistarar, Liverpool í öðru sæti og Spurs og Aston Villa komi þar á eftir. City munu falla samkvæmt þessu og þau lið sem fylgja verða Everton og Nottingham Forest. Svo sannarlega tvist í þessa spá og alveg ágætis hugarleikfimi að velta fyrir sér hvernig best var að spila úr þessu. Ég hugsa að Daníel setji spána alla hér að neðan og megi trú hans á enska dómstóla virka takk!!!

Að þessu sögðu höldum við áfram að velta upp efri hlutanum út frá spá okkar hinna, munum að hæsta mögulega tala í spánni er þá 180 stig og það minnsta 9 stig. Við vorum að ljúka við Londontríó í þeim Brentford, Fulham og Crystal Palace. Þá er það tíunda sætið:

10.sæti Brighton 95 stig

London hópurinn er brotinn upp af nágrannaliði rétt sunnan höfuðborgarinnar, gleðiborgin Brighton á sinn fulltrúa í efstu deild og hafa undanfarin ár verið mikið spútniklið. Síðasti vetur varð frekar súr og endaði á því að þeir kvöddu stjórann sinn og í sumar tilkynntu þeir um ráðningu nýs stjóra. Þar hugsaði félagið út fyrir kassann eins og oft áður þegar þeir völdu 31s árs Þjóðverja í Fabian Hurzeler eftir frábæran árangur hans með St. Pauli. Þeim árangri náði hann með leikstílnum sem Brighton vilja sjá, hápressa og hraður sóknarleikur í hávegum hafður. Hann hefur í sumar verslað inn töluvert magn leikmanna af meginlandinu sem falla eiga inn í þann stíl – þ.á.m. Mats Wieffer sem var orðaður við okkur eftir að hafa verið lykilmaður í Feyenoordliði Arne Slot. Þeir hafa verið að fækka í leikmannahópnum sínum en þá að mestu leikmenn sem voru í minna hlutverki eins og Lallana og Pascal Gross en lyklarnir að árangri eins og Evan Ferguson, Mitoma, Estupian og markmaðurinn Verbruggen virðast allir ætla að hafa trú á verkefninu á Suðurströndinni áfram. Við teljum Brighton áfram vera á lygnum sjó en þó ekki ná þeim hæðum sem þeir náðu fyrir stuttu. Það verður gaman að sjá hversu marga leiki járnkarlinn James Milner fær í vetur, ef hann kemur við sögu í 20 leikjum nær hann efsta sæti yfir þátttökuleiki í EPL. Við spáum að það takist – og handvissir um að hann vann öll þrekprófin þarna í haust!

9.sæti West Ham111 stig

West Ham leggja af stað í veturinn með nýjan stjóra sem klárlega kemur að hluta til vegna þess leikstíls sem félagið vill verða þekkt fyrir. David Moyes náði sannarlega árangri í Stratfordhverfi Lundúna en á sinn hátt byggðum á miklum líkamsstyrk og uppsettum leikatriðum frekar en rúllandi posessionbolta sem að “gamla West Ham” sýndi (í raun á síðustu öld samt). Þeir völdu sér annan reynslubolta til að stýra liðinu í Julen Lopetegui eftir gæfuríkan feril sem m.a. inniheldur góðan árangur hjá Úlfunum fyrir stuttu. Þangað sótti kappinn stærstu kaup þeirra hingað til í sumar þegar hafsentinn Max Killman mætti og er honum væntanlega ætlað að fylla skarð Kurt Zouma sem virðist nokkuð örugglega á útleið og þá sennilega til Saudi. Hann keypti líka stormsenterinn Fullkrug frá Dortmund sem er ætlað að verða nían sem Lopetegui stillir oftast upp í sínum liðum og styrkir vængspilið með Summerville frá Leeds, Guilherme frá Palmeiras og nú síðast með því að sækja Wan-Bissaka frá ManU. Það er alveg klárt að væntingar Hamranna er að liðið fari á fullt í baráttuna um Evrópusætin amk og jafnvel gamall draumur íslenskra eigenda félagsins um Meistaradeild skammt undan. West Ham vill nýta aðstöðuna sína á Ólympíusvæðinu til að verða stærsta lið London sem er nú ekki mjög raunhæft á nokkurn hátt en hver segir að draumar séu raunhæfir. Við munum sjá annan leikstíl hjá West Ham og allt það en í raun ekki betri árangur en var hjá Moyes.

8.sæti Chelsea 123 stig

Hvað á maður eiginlega að skrifa um Chelsea þetta árið? Þetta lið er að verða farsakennd útgáfa af knattspyrnuliði sem virðist hafa það að markmiði að rúlla í gegnum sig endalaust af peningum með leikmannakaupum og sölum og endalausum umskiptum á þjálfarateymum og starfsfólki. Í vor ákvað eigandinn að eiga fína kvöldstund með Pochettino og fagna góðum endi á sumrinu en rak hann svo stuttu seinna og réð í staðinn Enzo Maresca sem leiddi Leicester upp um deild en er líklega þekktastur fyrir það að hafa verið aðstoðarmaður Pep um stund. Þeir hafa keypt níu leikmenn og í dag telur hópurinn þeirra 45 leikmenn á first-team leveli, þ.á.m. 8 markmenn! Á móti eru þeir að losa leikmenn og þá helst þá sem eru uppaldir hjá félaginu því þannig leikmenn eru hreinar hagnaðarsölur í financial fair play hugmyndafræðinni og þá virðist það óháð stöðu eða getu. Þeir eru að losa fyrirliðann Gallagher á þennan hátt en fleiri hafa verið látnir fara á sama díl og svo berast alltaf fréttir af því að leikmenn þaðan séu á leið til Saudi þar sem eigandinn Boehly hefur sterk ítök. Heimurinn hristir af sér höfuðið yfir þessari hringekju allri, það segja sumir Chelsea aðdáendur að það besta sem geti hent er að liðið verði dæmt í leikmannakaupabann um stund því það sjá allir að fótboltalegir hagsmunir eru ekki hátt skrifaðir í efsta lagi eigendanna, sumir segja að Boehly hafi gaman af því að hrista endalaust upp í öllum kerfum og það sé ástæða fyrir eignarhaldi hans á liðinu. Það verður ekkert litið framhjá því að í allri þessari leikmannasúpu eru nokkrir afburða leikmenn og Chelsea á að vera í toppslag. Þetta rót allt í kringum klúbbinn hefur áhrif á getu inni á vellinum og því verða þeir enn um stund utan við efstu sætin sem gefa mest. Sem mun þýða næstu þvæluna sumarið 2025.

7.sæti Aston Villa 124 stig

Spútnikliðið í fyrra var sannarlega fjólubláa liðið frá Birmingham, sofandi risi sem vaknaði undir stjórn Unai Emery og hélt haus allt til enda sem þýðir þátttaka í Meistaradeildinni þetta leiktímabil. Aston Villa er stærsta liðið í næststærstu borg Englands og á alltaf að vera á topp 10 í enskum fótbolta og einmitt í þeim slag sem þeir voru í síðasta vetur. Hroðaleg fjármálastjórnun og misvitrar stjóraráðningar hafa leikið klúbbinn illa en það er sannarlega bjartara yfir þeim nú, þó vissulega þeir séu eitt þeirra liða sem þurfa að passa sig til að haldast innan regluverks peningamála ensku deildarinnar. Þeir hafa í sumar verið að styrkja umgjörð félagsins með stórum auglýsingasamningum, sögðu sem dæmi upp búningasamningi við Castore og fengu risasamning við adidas sem þeirra þekktasti stuðningsmaður, Ozzy Osbourne, tók þátt í að kynna. Í sumar hefur Emery hreyft hópinn til, seldi Moussa Diaby og Douglas Luiz fyrir stórar upphæðir í burtu auk minni spámanna og sótti í staðinn eina sjö leikmenn inn í hópinn sem hann ætlar stóra hluti. Stærsta upphæðin fór í miðjumanninn Onana frá Everton og næstdýrastur var bakvörðurinn Maatsen frá Chelsea. Önnur athyglisverð kaup voru í Ross Barkley sem átti flott tímabil með Luton í fyrra og argentínski varnarmiðjumaðurinn Enzo Barrenechea frá Juventus. Það mun taka mikið á Aston Villa liðið að leika í CL og við teljum það verða helstu ástæðuna fyrir því að þeirra árangur slaknar milli ára og þeir verða fulltrúar Englands í Euro Conference League haustið 2025. Við teljum þá þó vera eitt þeirra liða sem gæti farið langt í heimabikarkeppnum og almennt er liðið á réttri leið með gæðaleikmenn um allan völl.

6.sæti Newcastle 129 stig

Þið sjáið að munurinn milli liðanna í 6. – 8.sæti er ekki mikill, aðeins 5 stig og við semsagt teljum þau verða þau sem berjast mest um Evrópusætin utan við Meistaradeildina. Newcastle fer þeirra hæst og myndi tryggja sér sæti í Europa League (við reiknum aldrei með bikarmeisturum í Evrópukeppnunum sko) næsta haust. Síðasta tímabil kippti þeim aðeins til baka eftir rosalegt fyrsta ár af eignarhaldi Saudanna, þátttakan í CL í bland við meiðslabras tók á svo þeir voru eiginlega aldrei á þeim stað sem þeir ætluðu sér. Liðið var að ströggla við að komast undir fjármagnsþakið sem þurfti nú í sumar en tvær stórar sölur á uppöldum leikmönnum bjargaði því og varð til þess að þeir sögðu nei við LFC sem vildi sækja Scouserinn Gordon aftur heim, nokkuð sem var ansi nálægt því að verða og er í raun ekki enn útilokað. Newcastle fór sömu leið og Villa, lagði mikið á sig til að sækja nýja styrki OG fóru þá leið að segja upp Castore og munu leika í adidas með vísun í sína gullöld snemma á 21.öldinni og ætla sér á ný í allra efsta toppslaginn leiddir af Eddie Howe og leiðinlegasta aðstoðarstjóra sögunnar sem ekki á skilið að fá sitt nafn einu sinni hér. Þeir hafa þó enn ekki keypt leikmenn sem eru líklegir til að bæta árangurinn frá í fyrra, kláruðu að breyta láni Lewis Hall í varanlegt með því að greiða uppsetta upphæð og keyptu síðan Grikkjann Vlachodimos til að verða líklega upgrade í varamarkvarðarstöðuna. Það er því hávært hvíslið um að liðið muni þurfa að selja einhvern lykilmann, ef ekki umræddan Gordon þá miðjumanninn Guimares eða varnarmanninn Sven Botman til að geta keypt leikmenn en samt verið undir fjárhagsþakinu. Þó að staðan sé óljós teljum við Newcastle verða betri í ár en í fyrra, við höfum alveg trú á Howe og ekki síst öflugum heimavellinum þar sem mikill hávaði hefur hjálpað þessu liði í gegnum margan skaflinn. Það er þó alveg ljóst að ef að liðið strögglar í byrjun eru töluverðar líkur á stjóraskiptum. Það er þó ekki spáin, 6.sætið og þátttaka í Evrópu aftur framundan.

5.sæti Tottenham 143 stig

Strákarnir hans Ange standa töluvert ofar en Newcastle og enda í 5.sæti í okkar spá. Það mun svo fara eftir því hvernig ensku liðunum gengur í Evrópukeppnum hvort að þetta sæti þýðir CL eða EL næsta haust. Byrjun Ástralans var auðvitað frábær, 26 stig af 30 mögulegum (þó 3 þeirra hafi vissulega verið innan sviga) bjó til mikla bjartsýni á meðal Spurs-ara sem svo urðu fyrir vonbrigðum með seinni hlutann. Undir vorið lenti stjórinn í miklu orðaskaki við aðdáendur félagsins þegar þeir virtust gefa nokkuð augljóslega í ljós að þeir óskuðu eftir ósigri gegn City svo að Arsenal ynnu ekki titilinn. Í kjölfar hefur Ange verið mjög skýr um það að liðið verði að stíga upp og vera tilbúið í alvöru baráttu um efstu sætin. Staða þeirra í London er sterk, heimavöllurinn magnaður og allt ætti að vera til alls. Hann fékk í sumar hreina níu þegar hann keypti Solanke á metfé og þar er púsl sem hann vantaði í fyrra. Hann hefur alls staðar náð árangri með sínum hápressuleikstíl með mikla áherslu á sóknarleik og þó að það hafi verið í minni deildum sáum við alveg merki þess í fyrra að hann réði við verkefnið í EPL. Auk Solanke sótti hann tvo mjög efnilega miðjumenn í Archie Gray frá Leeds (við áttum víst að horfa til hans) og Lucas Bergwall frá Djurgarden en þar er víst á ferð mesta efni sænska boltans. Þeir segjst ekki hættir, enn vill hann bæta inn á miðju sem missti Hojberg til Marseille og á kantana segist hann vilja fá amk einn leikmann til að ná árangri. Hann hefur verið mjög skýr um það að árangur felst í því að lyfta bikurum og það segist handviss um að honum muni takast hjá Spurs. Við höldum þó að það verði ekki enski titillinn en gætum alveg séð hann hirða Evrópudeildina frekar en bikarana heima.

4.sæti Man United 147 stig

Segið svo að við spáum bara út frá hjartanu! Með mikilli sorg í hjarta spáum við því að Man United verði í Meistaradeildinni haustið 2025 því fjórða sætið mun sannarlega gefa það. Við teljum þá vera naumlega framar Spurs í þessu sæti og það er fyrst og fremst því þessi leikmannahópur einfaldlega er sá dýrasti (fyrir utan rugið í Chelsea) í deildinni og það eru heimsklassaleikmenn í flestum stöðum. Við höfum sannarlega ekki trú á ten Hag en teljum gæðin í liðinu vera slíka að hann geti ekki klúðrað því að ná í CL-sætið. Þeir hafa losað leikmenn í sumar sem fengu margar mínútur í fyrra en hafa fyllt í þeirra skörð. Wan-Bissaka, Varane og Martial stærstu nöfnin út en í staðinn komið De Ligt, Zirkzee, Mazraoui og Yoro (þó meiddur strax) auk þess sem að Sancho virðist fá annan séns til að festa sig í sessi hjá klúbbnum. Það er þó ekki síður þau gæði sem eru fyrir í félaginu sem koma þeim upp í 4.sætið. Einstaklingsgæðin i Fernandes, Garnacho og Rashford frammi og miðjan mun betri með Mainoo eiga að vera grundvöllur að bættum árangri milli ára. Það er þó áfram klárlega stórt spurningamerki í vörninni og ævintýramarkmaðurinn Onana á ýmislegt til í báðar áttir. Við teljum United taka skref áfram en vonum auðvitað innilega að áfram verði fýlusvipur á ten Hag, sá svipur á vel við manninn sem virkar ansi lítill mannabætir svona á mann.

3.sæti Liverpool 165 stig

Töluvert frá United veljum við að setja okkar menn aftur í 3.sætið eins og í fyrra. Þetta er auðvitað að einhverju leyti byggt á því að liðið muni kaupa leikmenn sem styrkja liðið okkar áður en glugginn lokar enda kom í ljós á síðustu 6 vikum tímabilsins að jafn margt gott og við gátum séð á meðal okkar manna lengst af síðasta tímabils vantaði uppá þegar að lokasprettinum kom og klúbburinn þarf að bregðast við því. Það var sannarlega mikið rót í félaginu því ekki bara hætti stjórinn heldur fylgdi honum næstum allt starfsliðið af æfingasvæðinu og í yfirstjórninni eru nú nýir menn þó auðvitað Edwards hafi verið áður. Þegar hér er komið sögu hefur í raun enginn leikmaður kvatt sem við ekki vissum af í vor sem skipt hafa máli. Matip í raun sá eini sem átti leiki í fyrra sem kvaddi í vor þó við séum að safna peningum með að selja unga leikmenn og út frá klásúlum sem við áttum inni hjá leikmönnum sem við höfum selt. Slot-ball hefur virkað vel á okkur í sumar, ekki bara hafa úrslitin í æfingaleikjunum verið góð heldur líka bara frammistöðurnar og “lookið” á liðinu og leikmönnum blæs okkur von í brjóst um að Arne Slot nái að komast þannig inn í verkið á Anfield að hægt verði að byggja áfram upp lið sem verður tilbúið í stærstu titlana innan skamms. Niðurstaðan 3.sætið og vonandi bikar á heimavelli niðurstaðan vorið 2025.

2.sæti Arsenal 173 stig

Skytturnar hans Arteta verða nokkuð örugglega ofan við okkar menn og enda aftur í 2.sæti sem þá auðvitað staðfestir að við teljum titilinn verða áfram á vondum stað. Ekki það að Arteta sé í þannig uppáhaldi hjá okkur að við ætlum honum það að fá að lyfta meistaratitli þá er þetta auðvitað komið á þann stað að af tvennu illu myndum við velja Arsenal sem meistara. Þeir upplifðu “okkar tíma” í fyrra með því að vinna 16 af 18 síðustu leikjum sínum án þess að það dygði og þeir sátu því hundfúlir með besta árangur sinn lengi á lokadeginum. Enn sem komið er hefur Arsenal bara bætt við sig einum leikmanni, hafsentinum Calafiori sem er þá að styrkja bestu vörn síðasta tímabils. Þeir enda fjárfestu töluvert í fyrra og erum komnir á stað sem við þekkjum, því að það er ekkert einfalt að kaupa leikmenn sem styrkja lið af þessu kalíberi. Á móti halda þeir öllum lykilmönnum sínum, bara Smith-Rowe til Fulham á útleið og hann var í algeru aukahlutverki síðasta leiktímabil. Það hefur lengi verið rætt að liðinu vanti hefðbundna níu og 20 marka mann inn í leikmannahópinn en Arteta hefur talað þvert gegn því og sagt flotið í sóknarleiknum það sem hann horfi til að virki best fyrir þá. Þeir verða aftur í Meistaradeildinni og hafa rætt það að þeir horfi til að ná miklu betri árangri þar, bara alla leið takk – og það er auðvitað töluverð pressa. Silfursætið annað árið í röð (nema ef Daníel er sannspár, þá verða þeir meistarar). Það eru sex okkar sem teljum þá verða meistara, en líka þrír sem segja þá verða í 3.sæti.

1.sæti Man. City 175 stig

Það munar mjóu! Eitt stig eða markatala skilar City fimmta titlinum í röð. Það er þó frétt að bara fjórir okkar af tíu velja þá sem meistarana í ár, enda allir búnir að fá nóg af sigrum þessa liðs held ég! Það er í raun lítið hægt að segja um City sem ekki við öll vitum. Það kannski segir mest að við spáum þessu þó að þeir hafi í dag ekki keypt neinn leikmann inn í liðið sitt og nýbúnir að selja Alvarez sem skipti miklu máli fyrir þá. Því að við vitum að þeir eiga eftir að versla inn leikmenn ef þeir þurfa og leikmannahópurinn er ógnarsterkur. Það er þó ljóst að það hangir yfir liðinu sá skuggi að málaferlin gegn þeim hefjast í september og mun taka einhverja mánuði að fara í gegnum þá 115 ákæruliði sem eru í gangi. Mögulega verður það til þess að sýra ástandið á Etihad en hingað til hefur Pep tekist að vinna vel með “allir eru á móti okkur” viðhorfið og við höldum að svo verði áfram. Á tímabili leit út fyrir að lyklar eins og Ederson og de Bruyne væru að horfa í aðra átt en að lokum varð ekkert af þeirra brottför. Samningur Pep rennur út vorið 2025 en hann hefur nú undanfarið rætt það að hann sé tilbúinn að vera áfram, sér í lagi ef liðið fengi “ósanngjarnan dóm” á næstu mánuðum. Það er fróðlegt tímabil framundan hjá ljósbláum en við í heild teljum tímabilið enda vel fyrir þá og dollan verði sýnd í 37 manna áhorfendahópnum sem kemur að horfa á meistararútuna þeirra hvert vor.

Þar með sláum við lokapunktinn í spánni. Á morgun kemur fyrsta upphitun vetrarins, svo leikþráður og leikskýrsla á laugardaginn. Megi veturinn verða okkur gæfuríkur og giftusamur. Come on you Reds – YNWA!!!!

16 Comments

  1. Frábær yfirferð á þetta hjá ykkur Kopverjum. Ég held samt að menn séu að ofmeta City í ár. Það er einhver tilfinning sem maður hefur að utanaðkomandi þættir muni hafa áhrif á liðið. Og leikmannahópurinn (Virkilega sterkur samt) er veikari að virðist. En svo vinnur Pep örugglega einhverja töfra og sigla þessu heim. Hvað veit ég. Maður auðvitað vonar bara að þetta verði spennandi tímabil og okkar menn vinni eins marga leiki og hægt er.

    4
  2. Veit ekki hvort það á að kalla það “trú á mannkynið” eða bara barnsleg einfeldni sem fær mann til að spá að City verðir dæmir niður um deild (og helst deildir í fleirtölu). Ég geri mér líka fulla grein fyrir að þeir eiga miiiiikið af peningum til að lágmarka skaðann af þessum kærum, og ég held að þeir séu bæði tilbúnir til að nota löglegar og …. ekki jafn löglegar aðferðir ef þess þarf. En sjáum til og vonum það besta.

    Spáin sem ég setti fram lítur semsagt svona út:

    1. Arsenal
    2. Liverpool
    3. Spurs
    4. Aston Villa
    5. Newcastle
    6. Man United
    7. Leicester
    8. Chelsea
    9. Brighton
    10. West Ham
    11. Crystal Palace
    12. Brentford
    13. Ipswich
    14. Fulham
    15. Brentford
    16. Wolves
    17. Southampton
    18. Everton
    19. Forest

    Semsagt: ég geri ráð fyrir vaxtarverkjum á fyrsta árinu hjá Slot sem komi í veg fyrir fyrsta sætið, en tel hópinn vera það sterkan að 2. sætið eigi að nást. Ég hef trú á þessu Villa liði (og þá sérstaklega Emery), en geri frekar ráð fyrir að þeir falli úr leik í CL eftir riðlakeppnina. Ég hef ekki jafn mikla trú á þessu United liði eins og félagar mínir, tel reyndar að Ten Hag verði farinn fyrir jól og líklega í nóvember, og að Southgate taki þá við (mögulega tekur Carrick við í smá tíma í millitíðinni samkvæmt hefð). Ég geri mér líka grein fyrir því að það er afar djarft að spá öllum nýliðunum uppi, og tel eiginlega næsta víst að þar hafi ég að einhverju leyti rangt fyrir mér. En gleymum ekki að Everton mun jú klárlega fá stigafrádrátt samhliða City dómnum samkvæmt hefð, svo það mun spila inn í.

    4
  3. Glæsilegt hjá ykkur að vanda, Liverpool stuðningsfólk auðvitað gjörspillti með þessu framtaki alltaf hjá ykkur.
    Ég ætla að henda í topp 8

    8. sæti Newcastle
    7. Sæti Aston Villa
    6. sæti Chelsea
    5. sæti Man Utd
    4. sæti Tottenham
    3. sæti Man City
    2. sæti Arsenal
    1. sæti Liverpool

    Get ekki farið í þetta tímabil með væntingar um að við vinnum þetta ekki.
    Við erum með flott lið og ég held að við fáum inn allavega 2-3 leikmenn áður en glugginn lokar.

    7
  4. Sælir félagar

    Enn og aftur eru kop-verjar að spá MU meistaradeildarsæti. Ég man ekki eftir spá frá þeim sem gerir það ekki og er mér algjörlega óskiljanlegt. MU er miðlungslið fullt af miðlungsleikmönnum sem geta á góðum degi náð í góð úrslit en verður meir og minna að basla við að ná Evrópusæti í besta falli. Þeir hafa náð í einn toppleikmann sem verður frá í ca. 4 mánuði en aðrir eru miðlungsmenn í miðlungsliði. Mín spá um 6 efstu, sem er það sem skiptir máli, er svona

    115FC
    Liverpool
    Arsenal
    Tottenham
    Chelsea
    Man. U.

    Þetta er frekar bjartsýn spá fyrir MU en A. Villa gæti vel endað fyrir ofan þá og jafnvel Newcastle og jafnvel fleiri. Liverpool verður meistari ef Man. 115ity fær á baukinn í næsta mánuði (?!?) sem þó eru litlar líkur á. Ef LFC breikkar hópinn gæðalega þá verður þetta nokkuð örugglega svona en annars verður þetta barátta milli Arse og LFC um annað sætið.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  5. Ég veit ekki á hvaða lyfjum þið eruð, væri til í að komast í ykkar daglega skammt. Liverpool með þessa ömurlegu eigendur sem eru þeir verstu í Evrópu og glataða menn sem stjórna klúbbnum. Að spá liðinu í topp fjórum er svo mikil blinda að
    það nær engri átt. 5-7 sæti líklegast niðurstaðan.

    Í vetur mun svo Klop koma fram og segja okkur af hverju raunverulega hann hætti og gat ekki meir, hann einn gat gert kraftaverk með þennan hóp en draslið sem á klúbbin nánast drap hann og fékk hann til þess að bugast á því að berjast ekki bara gegn ofurliði City heldur gegn eigendum sem mergsjúga klúbbinn til þess eins að geta leikið sér með Amerísk lið áfram. Þessi pollýanna á þessari síðu og meðal stuðningsmanna Liverpool er einstök skil ekki af hverju það eru ekki óeirðir fyrir utan Anfield fyrir hvern leik, veit það bara að ég væri þar fremstur í flokki að brenna blá/rauð röndóttan fána.

    10
    • Andri ég held að þú ættir bara að leiða með fordæmi og skella þér að byrja þessi mótmæli.
      Flug beint til Liverpool er ekki að kosta það mikið miðað við hvað það liggur þungt á þér.
      Vissulega værum við til í að sjá keypta leikmenn til liðsins en eigum við ekki að anda rólega þangað til að glugganum lokar.
      Slot tók við frábæru liði og þeir sem stjórna þarna eru pottþétt á fullu að vinna í leikmannamálum.

      9
    • Andri, kannski þú þyrftir að bæta þunglyndislyfjum við þinn skammt.

      1
  6. Er bara búinn að fá nóg af þessum könum og skil ekki þolinmæði annarra í þeirra garð og óbilandi trú Liverpool manna að þeir viti hvað þeir eru að gera. Svo er ég alveg á því að það er þeim að kenna að Klopp hætti og það verður ekki tekið til baka.

    11
    • Andri hlustaðu á enski boltinn á fótbolti.net þar sem Liverpool er tekið fyrir mjög góð umræða þar…..

      7
    • Ég er á sama báti og þú Andri. 5-7 sæti verður niðurstaðan, því miður

      3
  7. Ömurlegir eigendur segir einhver. Kjánar sem keyptu klúbbinn úr greiðslustöðvun og hafa gereyðilagt hann með því að ráða Klopp, vinna deildina, UCL, FIFA club championship, Carabao Cup, FA Cup, og Góðgerðarskildinum. Nei, fyrir mína parta þá vildi ég nú heldur vera með eigendur United, eða Everton, eða Arsenal, eða nýju eigendur Chelsea, eða svindlarana frá UAE.

    Þessi fífl frá Boston sem hafa haldið Anfield og gert hann að glæsilegum velli. Og flutt í þessa helli í Kirkby þar sem enginn vill sparka bolta eða borða einhvern “heilsumat.”

    Þessir gróðapungar sem hafa aldrei einu sinni tekið krónu úr rekstrinum heldur bara staðið innan reglna og látið þetta standa undir sér. Og aukið virði klúbbsins ca 10x. Hver vill líka að LFC sé vinsælt um allan heim!

    Njóttu tímabilsins vel kvartandri —

    32
    • Haha, vel svarað!

      Held að þessi vetur verði sætur. Liðið á svo mikið inni. Mér sýnist Slot ganga út frá því að betur vinni vit en strit. Vaxtarverkirnir voru í fyrra, með alla þessa nýju leikmenn og ógnarlangan meiðslalista.

      Held að Slot nái þessu:

      1. Ræsa Nunez og Diaz í markaskorun. Við ,,eigum inni” hjá þeim ca 30 mörk.
      2. Passa meiðslin.
      3. Spila af þeirri yfirvegum sem lætur vörnina ekki standa berskjaldaða.

      Og þá er framtíðin björt!

      8
  8. Er ekki eins bjartsýnn og margir hér en ég tek hattinn ofan af fyrir ykkur þið sem eruð það.

    Mér líst mjög vel á Slot og ég styð hann 100% hann var flottur á undirbúningstímabilinu og kemur mjög vel fyrir í viðtölum virkilega spennandi stjóri og vonandi mun þetta allt ganga upp og mínar áhyggjur verða að engu.

    Það sem ég er ósáttur við eru FSG og co mér þykir skrítið að eina alvöru targetið hafi bara verið Zubimendi og ekkert plan B þegar það gengur ekki upp.

    Það er vitað og hefur verið vitað að veikasta staðan okkar eftir breytingarnar á miðjuni er #6 það ásamt því að okkur skortir miðvörð eftir að Matip er farinn ,VVD er árinu eldri og Konate eins meiðslagjarn og hann er. Quansah er að sjálfsögðu hrikalega spennandi leikmaður og hefur staðið sig með príði en manni finnst menn tefla á tæpasta þarna.

    Gomez er þarna en hefur verið fjölhæfasti varnarmaður okkar í að leysa stöður fyrir aðra í meiðslum.

    En já manni finnst skrítið að Slot ný kominn inn og skuli þá ekki fá alvöru backup það er nánast verið að setja hann upp for fail með þessu eða allavega gera þetta mun erfiðra en ætti að vera.
    En hvað veit maður sófa kartaflan..kanski nær hann að unlocka Gravenberch almennilega í þessa stöðu og Endo er þarna enn þannig maður heldur í vonina að þetta reddist.
    Góðar stundir félagar.

    YNWA

    7
  9. Ég hef verið manna gagnrýnastur á að félagið hafi ráðið Slot sem þjálfara en ég ætla samt að spá liðinu sigri í Úrvalsdeildinni þetta árið.

    Það blasir við að það vantar djúpan miðjumann og því miður er slíkur leikmaður nauðsynlegur í nútíma fótbolta en hópurinn er einfaldlega ógnar sterkur og breiddin mikil og það er erfitt að finna heimsklassa leikmenn sem styrkja liðið.

    Að mínu mati erum við með besta 20 manna hóp deildarinnar en þegar kemur að því að stilla upp 11 bestu vantar augljóslega djúpan miðjumann. Ég held að miðað við ástandið á hópnum núna fyrir mót og með smá lukku getur þessi hópur tekið deildina.

    Gleymum heldur ekki að við erum ennþá með hópinn sem Klopp byggði upp og hann sagði að það eina sem vantaði á síðasta tímabili væri reynsla og trú til að vinna deildina. Getan væri til staðar.

    Í ljósi þessa ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn sérstaklega þar sem Slot virðist ætla að breyta litlu frá því sem verið hefur.

    Svo er bara að vona að lykilmenn haldist heilir enda er kominn tími á að við verðum heppnari hvað það varðar en önnur lið sem við viljum keppa við.

    Áfram Liverpool!

    4
  10. Sammála Andra um að Liverpool eru ekki að fara verða í 4 efstu sætunum. Og að halda allt sé í lagi hjá klúbbnum er náttúrulega barnalegt. Eins og vanalega virðast ekki vera neitt plan B eða plan C ef plan A klikkar. Og halda menn virkilega að Klopp hafi bara hætt af því það var svo mikið álag á honum nei það mun einn góðan veðurdag koma skýring af hverju hann raunverulega hætti. Ég akkúrat hef engar væntingar um Slott eða hvar Liverpool mun enda á þessari leiktíð ,en við skulum bíða og sjá eftir nokkar vikur og þegar við erum byrjuð í meistaradeildinni og bikarkeppnum og menn fara að meiðst þá virkilega mun koma í ljós hversu heimskulegt var að kaupa ekki þá leikmenn sem Liverpool vantaði.

    1
  11. Smá off topic. Virkar Kop.is Fantasy deildin hjá ykkur? Er að nota kóðan 95i4dm en finn ekki deildina.

Spá Kopverja – fyrri hluti

Í ár ætlum við að elska hádegisleiki – Upphitun fyrir Ipswich