Í ár ætlum við að elska hádegisleiki – Upphitun fyrir Ipswich

Þetta er að bresta á. Fyrir ekki svo skömmu sátum við tárvot og fylgdumst með síðasta leik tímabilsins í fyrra, óneitanlegum endapunkti á skemmtilegasta skeiði Liverpool á þessari öld. Liðið sem mætir til leiks á morgun er svo gott sem það sama en nýtt andlit er í brúnni. Arne Slot mætti alveg óskað sér að sumarið hefðir verið einfaldara til að taka við liðinu, sem og að fá þægilegra verkefni í fyrsta leik. Í fyrsta sinn í rúma tvo áratugi leik Ipswich Town í efstu deild enska boltans og maður þarf ekki að vera á staðnum til að skynja spennuna fyrir að sýna stóru strákunum í hvað þeim býr.

Andstæðingurinn.

Ipswich Town má rekja rætur sínar til áttunda áratugarins (á þarsíðustu öld) og er eitt eldri núlifandi félögum á Englandi. Fyrstu áratugina var liðið áhugamannalið en það breyttist 1936, eftir að hafa verið eitt af yfirburðarliðunum í Suffolk-deildinni árin á undan. Tröppugangur þeirra upp fótboltapýramídann hófst ekki fyrr en eftir Síðari Heimstyrjöldina. Þjálfari þessara ára, Scott Duncan, afrekaði það að þjálfa liðið í yfir 500 leikjum þrátt fyrir sex ára pásu deildarinnar vegna stríðsins.

Árið 1961 unnu þeir sig upp í efstu deild í fyrsta sinn, þar sem þeir voru fastaliður næstu þrjátíu ár. Þeir flugu hátt strax í upphafi, gerðu sér létt fyrir og unnu deildina í fyrstu atrennu. Þeir voru fyrstu (og að ég best sé eina) liðið sem hefur náð að vinna deildina í fyrstu tilraun, að fráskildum Preston sem unnu hana fyrsta árið sem deildin var spiluð.

Þó Ipswich næðu aldrei stöðuleika sem besta lið landsins, þá voru mörg afrek unninn á þessum árum. Þeir unnu bikarinn 1978, tóku þátt í Evrópu ævintýrum sem leiddu til hins skemmtilega mets að hafa aldrei tapað heima í Evrópuleik þrátt fyrir heimsóknir frá Real Madrid, Barcelona og beggja Milan liðana og unnu Evrópu bikarinn 1981.

Liðið sem varð meistarar

Tíundi áratugurinn var mörgum liðum erfiður á Englandi. Stofnun Úrvalsdeildarinnar, Meistaradeildarinnar og almennt góðæri þýddi að sífellt meiri peningar voru í umferð í fótboltanum, án þess að fagmennska væri komin inn í stjórn félagana. Ipswich var eitt liðanna sem átti erfitt með að fóta sig á þessum tíma. Á síðasta degi tímabilsins 2001 stálu Liverpool Meistardeildarsæti af Ipswich. Ári seinna féllu Ipswich úr Úrvalsdeildinni og hófst þrautaganga sem ekki lauk fyrr en 2024.

2002-19 spiluðu Ipswich í b-deildinni og voru nokkrum sinnum glettilega nálægt að vinna sig aftur upp. Allt kom fyrir eftir og margar bækur mætti skrifa um það sem gekk á bakvið tjöldin. 2019 náði óstöðuleikinn sínum rökrétta lokapunkti og liðið féll í þriðju deild í fyrsta sinn síðan 1954. Það tók fjógur tímabil að vinna sig aftur í B-deildina, en þegar þeir komust upp gerðu þeir það með trompi. Þeir kláruðu tímabilið 2022-23 með átján taplausum leikjum í röð og ráku endahnútinn á þetta tímabil með 6-0 sigri á Exeter.

Leiftrandi sóknarbolti Ipswich sundurtætti svo B-deildina. Það féllu víða tár í vor þegar sætið var staðfest og nokkuð ljóst að það yrðu ekki lengur Gillingham, Exeter og QPR sem kæmu í heimsókn á Portman Road, heldur Liverpool, Arsenal og United. Þetta tímabil getur farið í tvær áttir hjá þeim. Annaðhvort ná þeir að gera heimavöllinn að algjöru virki og taka þetta á stemningunni eða þeir kolfalla eins og flestir spá. Ég óska þeim alls hins besta, eftir klukkan þrjú á morgun.

Okkar menn.

Þó söludeild Liverpool hafi verið á fullu síðustu vikur er ekki komin neinn alvöru biti inn í liðið eftir síðasta tímabil. Þegar þetta er skrifað er helsta slúðrið um nýjan varamarkmann, sem er gott og blessað í túmarúmi en vissulega vildi maður sjá einhverja stjörnu koma inn á áður en glugginn lokar.

Ef Arne Slot ætlar að byrja stjóratíð sína af krafti er líklega stærsti sénsinn einfaldlega að halda liðinu heilu og spila bolta sem krefst ekki jafn svakalegrar orku og hjá forvera hans. Leikmannahópur Liverpool er í heimsklassa og það þarf annað hvort alvöru bombu á leikmannamarkaðnum, eða það sem ég tel líklegra að Slot reyni, einhverskonar breytingu í skipulagi liðsins sem leyfir því að njóta sín betur. Það væri frábært start ef sóknarmennirnir okkar nýta færin bara örlítið betur en í fyrra. Hægara sagt en gert en það er vonin.

Incoming Liverpool boss Arne Slot reveals the extraordinary lengths he went to in order familiarise himself with his new club. | Goal.com US

Það er langt því frá augljóst hvert sterkasta byrjunarlið Liverpool er. Nýr þjálfara gæti vel komið með eitthvað óvænt í fyrsta leik. En líklega byrjar það lið sem við myndum flest telja sterkast. Það er að segja varnarlínan Robbo, Konate, Van Dijk og Trent og Alisson í markinu. Stærsta spurningarmerkið er varnartengiliðurinn þar sem allt stefni í að Gravenberch verði og fyrir framan hann Szobozlai og MacAllister. Ég gæfi mikið fyrir að heyra hvað Slot hugsaði þegar hann áttaði sig á hvílíku stórskotaliði hann hefur að velja úr fremst, en ég ætla að spá að framlínan verði Diaz-Jota-Salah. Semsagt svona:

Spá:

 Líklega mun Slot leggja mikla áherslu á að byrja fyrsta leikinn á að halda hreinu. Vonandi hefur hann aðgang að einhverjum öflugri orkudrykkjum en forveri hans fyrir þessa blessuðu hádegisleiki okkar menn klára þetta 2-0, með mörkum frá Salah og Jota.

16 Comments

  1. Það er bara loksins komið að þessu, orðinn fáranlega spenntur að sjá hvernig Slot nær að mótivera liðið og hvernig þeir spila hans kerfi.
    Sammála skýrsluhöfundi með byrjunarliðið, held að Gakpo og Nunez muni þurfa að sætta sig við bekkjarsetu að sinni og bara vonandi setja alvöru pressu á þá að standa sig.
    Ef að Jota nær að halda sér heilum að mestu þá verður erfitt fyrir Nunez að fá sæti í byrjunarliðinu.
    Verður spennandi að sjá hvernig miðjan mun spila þetta, upplegg Slot er að halda mun meira í boltann heldur en leikkerfi Klopp var.
    Ég spái þessu 1-3 þar sem kóngurinn sjálfur með nýja loookið skilar fyrstu þrennu tímabilsins í hús.

    6
    • Smá edit á þetta.
      Sé núna að Konate er settur inn af skýrsluhöfundi, ég held og vona að Quansah verði þarna við hliðina á Van Dijk

      7
  2. Maður er búinn að bíða síðan í vor eftir því að deildin hefjist aftur fullur tilhlökkunar en að sama skapi örlítið stressaður um hvernig nýjum stjóra reiðir af í nýrri deild.
    Ég held að Arne Slot byrji með sama lið eins og hann var með á móti Sevilla og við lendum í bölvuðu brasi að leggja nýliðana að velli en endum á að Nunez kemur inn af bekknum og skítur nokkrum sinnum í tréverkið áður en að hann nær að stilla miðið og skora sigurmarkið á loka sekúndum leiksins og við vinnum 1-2.
    YNWA

    2
  3. Héðan frá Ystu Nöf er allt gott að frétta. Loksins er komið að því að nýtt tímabil er að hefjast. Gleðin skín af hverju andliti. Spenningur og hver hugsar sitt. Enn kemur Klopp upp í huga okkar á hverjum degi en það sem er búið er víst búið. Hér í sveitinni höfum við haft litlar spurnir af Niðurlendingnum sem tók við af Klopp, hverra manna hann er o.s.frv. Við höfum samt ákveðið að gefa honum séns fyrst um sinn. Á morgun kl. 10:30 mun söfnuðurinn hér á Ystu Nöf hópast saman í hlöðunni og fá sér brunch og horfa síðan á hádegisleikinn. Spáin er 1-4. YNWA.

    20
    • Eru einhverjar fregnir af Guðrúnu vinkonu minni? Er hún enn á berklahælinu í Kristnesi?

      4
    • Ég er rólegri en áður yfir sumarglugganum. Kannski meiri þroski, kannski nenni ég ekki lengur að berja hausnum við steininn yfir fsg, kannski treysti ég processinu bara, 2 vikur eftir og ýmislegt gæti gerst. Svo líka hópurinn stór og þarf að grysja áður keypt er. Þannig hafa þeir alltaf verið, fsg.

      Svo er von mín að Grav virki eins og “new signing” og sýni hvað í honum býr. Það var engin tilviljun að stærstu klúbbarnir voru á eftir honum fyrir 2-3 árum. Sama með Szobo, verði semi new signing, höndli meira en fyrstu 4 mánuði tímabilsins. Einnig að það komi meira úr Gakpo og Nunez með því að þeir spili sína bestu stöðu.

      4
  4. Ætli þetta verði veturinn þar sem Liverpool, öllum að óvörum, verður selt? Þessi leikmannakaupa-vandræði lykta furðulega.

    5
  5. Byrjum tímabilið á neglu.
    0-4

    Svo koma núna nýjar fregnir af samningaviðræðum við Zubimendi og RS sem ganga vel.
    Ætla ekki að fagna neinu strax, en plíííís náum að klára kaupin á kappanum.

    4
  6. Skíthræddur um bananahýði hérna, vona samt að þetta fari 1-4. Væri æði að halda hreinu.

    2
  7. BREAKING: Liverpool are close to signing South Korean midfielder Fuckin-No-Won and Brazilian attacker Nobodinho.

    Þetta er því miður svo satt og lýsir svo mikið Loserpool í dag.

    4
    • Ertu stuðningsmaður Liverpool og kallar félagið loserpool. Held að þú ættir að kíkja á chelsea.is eða eitthvað og finna þér nýtt lið til að halda með.

      10
  8. Sælir félagar

    Sigur og ekkert nema sigur er það sem ég vil út úr þessum leik. Slot segir liðið sé svo gott að það sé erfitt að finna leikmenn sem bæti það. Ætli staðreyndin sé ekki sú að: það er erfitt að finna ÓDÝRA MENN sem styrkja liðið. Auðvitað er hægt að finna menn sem styrkja þennan hóp en þeir kosta peninga og þá rennur FSG kalt vatn milli skinns og hörunds þegar minnst er á slíkt.

    Miðjumaður sem styrkir liðið (veit ekki hvort það þarf endilega að vera einhverkonar “sexa”) og vinstri bak sem er verðugur arftaki Robbo er það sem vantar. Annað ætti að duga í vetur að óbreyttu. 0 – 1, 1 – 2 eða 2 – 3 mér er sama. Sigur er það sem ég vil og tel að við verðum að fá hvað sem öllum samanburði við aðra stjóra líðu í þeirra fyrsta leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  9. Góðan og blessaðan daginn, biðin langa loks á enda og Kopverjar samir við sig, negla í upphitun hjá þér Ingimar og gefur góðar vonir um að komandi tímabil verði ekki síðra en það síðasta hjá ykkur kop pennum. Hefði verið frábært að fá inn eins og tvær til þrjár kanónun en vonandi ná þeir sem treyst verður fyrir verkefni dagsins að sýna okkur að þeir ráði við verkefnið.
    Dreymdi fyrir tapi í fyrsta leik en vonandi veit það á gott. Spái 1-3 fyrir Liverpool
    Gleðilega hátíð

    3
  10. Svör Slot til blaðamanna hafa verið yfirveguð og góð, m.a. um “obsession with transfers” á Englandi og að það sé líka hægt að bæta lið innan frá með góðri þjálfun og að gefa ungum mönnum tækifæri. Það breytir því þó ekki að kaup á 2-3 mönnum í byrjunarliðsklassa myndu auka líkur á titilbaráttu mikið, s.s. djúpum miðjumanni, sóknarmanni og miðverði.

    Eina dæmið sem ég man eftir um úrvalsdeildarlið sem keypti engan milli tímabila var Wimbledon í kringum aldamót undir stjórn Norðmannsins Egil “Drillo” Olsen sem vildi spila háloftabolta. Þeir unnu í fyrstu umferð ef ég man rétt og þá var strax farið að tala um að leikmannakaup væru ofmetin, en skítféllu síðan um vorið. Vonandi tökum við þá ekki til fyrirmyndar.

    Þannig að ég er svolítið mitt á milli með þetta, við þurfum styrkingu en ekki eins mikla og margir vilja vera láta. Það er líka mögulegt að Slot nái meira út úr hópnum en Klopp gerði, því jafnvel þótt Klopp sé nánast í guðatölu hjá okkur þá var hann ekki fullkominn frekar en aðrir. Að tapa ekki leik á undirbúningstímabilinu hefur komið mér verulega á óvart (og vinna alla nema einn), m.a. á móti tveimur af helstu keppinautunum, Arsenal og United. Veit samt að æfingaleikir gefa takmarkaða mynd. Ég er nokkuð bjartsýnn fyrir tímabilið og held að liðið blandi sér í titilbaráttuna.

    4
  11. Mig langar að velta einu fyrir mér. Ég man ekki eftir því, á meðan Klopp hefur verið stjóri hjá Liverpool, að það hafi einhvern tímann verið enginn leikmaður á meiðslalistanum. En núna, í fyrsta leik tímabilsins, er enginn á þeim lista. Er þetta bara tilviljun, eða erum við að sjá árangur af vinnu Arne Slote? Ég vil taka það fram að ég er alls ekki að draga neinar ályktanir, þetta er bara hugleiðing.

    9

Spá Kopverja – síðari hluti

Liðið gegn Ipswich