Ipswich 0 – 2 Liverpool

Liverpool heimsótti nýliða Ipswich í hádeginu í dag og Arne Slot varð fyrsti stjóri Liverpool í 33 ár til að byrja alvöru keppnisleik með sigri.

Mörkin

0-1 Jota (60. mín)
0-2 Salah (65. mín)

Hvað gerðist markvert í leiknum?

Fyrri hálfleikur var í sjálfu sér frekar gleymanlegur, nema fyrir þá staðreynd hvað okkar menn voru ekki mættir til leiks. Liðið var með 0.11 í xG eftir fyrri hálfleikinn, og það segir sína sögu. Ipswich menn voru einfaldlega grimmari í boltann, svolítið eins og okkar menn væru hræddir við að dýfa tánum ofan í laugina. Í raun var bara ein almennileg sókn í hálfleiknum og hún kom á 45. mínútu. Andstæðingarnir áttu hins vegar nokkur færi eða hálffæri, en Alisson var vandanum vaxinn í öllum tilfellum.

Arne Slot sendi út “Hæ, ég er mættur í ensku deildina” skilaboð strax í hálfleik þegar hann tók Jarell Quansah af velli og setti Konate inn í staðinn. Í viðtölum eftir leik þá sagði hann að þetta hefði verið pjúra taktísk ákvörðun, liðið var einfaldlega að tapa of mörgum návígjum. Þessi breyting plús hálfleiksræðan gerði það að verkum að það var allt annað lið sem mætti inn á völlinn í síðari hálfleik, og eftir korters leik skoruðu okkar menn mjög svo dæmigert Slot-mark þar sem menn spiluðu frá aftasta leikmanni, stungusending inn fyrir á Salah sem renndi á Jota og hann gerði engin mistök. Fimm mínútum síðar var það svo Salah sem var í hlutverki markaskorara, átti gott spil með Szobo og varð þar með sá leikmaður sem hefur oftast skorað í upphafsleik leiktíðar í úrvalsdeildinni. Liðið hefði reyndar átt að vera búið að skora fyrr í seinni hálfleik, Díaz sérstaklega fékk nokkur færi sem á góðum degi hefðu endað í netmöskvunum, Jota átti líka t.d. dauðafrían skalla, nú og svo átti markvörður andstæðinganna stórleik (jebb, sumt breytist aldrei).

Bakvörðunum var svo skipt út af þegar um korter var til leiksloka, ásamt því að Gakpo kom inn fyrir Jota, og þannig sigldi liðið sigrinum í höfn.

Hverjir voru bestu mennirnir í dag?

Hér er alveg hægt að nefna nokkra. Salah er löngu kominn á þann stað að vera “legend” hjá klúbbnum. Öll tölfræði í kringum hann segir það, og það er eins og hann finni sig vel í þessu kerfi sem Slot spilar. Þá vill Slot heldur ekki setja of mikla ábyrgð á herðar Salah með því að segja að hann sé mikilvægasti leikmaður liðsins, og það held ég að sé bara jákvætt. Það má líka nefna Gravenberch sem kom sterkur inn í sexuhlutverkinu, við söknuðum a.m.k. ekkert svakalega þess að vera ekki með nýjan mann í því hlutverki. Trent sýndi hvers hann er megnugur, nú bara þarf að fara að finna pennann svo hann geti skrifað undir. Alisson þurfti ekki að gera mikið, en það er jú aðalsmerki góðra markvarða að vera 100% með athyglina í lagi jafnvel þó svo það reyni ekki á þá á löngum köflum. Og svona mætti lengi telja, skulum enda á að nefna Jota sem enn og aftur sýnir hvað hann er mikilvægur og mætti endilega vera meira heill héðan í frá.

Hvað hefði mátt betur fara?

Það var enginn sem átti eitthvað afleitan dag. Jújú, Quansah var tekinn af velli í hálfleik, en undirritaður hefur fulla trú á að Slot sé ekki þar með búinn að afskrifa leikmanninn. Í raun var hann ekkert eitthvað mikið verri en aðrir í fyrri hálfleik, reynsluleysið skein mögulega aðeins í gegn hjá honum. Robbo var t.d. mun ryðgaðri, og gaf t.d. aukaspyrnu á 20. mínútu sem hefði auðveldlega getað endað með marki (Alisson þurfti að verja eftir fyrirgjöfina) ásamt ýmsum öðrum tilfellum þar sem hann hefði átt að gera betur. Þessi skipting á Quansah var því líklega meira hugsuð til að stimpla ákveðna breytingu inn í liðsheildina í seinni hálfleik, frekar en að þetta hafi verið yfirlýsing um hvað Quansah sé lélegur (sem hann er ekki). Bara gott að við séum með stjóra sem þorir að gera breytingar þegar þess þarf. Aðrir leikmenn sem maður vill nefna eru t.d. Díaz, sem virkar alltaf stórhættulegur, en hann verður líka að gjöra svo vel að klára færin sín. Hann var t.d. sá leikmaður framlínunnar sem varð síðastur til að komast í 10 mörk í öllum keppnum í fyrra. Í dag fékk hann t.d. færi einn á móti markverði á markteig, ef hann hefði náð að setja boltann á rammann þá hefði hann líklegast skorað. Þetta eru hins vegar hlutir sem Slot þarf að vinna með og er örugglega með plan um hvernig eigi að höndla.

Það má að sumu leyti segja að þeir leikmenn sem ekki komu við sögu hafi átt versta daginn. Jones, Nunez, Elliott, Endo etc., en þeir verða núna bara að sýna það á æfingasvæðinu að þeir ætli að berjast fyrir sínu sæti, og vera tilbúnir þegar kallið kemur. Það er alveg ljóst að það verður fullt af leikjum í vetur og það mun reyna á breiddina.

Umræðan eftir leik

Þetta var lítið en mikilvægt skref, gott að sjá að Slot stóðst þessa prófraun. Úrslitin þýða líka vissulega að þó svo það verði enginn keyptur, þá er ekkert öll nótt úti enn. Þetta er feykisterkur hópur, en auðvitað langar okkur öll til að sjá hópinn styrktan. Eðlileg endurnýjun gerist jafnt og þétt. Já og í guðanna bænum farið að semja við Trent, Salah og Virgil.

Næsta verkefni

Brentford á Anfield á sunnudag eftir viku. Alveg óþarfi að ætla að horfa eitthvað lengra. Gætum séð Carvalho í hópi andstæðinganna þar, óskum honum bara velfarnaðar nema akkúrat í þeim leik.

Fögnum því að liðið var á toppnum í smá stund eða þangað til James Milner og félagar í Brighton hirtu toppsætið. Hann er ennþá okkar maður þó Brighton njóti krafta hans í augnablikinu.

36 Comments

  1. Sælir félagar

    Það gerðist sem ég bjóst við að orka Ipswich var búin í seinni og Liverpool gekk á lagið og vann leikinn örugglega 0 – 2. Miðjan fór að virka og Szobo og Grav áttu mjög góðan seinni. TAA var sýnu betri í seinni og þeir þrír í framlínunni sköpuðu endalaus vandræði fyrir varnarmenn Ipswich. Salah með stoðsendingu og mark og Jota með fyrra markið. Vörnin steig varla feilspor í þeim seinni. Eins og ég sagði í athugasemd við upphitun þá var sigur aðalatriðið en ekki verra að tilla sér á topp deildarinnar, amk. um stundarsakir 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

    16
  2. Frábært að byrja á sigri, og gaman að sjá Ipswich og Portman Road i úrvalsdeildinni. Ánægður með stuðningsmenn Liverpool að syngja nafn Slot. Og kóngurinn með mark. Hann svarar alltaf, Salah er einfaldlega bestur.

    18
  3. Þroskuð frammistaða.
    Ipswich komu hlaupandi brjálæðir með alla stemmingu með sér.
    Okkar menn biðu róleigir eyddu ekki mikili orku í að matcha þetta í fyrri.
    Í seinni komu þeir svo og keyrðu yfir útkeyrða mótherja

    10
  4. Frábær byrjun fyrir Slot þetta var mjög góður leikur ekki bara afþví við unnum heldur hvernig þeir gerðu það.
    Leyfðu Ipswich að keyra sig út í fyrri og keyrðu svo yfir þá í þeim seinni Liverpool hefðu getað skorað flleiri en 2 mörk.

    Fannst dómarinn slakur í fyrri hálfleik var að flauta alltof mikið en þetta var skárra í þeim seinni enda fékk leikurinn að flæða aðeins betur.

    Mér fannst Salah frábær í þessum leik Jota að sjálfsögðu algjör refur með fyrsta markið.
    Diaz átti meira skilið úr þessum leik hann var sífellt að ógna og held að varnarmenn Ipswich fái matraðir eftir að berjast við hann.
    Góðar stundir félagar !

    YNWA

    9
  5. Smá ryðgaðirr fannst mér í fyrri hálfleik,bara eðlilegt í fyrsta leik tímabilsins.

    8
  6. Virkilega gaman að sjá handbragð nýs þjálfara. Hann er með skynsamlega nálgun finnst mér. Halda fólki heilu, ekki djöflast fram í rauðan dauðann, hafa stjórn á leiknum. Tóku því rólega í fyrri hálfleik, leyfðu heimamönnum að dæla mjólkursýru í vöðvana og safna spjöldum. Svo skein liðið í seinni hálfleik með ærandi fallegan posession bolta. Þetta minnir á tiki-taka fótboltann enda hollensk afurð.

    Var sáttur við leikmennina.

    Diaz er sennilega flinkastur með boltann í deildinni það eru – bara … já, einmitt, slúttin.
    Salah var verðskuldað maður leiksins. Mark og stoð. Hvað vill maður meira?
    Jota með mark og var líflegur.
    Macca fannst mér fremur lítið hafa sig í frammi.
    Szlobo og Gravenberch voru virkilega góðir. Szlobo með stoðsendingu og Grav. með aukið sjálfstraust, ruddist í gegnum miðjuna hvað eftir annað og átti góðar sendingar. Minntu svolítið á gömlu miðjuna Hendo, Gini og Fab.
    Ekkert við vörnina að sakast og Arnold var eins og kóngur þegar hann færði sig yfir á miðjuna.

    Virkilega gaman að sjá þessa yfirveguðu frammistöðu, að því sögðu þá bendir margt til þess að bláliðar falli í vor.

    15
    • Ég gat ekki séð mikinn mun á liðinu frá síðasta tímabili Klopp og þessum leik. Hvaða Slot handbragð var hægt að sjá í þessum leik?
      (ekkert að reyna að vera með leiðindi – bara sá ekki mun á uppstillingu, leikstíl,… nema Gravenberch í 6-u legu hlutverki)

      4
      • Áhugavert næsta hlaðvarp þeirra bræðra um þessar pælingar þeir ættu að hlaða í þátt núna í beinni…..bara pæling….

        4
  7. Ef þessi spilamennska sem við fengum að sjá í seinni hálfleik er það sem koma skal, þá gætum við átt virkilega skemmtilegt tímabil framundan.

    Hefði viljað sjá 2-3 mörk í viðbót en Ipswich-menn börðust eins og ljón og komu í veg fyrir enn stærri sigur okkar manna.

    Flott byrjun. Áfram Liverpool!

    12
  8. Alveg er það sérlega ánægjulegt að sjá spilamennskuna hjá Salah undir nýjum þjálfara. Hann virðist hafa endurheimt lífsgleðina og ekki bara það, hann er hluti af LIÐINU! Pressar, gefur sendingar, er nær markteignum og almennt mjög líflegur. Ekki að spila fyrir sjálfan sig eingöngu eins og manni hefur oft fundist hann gera á undanförnum leiktíðum. Svo spillti ekki fyrir að hann skyldi setja enn eitt metið í dag. Meira svona, takk!

    12
  9. Leikur 2 hálfleika þar sem við vorum undir í öllum návígjum í fyrri.

    Seinni var frábær af hálfu LFC og hrikalega gott fyrir Slot og leikmenn að byrja tímabilið á sigri.

    Gravenberch var frábær í djúpri miðju og steig varla feilspor í að dreifa boltanum liðsfélagana.
    Nú þarf að klára samning við Trent, þvílík gæði í honum þegar hann er í gírnum.

    Eigum við eitthvað að ræða Egypska kónginn.
    Hann skorar í sínum 9 opnunarleik í röð og slær met. Er búinn að koma að skora 212 mörk, og er búinn að leggja upp 88 mörk í öllum keppnum fyrir Liverpool eftir 350 leikjum, held við munum ekki sjá annan svona leikmann í treyju Liverpool . ???

    18
  10. Fínn sigur, vorum í smá barasi í fyrri hálfleik, enn öruggt í þeim seinni
    Ég hef fulla trú að því sem Arne Slott er að gera.

    Vona að FSG dragi ekki lappirnar ef Slott vill styrkja liðið fyrir lok gluggans.

    YNWA

    3
  11. Flottur leikur, þægilegur sigur. Getum gert kröfur á gott gengi í vetur.

    3
  12. Einfaldlega stórkostleg svar hjá leikmönnum í seinni hálfleik eftir dapran en ekki óskiljanlegan fyrri hálfleik. andstæðingarnir í dag mættu bara á fullum krafti eftir langa fjarveru í deildinni og gáfu leikmönnum Liverpool bara alvöru mótspyrnu í fyrri hálfleik.
    Í þeim seinni var ljóst frá fyrstu sek að Liverpool menn ætluðu að keyra yfir þá sem og þeir gerðu og hefðu alveg getað/mátt skora fleiri mörk en við héldum hreinu, skoruðum 2 mörk og engin meiddist.
    Ég hefði viljað sjá Nunez fá 10-15 mín í þessum leik en annars ótrúlega sáttur með þennan leik og hvernig menn mættu til leiks í seinni hálfleik.
    Næsta mál hlýtur að vera að fá þá Trent, Salah og Van Dijk til að skrifa undir nýja samninga.

    6
  13. Já og verð að bæta þvi við að mér fannst Gravenberch frábær í seinnihálfleik og ég hlakka til að sjá hvernig hann nær að spila þessa stöðu. Hann er auðvitað ekki Mascerano týpa en hann hefur alvöru presence, 1.90 á hæð og er góður spilari með boltann og hann gæti vel komið okkur flestum á óvart í vetur.

    9
    • Eftir Zubimendi vonbrigðin þá finnst mér alveg jafn spennandi að gefa Gravenberch nokkra mánuði í þessari stöðu í stað þess að fara í einhverjar panik reddingar.

      Var góður í gær og þá leiki sem hann spilaði á undirbúningstímabilinu.

      5
  14. Barasta stórskemmtilegur seinni hálfleikur eftir hægagang í fyrri. Tek undir með einhverjum sem sagði hér á undan mér að það virðast vera tvær fljótandi sex-áttur í Gravenberch og Szabo í þessum leik – svo verða kannski aðrir leikmenn næst. Þeir stóðu sig báðir vel og mótast vonandi í hlutverk sín í liðinu.

    Mér fannst Elliot frábær á undirbúningstímabilinu, bestur ásamt Salah, og kannski er hann hugsaður í eitthvað hlutverk þarna líka, framarlega á kanti/miðju á móti öðruvísi liðum. Hann er gífurlega vinnusamur og fórnfús og bara virkilega góður alhliða fótboltamaður.

    Held að ekkert okkar eigi að fara á taugum þótt glugginn verði áfram rólegur en vinstri bak, miðvörður og sexa væru ekki hneisukaup ef af verður. Ég hyggst lifa og njóta í vetur sama hvað úr verður.

    Gaman að sjá kop.is komið á fullt aftur og deildina farna af stað og allir góðir grallarar og galdrafólk kommenta eins og vindurinn.

    16
  15. Það sem ég var hvað ánægðustur með eftir þennan leik (fyrir utan auðvita síðari hálfleik í heild sinni) var að í stöðunni 0-2 þá drápu við leikinn.

    Það er eitt sem Klopp var ekki mikið að gera. Það var bara allt á fullt og haldið áfram að keyra á lið sem gerði það að verkum að stundum hleyptum við liðum aftur inn í leikinn því að við vorum að sækja á mörgum mönnum sem opnaði vörnina okkar.

    Slot lét liðið róa leikinn. Halda boltanum vel og vorum við ekkert að flýta okkur nema þegar við náðum að sundurspila í gegnum pressuna og allt opnaðist hjá þeim. Annars var þetta bara göngu bolti og ég ELSKA það. Svona á að drepa leiki og ekki gefa liðum neinn séns að koma til baka.

    14
    • Nákvæmlega það sem hugsaði líka. Drepa leikinn. Klopp kunni það ekki. Maður var aldrei rólegur þó liðið væri komið í 2 eða 3 núll. Alltaf allt galopoð fyrir andstæðinga til að koma sér inn í leikinn.

      4
    • Maður vissi svosem fyrirfram að Slot myndi koma með þessa nálgun. Þetta verður líklega ekki sama skemmtunin og undir stjórn Klopp en á móti mun minni orkusóun og væntanlega styttri meiðslalisti.

      4
  16. Virkilega fagmannlegt og gott hjá okkar strákum í fyrsta leiknum undir stjórn nýs þjálfara.

    1
  17. Sterling er ekki einu sinni á varamannabekknum hjá Chelsea í dag. Nú er eitthvað í gangi…

    3
    • Eitthvað vesen á leikmannamálum hjá Chelsea? Ég er í sjokki. SJOKKI!!!

      4
    • Engin þörf á Sterling. Mér fannst Chelsea líta vel út í gær. Ég held Maresca geti gert ágætis hluti með þennan hóp.

      2
      • Og það er ekki eins og chelsea séu hættir á markaðnum, eru að skipta á Lukaku og Victor Osimhen hjá Napoli. Allt annað en toppbarátta hjá þeim þetta tímabilið hljóta að teljast stórkostleg vonbrigði enda að stefna í að vera eitt dýrasta félag heims og allir á 7-9 ára samningum.

        1
      • Mér hefur aldrei þótt neitt varið í Sterling. Hann lofaði góðu en skilaði aldrei í samræmi við væntingar.

        2
      • Chelsea hljóta að stefna á Meistaradeild á þessu tímabili og titilbaráttu á því næsta. Lykilatriði að minu mati er að halda sig við Maresca.

        3
      • Ekki hef ég nú mikla trú á því að einhver þjálfari nái árangri með þennann hóp sem er einungis settur saman með $$$$

        Það þarf nú samstilltan hóp til að ná árangri og yfirleitt þarf hópurinn að passa við leikstíl þjálfarans enn ekki eyðslu fyllerí eigandans.

        Annars gæti mér ekki verið meira enn drullu sama um Chelsea.

        Áfram Liverpool!

        2
      • 18,2.4 Ari Oskarsson 19.08.2024 at 18:18

        haa?

        Í nokkur ár hefur þú síendurtekið kallað eftir olíupeningum og nýjum eigendum sem kunna bókhaldsbrellur, til þess að Liverpool geti farið á eyðslufyllerí.

      • DJ20, þú ert annað hvort ekki læs eða svona vitlaus að þú skilur ekki kommentin mín!

        Ég hef ALDREI talað fyrir því að kaupa allan heiminn eins og Chelsea ég hef aðeins talað fyrir því að standa í lappirnar þegar réttu leikmennirnir eru fáanlegir.

        1
  18. James Milner setti met í gær. Fyrsti leikmaðurinn til að spila 23 tímabil í ensku úrvalsdeildinni.

    24
    • Ég vona að Liverpool fái hann í þjálfarastöðu þegar hann hættir að spilar 2030 🙂
      stórkostlegur atvinnumaður og var feykilega vinsæll í Liverpool.

      9
  19. Hvaða tungumál ætli sé talað innan Chelsea liðsins þegar þeir spila ? ESPERANTO ?

    3

Liðið gegn Ipswich

Gullkastið – Ballið byrjað