Manchester United – Liverpool

Við þurfum ekki lengi að bíða eftir fyrsta stórleik tímabilsins. Það er alltaf ákveðinn fiðringur þegar við mætum hinum stóru köllunum, og það hefur verið sérlega gaman að mæta Manchester United upp á síðkastið. Gengið hefur verið frábært, hvort sem er á Anfield eða Old Trafford og það má alveg minnast á 7-0…7-0…7-0 og svo unnum við þá fyrir ekkert svo löngu síðan 0-5 á Old Trafford.

Það var þá, núna er nýr leikur og liðin eru breytt og leikirnir á síðasta tímabili fóru ekki nógu vel, tvö jafntefli í deild og svo tap eftir framlengingu í bikarnum. Töluvert súrt því að Manchester United átti einfaldlega ekki gott tímabil í fyrra. Raunar svo slæmt að á mörgum tímapunktum fannst manni Erik Ten Hag verða rekinn eftir slæm töp þeirra. Það gerðist þó ekki og hann er enn við stjórnvölinn.

Liðin

Ef við byrjum á Manchester United þá hafa þeir verið nokkuð duglegir að styrkja sig í sumar. Fyrstan ber að nefna Leny Yoro sem var vissulega orðaður við Liverpool. Hann er þó meiddur og mun ekki spila þennan leik. Næstur er Noussair Mazraoui, marokkóskur bakvörður, réttfættur og líklega frekar hægri bakvörður heldur en vinstri þótt hann sé víst fullfær að spila báðar stöðurnar. Miðvörðurinn eitt sinn efnilegi Matthijs de Ligt kom frá Bayern Munchen (reyndar eins og Mazraoui) og loks keyptu þeir úrúgvæjann Manuel Ugarte – sem var líka eitthvað orðaður við Liverpool – á miðjuna hjá sér. Casemiro er víst orðinn eitthvað hægur. Síðastur en ekki sístur er Joshua Zirkzee sem kom frá Bologna og tryggði þeim sigur í fyrsta leik tímabilsins.

Liðið þeirra verður eitthvað á þessa leið:

Onana

Mazraoui – McGuire – Martinez – Dalot

Casemiro – Mainoo

Garnacho – Fernandes – Rashford

Zirksee

Meiðslalistinn þeirra er að þessu sinni (líkt og mest allt síðasta tímabil) jafnvel lengri en hjá okkur á góðum degi undir stjórn Klopp. Fyrrnefndur Yoro, Malacia, Mason Mount, Höjlund, Lindelöf og Shaw eru allir meiddir – Shaw er reyndar alltaf meiddur nú um stundir.

Í síðasta leik töpuðu þeir 2-1 á útivelli gegn Brighton en í fyrsta leik unnu þeir Fulham 1-0 á heimavelli. Upp og niður – það eru þeir síðustu árin, lítill stöðugleiki og það er ekkert víst að þeir nái í einhvern stöðugleika strax. Töluverðar breytingar á hópnum á milli ára þótt kjarninn í hópnum sé búinn að spila lengi saman. Töluvert um meiðsli og þeir eru bara með þennan eina senter tiltækan núna og hann hefur enga reynslu í úrvalsdeildinni.

Liverpool hefur byrjað deildina nánast óaðfinnanlega. Ég geri ráð fyrir því að margir hafi verið stressaðir að fá inn alveg óreyndan mann til að stýra þessum risaklúbbi, það hafði enginn heyrt um Arne Slot. Hann hefur þó stýrt liðinu til tveggja 2-0 sigra í fyrstu tveimur leikjunum. Engar flugeldasýningar, bara massíf, stabíl, þétt frammistaða. Lítil færi gefin á sér, ekki alveg þungarokk en kannski bara klassískt Led Zeppelin eða Deep Purple rokk eða eitthvað í þá áttina. Góðir kaflar, skýrar breytingar á leikstíl og þéttleiki til baka virðist ætla að vera mantran í vetur. Og…(þori varla að segja það og þar með verða sakaður um jinx) lítil meiðsli. Vonum að það verði raunin á Old Trafford á sunnudaginn.

Ég reikna með því að liðið verði eitthvað á þessa leið – sama og hefur verið. Eina spurningin er hvort Konate eða Quansah byrji við hlið Van Dijk.

Spáin mín: 0-2. Diaz og Nunez með mörkin. Fánadagur í Minigarðinum og örugglega stuð og stemming út um allt land og allan heim.

8 Comments

  1. Það er gaman að bera þessi tvö lið saman og má finna hliðstæður víða, ekki síst í heimi viðskiptanna sem kunna að endurspegla muninn á félögunum.

    Dyggir lesendur Jim Collins þekkja muninn á miðlungs fyrirtækjum og afburða fyrirtækjum, þeir þekkja líka lestina sem geta látið risana falla á augabragði.

    Vonandi mun leikurinn á morgun endurspegla þennan mun. MU minnir nefnilega á risana sem JC ræðir í bók sinni How the Mighty Fall. Þar talar hann um hrokann, patentlausnirnar og stjórnlaus útgjöld sem skila litlu. Á móti þessu bendir hann á farsæl félög sem byggja á skýrri hugmyndafræði, vinna í anda auðmýktar og með ríka vitund fyrir tilgangi og langtíma markmiðum.

    Svo…. á morgun mætum við liði sem, eins og upphitarinn lýsir vel, er samsett af leikmönnum sem nýbúið er að kaupa til liðsins, lappir sem eiga að ,,bjarga málunun”. Við sófa-pöndittarnir gerum okkur jú oft sek um á að fálma eftir skyndilausnum á vandræðum okkar (,,ef við fengjum bara almennilega sexu…”) en MU er samsett úr slíkum leikmönnum! Útfjöldin eru stjarnfræðileg, skuldirnar hrannast upp, infrastrúktúrinn hriplekur (pun intended). Helstu afrek liðins má rekja til stök einstaklingsframtaks rándýrra leikmanna. Ef eitthvað kemur út úr þessu hjá þeim verður það ekki fyrr en löngu síðar.

    Þeir munu þurfa langan tíma til að stilla sig saman og slík er áfergjan að hver á fætur öðrum slítur krossbönd eða eitthvað þaðan af verra.

    Held, veit og vona að Slot bjóði upp á alvöru mótvægi við þetta – úthugsað leikplan, liðsmenn sem þekkja hver annan, skipulag og klíkík og ríka vitund fyrir hópnum og fílósófíunni sem liverpool stendur fyrir!

    Ef það gengur eftir förum við brosandi í háttinn annað kvöld og syngjum svo og tröllum svo inn í sumarið þegar tímabilið er að baki!

    20
    • Vel mælt!
      Í heimi viðskiptana gleymist oft mannlega hliðin og komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir koma fram við þig! Og þá fer allt vel að lokum.

      2
  2. Sælir félagar

    Ekkert mun gleðja mig meira eftir dapran glugga en sigur á morgun. Mér er reyndar nokk sama hvernig sá sigur verður svo fremi hann komi í hús. Mín spá er 1 – 3 og Szobo, Salah og Darwin með mörkin. Darvin setur eitt þegar Diaz fer útaf eftir að hafa þreytt vörnina í 60 mín. og martröð allra varnarmanna Darwin Nunez kemur inn á og skorar amk. 1 mark. Ég tek fram að þetta er lágmarks spá.

    Það er nú þannig

    YNWA

    12
  3. Oft stoppar strætó á Hlemmi.
    Oft er stjóri rekinn eftir Liverpoolleik.
    Oft…………………………………..

    17
  4. Ég held að hann haldi sig við sama byrjunarlið, finnst leikmenn aðeins vera að slípa sig saman.
    Einna helst væri kannski Elliot inn fyrir Szobozlai en sá síðarnefndi þarf aðeins að stíga betur upp því ég held að hann eigi helling inni.
    Svo þarf bara að passa vel uppá Diogo Jota, ef við náum að halda honum heilum í vetur þá erum við í toppmálum.

    Ég spái hörkuleik að venju og við tökum þetta samt 1-2

    7
  5. Ég ætla að bíða með að dæma þennan leikmannaglugga þar til að það er liðið á haustið.
    Mér hefur hingað til litist vel á Arne Slott og það sem hann er að gera, jú vissulega er það sérstakt að það sé ekki búið að semja við Salah, van Dijk og Arnold?

    Menn tala hér um að FSG hafi tíu til fimmtán faldað verðmæti klúbbsins síðan þeir komu?
    Enn samt var bugetið mun minna enn hjá bæði Arsenal og Tottenham á Klopp tímanum?

    https://www.youtube.com/watch?v=x3xnSIzzhs0&t=343s

    Ég tel að stóri dómurinn muni falla í vetur hversu góðir eigendur FSG eru í rauninni.

    Enn að leiknum um helgina!
    Ég vona að við vinnum á Old Toilet 0 – 1 eða 0 – 2

    Áfram Liverpool!

    2
  6. Það besta var að við veiktum ekki liðið í þessum sumarglugga eins og við gerðum fyrir ári.

    Kaupin á Chiesa voru svo flott á meðan kaupin á Mamardashvili virðast frekar tilgangslaus nema menn ætli að selja Allison á næstu árum sem mér þætti mistök þar sem hann gæti átt 6 – 8 ár eftir í efsta klassa.

    Það neikvæða er svo að okkur tókst ekki að styrkja okkur í þeim tveim stöðum sen við þurfum styrkingu í, djúpum miðjumanni og hafsent. Sérstakleg vantar okkur djúpan á meðan hitt gæti sloppið ef við verðum heppnir með meiðsli.

    Ég verð samt að viðurkenna að ég er ánægður að sjá að það er verið að kaupa úr efstu hillu og sleppt að kaupa ef hún er tóm.

    Svo er þetta spurningin hvort þú vilt hugsa sjálfur um ungu efnilegu leikmennina eða senda þá eitthvað á lán. Kostir og gallar væntanlega við það en ég er samt ennþá meira á Klopp línunni að vilja þróa leikmenn heima fyrir.

    Ýmislegt jákvætt svosem en ekki ennþá búið að bæta fyrir mistökin að selja Fabinho.

    Ég spái okkur ennþá titlinum en Guð og lukkan þarf að vera með okkur varðandi meiðsli ef það á að takast.

    Áfram Liverpool!

    4

Lokadagur félagaskiptagluggans

Leikdagar í Meistaradeildinni