Tímabilið að byrja hjá kvennaliðinu

Það er komið að fyrsta leik hjá stelpunum okkar, en núna í dag kl. 13 mæta þær Leicester á heimavelli.

Heimavöllur segirðu, hvaða völlur skyldi það nú vera?

Jú, eftir að hafa fengið að nota Prenton Park í allnokkur ár, þá hafa stelpurnar okkar flutt sig um set, og spila núna á St. Helens. Þetta er völlur sem er aðeins fyrir utan Liverpool, nálægt því að vera mitt á milli Liverpool og Manchester, og er að upplagi rugby völlur. En rugby tímabilið er að mestu á vorin og sumrin, svo það er lítil skörun þar á milli. Leikmenn a.m.k. báru vellinum vel söguna eftir æfingaleik gegn Everton um síðustu helgi, og hann leit vel út í sjónvarpi. Það er svo búið að gefa það út að þrír leikir verði spilaðir á Anfield í vetur.

Breytingar á liðinu

Eins og gengur þá verða alltaf breytingar á liðinu í sumarglugganum. Áður var komið fram að liðið sótti Oliviu Smith frá Sporting, hún varð dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins þrátt fyrir ungan aldur. Jafnframt bættust tveir nýir leikmenn við: framherjinn Cornelia Kapocs kom frá Linköping í Svíþjóð, en hún skoraði 18 mörk í 25 leikjum á síðasta tímabili. Þá kom varnarmaðurinn Gemma Evans frá United. Engar áhyggjur, hún er púlari í húð og hár og uppáhalds leikmaðurinn hennar er Steven Gerrard. Fleiri leikmenn komu nú ekki nýir inn, en við megum alveg reikna með að sjá nöfn á leikskýrslum eins og Hannah Silcock, Zara Shaw, og sjálfsagt fleiri úr akademíunni. Talandi um akademíuna, þá er ljóst að Lucy Parry mun fá stærra hlutverk eftir að Emma Koivisto hélt á brott eftir síðasta leikinn í vor, og Lucy verður með númer 2 á bakinu héðan í frá.

En svo eru það slæmu fréttirnar. Missy Bo Kearns – the scouser in the team – sá að hún var ekki að fara að byrja leiki með liðinu, og ákvað því að færa sig um set til að tryggja að hún fái spilatíma. Hún er því farin og gekk til liðs við Aston Villa. Helvítis skellur verður að viðurkennast, en samt alveg ljóst að Holland, Höbinger og Nagano voru alltaf að fara að byrja á miðjunni á undan henni. Við vonum bara að hún eigi eftir að þroskast og dafna sem leikmaður, og koma svo aftur rétt eins og Gemma Bonner og Natasha Dowie gerðu á sínum tíma. Og treyjan með Kearns nafninu hangir enn uppi í skáp hjá undirrituðum og er ekkert að fara neitt. Við vonum a.m.k. að þetta komi best út fyrir alla aðila, og skiljanlegt hjá Missy Bo, enda var hún t.d. á standby með enska landsliðinu í vor, og alveg ljóst að hún þarf að byrja sem flesta leiki til að staðna ekki sem leikmaður.

Fyrir vikið þá má segja að liðið sé helst til þunnskipað á miðjunni, því fyrir utan HHN þríeykið þá er Sofie Lundgaard í raun eini “senior” miðjumaðurinn. Zara Shaw er vissulega miðjumaður sömuleiðis, en ung og nýkomin úr ACL meiðslum. Sjáum til hvað verður með miðjuna, og hvort það verði keypt inn í janúarglugganum.

Hin liðin

Tökum örstuttan skrens yfir hin liðin. Chelsea mæta inn í tímabilið sem ríkjandi meistarar, en núna er Emma Hayes hætt sem stjóri og tekin við bandaríska landsliðinu, og Sonia Bompastor kom til þeirra frá PSG. Jafnframt fengu þær Lucy Bronze frá Barcelona, og eru ekkert illa skipaðar þrátt fyrir að hafa misst nöfn eins og Fran Kirby til Brighton. A.m.k. var það þannig að Niamh okkar Charles var ekki einusinni á bekk í opnunarleik þeirra gegn Villa á föstudaginn. Kannski er hún meidd, en ef hún er dottin úr náðinni þá væri nú margt vitlausara en að sækja þennan púlara aftur.

City fengu Vivianne Miedema frá Arsenal – og hún mun einmitt mæta sínum gömlu félögum núna í hádeginu. Þær verða því baneitraðar með þær Bunny Shaw í fremstu víglínu.

United eru búnar að ganga í gegnum alls konar breytingar, misstu allnokkra leikmenn í sumar, þannig fór t.d. Mary Earps til PSG, Nikita Parris fór til Brighton og Katie Zelem fór til Bandaríkjanna. Maður kemur í manns stað, og United stúlkur unnu öruggan sigur á West Ham í fyrsta leik í gær.

Everton fengu til sín tvö nöfn sem við ættum að kannast við: Melissa Lawley og Rylee Foster. Sú síðarnefnda er sem betur fer að koma til baka eftir að hafa verið í lífshættu eftir bílslys fyrir 3 árum, slys sem gerði út um vonir hennar um að festa sig í sessi sem aðalmarkvörður Liverpool. En hún er ennþá með YNWA tattóverað á vinstri handlegginn. Lawley fékk svo ekki framlengingu á samningi í vor, og ákvað að fara ekki mjög langt í Liverpoolborg. Hvorugar þeirra komu þó við sögu í 4-0 tapi Everton gegn Brighton í gær.

Svo má fara niður um deild og skoða London City Lionesses. Þar er kominn nýr eigandi: Michelle Kang er sterkefnaður viðskiptamógúll, og eftir að hafa keypt liðið í sumar er hún búin að vera að raða til liðsins alls konar sterkum leikmönnum. Þær eru þó EKKI í efsta sæti eftir tvær umferðir, en sjáum hvernig málin þróast í vetur.

Leikur dagsins

Okkar konur koma inn í þennan leik hafandi lent í fjórða sæti í deildinni í vor. Auðvitað viljum við stefna hærra, en það verður heldur betur erfitt enda meira en að segja það að gera betur en Chelsea, City og Arsenal. Munum þó að okkar konur unnu tvö þessara liða í fyrra, svo við skulum ekki útiloka neitt.

Það eru nánast allir leikmenn heilir, Grace Fisk er þó ennþá meidd og verður frá í einhverjar vikur til viðbótar. Olivia Smith er til þess að gera nýkomin frá CONCACAF Gold Cup hvar hún hlaut nafnbótina “Ungi leikmaður mótsins”.

Liðið sem byrjar lítur svona út:

Laws

Clark – Bonner – Evans

Parry – Nagano – Hinds

Holland – Höbinger

Smith – Roman Haug

Bekkur: Spencer, Fahey, Silcock, Matthews, Daniels, Lundgaard, Kapocs, Kiernan, Enderby

Teagan Micah er greinilega ekki leikfær því akademíumarkvörðurinn Spencer er á bekk í hennar stað. Það verður svo lítið mál að skipta út í sókninni í dag.

Varnarlínan í dag er svo Jenna, Gemma og Gemma.

Til að horfa á leikina á netinu þarf ekki lengur að nota The FA Player, megnið af leikjum verður á Youtube á rás Barclays Women’s Super League. Hér er slóð á Liverpool – Leicester leikinn. Það er ekki útilokað að einhverjir leikir verði á Viaplay í vetur, en ekki í dag a.m.k.

Það væri mjöööööög gaman að byrja á þrem góðum stigum í dag.

KOMA SVO!!!

3 Comments

  1. Niðurstaðan er 1-1 jafntefli, Sophie Roman Haug með markið fyrir okkar konur rétt fyrir hálfleik, en svo jöfnuðu Leicester í síðari hálfleik. Ekki alveg úrslitin sem við vildum, og maður myndi vilja sjá liðið beittara fram á við.

    Næsti leikur eftir viku þegar liðið heimsækir Dagnýju Brynjars og félaga í West Ham.

    3
    • Já, hefði alveg verið til í að geta hent henni inn á miðjuna í seinni hálfleik. Held að hún sé skör hærra í gæðastiganum heldur en Sofie Lundgaard, þó sú síðarnefnda sé efnileg.

      2

Liverpool 3-0 Bournemouth

Deildarbikar á morgun