Liverpool 2 – 0 Man City

1-0 Gakpo 12′

2-0 Salah 78′ (víti)

Leikurinn byrjaði með gríðarlegum yfirburðum okkar manna og voru þeir hreinlega bara klaufar að ganga ekki frá leiknum á fyrstu tíu mínútunum. Gakpo fékk nokkrar góðar stöður ásamt því að Ortega varði vel hörkuskot Szoboszlai og Van Dijk átti skalla í stöngina í hornspyrnunni sem fylgdi. Liverpool náði þó loks að nýta yfirburði sína í leiknum þegar Trent átti flotta sendingu upp í horn á Salah sem setti boltann milli markmanns og varnarmanna þar sem Gakpo kom honum í netið eftir tólf mínútna leik.

Við höfum oft séð það í leikjum í ár að þegar við skorum fyrsta markið minnkar aðeins ákefðin og Liverpool fer að stýra leikjunum meira en það átti ekki við í dag og næstu mínútur eftir markið áttu City menn bara erfitt með að finna samherja.

Yfirburðirnir fóru dvínandi því sem leið á hálfleikinn og þó Man City hafi ekki fengið neitt sérstakt marktækiflri var maður stressaður að hafa ekki gert út um leikinn þegar tækifæri gafst til.

Seinni hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri endaði að City hélt boltanum en náði ekki að skapa nein sérstök færi en Liverpool hélt áfram að koma sér í hættulegar stöður en ekki ná að koma þeim í markið þegar Gakpo fékk sendingu frá Robbo en setti skot sitt beint í Ortega og síðan náði Salah að stela boltanum og sleppa einn inn fyrir en setti skot sitt yfir.

City átti sína bestu sókn eftir um klukkutíma leik án þess þó að ná af skoti en þar var mikill darraðadans á teignum og boltinn barst aftur og aftur til City manna en komu þó aldrei skoti á markið.

Þegar korter var eftir af leiknum var Darwin Nunez kominn inn á og átti hann flotta pressu sem varð til þess að Diaz náði að pota boltanum framhjá varnarmönnum City og ætlaði svo framhjá Ortega í markinu en var tekinn niður og vítaspyrna dæmd sem Mo Salah skoraði úr og loksins, loksins kominn tveggja marka forustan sem við áttum svo skilið.

Kelleher fékk svo loks að taka þátt í leiknum þegar átta mínútur voru eftir þegar Van Dijk var alltof rólegur á boltanum og De Bruyne náði að stela honum af Van Dijk en Kelleher var mættur vel á móti og át skot De Bruyne.

Bestu menn Liverpool

Mo Salah átti bæði mark og stoðsendingu í dag og heldur áfram að vera leikmaður stóru leikjanna. Það áttu í raun allir góðan dag í dag en það ber að nefna Szoboszlai sem byrjaði kannski óvænt í dag og átti frábæran leik sem og Trent sem er að stíga upp úr meiðslum en var með betri mönnum vallarins í dag. Vörnin hinsvegar stóð allt af sér í dag fyrir utan mistökin hjá Van Dijk, miðjan var frábær og eina sem hægt er að kvarta undan er að sóknarmennirnir hefðu mátt klára fleiri af þessum færum sínum, því leikurinn hefði auðveldlega getað endað í niðurlægjandi tölum fyrir Englandsmeistarana.

Vondur dagur

Það var enginn sem átti slæman dag í dag.

Umræðupunktar

  • Liverpool er á toppnum með níu stiga forustu á næsta lið.
  • Auk þess erum við með ellefu stiga forustu á Man City.
  • Vika þar sem við vinnum bæði Real Madrid og Man City og erum bara hreinlega miklu betra liðið í báðum þessum leikjum.
  • Pep taldi sig þurfa að labba um völlinn og minna menn á hversu marga titla hann hefði unnið sem minnti óneitanlega á Jose Mourinho þegar hann var á leiðinni niður brekkuna.
  • Eina neikvæða er að nú eru 30 dagar í að þrír af bestu mönnum vallarins í dag geta farið að tala við önnur lið og við þurfum að fara fá lausn í þau mál.

Næsta verkefni

Nú er leikið þétt og næsti leikur er gegn Newcastle á miðvikudaginn.

22 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Frábær sigur og Salah heldur áfram að dreifa jólagjöfunum snemma í ár hann er einfaldlega besti leikmaðurinn í EPL.

    Við hefðum getað skorað 5-6 mörk ef hefði verið nýtt eitthvað af þessum færum en maður ætlar EKKI að dvelja á því núna ber að fagna og það innilega.

    City eru í molum maður spyr sig hvað gerist hjá Pep ef hann fer ekki að snúa þessu við?
    en eins og staðan er núna þá er mér nokk sama.
    Gaman að sjá Elliot koma inná.
    Gomez stóð sig virkilega vel og innkoma Quansah var fín.
    Sly var að mínu mati einn af betri á vellinum sí hlaupandi og pönkast í þeim.
    Euro Gakpo kom aðeins við og tók nokkur af sínum bestu lögum.
    Geggjað !

    YNWA !

    YNWA !

    18
  2. Þvílík meistaravika!

    Unnum ríkjandi Champions League meistara.
    Unnum ríkjandi Premier League meistara.
    Unnum ríkjandi La Liga meistara.

    Ar-ne Slot, la la la la la!

    24
  3. Þvílíkir yfirburðir!!

    Sko ég held að Slot hafi látið okkur leggjast svona afrarlega viljandi. Bíða bara þar sem city voru ekki að skapa neitt og svo bara breaka hratt á þá

    7
  4. S T Ó R K O S T L E G T !!!

    Frábært þetta lið og frábært þjálfarateymi!

    Tveir erfiðir útileikir á næstu dögum svo menn verða að halda sig á jörðinni. Tímabilið er mjög langt og mun skipta öllu máli að menn taki þetta leik fyrir leik, séu auðmjúkir og sýni ekkert vanmat.

    Segi svo enn og aftur að það er TIL SKAMMAR að ekki sé búið að semja við okkar langbestu leikmenn; Mo og Virgil.

    Tel einnig mjög mikilvægt að semja við Trent og halda honum í okkar röðum þegar hann á mögulega sín bestu ár framundan.

    FSG með Edwards og Hughes hafa núna aðeins tæpan mánuð til að klára málin. Þetta er með algjörum ólíkindum furðulegt og maður skilur ekki hvað stjórnendur klúbbsins eru að hugsa. En ég held í vonina.

    Áfram Liverpool!

    23
  5. Sigur gegn Man. City. Hreint lak. Trent fékk 73 mínútur og Quansah 21 mínútu. Gomes var flottur. Þetta verður væntanlega sama uppstilling á vörninni í næsta leik. Gaman að sjá Harvey Elliott inn á vellinum aftur. Liverpool hefði getað skorað fleiri mörk og til dæmis var van Dijk óheppinn að skora að minnsta kosti tvö með skalla.

    9
  6. Líklegast verður kynnt örlög salah,trent og van djik á sama tíma. Gæti best trúað að TAA fari og hinir fái samning.

    3
  7. Æ, þetta er nú ekkert sérstakt. Okkar lið búið að vera í léttu leikjaprógrammi og hin liðin í rosalegum meiðslavandræðum. Svo eru dómararnir alltaf að hjálpa okkur.

    21
  8. Sælir félagar

    Ég hafði áhyggjur af að City liðið mundi koma dýrbrjálað til leiks og valda okkur miklum vandræðum. Það voru hins vegar okkar menn sem mættu og sýndu City hvar davíð keypti ölið. Yfirburðir Liverpool voru gríðarlegir. Liðið var hreinlega mjög óheppið að vera ekki 3 – mörkum yfir í leikhléi. hvað um það okkar menn voru ekki að svekkja sig á þessu og kláruðu leikinn í seinni hálfleik 2 – 0 og engin vandræði neins staðar á vellinum allan leikinn.

    City reyndi svolítið að sprikla um miðjan seinni en ekkert gekk hjá þeim. Bestu menn okkar voru að mínu mati; Salah (mistækur þó), Szobo gjörsamlega þindarlaus drengurinn og Virgil sem hafði norska hálftröllið í kvöldmat með sósu og öllu saman. Það ber þó að geta þess að allir voru góðir og báðir bakverðirnir bjuggu til færi og Kelleher var magnaður þegar á þurfti að halda. Takk fyrir mig Slot og félagar.

    Það er nú þannig

    YNWA

    14
  9. Gravenberch, Zshopzshly og Macallester eru á góðri leið með að vera besta miðja sem ég hef séð hjá Liverpool og ég hef fylgst með þeim frá dögum Bjarna Fel í ríkissjónvarpinu. Og svo eru Jones og Eliot til vara, þetta getur ekki klikkað. We are going to Win the ligue.

    13
  10. Ótrúlegt að sjá yfirburði Liverpool í dag. Maður er farinn trúa því liðið geti unnið deildina á fyrsta tímabili Slot. Mesta áhyggjuefnið eru samningamál.

    Svo á Slot líka alveg eftir að fá að versla leikmenn.

    12
  11. Þetta var alvöru hnefasamloka sem okkar menn gáfu bláliðum og ef þessi leikur hefði endað 5-0 þá hefði það gefið betri raunmynd af leiknum.

    Sóbó var rosalegur í leiknum og minn maður leiksins.

    9
  12. Liverpool er nú búið að vinna á nokkrum vikum, Ensku, Þýsku og Spænsku meistarana án þess að fá á sig mark og skora 8.
    Minn maður leiksins er Ryan Gravenberch.

    11
    • Onana? Hann er í marki hjá miðlungsliði. Við erum á toppnum á öllum stöðum.

      4
  13. úff þetta fer að nálgast þann stað að maður fer að láta sér dreyma en maður reynir þó að halda því aðeins lengur í sér þótt það gangi ílla.

    Gomez Segir að eitt af lyklinum sé að Slot sé hann sjálfur og er ekki að reyna neitt annað.
    Og við sjáum það svolítið á liðsvali og skiptingum og framveigis.
    það er í raun eina sem hræðir mann ekki ef menn fara eftir tímabilið. Slot mun hugsanlega leysa það með mönnum sem hann myndi treysta á. En ég sagði eina! allt annað er ekki gott við þessi samningsmál.

    mér finns Nunez nú í tveimur leikjum vera svolítið að finna sig betur þarna inni. sérstaklega í Madrid leiknum.

    En annars sést það en og aftur að einginn einn maður er stærri eða er upphaf og endir þessa félags.
    maður bjóst við mun meira hruni eftir að Klopp fór. hrun þá meina ég að við værum að reyna berjast um topp 4 og að leita svolítið af vopnum okkar aftur.
    en nei Slot er bara með þetta og mér finnst hann vera svo ógeðslega klár in games og öllu dæminu bara.

    4
  14. Vá þessi vika og bara þessi byrjun á ferlinum hjá Liverpool hjá meistara Arne Slot.
    Vissulega fékk hann geggjað lið upp í hendurnar en hann hefur gert gott lið ennþá betra með sínum áherslum og það sést langar leiðir.
    Van Dijk og Konate hafa orðið algjör skrýmsli í vörninni og þessi gæji á miðjunni Gravenbergh sá er geggjaður.
    En núna fer að koma alvöru leikjaálag og meiðslin farin að tikka inn í vörninni og það verður athyglisvert að sjá hvernig hann leysir það, við eigum vissulega hinn fjölhæfa Joe Gomez og svo kom Quansah sterkur inn af bekknum en við megum ekki við fleiri meiðslum í vörninni.

    En 11 stiga forskot á City er rosalegt og ég held að þeir eigi ekki séns á titlinum þetta árið, en við þurfum að hugsa um Arsenal og Chelsea því þau verða þarna rétt á eftir okkur.

    4
  15. Ég óttast að við náum ekki að vinna eitt einasta lið á þessu tímabili sem er fyrir ofan okkur í töflunni í EPL eða UCL.
    Ég bíð líka eftir að við mætum sterkum liðum, leikjaplanið hjá okkar mönnum er búið að vera svo létt.

    8
  16. Frábær úrslit og frábær staða á öllum vígstöðvum. Nú fer í hönd ansi þétt jólaprógram og þar gæti nú skilið á milli feigs og ófeigs. Eins og staðan er núna þá er þetta allt í okkar höndum. En skjótt skipast veður í lofti og engin bikar er í hendi enn sem komið er. city hefur dregist aðeins afturúr en arsenal og chelsea eru á skriði og okkar mestu ógnvaldar í augnablikinu. Hins vegar finnst manni erfitt að sjá einhverja ástæðu fyrir því að við ættum að gefa eitthvað eftir. Liðið er að spila ótrúlega vel og heildin er eins og vel smurð vél, ekkert feilpúst og ekkert vesen. Nenni ekki að spá í samningsmálin, þau eru bara eins og þau eru og við sem og leikmenn verðum bara að lifa við það. En áfram gakk og berjumst bræður og systur…..eins og maðurinn sagði 🙂
    YNWA

    4

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Byrjunarliðið gegn Man City

Gullkastið – Olíulaust Man City